Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sviðið og borðinn yfir því.

1922 – fyrir hundrað árum

1922 – fyrir hundrað árum

,GUÐ veitir okkur sigurinn með hjálp … Jesú Krists.‘ (1. Kor. 15:57) Þetta var árstextinn árið 1922 og hann fullvissaði Biblíunemendurna um að Jehóva myndi launa þeim trúfesti sína. Jehóva umbunaði þessum kappsömu boðberum þetta ár. Hann blessaði þá þegar þeir tóku að prenta og binda inn eigin bækur og nota útvarpið til að boða sannleikann um ríki hans. Og það var augljóst síðar sama ár að Jehóva blessaði þjóna sína aftur. Biblíunemendurnir gátu safnast saman á sögulegt mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Þetta mót hefur haft áhrif á söfnuð Jehóva allt fram á okkar daga.

SPENNANDI HUGMYND

Eftirspurn eftir ritum jókst þegar boðun trúarinnar jókst. Bræðurnir á Betel í Brooklyn prentuðu tímarit en þeir leituðu til prentsmiðja utan Betel til að prenta bækur í hörðu bandi. En svo gat prentsmiðjan ekki prentað nógu margar bækur mánuðum saman og þá spurði bróðir Rutherford bróðirinn sem var yfirmaður prentsmiðju vottana, Robert Martin, hvort mögulegt væri að prenta bækur þar.

Prentsmiðjan við Concord Street í Brooklyn í New York.

„Þetta var spennandi hugmynd,“ segir bróðir Martin, „því að það þýddi að við myndum sjá um alla setningu, prentplötugerð, prentun og bókband.“ Bræðurnir leigðu húsnæði við Concord Street 18 í Brooklyn og komu upp nauðsynlegum tækjabúnaði.

Það voru ekki allir ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag. Forstjóri fyrirtækisins sem hafði séð um að prenta bækur fyrir okkur kom í heimsókn í prentsmiðjuna. Hann sagði: „Hér eruð þið með fyrsta flokks búnað en engan með þekkingu til að nota hann. Þið eigið eftir að eyðileggja hann á sex mánuðum.“

„Það var ekki undarlegt að hann skyldi segja þetta,“ segir bróðir Martin, „en hann tók Jehóva ekki með í reikninginn og hann hafði alltaf hjálpað okkur.“ Bróðir Martin hafði rétt fyrir sér. Fljótlega var farið að prenta 2000 bækur á dag.

Starfsmenn standa við prentvélar í prentsmiðjunni.

NÁÐ TIL ÞÚSUNDA Í GEGNUM ÚTVARPIÐ

Auk þess að prenta sumar af eigin bókum fóru þjónar Jehóva að nota nýja aðferð við að boða fagnaðarboðskapinn – útvarpsútsendingar. Sunnudaginn 26. febrúar 1922 talaði bróðir Rutherford í útvarpinu í fyrsta skipti. Hann flutti ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“ á útvarpsstöð í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Um það bil 25.000 manns hlustuðu á ræðuna. Sumir þeirra sendu bréf og tjáðu þakklæti sitt. Eitt bréfið var frá Willard Ashford sem bjó í Santa Ana í Kaliforníu. Hann þakkaði bróður Rutherford fyrir „skemmtilega og athyglisverða“ framsetningu. Hann bætti við: „Þrír í fjölskyldunni eru veikir og því hefði enginn okkar getað hlustað nema með þessum hætti, jafnvel þótt þú hefðir verið staddur í nágrenninu.“

Fleiri útsendingar fylgdu í kjölfarið vikurnar á eftir. Í árslok var áætlað í Varðturninum að „að minnsta kosti 300.000 manns hefðu heyrt boðskapinn í gegnum útvarpið“.

Viðbrögðin voru svo hvetjandi að Biblíunemendurnir ákváðu að byggja útvarspsstöð á landareign á Staten Island stutt frá Betel í Brooklyn. Á komandi árum notuðu Biblíunemendurnir þessa útvarpsstöð til að dreifa boðskap Guðsríkis mjög víða.

„ADV“

Tilkynnt var í Varðturninum 15. júní 1922 að mót yrði haldið í Cedar Point í Ohio 5.–13. september 1922. Biblíunemendurnir voru mjög spenntir þegar þeir komu á mótið.

Í upphafsræðunni sagði bróðir Rutherford: „Ég er algerlega sannfærður um að Drottinn muni … blessa þetta mót og sjá til þess að fagnaðarboðskapurinn verði fluttur sem aldrei fyrr á jörðinni.“ Ræðumenn á mótinu hvöttu bræður og systur ítrekað til að sinna boðuninni.

Mannfjöldinn á mótinu í Cedar Point í Ohio árið 1922.

Föstudaginn 8. september komu 8.000 áhorfendur í salinn, spenntir að hlusta á ræðu bróður Rutherfords. Þeir vonuðust eftir því að fá útskýringu á stöfunum „ADV“ sem voru á boðsmiðanum fyrir mótið. Margir þeirra tóku eflaust eftir stórri efnisrúllu yfir sviðinu þegar þeir fengu sér sæti. Arthur Claus hafði ferðast til mótsins frá Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum og fann sæti þar sem hann heyrði vel. Það var ekki hlaupið að því vegna þess að á mótinu var enginn búnaður til að magna upp hljóðið.

„Við drukkum í okkur hvert orð.“

Fundarstjórinn tilkynnti að enginn sem kæmi of seint fengi að koma inn í salinn á meðan bróðir Rutherford flytti ræðuna til að það ylli ekki truflun. Klukkan 9:30 byrjaði bróðir Rutherford ræðuna á að vitna í orð Jesú í Matteusi 4:17: „Himnaríki er í nánd.“ Þegar hann talaði um það hvernig menn myndu heyra um þetta ríki sagði hann: „Jesús sagði sjálfur að á tíma nærveru sinnar myndi hann stýra söfnun fólks síns, hann myndi safna saman hinum tryggu og traustu.“

Bróðir Claus sem sat í salnum rifjar upp: „Við drukkum í okkur hvert orð.“ En skyndilega leið honum illa og hann varð að yfirgefa salinn. Arthur gerði það treglega því að hann vissi að hann fengi ekki að koma aftur inn.

Fáeinum mínútum síðar fór honum að líða betur. Hann gekk til baka og heyrði mikil fagnaðaróp. Hann varð mjög spenntur. Hann ákvað að klifra upp á þak til að geta heyrt það sem var eftir af þessari merkilegu ræðu. Bróðir Claus var 23 ára á þessum tíma og fann leið til að klifra upp á þak. Þakgluggarnir voru opnir og þegar hann nálgaðist tók hann eftir því að hann gat vel heyrt það sem fór fram.

En Arthur var ekki sá eini þarna uppi. Sumir vina hans voru þar líka. Einn þeirra, Frank Johnson, kom til hans og spurði: „Ertu með beittan hníf á þér?“

„Já,“ svaraði Arthur.

„Þú ert svarið við bænum okkar,“ sagði Frank. „Sérðu þessa risastóru rúllu? Þetta er renningur sem er festur með þessum nöglum. Hlustaðu vandlega á dómarann. a Þegar hann segir: ,Þið skuluð kunngera, kunngera,‘ skaltu skera á þessi fjögur bönd.“

Arhur beið með hnífinn í hendi eftir að heyra merkið. Fljótlega náði ræða bróður Rutherfords hápunkti. Þar sem hann var mjög spenntur og kappsamur hefur hann trúlega hrópað þegar hann sagði: „Verið trúir og sannir vottar Drottins. Gangið fram í bardaga uns Babýlon er rústir einar. Boðið boðskapinn vítt og breitt. Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans. Þið skuluð því kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.“

Arthur og hinir bræðurnir skáru böndin á borðanum og hann rúllaði í sundur eins vel og hugsast gat. Í samræmi við stafina „ADV“ stóð á borðanum: „Kunngerið konunginn og ríki hans.“ (Advertise the King and Kingdom.)

MIKILVÆGT STARF

Mótið í Cedar Point hjálpaði bræðrum og systrum að beina athygli sinni að því mikilvæga starfi að boða ríkið og þeir sem voru fúsir tóku glaðir þátt í því. Farandbóksali (kallað brautryðjandi nú á dögum) frá Oklahoma í Bandaríkjunum skrifaði: „Svæðið sem við störfuðum á er á kolanámusvæði þar sem er mikil fátækt.“ Hann sagði að oft þegar fólk heyrði boðskapinn sem var að finna í tímaritinu Gullöldin brysti það í grát. Hann sagði: „Það er ótrúlega dýrmætt að hugga fólk.“

Þessir biblíunemendur skildu mikilvægi orða Jesú í Lúkasi 10:2: „Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir.“ Við lok þessa árs voru þeir ákveðnari en nokkru sinni fyrr að kunngera ríkisboðskapinn vítt og breitt.

a Bróðir Rutherford var stundum kallaður „dómarinn“ vegna þess að hann starfaði stundum sem dómari í Missouri í Bandaríkjunum.