Hvaða gagn hefurðu af að þekkja Guð?
Í þessu blaði höfum við markvisst leitað svars við því hver Guð sé. Fyrst sáum við að nafn hans er Jehóva samkvæmt frummálstexta Biblíunnar og að kærleikur er áhrifamesti eiginleiki hans. Við skoðuðum líka hvað hann hefur gert og hvað hann ætlar að gera fyrir mannkynið. En þó að hægt sé að læra margt fleira um Guð veltirðu kannski fyrir þér hvaða gagn þú hafir af því.
Jehóva lofar að „ef þú leitar hans lætur hann þig finna sig“. (1. Kroníkubók 28:9) Þegar þú leitar Guðs og kynnist honum eignastu mjög dýrmæta gjöf – vináttu hans og trúnað. (Sálmur 25:14) Hvaða gagn geturðu haft af slíkri vináttu?
Sönn hamingja. Jehóva er kallaður ,hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Ef þú eignast vináttu Guðs og líkir eftir honum finnurðu sanna hamingju. Það hefur góð áhrif á þig tilfinningalega, hugarfarslega og líkamlega. (Sálmur 33:12) Þú getur líka eignast hamingjuríkt líf með því að varast skaðlegan lífsmáta, temja þér góðar venjur og eiga gott samband við aðra. Þá geturðu tekið undir orð sálmaritarans: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði.“ – Sálmur 73:28.
Umhyggja og persónuleg athygli. Jehóva Guð lofar þjónum sínum: „Ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ (Sálmur 32:8) Þetta segir okkur að Jehóva sýni þjónum sínum persónulega athygli og sinni þeim eftir þörfum hvers og eins. (Sálmur 139:1, 2) Ef þú byggir upp gott samband við Jehóva finnurðu að þú getur alltaf leitað til hans.
Dásamleg framtíð. Auk þess að hjálpa þér að eignast ánægjulegt og hamingjuríkt líf núna gefur Jehóva Guð þér von um stórkostlega framtíð. (Jesaja 48:17, 18) Í Biblíunni segir: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Á þessum stormasömu tímum, sem við lifum núna, getur vonin frá Guði verið eins og „traust og öruggt“ akkeri. – Hebreabréfið 6:19.
Þetta eru aðeins fáeinar af mörgum ástæðum þess að við ættum að kynnast Guði betur og byggja upp náið samband við hann. Þér er velkomið að fá frekari upplýsingar hjá einhverjum af vottum Jehóva eða á vefsíðunni jw.org.