NÁMSGREIN 40
„Gættu þess sem þér var trúað fyrir“
„Tímóteus, gættu þess sem þér var trúað fyrir.“ – 1. TÍM. 6:20.
SÖNGUR 29 Lifum á verðugan hátt
YFIRLIT *
1, 2. Hvaða hafði Tímóteus fengið, samanber 1. Tímóteusarbréf 6:20?
VIÐ felum oft öðrum að gæta verðmæta okkar. Kannski leggjum við peninga inn á banka. Þá ætlumst við til að þeir séu öruggir og týnist ekki né verði stolið. Við skiljum því vel hvað það merkir að trúa öðrum fyrir því sem okkur finnst dýrmætt.
2 Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:20. Páll postuli minnti Tímóteus á að hann hefði fengið eitthvað dýrmætt – nákvæma þekkingu á fyrirætlun Guðs með mannkynið. Jehóva hafði líka veitt Tímóteusi þann heiður að „boða orðið“ og „vinna verk trúboða“. (2. Tím. 4:2, 5) Páll hvatti hann til að varðveita það sem honum hafði verið trúað fyrir. Okkur hefur sömuleiðis verið trúað fyrir miklum verðmætum. Hver eru þau? Og hvers vegna þurfum við að gæta þeirra verðmæta sem Jehóva hefur gefið okkur?
TRÚAÐ FYRIR DÝRMÆTUM SANNINDUM
3, 4. Hvers vegna eru sannindi Biblíunnar dýrmæt?
3 Jehóva hefur í góðvild sinni veitt okkur nákvæma þekkingu á þeim dýrmætu sannindum sem er að finna í orði hans, Biblíunni. Þessi sannindi eru verðmæt vegna þess að þau hjálpa okkur að eiga gott samband við Jehóva og varpa ljósi á hvað það er sem veitir sanna hamingju. Þegar við tökum við þessum sannindum og lifum í samræmi við þau hljótum við frelsi undan falskenningum og siðlausu líferni. – 1. Kor. 6:9–11.
4 Sannindin í Biblíunni eru líka dýrmæt að því leyti að Jehóva opinberar þau aðeins auðmjúku fólki ,sem hefur það hugarfar sem þarf‘. (Post. 13:48) Þeir sem eru auðmjúkir viðurkenna þá boðleið sem Jehóva notar til að koma þessum sannindum á framfæri nú á dögum. (Matt. 11:25; 24:45) Ekkert er jafn verðmætt og að skilja Biblíuna, en það getum við ekki upp á eigin spýtur. – Orðskv. 3:13, 15.
5. Hverju fleira hefur Jehóva trúað okkur fyrir?
5 Jehóva hefur einnig trúað okkur fyrir því að fræða aðra um sannleikann um hann og fyrirætlun hans. (Matt. 24:14) Boðskapurinn sem við boðum er ómetanlegur því að hann hjálpar fólki að verða hluti af fjölskyldu Jehóva og gefur því tækifæri til að eignast eilíft líf. (1. Tím. 4:16) Hvort sem við getum tekið mikinn eða lítinn þátt í boðuninni styðjum við mikilvægasta starf sem unnið er á okkar tímum. (1. Tím. 2:3, 4) Hvílíkur heiður að vera samverkamenn Guðs! – 1. Kor. 3:9.
HALTU FAST Í ÞAÐ SEM ÞÚ HEFUR FENGIÐ
6. Hvernig fór fyrir sumum þeirra sem hættu að meta þann heiður að vera samverkamenn Guðs?
6 Sumir samtíðarmenn Tímóteusar kunnu ekki að meta þann heiður að fá að vera samverkamenn Guðs. Demas elskaði heiminn og hætti þess vegna að starfa með Páli. (2. Tím. 4:10) Svo virðist sem Fýgelus og Hermogenes hafi hætt að boða trúna af því að þeir óttuðust að þeir yrðu fyrir sams konar ofsóknum og Páll. (2. Tím. 1:15) Og Hýmeneus, Alexander og Fíletus urðu fráhvarfsmenn og sneru baki við sannleikanum. (1. Tím. 1:19, 20; 2. Tím. 2:16–18) Allir þessir menn höfðu elskað Jehóva en þeir hættu að meta þau verðmæti sem hann hafði gefið þeim.
7. Hvaða aðferðum beitir Satan gegn okkur?
7 Hvernig reynir Satan að fá okkur til að láta af hendi þau verðmæti sem Jehóva hefur trúað okkur fyrir? Skoðum sumar þeirra aðferða sem hann notar. Hann notar skemmtanaiðnaðinn og fjölmiðla til að hafa áhrif á gildismat okkar, hugsun og verk. Markmið hans er að veikja kærleika okkar til Jehóva svo að við hættum smám saman að hlýða lögum hans. Hann notar hópþrýsting og ofsóknir til að reyna að draga úr okkur kjarkinn svo að við hættum að boða trúna. Og hann reynir að freista okkar til að hlusta á „mótsagnir hinnar rangnefndu ,þekkingar‘“ fráhvarfsmanna svo að við yfirgefum sannleikann. – 1. Tím. 6:20, 21.
8. Hvað lærum við af reynslu Daníels bróður okkar?
8 Ef við erum ekki á varðbergi gætum við fjarlægst sannleikann hægt og bítandi. Skoðum reynslu Daníels, * en hann hafði gaman af tölvuleikjum. Hann segir: „Ég byrjaði að spila tölvuleiki þegar ég var um tíu ára. Í fyrstu spilaði ég leiki sem voru frekar saklausir. En smám saman fór ég að spila leiki sem innihéldu ofbeldi og yfirnáttúruleg fyrirbæri.“ Að lokum var hann farinn að spila tölvuleiki í um 15 klukkutíma á dag. „Innst inni vissi ég samt að leikirnir sem ég spilaði og allur tíminn sem fór í það veikti samband mitt við Jehóva. En ég hafði sannfært sjálfan mig um að ég þyrfti ekki að fara eftir því sem stendur í Biblíunni,“ segir hann. Lúmsk áhrif afþreyingar gætu hæglega losað um tak okkar á sannleikanum. Ef það gerðist gæti það leitt til þess að við misstum þau verðmæti sem Jehóva hefur gefið okkur.
HVERNIG GETUM VIÐ HALDIÐ FAST Í SANNLEIKANN?
9. Við hvað líkti Páll Tímóteusi, samanber 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19?
9 Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19. Páll líkti Tímóteusi við hermann. (2. Tím. 2:3) Og Páll hvatti hann til að „halda áfram að berjast hinni góðu baráttu“. Baráttan var ekki bókstafleg heldur andleg. Að hvaða leyti eru kristnir menn eins og hermenn í stríði? Hvaða eiginleika þurfum við að rækta með okkur sem hermenn Krists? Skoðum nú fimm atriði sem við getum dregið út úr líkingu Páls. Það getur hjálpað okkur að halda fast í sannleikann.
10. Hvað er guðrækni og hvers vegna er hún nauðsynleg?
10 Ræktaðu með þér guðrækni. Góður hermaður sýnir tryggð. Hann er reiðubúinn að berjast af kappi til að verja þann sem hann elskar eða það sem hann metur mikils. Páll hvatti Tímóteus til að rækta með sér guðrækni, það er að segja tengjast Guði traustum vináttuböndum. (1. Tím. 4:7) Því heitar sem við elskum Guð þeim mun sterkari verður löngun okkar til að halda fast í sannleikann. – 1. Tím. 4:8–10; 6:6.
11. Hvers vegna þurfum við að sýna sjálfsaga?
11 Þroskaðu með þér sjálfsaga. Hermaður þarf að beita sig sjálfsaga ef hann á að vera reiðubúinn til bardaga. Tímóteus gat barist gegn áhrifum Satans vegna þess að hann fylgdi innblásnum ráðum Páls um að flýja rangar langanir, keppa eftir góðum eiginleikum og eiga félagsskap við trúsystkini sín. (2. Tím. 2:22) Það krafðist sjálfsaga. Við þurfum að sýna sjálfsaga til að sigra í baráttunni gegn röngum löngunum okkar. (Rómv. 7:21–25) Auk þess þurfum við að sýna sjálfsaga til að afklæðast hinum gamla persónuleika og íklæðast hinum nýja. (Ef. 4:22, 24, neðanmáls) Og þegar við erum þreytt eftir langan dag gætum við þurft að beita okkur hörðu til að fara á samkomu. – Hebr. 10:24, 25.
12. Hvernig getum við orðið færari í að nota Biblíuna?
12 Hermaður þarf að æfa sig í að beita vopnum. Hann þarf að gera það reglulega til að viðhalda færni sinni. Á svipaðan hátt þurfum við að vera fær í að nota orð Guðs. (2. Tím. 2:15) Við getum öðlast þessa færni að einhverju leyti með því að sækja samkomur. En til að geta sannfært aðra um að sannleikur Biblíunnar sé verðmætur þurfum við að hafa reglulegt sjálfsnám. Við verðum að nota orð Guðs til að styrkja trú okkar. Það felur í sér meira en að lesa bara í Biblíunni. Til að geta skilið hana rétt og útskýrt boðskap hennar er nauðsynlegt að við hugleiðum það sem við lesum og öflum okkur upplýsinga úr ritum safnaðarins. (1. Tím. 4:13–15) Þá getum við notað orð Guðs til að kenna öðrum. En það er ekki nóg að lesa biblíuvers fyrir fólk. Við viljum að það skilji biblíutextann og hvaða gildi hann hefur fyrir það. Með því að hafa góða reglu á sjálfsnámi okkar getum við orðið betri kennarar. – 2. Tím. 3:16, 17.
13. Hvers vegna þurfum við að sýna dómgreind, samanber Hebreabréfið 5:14?
13 Sýndu dómgreind. Hermaður verður að geta séð hætturnar fyrir og forðast þær. Það er sömuleiðis mikilvægt að við sjáum fyrir og forðumst aðstæður þar sem samband okkar við Jehóva gæti beðið skaða. (Orðskv. 22:3; lestu Hebreabréfið 5:14 og neðanmáls.) Það er til dæmis mikilvægt að við sýnum skynsemi í vali okkar á afþreyingu og skemmtiefni. Sjónvarpsþættir og kvikmyndir sýna oft siðlausa hegðun. Slík hegðun særir Jehóva og það er óhjákvæmilegt að hún valdi skaða. Við verðum því að forðast skemmtiefni sem gæti smám saman grafið undan kærleika okkar til Guðs. – Ef. 5:5, 6.
14. Hvernig var það Daníel til góðs að sýna dómgreind?
14 Daníel, sem minnst er á fyrr í greininni, gerði sér að lokum grein fyrir að leikirnir sem hann spilaði væru orðnir vandamál. Hann notaði forritið Watchtower Library til að finna efni sem gæti hjálpað honum að takast á við vandann. Hverju skilaði það? Hann hætti að spila óviðeigandi tölvuleiki. Hann lokaði aðgangi sínum að tölvuleikjum á netinu og hætti að hafa samband við aðra spilara. Daníel segir: „Í stað þess að spila tölvuleiki fór ég að vera meira úti og hitta trúsystkini mín í söfnuðinum.“ Daníel er nú brautryðjandi og öldungur.
15. Hvers vegna eru lygasögur hættulegar?
15 Líkt og Tímóteus þurfum við að átta okkur á hættunni sem stafar af röngum upplýsingum fráhvarfsmanna. (1. Tím. 4:1, 7; 2. Tím. 2:16) Þeir gætu reynt að dreifa lygasögum um trúsystkini okkar og sá efasemdum hjá okkur í garð safnaðar Jehóva. Villandi upplýsingar af þessum toga gætu grafið undan trú okkar. Við verðum að varast að láta blekkjast af slíkum áróðri. Hvers vegna? Vegna þess að svona sögum er dreift af mönnum „sem hafa spillt hugarfar og skilja ekki lengur sannleikann“. Markmið þeirra er að koma af stað „þrætum og rökræðum“. (1. Tím. 6:4, 5) Þeir vilja að við trúum rógburði þeirra og hættum að treysta trúsystkinum okkar.
16. Hvað þurfum við að varast?
16 Vertu einbeittur. Sem „góður hermaður Krists Jesú“ varð Tímóteus að einbeita sér að þjónustunni en ekki öðrum markmiðum eða efnislegum eigum því að það hefði getað leitt hann út af sporinu. (2. Tím. 2:3, 4) Við megum ekki heldur við því að láta löngun í efnislega hluti ræna okkur einbeitingunni. „Tál auðæfanna“ gæti kæft kærleika okkar til Jehóva, þakklæti okkar fyrir orð hans og löngun okkar til að segja öðrum frá því. (Matt. 13:22) Við verðum að lifa einföldu lífi og nota tíma okkar og krafta til að ,einbeita okkur fyrst og fremst að ríki Guðs‘. – Matt. 6:22–25, 33.
17, 18. Hvað getum við gert til að varðveita vináttuna við Jehóva?
17 Vertu tilbúinn að bregðast skjótt við. Hermaður þarf að hugleiða fyrir fram hvernig hann ætlar að bregðast við aðstæðum sem gætu komið upp. Ef við eigum að geta varðveitt það sem Jehóva hefur trúað okkur fyrir verðum við að bregðast skjótt við þegar við verðum vör við hættu. Hvað getur hjálpað okkur til þess? Við þurfum að vita fyrir fram hvernig við ætlum að bregðast við ógnum.
18 Tökum dæmi. Þeim sem sækja viðburði er oft bent á hvar næsta útgönguleið er áður en dagskráin hefst. Hvers vegna? Til að geta yfirgefið staðinn skjótt ef neyðartilfelli kemur upp. Á svipaðan hátt getum við æft hvernig við ætlum að bregðast við ef við sjáum óvænt siðlaust efni, gróft ofbeldi eða efni frá fráhvarfsmönnum á netinu eða meðan við horfum á kvikmynd eða sjónvarpsþátt. Ef við búum okkur undir það sem gæti gerst erum við reiðubúin að bregðast skjótt við til að varðveita vináttu okkar við Jehóva og vera hrein í augum hans. – Sálm. 101:3; 1. Tím. 4:12.
19. Hvaða blessunar njótum við ef við gætum þeirra verðmæta sem Jehóva hefur gefið okkur?
19 Við þurfum að gæta þeirra verðmæta sem Jehóva hefur gefið okkur – dýrmætra biblíusanninda og þess heiðurs að fá að fræða aðra um þau. Þegar við gerum það höfum við góða samvisku, lifum innihaldsríku lífi og njótum gleðinnar sem fylgir því að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Með hans hjálp getum við gætt þess sem okkur hefur verið trúað fyrir. – 1. Tím. 6:12, 19.
SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa