Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ísraelsmenn til forna háðu stríð – hvers vegna gerum við það ekki?

Ísraelsmenn til forna háðu stríð – hvers vegna gerum við það ekki?

„EF EINHVER ykkar neitar að berjast gegn Frakklandi og Bretlandi munuð þið allir deyja!“ öskraði liðsforingi nasista að hópi votta Jehóva í seinni heimstyrjöldinni. Þótt vopnaðir SS-menn stæðu nálægt gaf enginn bræðra okkar eftir. Þeir sýndu mikið hugrekki. Þetta dæmi sýnir vel afstöðuna sem vottar Jehóva taka til hernaðar. Við neitum að taka afstöðu í átökum í þessum heimi þótt okkur sé hótað lífláti.

En það taka ekki allir sem álíta sig kristna þessa afstöðu. Margir trúa því að kristinn maður ætti að verja landið sitt. Þeir hugsa kannski sem svo: „Ísraelsmenn til forna voru þjóð Guðs og þeir börðust í stríði. Hvers vegna ættu þá kristnir menn nú á dögum ekki að gera það?“ Hverju myndir þú svara? Þú gætir útskýrt að aðstæður Ísraelsmanna til forna hafi verið allt aðrar en þær eru hjá þjónum Guðs nú á dögum. Skoðum fimm hliðar á þessu máli.

1. ÞJÓNAR GUÐS TILHEYRÐU ALLIR EINNI ÞJÓÐ

Til forna safnaði Jehóva fólki sínu í eina þjóð – Ísraelsþjóðina. Hann kallaði Ísraelsmenn ‚sérstaka eign sína meðal allra þjóða‘. (2. Mós. 19:5) Guð gaf þeim einnig ákveðið land til að búa í. Þegar Guð sagði Ísraelsmönnum að fara í stríð gegn öðrum þjóðum börðust þeir því ekki við trúsystkini sín. a

Nú á dögum koma sannir tilbiðjendur frá „öllum þjóðum, ættflokkum, kynþáttum og tungum“. (Opinb. 7:9) Ef þjónar Guðs tækju þátt í stríði gætu þeir verið að berjast gegn – og jafnvel drepa – trúsystkini sín.

2. JEHÓVA FYRIRSKIPAÐI ÍSRAELSMÖNNUM AÐ FARA Í STRÍÐ

Til forna ákvað Jehóva hvenær og hvers vegna Ísraelsmenn áttu að fara í stríð. Guð sagði til dæmis Ísraelsmönnum að berjast til að fullnægja dómi hans yfir Kanverjum sem voru þekktir fyrir tilbeiðslu á illum öndum, gróft kynferðislegt siðleysi og barnafórnir. Jehóva skipaði Ísraelsmönnum að útrýma fólki sem framdi slík illskuverk í fyrirheitna landinu svo að Ísraelsmenn myndu ekki leiðast út í slíka breytni. (3. Mós. 18:24, 25) Eftir að Ísraelsmenn settust að í fyrirheitna landinu sagði Guð þeim stundum að heyja stríð til að verja landið fyrir óvinum sem kúguðu þá. (2. Sam. 5:17–25) En Jehóva leyfði þeim sjálfum aldrei að ákveða hvenær þeir færu í stríð. Þegar þeir gerðu það endaði það oft með hörmungum. – 4. Mós. 14:41–45; 2. Kron. 35:20–24.

Nú á dögum segir Jehóva mönnum ekki að fara í stríð. Þjóðir berjast til að ná fram vilja manna en ekki vilja Guðs. Þeir fara gjarnan í stríð til að vinna landsvæði, í gróðaskyni eða til að koma pólitískri hugmyndafræði sinni að. En hvað með þá sem segja að þeir berjist í nafni Guðs til að verja trú sína eða drepa óvini Guðs? Jehóva mun vernda sanna tilbiðjendur sína og eyða óvinum sínum í stríði sem hann mun heyja í framtíðinni – Harmagedónstríðinu. (Opinb. 16:14, 16) Í því stríði munu himneskar hersveitir einar berjast, ekki tilbiðjendur hans á jörðinni. – Opinb. 19:11–15.

3. ÍSRAELSMENN ÞYRMDU LÍFI ÞEIRRA SEM SÝNDU TRÚ Á JEHÓVA

Er lífum trúfastra þyrmt í styrjöldum nú á dögum eins og lífi Rahab og fjölskyldu hennar var þyrmt í stríði Jehóva gegn Jeríkó?

Til forna miskunnuðu Ísraelsmenn oft þeim sem sýndu trú á Guð og tóku aðeins þá af lífi sem Jehóva hafði dæmt til dauða. Skoðum tvö dæmi. Þótt Jehóva hefði fyrirskipað eyðingu Jeríkó þyrmdu Ísraelsmenn Rahab og fjölskyldu hennar vegna trúar hennar. (Jós. 2:9–16; 6:16, 17) Síðar var heilli borg Gíbeoníta þyrmt eftir að þeir sýndu virðingu fyrir Guði. – Jós. 9:3–9, 17–19.

Nú á dögum þyrma stríðandi þjóðir ekki þeim sem iðka trú. Og stundum eru jafnvel saklausir borgarar drepnir í átökum milli þjóða.

4. ÍSRAELSMENN URÐU AÐ FARA EFTIR REGLUM GUÐS Í STRÍÐI

Til forna krafðist Jehóva þess af hermönnum Ísraels að þeir fylgdu fyrirmælum hans í stríði. Guð sagði þeim til dæmis stundum að bjóða andstæðingunum „friðarskilmála“. (5. Mós. 20:10) Jehóva vænti þess líka að ísraelskir hermenn héldu sjálfum sér og herbúðum sínum líkamlega og siðferðilega hreinum. (5. Mós. 23:9–14) Hermenn þjóðanna í kring nauðguðu oft konum þeirra þjóða sem þeir börðust við en Jehóva bannaði Ísraelsmönnum að gera slíkt. Þeir gátu reyndar ekki gifst hernumdri konu fyrr en mánuði eftir að þeir höfðu hernumið borg. – 5. Mós. 21:10–13.

Nú á dögum hafa flest lönd undirritað alþjóðlegar samþykktir sem kveða á um ákveðnar reglur í stríði. Þótt tilgangur þeirra sé að vernda almenna borgara eru þessar reglur því miður oft brotnar.

5. GUÐ BARÐIST FYRIR ÞJÓÐ SÍNA

Berst Guð fyrir einhverja þjóð nú á dögum eins og hann barðist fyrir Ísraelsþjóðina við Jeríkó?

Til forna barðist Jehóva fyrir Ísraelsmenn og gerði oft kraftaverk til að veita þeim sigur. Við sjáum þetta til dæmis þegar Jehóva hjálpaði þeim að sigra borgina Jeríkó. Í samræmi við leiðsögn Jehóva ráku þeir upp heróp og múrinn hrundi til grunna. (Jós. 6:20) Og hvernig unnu þeir orrustu við Amoríta? Jehóva lét „stórt hagl dynja á þeim af himni … Fleiri dóu reyndar af völdum haglsins en Ísraelsmenn felldu með sverði.“ – Jós. 10:6–11.

Nú á dögum berst Jehóva ekki fyrir neina þjóð á jörðinni. Ríki hans með Jesú sem konung „tilheyrir ekki þessum heimi“. (Jóh. 18:36) Satan er aftur á móti sá sem ræður yfir stjórnum manna. Hræðilegar styrjaldir í heiminum endurspegla grimman persónuleika hans. – Lúk. 4:5, 6; 1. Jóh. 5:19.

SANNKRISTNIR MENN STUÐLA AÐ FRIÐI

Eins og við höfum skoðað eru aðstæður okkar mjög ólíkar aðstæðum Ísraelsmanna til forna. En það er ekki eina ástæðan fyrir því að við förum ekki í stríð. Guð sagði til dæmis að á síðustu dögum myndu þeir sem fengju fræðslu frá honum ekki „læra hernað framar“, hvað þá vera þátttakendur í hernaði. (Jes. 2:2–4) Auk þess sagði Kristur að lærisveinar sínir ‚tilheyrðu ekki heiminum‘, þeir myndu ekki taka afstöðu í deilumálum heimsins. – Jóh. 15:19.

Kristur hvatti fylgjendur sína til að ganga enn lengra. Hann sagði þeim að forðast þau viðhorf sem valda gremju, reiði og stríði. (Matt. 5:21, 22) Og hann kenndi fylgjendum sínum að „stuðla að friði“ og elska óvini sína. – Matt. 5:9, 44.

Hvað með okkur sem einstaklinga? Við höfum vafalaust enga löngun til að berjast í stríði en finnum við einhvern tíma til óvildar gagnvart einhverjum í söfnuðinum? Losum okkur við allar slíkar tilfinningar. – Jak. 4:1, 11.

Við tökum ekki þátt í stríði milli þjóða en stuðlum að friði okkar á meðal. (Jóh. 13:34, 35) Verum staðráðin í að varðveita hlutleysi okkar um leið og við hlökkum til þess dags þegar Jehóva bindur enda á styrjaldir um alla eilífð. – Sálm. 46:9.

a Stundum börðust kynkvíslir Ísraelsmanna innbyrðis þótt það væri á móti vilja Jehóva. (1. Kon. 12:24) En það kom fyrir að hann var samþykkur þessum aðgerðum vegna þess að ákveðnar kynkvíslir höfðu annaðhvort snúist gegn honum eða syndgað gróflega á annan hátt. – Dóm. 20:3–35; 2. Kron. 13:3–18; 25:14–22; 28:1–8.