Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað hefur Guð gert?

Hvað hefur Guð gert?

Ef við viljum kynnast einhverjum vel er gott að vita hverju hann hefur áorkað og hvaða áskorunum hann hefur sigrast á. Eins verðum við að skoða hvað Guð hefur gert ef við viljum kynnast honum vel. Það kann að koma þér á óvart hve margt af því sem hann gerði áður er okkur til gagns núna og snertir framtíð okkar.

GUÐ SKAPAÐI ALLA HLUTI OKKUR TIL GÓÐS

Jehóva Guð er hinn mikli skapari og „ósýnilega veru hans ... má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins“. (Rómverjabréfið 1:20) Hann er „sá sem skapaði jörðina með krafti sínum, lagði grunn heimsins með speki sinni og þandi út himininn með þekkingu sinni“. (Jeremía 10:12) Undur sköpunarverksins sýna einnig að Guð hefur áhuga á okkur.

Hugleiddu hve einstakt líf okkar er vegna þess að Jehóva skapaði mennina „eftir sinni mynd“. (1. Mósebók 1:27) Það þýðir að hann gerði okkur kleift að endurspegla óviðjafnanlega eiginleika hans í einhverjum mæli. Hann skapaði okkur með hæfileika til að skilja viðhorf hans og gildismat. Þegar við leitumst við að lifa eftir þeim njótum við meiri hamingju og líf okkar verður innihaldsríkara. Og það sem meira er, hann gaf okkur möguleika á að byggja upp samband við sig.

Þegar við skoðum sköpunarverk Guðs á jörðinni sjáum við hvaða hug hann ber til okkar. Eins og Páll postuli sagði hefur Guð „vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið [okkur] regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt [okkur] fæðu og fyllt hjörtu [okkar] gleði.“ (Postulasagan 14:17) Guð sá okkur ekki bara fyrir brýnustu nauðsynjum. Hann gaf okkur meira en nóg af öllu sem þarf til að njóta lífsins. En það er þó aðeins brot af því sem hann ætlaði okkur.

Jehóva skapaði jörðina til að mennirnir gætu lifað þar að eilífu. Í Biblíunni segir: „Jörðina gaf hann mannanna börnum“ og „hann skapaði hana ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega“. (Sálmur 115:16; Jesaja 45:18) Byggilega fyrir hverja og hve lengi? „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.

Jehóva skapaði Adam og Evu, fyrstu mannhjónin, og setti þau í paradísargarð á jörðinni „til að yrkja hann og gæta hans“. (1. Mósebók 2:8, 15) Guð gaf þeim spennandi verkefni sem var tvíþætt: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Adam og Eva áttu því fyrir sér að lifa að eilífu á jörðinni. Því miður völdu þau að óhlýðnast Guði og misstu þess vegna vonina um að vera meðal þeirra ,réttlátu sem fá landið til eignar‘. Verk þeirra breyttu þó ekki fyrirætlun Jehóva með okkur eða jörðina, eins og við munum sjá. En fyrst skulum við skoða annað sem Guð hefur gert.

GUÐ GAF OKKUR RITAÐ ORÐ SITT

Biblían er einnig kölluð orð Guðs. Hvers vegna gaf Jehóva okkur Biblíuna? Fyrst og fremst til að við gætum fræðst um hann. (Orðskviðirnir 2:1-5) Biblían svarar að vísu ekki öllum spurningum sem við gætum spurt okkur um Guð – engin bók getur gert það. (Prédikarinn 3:11) En allt sem er að finna í Biblíunni gerir okkur fært að þekkja Guð. Við kynnumst honum með því að sjá hvernig hann kemur fram við fólk. Við sjáum hvað honum líkar og mislíkar í fari fólks. (Sálmur 15:1-5) Við lærum hvernig hann lítur á tilbeiðslu, siðferði og efnislega hluti. Í Biblíunni getum við lesið um Jesú Krist, son Guðs. Og af orðum hans og verkum kynnumst við persónuleika Jehóva á einstakan hátt. – Jóhannes 14:9.

Guð gaf okkur einnig orð sitt, Biblíuna, til að láta okkur vita hvernig við getum lifað hamingjuríku og innihaldsríku lífi. Í Biblíunni segir Jehóva okkur hvernig við getum átt hamingjuríkt fjölskyldulíf, tamið okkur nægjusemi og tekist á við áhyggjur. Og eins og við ræðum um seinna í þessu blaði hefur Biblían að geyma svör við stóru spurningunum í lífinu, eins og: Hvers vegna eru svona miklar þjáningar í heiminum? Og hvað ber framtíðin í skauti sér? Hún útskýrir einnig hvað Guð hefur gert til að upphafleg fyrirætlun hans nái fram að ganga.

Sjá má á marga fleiri vegu að Biblían er einstök bók sem getur aðeins verið frá Guði. Hún var rituð af um 40 mönnum á um það bil 1.600 árum en samt gengur ákveðinn rauður þráður í gegnum hana alla vegna þess að Guð einn er höfundur hennar. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Ólíkt öðrum fornum ritum hefur Biblían varðveist vel í gegnum aldirnar eins og mörg þúsund forn biblíuhandrit staðfesta. Hún hefur meira að segja varðveist þrátt fyrir tilraunir til að koma í veg fyrir að hún yrði þýdd, útbreidd eða lesin. Engin önnur bók er eins útbreidd og þýdd á eins mörg tungumál. Það að Biblían sé enn til sannar að „orð Guðs vors varir að eilífu“. – Jesaja 40:8.

GUÐ ÁBYRGÐIST ÁFORM SÍN

Guð hefur einnig gert sérstaka ráðstöfun til að ábyrgjast áform sín með okkur. Eins og minnst var á fyrr í greininni ætlaði Guð mönnunum að lifa að eilífu á jörðinni. En þegar Adam syndgaði með því að velja að óhlýðnast Guði missti hann ekki bara möguleikann á eilífu lífi sjálfur heldur einnig fyrir ófædda afkomendur sína. „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Fyrirætlun Guðs var ögrað með óhlýðni mannsins. Hvernig brást Jehóva við því?

Jehóva var samkvæmur sjálfum sér. Hann brást réttlátlega við og lét Adam og Evu taka afleiðingum gerða sinna, en í kærleika sínum gerði hann ráðstafanir fyrir ófædda afkomendur þeirra. Jehóva sýndi visku í því hvernig hann tók á málinu og tilkynnti lausnina þegar í stað. (1. Mósebók 3:15) Lausn undan synd og dauða fengist fyrir atbeina Jesú Krists, sonar Guðs. Hvað fól það í sér?

Til að leysa mennina undan áhrifum uppreisnar Adams sendi Jehóva Jesú til jarðarinnar til að fræða fólk um hvernig það eigi að lifa og til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. a (Matteus 20:28; Jóhannes 14:6) Jesús gat greitt lausnargjaldið vegna þess að hann var fullkominn eins og Adam. En ólíkt Adam var hann fullkomlega hlýðinn, jafnvel þegar hann stóð frammi fyrir dauðanum. Þar sem Jesús átti ekki skilið að deyja reisti Jehóva hann upp til lífs aftur á himnum. Jesús gat nú gert það sem Adam gat ekki gert – gefið hlýðnum mönnum möguleika á eilífu lífi. „Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina.“ (Rómverjabréfið 5:19) Með lausnarfórn Jesú mun Guð efna loforð sitt um að mennirnir fái að lifa að eilífu á jörðinni.

Við lærum margt um Jehóva af því hvernig hann tók á vandamálunum sem komu til vegna óhlýðni Adams. Við sjáum að ekkert getur komið í veg fyrir að Jehóva klári það sem hann byrjar á – hann kemur því alltaf til leiðar sem hann lofar. (Jesaja 55:11) Við kynnumst því einnig hversu heitt Jehóva elskar okkur. „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ – 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.

Guð „þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll“. Við getum því verið fullviss um að Guð muni „gefa okkur allt“ sem hann hefur lofað okkur. (Rómverjabréfið 8:32) Hvað hefur Guð lofað að gera fyrir okkur? Lestu um það í næstu grein.

HVAÐ HEFUR GUÐ GERT? Jehóva skapaði mennina til að lifa að eilífu á jörðinni. Hann gaf okkur Biblíuna til að við gætum fræðst um hann. Jehóva sá fyrir lausnargjaldinu fyrir milligöngu Jesú Krists og gekk þannig úr skugga um að fyrirætlun sín næði fram að ganga.

a Nánari upplýsingar um lausnargjaldið má finna í 27. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.dan124.com.