Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forðastu sjálfelsku heimsins

Forðastu sjálfelsku heimsins

HEFURÐU tekið eftir að nú á tímum eru margir heimtufrekir og finnst að þeir eigi rétt á sérstakri virðingu annarra? Og þótt þeim sé gert hátt undir höfði eru þeir aldrei ánægðir. Þetta viðhorf er sprottið af vanþakklæti og sjálfselsku, eiginleikum sem einkenna fólk á síðustu dögum. – 2. Tím. 3:2.

Sjálfselska er að sjálfsögðu ekki ný af nálinni. Adam og Eva ákváðu að velja sjálf hvað væri gott og illt og afleiðingarnar voru hörmulegar. Öldum síðar stóð Ússía Júdakonungur í þeirri trú að hann ætti rétt á að færa reykelsisfórn í musterinu. Það voru alvarleg mistök hjá honum. (2. Kron. 26:18, 19) Farísear og Saddúkear héldu líka að þeir verðskulduðu sérstaka velvild Guðs bara af því að þeir voru afkomendur Abrahams. – Matt. 3:9.

Alls staðar í kringum okkur er sjálfselskt og eigingjarnt fólk sem við getum smitast af. (Gal. 5:26) Við gætum farið að hugsa sem svo að við ættum rétt á hinu og þessu. Hvernig getum við forðast að verða sjálfselsk og heimtufrek? Fyrsta skrefið er að vita hvað Jehóva finnst um málið. Skoðum tvær meginreglur Biblíunnar sem geta komið að gagni.

Jehóva ákveður hvað við eigum skilið. Hér eru nokkur dæmi.

  • Í fjölskyldunni þarf eiginmaður að finna að konan hans virði hann og hún þarf að finna að hann elski hana. (Ef. 5:33) Jehóva vill að hjón sýni aðeins hvort öðru rómantískan áhuga. (1. Kor. 7:3) Foreldrar ætlast réttilega til þess að börnin þeirra hlýði þeim. Og börn ættu að fá ást og stuðning foreldra sinna. – 2. Kor. 12:14; Ef. 6:2.

  • Við ættum að sýna öldungum safnaðarins virðingu fyrir alla þá vinnu sem þeir leggja á sig. (1. Þess. 5:12) En þeir hafa þó engan rétt til að ráðskast með trúsystkini sín. – 1. Pét. 5:2, 3.

  • Guð leyfir að stjórnvöld krefjist skatta og virðingar af þegnum sínum. – Rómv. 13:1, 6, 7.

Jehóva gefur okkur miklu meira en við eigum skilið. Vegna syndarinnar verðskuldum við bara að deyja. (Rómv. 6:23) En Jehóva elskar okkur svo mikið að hann blessar okkur með margvíslegum hætti. (Sálm. 103:10, 11) Allt sem við þiggjum frá honum er vegna einstakrar góðvildar hans. – Rómv. 12:6–8; Ef. 2:8.

HVERNIG FORÐUMST VIÐ SJÁLFSELSKU OG HEIMTUFREKJU?

Varastu hugarfar heimsins. Við gætum farið að hugsa að við ættum meira skilið en aðrir án þess að taka eftir því. Jesús sýndi að þetta getur auðveldlega gerst. Hann sagði dæmisögu um verkamenn sem fengu borgað einn denar fyrir vinnu sína. Sumir verkamennirnir byrjuðu snemma morguns og unnu allan daginn í steikjandi sól. Aðrir unnu bara í eina klukkustund. Fyrri hópnum fannst hann eiga rétt á hærra kaupi fyrir allt erfiðið sem hann hafði lagt á sig. (Matt. 20:1–16) Með þessari dæmisögu sýndi Jesús að fylgjendur sínir ættu að vera ánægðir með það sem Guð gefur þeim.

Mennirnir sem unnu allan daginn heimtuðu hærra kaup.

Vertu þakklátur en ekki heimtufrekur. (1. Þess. 5:18) Líktu eftir Páli postula sem bað bræður sína í Korintu ekki um efnislega hjálp jafnvel þótt hann ætti rétt á því. (1. Kor. 9:11–14) Við ættum að vera þakklát fyrir allar gjafir sem við fáum og forðast tilætlunarsemi.

Páll postuli krafðist ekki efnislegrar hjálpar.

Ræktaðu með þér auðmýkt. Þeim sem finnst þeir vera merkilegri en aðrir finnst þeir oft eiga betra skilið. Auðmýkt hjálpar okkur að forðast þá ranghugmynd.

Daníel var mjög dýrmætur í augum Jehóva af því að hann var auðmjúkur.

Daníel spámaður er frábær fyrirmynd um mann sem var auðmjúkur. Hann kom úr mikilvægri fjölskyldu, var myndarlegur, skarpur og hæfileikaríkur. Hann hefði hæglega getað dregið þá ályktun að hann verðskuldaði þau forréttindi sem hann naut. (Dan. 1:3, 4, 19, 20) En Daníel var auðmjúkur og þess vegna mat Jehóva hann mikils. – Dan. 2:30; 10:11, 12.

Höfnum eigingirni og sjálfselsku sem er svo ríkjandi í heimi nútímans. Verum öllu heldur ánægð með allt sem Jehóva gefur okkur vegna einstakrar góðvildar sinnar.