Hvernig getum við fengið að lifa í nýjum heimi?
Í greinunum á undan höfum við séð að Guð ætlar bráðlega að binda enda á óguðlegt samfélag manna og öll vandamál þess. Við getum treyst að það gerist vegna þess að í Biblíunni, orði Guðs, er þetta loforð:
„Heimurinn líður undir lok.“ – 1. JÓHANNESARBRÉF 2:17.
Við getum verið viss um að einhverjir lifi af vegna þess að biblíuversið lofar einnig:
„Sá sem gerir vilja Guðs lifir að eilífu.“
Til að lifa af þurfum við því að gera vilja Guðs. Og til að vita hver vilji Guðs er þurfum við að kynnast honum.
,KYNNUMST GUÐI‘ TIL AÐ LIFA AF ENDINN
Jesús sagði: „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði.“ (Jóhannes 17:3) Við verðum að ,kynnast Guði‘ til að komast í gegnum endinn og lifa að eilífu. Það felur mun meira í sér en að vita að Guð er til eða þekkja fáeinar staðreyndir um hann. Við þurfum að vera vinir hans. Við verðum að verja tíma með vinum okkar til að vináttan dafni. Það sama á við um vináttu við Guð. Skoðum nokkur mikilvæg sannindi Biblíunnar sem hjálpa okkur að rækta og viðhalda vináttusambandi við Guð.
LESTU DAGLEGA Í ORÐI GUÐS, BIBLÍUNNI
Við borðum reglulega til að viðhalda í okkur lífinu. En Jesús sagði: „Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.“ – Matteus 4:4.
Nú á dögum finnum við orð Jehóva í Biblíunni. Þegar þú rannsakar þessa heilögu bók lærirðu hvað Guð hefur gert í fortíðinni, hvað hann er að gera núna og hvað hann ætlar að gera í framtíðinni.
BIDDU GUÐ UM HJÁLP
Hvað geturðu gert ef þig langar til að fylgja leiðsögn Guðs en finnst erfitt að hætta að gera það sem hann segir að sé rangt? Ef svo er hjálpar það þér að kynnast Guði vel.
Tökum sem dæmi konu, sem við skulum kalla Söndru, en hún lifði siðlausu lífi. Þegar hún fór að kynna sér Biblíuna komst hún að raun um að Guð ætlast til að við ,flýjum kynferðislegt siðleysi‘. (1. Korintubréf 6:18) Hún bað Guð að gefa sér styrk og tókst að hætta að lifa siðlausu lífi. En hún þarf enn þá að berjast við freistingarnar. Hún segir: „Ef ósæmandi hugsanir skjóta upp kollinum tala ég einlæglega við Jehóva í bæn því að ég veit að ég ræð ekki við þetta í eigin mætti. Vegna bænarinnar er ég orðin nánari Jehóva.“ Milljónir manna eru að kynnast Guði líkt og Sandra. Hann gefur þeim þann kraft sem þeir þurfa til að breyta lífi sínu í samræmi við vilja hans. – Filippíbréfið 4:13.
Því betur sem þú þekkir Guð því betur ,þekkir hann þig‘ sem náinn vin. (Galatabréfið 4:9; Sálmur 25:14) Þá geturðu lifað af inn í nýjan heim Guðs. En hvernig verður þessi nýi heimur? Það er útskýrt í næstu grein.
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.