Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 11

Hlustum á rödd Jehóva

Hlustum á rödd Jehóva

„Þessi er minn elskaði sonur ... Hlýðið á hann!“ – MATT. 17:5.

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvernig hefur Jehóva átt samskipti við menn? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

JEHÓVA hefur yndi af að eiga samskipti við okkur. Áður fyrr notaði hann spámenn, engla og son sinn, Jesú Krist, til að láta okkur vita hvernig hann hugsar. (Amos 3:7; Gal. 3:19; Opinb. 1:1) Nú á dögum talar hann til okkar í orði sínu, Biblíunni. Hann gaf okkur Biblíuna til að við gætum kynnst því hvernig hann hugsar og starfar.

2 Þegar Jesús var á jörðinni talaði Jehóva þrisvar frá himni. Skoðum nú hvað Jehóva sagði, hvað við getum lært af orðum hans og hvaða gagn við höfum af því sem hann sagði.

„ÞÚ ERT MINN ELSKAÐI SONUR“

3. Hvað sagði Jehóva þegar Jesús lét skírast eins og fram kemur í Markúsi 1:9-11 og hvaða mikilvægu sannindi staðfestu orð hans?

3 Í Markúsi 1:9-11 segir frá því þegar Jehóva talaði frá himni í fyrsta skipti. (Lestu.) Hann sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ Það hlýtur að hafa snert Jesú djúpt að heyra föður sinn lýsa því yfir að hann elskaði hann og treysti honum. Orð Jehóva staðfestu þrenn mikilvæg sannindi um Jesú. Í fyrsta lagi að Jesús er sonur hans. Í öðru lagi að Jehóva elskar son sinn. Og í þriðja lagi að Jehóva hefur velþóknun á syni sínum. Skoðum nú þessi þrenn sannindi betur hvert fyrir sig.

4. Hvernig tengdist Jesús Guði á nýjan hátt þegar hann lét skírast?

4 ,Þú ert sonur minn.‘ Með þessum orðum gaf Jehóva til kynna að Jesús, elskaður sonur hans, hefði tengst honum á nýjan hátt. Þegar Jesús var á himni var hann andasonur Guðs. En þegar hann lét skírast var hann smurður heilögum anda. Þá lét Jehóva í ljós að Jesús, sem andasmurður sonur hans, hefði þá eignast von um að fara aftur til himna til að verða útvalinn konungur Guðs og æðstiprestur. (Lúk. 1:31-33; Hebr. 1:8, 9; 2:17) Þegar Jesús lét skírast hafði Jehóva því góða og gilda ástæðu til að segja: ,Þú ert sonur minn.‘ – Lúk. 3:22.

Við blómstrum þegar við fáum hrós og hvatningu. (Sjá 5. grein.) *

5. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og verið hvetjandi og kærleiksrík?

5 „Þú ert minn elskaði.“ Fordæmi Jehóva um að láta í ljós kærleika sinn og velþóknun minnir okkur á að leita færis til að hvetja aðra. (Jóh. 5:20) Við blómstrum þegar einhver sem okkur þykir vænt um sýnir kærleika og hrósar okkur fyrir það góða sem við gerum. Fjölskylda okkar og trúsystkini þarfnast þess einnig að við hvetjum þau og sýnum þeim kærleika. Þegar við hrósum öðrum styrkjum við trú þeirra og hjálpum þeim að þjóna Jehóva trúfastlega. Það er sérstaklega mikilvægt að foreldrar hvetji börnin sín. Börn dafna þegar foreldrar þeirra hrósa þeim í einlægni og sýna þeim umhyggju.

6. Hvers vegna getum við borið fullt traust til Jesú Krists?

6 „Á þér hef ég velþóknun.“ Þessi orð sýna að Jehóva var fullviss um að Jesús myndi staðfastur framfylgja vilja hans. Fyrst Jehóva ber slíkt traust til sonar síns getum við einnig verið fullviss um að Jesús verði trúfastur og uppfylli öll loforð Jehóva. (2. Kor. 1:20) Þegar við hugleiðum fordæmi Jesú verðum við enn ákveðnari í að læra af honum og feta í fótspor hans. Jehóva er á sama hátt fullviss um að þjónar sínir sem hópur muni halda áfram að læra af syni hans. – 1. Pét. 2:21.

„HLÝÐIÐ Á HANN!“

7. Hvenær talaði Jehóva frá himni og hvað sagði hann, samanber Matteus 17:1-5?

7 Lestu Matteus 17:1-5Jehóva talaði í annað sinn frá himni þegar Jesús ummyndaðist. Jesús hafði boðið Pétri, Jakobi og Jóhannesi að koma með sér upp á hátt fjall. Þar sáu þeir merkilega sýn. Andlit Jesú skein skært og það glampaði á föt hans. Tvær verur, sem táknuðu Móse og Elía, fóru að tala við Jesú um komandi dauða hans og upprisu. Postulana „sótti mjög svefn“ en þeir voru glaðvakandi þegar þeir sáu þessa undraverðu sýn. (Lúk. 9:29-32) Síðan huldi þá bjart ský og þeir heyrðu rödd úr skýinu – rödd Guðs. Jehóva lét í ljós velþóknun sína á syni sínum, rétt eins og við skírn hans. Hann sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ En í þetta sinn bætti Jehóva við: „Hlýðið á hann!“

8. Hvaða áhrif hafði sýnin á Jesú og lærisveinana?

8 Sýnin gaf forsmekk af dýrðinni og mættinum sem Jesús átti eftir að fá sem konungur Guðsríkis. Hann átti eftir að þola þjáningar og kvalafullan dauðdaga og sýnin hefur eflaust verið honum til styrktar og hvatningar. Sýnin byggði einnig upp trú lærisveinanna og styrkti þá svo að þeir gætu sinnt því mikla starfi sem þeim var falið og staðist þegar reynt yrði á ráðvendni þeirra. Um 30 árum síðar talaði Pétur postuli um sýnina af umbreytingunni, en það gefur til kynna að hún hafi enn verið ljóslifandi í huga hans. – 2. Pét. 1:16-18.

9. Hvaða hagnýtu ráð gaf Jesús lærisveinum sínum?

9 „Hlýðið á hann!“ Jehóva tók skýrt fram að hann vildi að við hlustuðum á orð sonar síns og færum eftir þeim. Hvað sagði Jesús meðan hann var á jörðinni? Margt sem er mjög mikilvægt að hlusta á. Hann kenndi til dæmis fylgjendum sínum að boða fagnaðarerindið og minnti þá stöðugt á að halda vöku sinni. (Matt. 24:42; 28:19, 20) Hann brýndi einnig fyrir þeim að kosta kapps um að gera vilja Guðs og hvatti þá til að gefast ekki upp. (Lúk. 13:24) Jesús lagði áherslu á að fylgjendur sínir þyrftu að elska hver annan, varðveita eininguna og halda boðorð hans. (Jóh. 15:10, 12, 13) Þetta voru sannarlega hagnýt ráð. Og þau eru ekki síður mikilvæg nú en þegar hann gaf þau.

10-11. Hvernig getum við sýnt að við hlustum á Jesú?

10 Jesús sagði: „Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ (Jóh. 18:37) Við sýnum að við hlustum á rödd hans með því að ,umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru‘. (Kól. 3:13; Lúk. 17:3, 4) Við sýnum það einnig með því að boða fagnaðarerindið af kappi „í tíma og ótíma“. – 2. Tím. 4:2.

11 Jesús sagði: „Mínir sauðir heyra raust mína.“ (Jóh. 10:27) Fylgjendur Krists sýna að þeir hlusta á hann með því að fara eftir því sem hann segir. Þeir láta „áhyggjur þessa lífs“ ekki trufla sig. (Lúk. 21:34) Öllu heldur einbeita þeir sér fyrst og fremst að því að hlýða boðum Jesú, líka við erfiðar aðstæður. Mörg trúsystkini okkar þurfa að þola miklar prófraunir, þar á meðal árásir frá andstæðingum, sára fátækt og náttúruhamfarir. Þau eru Jehóva trúföst hvað sem það kostar. Jesús gefur þeim eftirfarandi loforð: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska.“ – Jóh. 14:21.

Boðunin hjálpar okkur að vera einbeitt. (Sjá 12. grein.) *

12. Á hvaða annan hátt getum við sýnt að við hlustum á Jesú?

12 Önnur leið til að sýna að við hlustum á Jesú er að vinna vel með þeim sem hann hefur valið til að fara með forystuna. (Hebr. 13:7, 17) Gerðar hafa verið margar breytingar á síðustu árum í söfnuði Guðs. Við höfum meðal annars fengið ný hjálpargögn og notum nýjar aðferðir við boðunina. Dagskráin fyrir samkomuna í miðri viku hefur breyst og við höfum nýjan hátt á þegar við byggjum ríkissali, gerum þá upp og viðhöldum þeim. Við kunnum virkilega að meta þessa vandlega úthugsuðu leiðsögn sem endurspeglar kærleika safnaðar Guðs. Við getum verið viss um að Jehóva blessar það sem við leggjum á okkur til að fylgja tímabærum leiðbeiningum safnaðarins.

13. Hvernig er það okkur til góðs að hlusta á Jesú?

13 Við njótum góðs af því að hlusta á allt það sem Jesús kenndi. Hann lofaði lærisveinum sínum að það myndi endurnæra þá. ,Þér munuð finna hvíld sálum yðar,‘ sagði hann. „Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Orð Guðs, þar á meðal guðspjöllin fjögur um líf og boðun Jesú, endurnærir okkur, styrkir trúna og gerir okkur vitur. (Sálm. 19:8; 23:3) Jesús sagði: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ – Lúk. 11:28.

,ÉG MUN GERA NAFN MITT DÝRLEGT‘

14-15. (a) Hvenær talaði Jehóva frá himni í þriðja sinn, eins og sagt er frá í Jóhannesi 12:27, 28? (b) Hvers vegna hafa orð Jehóva huggað og styrkt Jesú?

14 Lestu Jóhannes 12:27, 28. Í Jóhannesarguðspjalli er sagt frá því þegar Jehóva talaði frá himni í þriðja skipti. Jesús var í Jerúsalem fáeinum dögum áður en hann dó til að halda páskahátíðina í síðasta sinn. „Nú er sál mín skelfd,“ sagði hann. Síðan bað hann til Jehóva: „Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Faðir hans svaraði þá frá himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“

15 Jesús var skelfdur vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem hvíldi á honum, að vera Jehóva trúfastur. Hann vissi að hann yrði húðstrýktur og tekinn af lífi á grimmilegan hátt. (Matt. 26:38) Það skipti Jesú mestu máli að gera nafn föður síns dýrlegt. Hann var sakaður um guðlast og hafði áhyggjur af því að dauði sinn myndi kasta rýrð á nafn hans. Orð Jehóva hafa án efa hughreyst Jesú. Hann mátti vera viss um að nafn Jehóva yrði gert dýrlegt. Jehóva hlýtur að hafa huggað Jesú með orðum sínum og styrkt hann til að takast á við það sem beið hans. Jesús var kannski sá eini sem skildi það sem faðir hans sagði við þetta tækifæri. En Jehóva sá til þess að orð sín yrðu rituð okkur öllum til gagns. – Jóh. 12:29, 30.

Jehóva mun gera nafn sitt dýrlegt og frelsa þjóna sína. (Sjá 16. grein.) *

16. Hvers vegna gætum við stundum haft áhyggjur af að nafn Guðs verði smánað?

16 Rétt eins og Jesús gætum við haft áhyggjur af að nafn Jehóva verði smánað. Kannski er komið fram við okkur af ósanngirni eins og við Jesú. Það getur einnig sett okkur út af laginu þegar andstæðingar bera út lygasögur um okkur. Við gætum hugsað um þá smán sem þessar sögur gera nafni Jehóva og söfnuði hans. Þá veita orð Jehóva okkur mikla hughreystingu. Við þurfum ekki að hafa of miklar áhyggjur. Við getum verið viss um að ,friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, muni varðveita hjörtu okkar og hugsanir okkar í Kristi Jesú‘. (Fil. 4:6, 7) Jehóva mun alltaf gera nafn sitt dýrlegt. Með ríki sínu mun hann bæta fyrir allan þann skaða sem Satan og heimur hans valda trúföstum þjónum hans. – Sálm. 94:22, 23; Jes. 65:17.

AÐ HLUSTA Á RÖDD JEHÓVA ER OKKUR TIL GAGNS

17. Hvernig talar Jehóva til okkar nú á dögum, samanber Jesaja 30:21?

17 Jehóva talar enn til okkar nú á dögum. (Lestu Jesaja 30:21.) Að vísu heyrum við hann ekki tala til okkar frá himni en hann gefur okkur leiðbeiningar í rituðu orði sínu, Biblíunni. Auk þess knýr heilagur andi ,trúa og hyggna ráðsmanninn‘ til að halda áfram að gefa þjónum Jehóva fæðu. (Lúk. 12:42) Við fáum heilmikið af andlegri fæðu í formi prentaðra rita, efnis á Netinu, myndbanda og hljóðupptakna.

18. Hvernig styrkja orð Jehóva trú þína og veita þér hugrekki?

18 Minnumst orðanna sem Jehóva sagði þegar sonur hans var á jörðinni. Látum orð Jehóva sjálfs, sem rituð eru í Biblíuna, veita okkur fullvissu um að hann hafi stjórn á öllu og bæti fyrir allan þann skaða sem Satan og heimur hans valda okkur. Og verum ákveðin í að hlusta með athygli á rödd Jehóva. Ef við gerum það getum við verið þolgóð í hvaða erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir núna eða mætum síðar. Í Biblíunni erum við minnt á: „Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ – Hebr. 10:36.

SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir

^ gr. 5 Þegar Jesús var á jörðinni talaði Jehóva þrisvar frá himni. Í eitt skiptið hvatti hann lærisveina Jesú til að hlusta á hann. Nú á dögum talar Jehóva til okkar í rituðu orði sínu, sem felur meðal annars í sér það sem Jesús kenndi en líka fyrir milligöngu safnaðarins. Í þessari grein skoðum við hvernig það gagnast okkur að hlusta á Jehóva og Jesú.

^ gr. 52 MYND: Öldungur tekur eftir safnaðarþjóni sem hjálpar til við að halda ríkissalnum við og afgreiðir í ritadeildinni. Öldungurinn hrósar þjóninum hlýlega.

^ gr. 54 MYND: Hjón í Síerra Leóne gefa fiskimanni boðsmiða á samkomu.

^ gr. 56 MYND: Vottar í landi þar sem hömlur eru á starfi okkar hittast á einkaheimili. Þeir eru í hversdaglegum fötum til að draga ekki athygli að sér.