Að losna undan þrælkun fyrr og nú
Blessing * hafði verið lofað vinnu á hárgreiðslustofu þegar hún kæmi til Evrópu. En eftir 10 daga af stanslausum barsmíðum og hótunum um að beita fjölskyldu hennar í heimalandinu ofbeldi var hún neydd til að stunda vændi.
Blessing varð að vinna sér inn 200 til 300 evrur á nóttu til að greiða niður 40.000 evra skuld sem hórumamman sagði hana skulda. „Ég hugsaði oft um að flýja,“ segir Blessing, „en var hrædd um að þau myndu gera fjölskyldu minni eitthvað. Ég var í raun fangi.“ Reynsla Blessing er ekkert einsdæmi því áætlað er að um fjórar milljónir manna séu fastar í kynlífsþrælkun víða um heim.
Fyrir um 4.000 árum var unglingur að nafni Jósef seldur í þrælkun af bræðrum sínum. Hann hafnaði að lokum í ánauð á heimili ríkra hjóna í Egyptalandi. Ólíkt reynslu Blessing fór húsbóndi Jósefs ekki illa með hann til að byrja með. En þegar Jósef neitaði konu húsbónda síns um að leggjast með sér var hann án saka ákærður fyrir tilraun til nauðgunar. Honum var varpað í fangelsi og settur í járn. – 1. Mósebók 39:1-20; Sálmur 105:17, 18.
Jósef var þræll til forna en Blessing þræll á 21. öldinni. Bæði voru þau fórnarlömb mansals en það er iðja sem menn hafa stundað í margar aldir. Í þeirri iðju líta menn á fólk sem verslunarvöru og selja það og kaupa í gróðaskyni.
STRÍÐ KYNDA UNDIR ÞRÆLASÖLU
Stríð hafa reynst vænleg leið fyrir þjóðir að afla sér þræla. Tútmósis þriðji, konungur Egyptalands, er sagður hafa flutt með sér 90.000 fanga eftir að hafa ráðist inn í Kanaansland. Egyptar létu þá byggja musteri, grafa skurði og þræla í námum.
Í Rómaveldi sáu stríð einnig til þess að nóg var af þrælum. Og stundum leiddi eftirspurn eftir þrælum til styrjalda. Áætlað er að á fyrstu öld hafi þrælar verið nær helmingur íbúa Rómar. Margir egypskir og rómverskir þrælar máttu þola illa meðferð. Lífslíkur þræla í námum Rómverja voru til að mynda aðeins um 30 ár.
Þrælahald varð ekki mannúðlegra með tímanum. Frá 16. öld og fram á þá 19. varð þrælasala milli Afríku og Ameríku einn mesti gróðavegur í heimi. ,Áætlað er að 25 til 30 milljónir manna, kvenna og barna hafi verið numin á brott og seld,‘ segir í grein frá UNESCO. Sögur herma að hundruð þúsunda hafi látið lífið á leiðinni yfir Atlantshafið. Olaudah Equiano var þræll sem lifði ferðina af. Hann sagði: „Minningin um óp kvennanna og kvein hinna deyjandi er svo hræðileg að það er nánast ógerlegt að lýsa henni.“
Því miður er þrælahald ekki aðeins harmleikur fortíðar. Að sögn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er um 21 milljón manna, kvenna og barna í ánauð þrælkunar nú til dags og fær lítil eða engin laun. Þrælar nútímans eru látnir vinna í námum, vefnaðar- eða múrsteinsverksmiðjum, vændishúsum og á einkaheimilum. Þótt ólöglegt sé virðist þess konar þrælahald færast í aukana.
AÐ LOSNA ÚR ÞRÆLKUN
Grimmileg meðferð hefur fengið marga þræla til að berjast fyrir frelsi. Á fyrstu öld f.Kr. gerðu skylmingaþrællinn Spartakus og um 100.000 aðrir þrælar uppreisn í Róm en hún var brotin á bak aftur. Á 18. öld gerðu þrælar á Hispaníólu í Karíbahafi uppreisn gegn húsbændum sínum. Skelfileg meðferð, sem þrælarnir fengu á sykurplantekrunum, hrundi af stað borgarastyrjöld sem stóð í 13 ár og leiddi að lokum til sjálfstæðis Haítís árið 1804.
Brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi hlýtur þó að teljast farsælasta frelsun fólks úr þrælkun í allri sögu mannkyns. Heil þjóð var leyst úr ánauðinni í Egyptalandi. Fólkið, sem hugsanlega taldi um þrjár milljónir, verðskuldaði sannarlega frelsið. Biblían lýsir aðstæðum Ísraelsmanna í ánauðinni á þennan hátt: „Egyptar þjökuðu þá vægðarlaust.“ (2. Mósebók 1:11-14) Einn af faraóunum lét jafnvel myrða nýfædd börn Ísraelsmanna til að koma í veg fyrir öra fjölgun þeirra. – 2. Mósebók 1:8-22.
Frelsun Ísraelsmanna undan óréttlátri meðferð Egypta var einstök vegna þess að Guð stóð að baki henni. Hann sagði við Móse um þjóðina: „Ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni.“ (2. Mósebók 3:7, 8) Enn í dag halda Gyðingar um allan heim páskahátíðina til að minnast þessa atburðar. – 2. Mósebók 12:14.
ENDANLEGT AFNÁM ÞRÆLAHALDS
Biblían fullvissar okkur um að hjá Jehóva Guði sé ekkert ranglæti og að hann hafi ekki breyst. (2. Kroníkubók 19:7; Malakí 3:6) Guð sendi Jesú til að „boða bandingjum lausn og ... láta þjáða lausa“. (Lúkas 4:18) Merkti þetta bókstaflega að allir þrælar yrðu frjálsir? Greinilega ekki. Jesús var sendur til að leysa fólk úr ánauð syndar og dauða. Hann sagði síðar: „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Allt fram á þennan dag frelsar kennsla Jesú fólk úr ýmiss konar ánauð. – Sjá rammann „ Hann losnaði úr annars konar þrælkun“.
Í raun hjálpaði Guð bæði Jósef og Blessing að losna úr þrælkun, en á ólíkan hátt. Þú getur kynnt þér einstaka sögu Jósefs í köflum 39 til 41 í 1. Mósebók. En saga Blessing er ekki síður merkileg.
Blessing fór til Spánar eftir að henni var vísað úr öðru landi í Evrópu. Þar hitti hún votta Jehóva og fór að kynna sér Biblíuna með hjálp þeirra. Blessing var harðákveðin í að koma lífi sínu á réttan kjöl. Hún fékk sér fasta vinnu og samdi við hórumömmuna um að lækka mánaðarlegar greiðslur á skuldinni. Dag einn hringdi konan í hana. Hún sagðist ætla að fella niður skuldina og bað hana fyrirgefningar. Hvernig kom það til? Hún var einnig að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva! „Sannleikurinn frelsar okkur á stórkostlega vegu,“ segir Blessing.
Ill meðferð Egypta á Ísraelsmönnum hryggði Jehóva Guð. Það hlýtur því að hryggja hann að horfa upp á svipað óréttlæti nú á dögum. Til að afnema þrælahald í öllum sínum myndum þyrfti reyndar mikið að breytast í mannlegu samfélagi. En Guð hefur lofað að koma á slíkum breytingum. „Eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“ – 2. Pétursbréf 3:13.
^ gr. 2 Nafninu er breytt.