Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían er áreiðanleg heimild

Biblían er áreiðanleg heimild

Í gegnum tíðina hefur fólk af ólíkum uppruna talið Biblíuna vera áreiðanlega og sanna. Nú á dögum fara milljónir manna eftir kenningum hennar. En aðrir hafna Biblíunni og segja að hún eigi ekki við okkur eða sé aðeins skáldsaga. Hvað finnst þér? Er sannleikann að finna í Biblíunni?

HVERS VEGNA GETUR ÞÚ TREYST BIBLÍUNNI?

Hvernig geturðu vitað hvort Biblían sé traustsins verð? Tökum dæmi: Ef vinur þinn segði þér alltaf sannleikann í mörg ár myndirðu eflaust telja hann áreiðanlegan. Hefur Biblían alltaf sagt sannleikann, rétt eins og áreiðanlegur vinur? Lítum á nokkur dæmi.

Heiðarlegir ritarar

Biblíuritararnir voru heiðarlegir og sögðu oft frá eigin mistökum og veikleikum. Spámaðurinn Jónas skrifaði til dæmis um það þegar hann óhlýðnaðist. (Jónas 1:1–3) Hann endaði meira að segja biblíubók sína á því að lýsa hvernig Guð agaði hann. En hann sagði ekkert um það hvernig hann sjálfur leiðrétti viðhorf sitt. (Jónas 4:1, 4, 10, 11) Heiðarleiki allra biblíuritaranna sýnir að þeim var innilega annt um sannleikann.

Hagnýtt gildi

Gefur Biblían alltaf góð ráð varðandi almenn mál? Já, svo sannarlega. Taktu til dæmis eftir því sem Biblían segir um að viðhalda góðum samskiptum: „Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“ (Matteus 7:12) „Milt svar stöðvar bræði en hvöss orð vekja reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Sannleikur Biblíunnar er eins hagnýtur nú á dögum og þegar hann var færður í letur.

Sögulegar staðreyndir

Fornleifafundir hafa í gegnum tíðina staðfest tilvist manna og staða sem sagt er frá í Biblíunni. Þeir hafa þar að auki sannað nákvæmni Biblíunnar þegar hún segir frá atburðum. Skoðum eitt smáatriði. Biblíuritarinn Nehemía, sem var uppi á 5. öld f.Kr., sagði að Týrverjar (Fönikíumenn frá Týrus) sem bjuggu í Jerúsalem hafi ,komið með fisk og alls konar vörur‘. – Nehemíabók 13:16.

Eru til einhverjar sannanir fyrir þessu? Já. Fornleifafræðingar hafa fundið fönikískar vörur í Ísrael sem gefur til kynna að þessar fornu þjóðir hafi átt viðskipti. Þar að auki hafa leifar af fiskum Miðjarðarhafs verið grafnar upp í Jerúsalem. Fornleifafræðingar telja að kaupmenn hafi komið með fiskinn frá fjarlægum ströndum. Einn fræðimaður sagði eftir að hafa rannsakað fundinn: „Það sem segir í Neh[emía] 13:16 um að Týrverjar seldu fisk í Jerúsalem er mjög trúverðugt.“

Vísindaleg nákvæmni

Biblían er fyrst og fremst trúar- og sögubók. En þegar hún fjallar um vísindaleg mál er hún í samræmi við sönn vísindi. Lítum á eitt dæmi.

Fyrir um 3.500 árum var skráð í Biblíuna að ,jörðin svifi í tóminu‘. (Jobsbók 26:7) Þetta var gerólíkt goðsögum sem sögðu jörðina fljóta á vatni eða liggja á risaskjaldböku. Um 1.100 árum eftir að Jobsbók var skrifuð trúði fólk því enn að jörðin gæti ekki hangið í lausu lofti heldur þyrfti að hvíla á einhverju. Árið 1687, fyrir aðeins um 300 árum, gaf Isaac Newton út rit um rannsókn sína á þyngdarlögmálinu og útskýrði að ósýnilegt afl héldi jörðinni á sporbraut. Þessi tímamót í sögu vísinda staðfestu það sem Biblían hafði sagt rúmlega 3.000 árum áður.

Sannir spádómar

Biblían hefur að geyma marga spádóma. Hversu nákvæmir eru þeir? Tökum sem dæmi spádóm Jesaja um fall Babýlonar.

Spádómurinn: Á áttundu öld f.Kr. lýsti biblíuritarinn Jesaja því yfir að Babýlon yrði lögð í rúst og að lokum óbyggð, en borgin átti seinna eftir að verða höfuðborg voldugs heimsveldis. (Jesaja 13:17–20) Jesaja nefndi jafnvel manninn á nafn sem átti eftir að vinna borgina, en hann átti að heita Kýrus. Jesaja lýsti einnig hvernig Kýrus myndi fara að og sagði að árnar yrðu ‚þurrkaðar upp‘. Hann sagði einnig fyrir um að borgarhliðin yrðu skilin eftir opin. – Jesaja 44:27–45:1.

Uppfyllingin: Um 200 árum eftir að Jesaja bar fram spádóminn réðst persneskur konungur gegn Babýlon. Hvað hét hann? Kýrus. Babýlon var rammlega víggirt borg og þess vegna beindi Kýrus athygli sinni að Efratfljóti sem rann í kringum borgina og í gegnum hana. Menn hans grófu farveg ofar í fljótinu til að beina því yfir í votlendi. Við það lækkaði vatnsborð fljótsins þannig að það náði mönnum aðeins upp að lærum. Her Kýrusar gat því vaðið að borgarmúrnum. Þótt ótrúlegt megi virðast höfðu Babýloníumenn skilið borgarhliðin sem sneru að fljótinu eftir opin. Her Kýrusar komst inn í Babýlon gegnum opin hliðin og vann borgina.

En eitt atriði átti eftir að uppfyllast. Varð Babýlon óbyggð? Fólk hélt áfram að búa þar í nokkrar aldir. En núna bera rústir Babýlonar, sem eru ekki langt frá Bagdad í Írak, vitni um að spádómurinn hafi uppfyllst í smáatriðum. Biblían er áreiðanleg, jafnvel þegar hún talar um atburði sem eiga eftir að gerast.