Þú getur notið góðs af umhyggju Guðs
Guð hefur skapað líkama okkar með stórkostlega getu til að græða sár. Þegar við skerum, hruflum eða stingum okkur „fer af stað flókið ferli sem er hannað til að græða sár, hvort sem þau eru stór eða smá“. (Johns Hopkins Medicine) Líkaminn tekur strax til starfa við að stöðva blæðinguna, víkka út æðarnar, laga sárið og styrkja vefinn.
HUGLEIDDU ÞETTA: Fyrst skaparinn hannaði líkama okkar með getu til að græða sár, megum við þá ekki vera viss um að hann standi líka við loforð sitt um að græða tilfinningaleg sár okkar? Sálmaritarinn segir: „Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra.“ (Sálmur 147:3) Hvernig geturðu verið viss um að Jehóva Guð bindi um tilfinningaleg sár þín – núna og í framtíðinni?
HVAÐ LÆRUM VIÐ AF BIBLÍUNNI UM KÆRLEIKA GUÐS?
Guð lofar okkur: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ (Jesaja 41:10) Sá sem veit að Jehóva ber umhyggju fyrir honum hefur hugarfrið og styrk til að takast á við raunir. Páll postuli sagði að þessi innri ró væri „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi“. Hann bætti við: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ – Filippíbréfið 4:4-7, 9, 13.
Í Biblíunni fáum við hjálp til að byggja upp trú á að Jehóva standi við loforð sín varðandi framtíð mannkyns. Dæmi um slíkt loforð er í Opinberunarbókinni 21:4, 5. Þar kemur fram hvað Jehóva Guð ætlar að gera og af hverju við getum treyst því:
-
„Hann mun þerra hvert tár“ af augum manna. Jehóva mun afmá allar þjáningar og áhyggjur okkar, jafnvel þær sem öðrum finnst smávægilegar.
-
,Sá sem situr í hásætinu‘ í himneskri dýrð sinni er almáttugur konungur allrar sköpunar. Hann mun nota mátt sinn og vald til að koma í veg fyrir þjáningar og veita okkur þá aðstoð sem við þurfum.
-
Jehóva ábyrgist að loforð sín séu ,trú og sönn‘. Það er að segja, hann lofar að standa við orð sín sem hinn sanni Guð og leggur orðspor sitt að veði.
„Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. Sá sem í hásætinu sat sagði: ,Sjá, ég geri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ,Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ – Opinberunarbókin 21:4, 5.
Bæði efnisheimurinn og Biblían bera vitni um himneskan föður okkar og eiginleika hans. Sköpunarverkið getur vakið með okkur löngun til að kynnast Guði og gera hann að nánum vini okkar en í Biblíunni er okkur beinlínis boðið að kynnast honum: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jakobsbréfið 4:8) Í Postulasögunni 17:27 segir: „Eigi er hann langt frá neinum af okkur.“
Þegar þú tekur þér meiri tíma til að kynnast Guði verðurðu æ sannfærðari um að ,hann beri umhyggju fyrir þér‘. (1. Pétursbréf 5:7) Hvernig gagnast það okkur að bera slíkt traust til Jehóva?
Skoðum dæmi Toru frá Japan. Móðir hans var kristin en þrátt fyrir það flækti hann sig í ofbeldisfullum heimi yakuza, japönsku mafíunnar. Hann segir: „Ég var viss um að Guð hataði mig. Þegar fólk í kringum mig dó, sérstaklega þeir sem voru mér kærir, fannst mér Guð vera að refsa mér.“ Toru viðurkennir að þetta slæma umhverfi og hugarástand hans hafi gert hann „harðbrjósta og tilfinningalausan“. Hann rifjar upp hvernig hann hugsaði á þessum tíma: „Mig langaði að skapa mér nafn með því að drepa einhvern sem var þekktari en ég og deyja síðan ungur.“
En þegar Toru fór að kynna sér Biblíuna ásamt Hönnuh, eiginkonu sinni, gerði hann róttækar breytingar á lífi sínu og viðhorfum. Hannah segir: „Ég tók vel eftir breytingunum í fari eiginmanns míns.“ Núna segir Toru með fullvissu: „Það er til Guð sem lætur sér virkilega annt um hvert og eitt okkar. Hann vill ekki að neinn deyi og hann er fús til að fyrirgefa þeim sem iðrast synda sinna í einlægni. Hann hlustar á það sem við getum ekki sagt neinum öðrum og enginn annar myndi skilja. Í náinni framtíð fjarlægir Jehóva öll vandamál, þjáningar og angist. Og það kemur okkur oft á óvart hvernig hann hjálpar okkur núna. Hann ber umhyggju fyrir okkur og hjálpar okkur þegar við erum niðurdregin.“ – Sálmur 136:23.
Guð getur útrýmt allri sorg og þerrað öll tár okkar og fljótlega mun hann gera það. Að vita það gefur okkur ekki bara örugga framtíðarvon heldur hjálpar okkur einnig að lifa góðu lífi núna, eins og reynsla Toru sýnir. Jafnvel í heimi sem er gegnsýrður af þjáningum getur þú notið góðs af umhyggju Guðs.