Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HVERS VEGNA ÞURFTI JESÚS AÐ ÞJÁST OG DEYJA?

Gerðist það í raun og veru?

Gerðist það í raun og veru?

Vorið 33 var Jesús frá Nasaret tekinn af lífi. Hann var ranglega sakaður um undirróður, barinn illilega og negldur upp á staur. Hann dó kvalafullum dauðdaga. En Guð reisti Jesús upp til lífs á ný og 40 dögum síðar steig hann upp til himna.

Þessa einstöku frásögn er að finna í guðspjöllunum fjórum í Grísku ritningunum (Nýja testamentinu). En gerðust þessir atburðir í raun? Spurningin er mikilvæg og á fullan rétt á sér. Ef þessir atburðir gerðust ekki er trú kristinna manna einskisverð og vonin um eilíft líf í paradís ekki annað en draumsýn. (1. Korintubréf 15:14) Ef þeir eru hins vegar sannir er framtíð mannkyns björt og þú getur átt þátt í henni. Eru frásögur guðspjallanna sannar eða eru þær skáldskapur?

HVAÐ SEGJA STAÐREYNDIRNAR?

Ólíkt staðlausum goðsögnum bera guðspjöllin vitni um mikla nákvæmni og þar er að finna staðgóðar lýsingar á smáatriðum. Til dæmis eru fjölmargir staðir nefndir í guðspjöllunum og margir þeirra eru til enn í dag. Þar er sagt frá fólki sem veraldlegir sagnaritarar staðfesta að hafi verið til. – Lúkas 3:1, 2, 23.

Veraldlegir ritarar frá fyrstu og annarri öld minnast á Jesú í skrifum sínum. * Lýsing guðspjallanna á því hvernig hann var tekinn af lífi kemur heim og saman við aftökuaðferðir Rómverja á þeim tíma. Aukinheldur er sagt frá atburðum á raunsannan og einlægan hátt. Brestir sumra lærisveina Jesú eru jafnvel dregnir fram í dagsljósið. (Matteus 26:56; Lúkas 22:24-26; Jóhannes 18:10, 11) Allt þetta ber þess merki að ritarar guðspjallanna hafi verið heiðarlegir og nákvæmir þegar þeir skrifuðu um líf Jesú.

HVAÐ UM UPPRISU JESÚ?

Þótt flestir viðurkenni að Jesús hafi lifað hér á jörð og síðan dáið efast margir um upprisu hans. Postularnir trúðu jafnvel ekki að hann hefði fengið upprisu fyrst þegar þeir heyrðu um það. (Lúkas 24:11) Allar efasemdir hurfu hins vegar þegar þeir og aðrir lærisveinar sáu Jesú upprisinn oftar en einu sinni. Við eitt slíkt tækifæri voru meira en 500 sjónarvottar til staðar. – 1. Korintubréf 15:6.

Jafnvel þótt lærisveinarnir hafi átt á hættu að vera handteknir og drepnir kunngerðu þeir hugrakkir fyrir öllum að Jesús væri upprisinn – jafnvel fyrir þeim sem tóku hann af lífi. (Postulasagan 4:1-3, 10, 19, 20; 5:27-32) Hefðu svo margir lærisveinar sýnt slíkt hugrekki án þess að vera sannfærðir um að Jesús hefði í raun verið reistur upp frá dauðum? Kristin trú hefði aldrei haft eins mikil áhrif á heiminn og raun ber vitni ef upprisa Jesú hefði ekki átt sér stað.

Frásögur guðspjallanna af dauða Jesú og upprisu bera öll merki þess að vera áreiðanlegar heimildir. Ef þú lest þær vandlega færðu sannfærandi rök fyrir því að þessir atburðir hafi raunverulega átt sér stað. Og þú getur orðið enn sannfærðari þegar þú skilur hvers vegna þeir gerðust. Í næstu grein færðu nánari útskýringar á því.

^ gr. 7 Tacítus, en hann fæddist um 55 e.Kr skrifaði: „Kristus, sá sem þeir [kristnir menn] voru kenndir við, var dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar.“ Svetóníus (á fyrstu öld), Jósefus, sagnaritari Gyðinga (á fyrstu öld) og Plíníus yngri, landstjóri Biþýníu (í byrjun annarrar aldar) minnast einnig á Jesú í skrifum sínum.