Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

„Láttu hendur þínar ekki hvílast“

„Láttu hendur þínar ekki hvílast“

„Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi.“ – PRÉD. 11:6.

SÖNGUR 68 Sáum sæði sannleikans

YFIRLIT *

1, 2. Hvernig tengist Prédikarinn 11:6 boðun fagnaðarboðskaparins um ríkið?

Í SUMUM löndum bregðast margir vel við fagnaðarboðskapnum. Þeir þrá að heyra hann! Í öðrum löndum hefur fólk lítinn áhuga á að fræðast um Guð eða Biblíuna. Hvernig bregst fólk við boðskapnum þar sem þú býrð? Hvernig sem það bregst við ætlast Jehóva til að við höldum áfram að boða trúna þangað til hann segir að boðuninni sé lokið.

2 Jehóva hefur þegar ákveðið hvenær boðuninni ljúki. „Síðan kemur endirinn.“ (Matt. 24:14, 36) Hvernig getum við hlýtt boðinu um að ,láta hendur okkar ekki hvílast‘ * þangað til? – Lestu Prédikarann 11:6.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Í síðustu grein var rætt um fernt sem við þurfum að gera til að ná árangri í að „veiða menn“. (Matt. 4:19) Í þessari grein er rætt um á hvaða þrjá vegu við getum styrkt ásetning okkar að boða trúna, hverjar sem aðstæður okkar eru. Við skoðum hvers vegna er mikilvægt að (1) halda einbeitingunni, (2) sýna þolinmæði og (3) viðhalda sterkri trú.

HALTU EINBEITINGUNNI

4. Hvers vegna þurfum við að halda einbeitingunni í því starfi sem Jehóva fól okkur?

4 Jesús sagði fyrir atburði og aðstæður sem myndu einkenna síðustu daga og gætu dregið athygli fylgjenda hans frá boðuninni. Hann sagði lærisveinum sínum að ,halda vöku sinni‘. (Matt. 24:42) Á dögum Nóa kom margt í veg fyrir að fólk veitti viðvörunum hans athygli. Við getum orðið fyrir svipuðum truflunum. (Matt. 24:37–39; 2. Pét. 2:5) Þess vegna viljum við halda einbeitingunni í því starfi sem Jehóva fól okkur.

5. Hvernig er umfangi boðunarinnar lýst í Postulasögunni 1:6–8?

5 Við þurfum sannarlega að einbeita okkur að því að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið. Jesús sagði að þetta starf myndi aukast að umfangi og halda áfram eftir að hann dæi. (Jóh. 14:12) Eftir að Jesús dó sneru sumir lærisveina hans aftur til fiskveiða. Þegar hann hafði verið reistur upp gaf hann nokkrum lærisveinum mokveiði fyrir kraftaverk. Eftir kraftaverkið lagði hann áherslu á að verkefni þeirra að veiða menn væri mikilvægasta starfið. (Jóh. 21:15–17) Stuttu áður en Jesús fór til himna sagði hann lærisveinum sínum að boðunin sem hann hóf myndi ná langt út fyrir landamæri Ísraels. (Lestu Postulasöguna 1:6–8.) Mörgum árum síðar gaf Jesús Jóhannesi postula sýn um það sem myndi eiga sér stað ,á Drottins degi‘. * Jóhannes sá meðal annars þennan tilkomumikla atburð: Engill lét flytja „eilífan fagnaðarboðskap ... hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. (Opinb. 1:10; 14:6) Jehóva vill augljóslega að við tökum þátt í þessari mikilfenglegu boðun þar til henni lýkur.

6. Hvernig getum við haldið einbeitingunni í boðuninni?

6 Við getum haldið einbeitingunni í boðuninni ef við hugsum um hve mikið Jehóva gerir til að hjálpa okkur. Hann sér okkur til dæmis fyrir heilmikilli andlegri fæðu í prentuðum og rafrænum ritum, hljóð- og myndupptökum og sjónvarpsefni. Hugsaðu þér: Hægt er að nálgast upplýsingar á vefnum okkar á meira en 1.000 tungumálum! (Matt. 24:45–47) Heimurinn er sundraður vegna ágreinings í pólitískum og trúarlegum málum og vegna þess að fólki er mismunað fjárhagslega. En sönn eining ríkir meðal meira en átta milljóna þjóna Guðs sem tilheyra alheimsbræðralagi. Til dæmis hlustuðu vottar Jehóva um allan heim á sömu umræðuna um dagstextann föstudaginn 19. apríl 2019. Og sama kvöld sótti 20.919.041 minningarhátíðina um dauða Jesú. Að hugsa um þann heiður að fá að sjá þetta kraftaverk nú á dögum og vera hluti af því fær okkur til að vera einbeitt í boðuninni.

Jesús lét ekkert draga athygli sína frá því að vitna um sannleikann. (Sjá 7. grein.)

7. Hvernig hjálpar fordæmi Jesú okkur að halda einbeitingunni?

7 Annað sem getur hjálpað okkur að halda einbeitingunni í boðuninni er að fylgja fordæmi Jesú. Hann lét ekkert draga athygli sína frá því að vitna um sannleikann. (Jóh. 18:37) Jesús lét hvorki freistast þegar Satan bauð honum „öll ríki heims og dýrð þeirra“ né þegar fólk vildi gera hann að konungi. (Matt. 4:8, 9; Jóh. 6:15) Hann lét ekki löngun í efnislegar eigur hafa áhrif á sig eða harða mótstöðu hræða sig. (Lúk. 9:58; Jóh. 8:59) Þegar við verðum fyrir trúarprófraunum hjálpar ráð Páls postula okkur að halda einbeitingunni. Hann hvatti kristna menn til að fylgja fordæmi Jesú svo að þeir myndu ekki ,þreytast og gefast upp‘. – Hebr. 12:3.

SÝNDU ÞOLINMÆÐI

8. Hvað er þolinmæði og hvers vegna er sérstaklega þörf á henni núna?

8 Þolinmæði er það að geta beðið rólegur eftir að aðstæður breytist. Við þurfum að sýna þolinmæði hvort sem við bíðum eftir að óþægilegar aðstæður taki enda eða hlökkum til einhvers sem við höfum þráð lengi. Habakkuk spámaður þráði að sjá ofbeldið í Júda taka enda. (Hab. 1:2) Lærisveinar Jesú vonuðust til að ríki Guðs myndi „birtast þegar í stað“ og frelsa þá undan kúgun Rómverja. (Lúk. 19:11) Við þráum að sjá þann dag þegar ríki Guðs afmáir illsku og kemur á nýjum og réttlátum heimi. (2. Pét. 3:13) En við verðum að vera þolinmóð og bíða eftir tilsettum tíma Jehóva. Skoðum nokkur dæmi um hvernig Jehóva kennir okkur að vera þolinmóð.

9. Nefndu dæmi um þolinmæði Jehóva.

9 Jehóva gefur okkur fullkomið fordæmi í þolinmæði. Hann gaf Nóa nægan tíma til að byggja örkina og þjóna sem ,boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5; 1. Pét. 3:20) Jehóva hlustaði á Abraham þegar hann spurði hann aftur og aftur út í ákvörðun hans um að eyða spilltum íbúum borganna Sódómu og Gómorru. (1. Mós. 18:20–33) Jehóva sýndi ótrúrri Ísraelsþjóðinni ótrúlega mikla þolinmæði í margar aldir. (Neh. 9:30, 31) Við sjáum þolinmæði Jehóva nú á dögum þar sem hann gefur öllum sem hann dregur til sín „tækifæri til að iðrast“. (2. Pét. 3:9; Jóh. 6:44; 1. Tím. 2:3, 4) Fordæmi Jehóva gefur okkur góða ástæðu til að sýna þolinmæði þegar við boðum trúna og kennum fólki. Jehóva kennir okkur auk þess þolinmæði með líkingu í orði sínu.

Rétt eins og duglegur en þolinmóður bóndi bíðum við eftir að viðleitni okkar beri árangur. (Sjá 10. og 11. grein.)

10. Hvað lærum við af dæminu um bóndann í Jakobsbréfinu 5:7, 8?

10 Lestu Jakobsbréfið 5:7, 8Dæmið um bóndann kennir okkur þolinmæði. Sumar plöntur eru fljótar að vaxa. En flestar plöntur eru mun lengur að ná þroska, ekki síst þær sem gefa uppskeru. Vaxtartíminn í Ísrael var um sex mánuðir. Bóndinn sáði korni sínu eftir haustregnið og uppskar eftir vorregnið. (Mark. 4:28) Það er skynsamlegt af okkur að líkja eftir þolinmæði bóndans. En það er ekki alltaf auðvelt.

11. Hvernig gagnast þolinmæði okkur í boðuninni?

11 Ófullkomnir menn eru gjarnir á að vilja sjá árangur af erfiði sínu án tafar. En ef við viljum að garðurinn okkar beri ávöxt þurfum við að huga stöðugt að honum með því að grafa, gróðursetja, reita arfa og vökva. Að gera fólk að lærisveinum krefst einnig stöðugrar viðleitni. Það tekur tíma að hjálpa biblíunemendum að uppræta fordóma og rækta með sér kærleika. Þolinmæði hjálpar okkur að missa ekki móðinn þegar fólk hlustar ekki á okkur. Við verðum líka að vera þolinmóð þegar fólk bregst vel við boðskapnum. Við getum ekki þvingað biblíunemanda til að þroskast í trúnni. Lærisveinar Jesú voru jafnvel stundum seinir að skilja það sem hann kenndi þeim. (Jóh. 14:9) Munum að þó að við getum gróðursett og vökvað er það Guð sem gefur vöxtinn. – 1. Kor. 3:6.

12. Hvernig getum við sýnt ættingjum okkar þolinmæði þegar við boðum þeim trúna?

12 Það getur verið erfitt fyrir okkur að sýna þolinmæði þegar við boðum ættingjum okkar trúna. Meginreglan í Prédikaranum 3:7 getur hjálpað okkur. Þar segir: „Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ Við getum borið þögult vitni með góðri hegðun. En við erum þó alltaf opin fyrir tækifærum til að tala um sannleikann. (1. Pét. 3:1, 2) Við eigum að boða trúna og kenna fólki af kappi. En við ættum alltaf að vera þolinmóð við alla, þar á meðal fjölskyldu okkar.

13, 14. Nefndu nokkur dæmi um þolinmóða þjóna Guðs sem við getum líkt eftir.

13 Við getum lært þolinmæði af trúföstum einstaklingum bæði frá tímum biblíunnar og okkar tímum. Habakkuk þráði að sjá ofbeldi taka enda en hann sýndi þolinmæði þegar hann sagði: „Ég held varðstöðu minni.“ (Hab. 2:1) Páll postuli lét í ljós einlæga ósk sína að „ljúka“ þjónustu sinni. En hann hélt þolinmóður áfram „að boða rækilega fagnaðarboðskapinn“. – Post. 20:24.

14 Skoðum reynslu hjóna sem fóru í Gíleaðskólann og voru síðan send til lands þar sem eru fáir vottar og ráðandi trúarbrögð eru ekki kristin. Fáir sýndu áhuga á að kynna sér Biblíuna. En bekkjarfélagar þeirra úr Gíleaðskólanum, sem þjónuðu í öðrum löndum, sendu þeim hins vegar spennandi frásögur af mörgum árangursríkum biblíunámskeiðum. Hjónin héldu þolinmóð áfram að boða trúna þrátt fyrir að fæstir á svæðinu hlustuðu. Eftir að hafa boðað trúna í átta ár á svæði sem virtist gefa lítið af sér fengu þau loksins að upplifa þá gleði að sjá einn af biblíunemendum sínum láta skírast. Hvað eiga þessi dæmi úr fortíðinni og nútímanum sameiginlegt? Þessir trúu þjónar misstu ekki ákafann og létu hendur sínar ekki hvílast. Jehóva umbunaði þeim fyrir þolinmæðina. Við skulum líkja eftir þeim sem „vegna trúar og þolinmæði erfa það sem lofað hefur verið“. – Hebr. 6:10–12.

VIÐHALTU STERKRI TRÚ

15. Hvernig styrkir trú ásetning okkar að boða trúna?

15 Við trúum boðskapnum sem við boðum og erum því áköf að segja eins mörgum og við getum frá honum. Við treystum loforðunum í orði Guðs. (Sálm. 119:42; Jes. 40:8) Við höfum séð spádóma Biblíunnar uppfyllast á okkar dögum. Og við höfum séð fólk breyta lífi sínu til hins betra með því að fylgja ráðum Biblíunnar. Það styrkir þá trú okkar að allir þurfi að heyra fagnaðarboðskapinn um ríkið.

16. Hvernig styrkir traust til Jehóva og Jesú ásetning okkar að boða trúna, samanber Sálm 46:2–4?

16 Við treystum líka Jehóva, en boðskapurinn sem við boðum kemur frá honum. Og við treystum Jesú, en Jehóva hefur krýnt hann konung Guðsríkis. (Jóh. 14:1) Jehóva verður alltaf hæli okkar og styrkur, sama hvað hendir okkur. (Lestu Sálm 46:2–4.) Þar að auki erum við fullviss um að Jesús beiti þeim mætti og valdi sem Jehóva hefur gefið honum til að stýra boðuninni frá himni. – Matt. 28:18–20.

17. Hvers vegna ættum við að halda áfram að boða trúna? Nefndu dæmi.

17 Trú gerir okkur enn vissari um að Jehóva blessi viðleitni okkar í boðuninni, jafnvel á óvænta vegu. (Préd. 11:6) Til dæmis sjá þúsundir manna ritatrillur okkar og ritaborð á hverjum degi. Er þessi boðunaraðferð árangursrík? Heldur betur! Í Ríkisþjónustu okkar í nóvember 2014 var sagt frá ungri konu í háskóla sem ætlaði að skrifa ritgerð um Votta Jehóva. Hún fann ekki ríkissal en sá ritaborð á háskólalóðinni og fann efni fyrir ritgerðina. Seinna lét hún skírast og er núna brautryðjandi. Frásögur sem þessar hvetja okkur til að halda áfram að boða trúna því að þær sýna að enn er fólk á svæðinu sem þarf að heyra boðskapinn um ríki Guðs.

VERTU STAÐRÁÐINN Í AÐ LÁTA HENDUR ÞÍNAR EKKI HVÍLAST

18. Hvers vegna erum við fullviss um að boðun Guðsríkis ljúki eins og Jehóva vill?

18 Við getum treyst því að boðun Guðsríkis ljúki á nákvæmlega réttum tíma. Tökum sem dæmi atburði á dögum Nóa. Jehóva sýndi að hann stendur alltaf við tímaáætlanir sínar. Hann ákvað um 120 árum fyrir flóðið hvenær það myndi koma. Áratugum síðar sagði Jehóva Nóa að byggja örkina. Nói vann hörðum höndum áður en flóðið kom, kannski í 40 eða 50 ár. Þó að fólk hlustaði ekki á hann hélt hann áfram að vara fólk við þar til Jehóva sagði að tímabært væri að fara með dýrin inn í örkina. Og „Drottinn lokaði á eftir honum“ á hárréttum tíma. – 1. Mós. 6:3; 7:1, 2, 16.

19. Hvers getum við hlakkað til ef við látum hendur okkar ekki hvílast?

19 Bráðlega lætur Jehóva boðun Guðsríkis taka enda. Hann „lokar“ á heimskerfi Satans og kemur á réttlátum nýjum heimi. Þangað til skulum við líkja eftir Nóa, Habakkuk og öðrum sem hafa ekki látið hendur sínar hvílast. Höldum einbeitingunni, sýnum þolinmæði og viðhöldum sterkri trú á Jehóva og loforð hans.

SÖNGUR 75 „Hér er ég. Send þú mig.“

^ gr. 5 Í síðustu grein voru biblíunemendur sem miðar vel í náminu hvattir til að þiggja boð Jesú um að veiða menn. Í þessari grein er rætt um á hvaða þrjá vegu allir boðberar – nýir og reyndir – geta styrkt þann ásetning sinn að halda áfram að boða Guðsríki þangað til Jehóva segir að verkinu sé lokið.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Þegar sagt er „láttu hendur þínar ekki hvílast“ í þessari grein er átt við að við þurfum að vera ákveðin í að halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn þangað til Jehóva segir að því sé lokið.

^ gr. 5 ,Drottins dagur‘ hófst þegar Jesús var krýndur konungur árið 1914 og stendur þar til þúsundáraríkinu lýkur.