Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa

Hvernig getur tilhugalífið verið árangursríkt?

Hvernig getur tilhugalífið verið árangursríkt?

‚Hinn huldi maður hjartans er mikils virði.‘1. PÉT. 3:4.

Í HNOTSKURN

Það sem par í tilhugalífinu getur gert til að það gegni sínu hlutverki og hvernig aðrir í söfnuðinum geta sýnt stuðning.

1, 2. Hvað finnst sumum um tilhugalíf?

 TILHUGALÍF getur verið ánægjulegt og spennandi. Þú vilt eflaust njóta þess ef þú ert í þeim aðstæðum. Fyrir marga er þetta góður tími. Tsion a er systir frá Eþíópíu. Hún segir: „Eitt besta tímabil í lífi mínu var þegar maðurinn minn og ég kynntumst. Við ræddum mikilvæg mál og gátum hlegið saman. Ég var ánægð þegar ég áttaði mig á því að ég hafði fundið mann sem ég elskaði og sem elskaði mig.“

2 Alessio, sem er bróðir frá Hollandi, segir: „Það var ánægjulegur tími þegar við konan mín vorum að kynnast en það voru líka áskoranir.“ Í þessari námsgrein ræðum við um hugsanlegar áskoranir og nokkrar meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað pörum að eiga árangursríkt tilhugalíf. Við skoðum líka hvernig aðrir í söfnuðinum geta stutt pör sem eru að kynnast.

TILGANGURINN MEÐ TILHUGALÍFI

3. Hver er tilgangurinn með tilhugalífi? (Orðskviðirnir 20:25)

3 Þótt tilhugalíf geti verið ánægjulegt er það líka alvarlegt mál þar sem það snýst á endanum um hjónaband. Á brúðkaupsdaginn heita maður og kona frammi fyrir Jehóva að elska og virða hvort annað það sem eftir er ævinnar. Við ættum alltaf að hugleiða það vandlega áður en við vinnum heit. (Lestu Orðskviðina 20:25.) Það á sannarlega við um hjúskaparheitið. Tilhugalífið gefur pari tækifæri til að kynnast og taka góða ákvörðun. Stundum hefur það hjónaband í för með sér en stundum er endi bundinn á sambandið. Ef sambandið endar merkir það ekki að tilhugalífið hafi misheppnast. Það þjónaði þeim tilgangi að hjálpa einstaklingunum að taka góða ákvörðun.

4. Hvers vegna ættum við að hafa rétt viðhorf til tilhugalífs?

4 Hvers vegna er mikilvægt að hafa rétt viðhorf til tilhugalífs? Þegar einhleypir einstaklingar hafa rétt viðhorf fara þeir ekki út í tilhugalíf með einhverjum sem þeir ætla sér ekki að giftast. En það eru ekki bara einhleypir sem þurfa að hafa rétt viðhorf. Við ættum öll að tileinka okkur það. Sumum gæti fundist að par sem er í tilhugalífi verði að gifta sig. Hvaða áhrif hefur slíkt viðhorf á einhleypa þjóna Guðs? Melissa, einhleyp systir í Bandaríkjunum, segir: „Það er mikill þrýstingur á votta í tilhugalífi. Það gerir það að verkum að sum pör halda því áfram þótt þau finni að þau passi ekki saman. Aðrir einhleypir einstaklingar forðast tilhugalíf með öllu. Þrýstingurinn getur verið yfirþyrmandi.“

KYNNIST HVORT ÖÐRU VEL

5, 6. Hverju ætti par í tilhugalífi að reyna að átta sig á? (1. Pétursbréf 3:4)

5 Hvað getur hjálpað ykkur að ákveða hvort þið ættuð að gifta ykkur ef þið eruð í tilhugalífi? Kynnist hvort öðru vel. Þið byrjuðuð trúlega að kynnast fyrir tilhugalífið. En núna fáið þið tækifæri til að kynnast ‚hinum hulda manni hjartans‘. (Lestu 1. Pétursbréf 3:4.) Hvernig er samband mögulegs maka þíns við Jehóva og hvernig er persónuleiki hans og hugarfar? Með tímanum ættuð þið að geta svarað spurningum eins og: Verður þessi manneskja góður maki fyrir mig? (Orðskv. 31:26, 27, 30; Ef. 5:33; 1. Tím. 5:8) Getum við uppfyllt tilfinningalegar þarfir hvort annars? Getum við horft fram hjá göllum hvor annars? b (Rómv. 3:23) Munið þegar þið kynnist hvort öðru betur að það veltur meira á aðlögunarhæfni ykkar en hversu lík þið eruð hvort þið eigið saman.

6 Hverju ættirðu að leitast við að kynnast hjá hinum einstaklingnum í tilhugalífinu? Áður en þú verður of tilfinningalega tengdur honum getur verið gott að ræða ýmis mikilvæg mál eins og hvaða markmið hann hefur. En hvað um persónuleg mál eins og heilsufar, fjárhagsvandamál eða fyrri áföll? Það þarf ekki að ræða öll mál í upphafi tilhugalífsins. (Samanber Jóhannes 16:12.) Segðu til ef þér finnst of snemmt að svara sumum persónulegum spurningum. Með tímanum þarf tilvonandi maki þinn samt að fá þessar upplýsingar til að geta tekið yfirvegaða ákvörðun. Þú þarft því að vera tilbúinn að tala um þessi mál á einhverjum tímapunkti.

7. Hvernig getur par í tilhugalífinu kynnst? (Sjá einnig rammann „ Tilhugalíf í fjarsambandi“.) (Sjá einnig myndir.)

7 Hvernig geturðu kynnst hinum einstaklingnum eins og hann er í raun og veru? Ein besta leiðin til þess er að tala opinskátt og af hreinskilni, spyrja spurninga og hlusta síðan vel. (Orðskv. 20:5; Jak. 1:19) Þið getið kannski gert eitthvað saman sem auðveldar ykkur að spjalla saman eins og borða saman, fara í göngutúr á almenningssvæði eða í boðunina. Þið kynnist líka ýmsu um hvort annað þegar þið eruð með vinum og fjölskyldu hvort annars. Skipuleggið auk þess eitthvað sem leiðir í ljós hvað hinn einstaklingurinn gerir í mismunandi aðstæðum og með mismunandi fólki. Það er athyglisvert hvað Aschwin frá Hollandi reyndi að gera. Hann segir um tilhugalífið með Aliciu: „Við reyndum að gera eitthvað sem hjálpaði okkur að kynnast hvort öðru. Þetta var oft eitthvað einfalt eins og að elda mat eða vinna heimilisverk saman. Þannig komum við auga á styrkleika og veikleika hvort annars.“

Það er líklegra að þið kynnist betur ef þið gerið eitthvað saman sem auðveldar ykkur að tala saman. (Sjá 7. og 8. grein.)


8. Hvaða gagn getur par í tilhugalífi haft af því að rannsaka Biblíuna saman?

8 Þið getið líka kynnst betur með því að rannsaka biblíulegt efni saman. Ef þið eigið eftir að giftast þurfið þið að taka ykkur tíma fyrir fjölskyldunám til að Guð skipi mikilvægan sess í hjónabandi ykkar. (Préd. 4:12) Hvers vegna ekki að taka ykkur tíma til að rannsaka Biblíuna saman meðan þið eruð að kynnast? Karl og kona í tilhugalífi eru að sjálfsögðu ekki enn orðin hjón og bróðirinn því ekki höfuð systurinnar. En þið getið samt kynnst hinum andlega manni hvort annars þegar þið gerið þetta reglulega. Max og Laysa eru hjón frá Bandaríkjunum. Þau uppgötvuðu fleira gagnlegt við að lesa saman biblíulegt efni. Hann segir: „Við lásum snemma á tímabilinu efni um tilhugalíf, hjónaband og fjölskyldulíf. Það varð kveikjan að umræðum um mikilvæg málefni sem hefðu annars ekki komið upp.“

ANNAÐ SEM ER GOTT AÐ HUGLEIÐA

9. Hvað ætti par sem er að kynnast að hugleiða þegar það ákveður hverjum það segir frá sambandinu?

9 Hverjum ættuð þið að segja frá sambandinu? Það er eitthvað sem þið sem par ákveðið saman. Til að byrja með gætuð þið takmarkað hverjum þið segið frá því. (Orðskv. 17:27) Þannig gætuð þið forðast óþarfa þrýsting og spurningar. En ef þið segið engum frá því gætuð þið endað með því að einangra ykkur af ótta við að aðrir komist að því. Það getur verið hættulegt. Það væri því skynsamlegt að láta í það minnsta þá vita sem geta veitt góð ráð og aðra hjálp. (Orðskv. 15:22) Þið gætuð til dæmis sagt einhverjum í fjölskyldunni, þroskuðum vinum eða öldungum frá því.

10. Hvað getur par gert til að tilhugalífið sé Guði þóknanlegt? (Orðskviðirnir 22:3)

10 Hvernig getið þið haft tilhugalíf ykkar Guði þóknanlegt? Eftir því sem tilfinningarnar verða sterkari verðið þið eðlilega hrifnari af hvort öðru. Hvað getur hjálpað ykkur að forðast það sem myndi vera Jehóva vanþóknanlegt? (1. Kor. 6:18) Forðist siðlaust tal, að vera tvö ein og að drekka of mikið áfengi. (Ef. 5:3) Slíkt getur vakið upp ástríður og veikt ásetning ykkar um að gera það sem er rétt. Hvers vegna ekki að ræða reglulega saman hvað þið getið gert til að virða hvort annað og mælikvarða Jehóva. (Lestu Orðskviðina 22:3.) Dawit og Almaz eru frá Eþíópíu. Hvað hjálpaði þeim? Þau segja: „Við hittumst þar sem margir voru á ferðinni eða með hópi vina. Við vorum aldrei tvö ein í bíl eða húsi. Þannig forðuðumst við aðstæður sem hefðu getað leitt til freistingar.“

11. Hvað ætti par í tilhugalífi að hugleiða í sambandi við að láta í ljós væntumþykju?

11 Hvað með að sýna væntumþykju? Þegar ást ykkar vex finnst ykkur kannski viðeigandi að sýna hvort öðru einhver blíðuhót. En ef ástríður vakna gætuð þið átt erfitt með að sjá hvort annað raunsæjum augum. (Ljóðalj. 1:2; 2:6) Blíðuhót geta auðveldlega magnast og endað með því að þið gerið eitthvað sem er Jehóva vanþóknanlegt. (Orðskv. 6:27) Ræðið því snemma í tilhugalífinu mörkin sem þið setjið ykkur í samræmi við meginreglur Biblíunnar. c (1. Þess. 4:3–7) Spyrjið ykkur sem par: Hvernig myndi fólk þar sem við búum líta á það ef við sýnum hvort öðru blíðuhót? Gætu þau vakið ástríður hjá okkur?

12. Hvað ætti par í tilhugalífi að vera meðvitað um varðandi vandamál og ágreining?

12 Hvernig getið þið tekist á við vandamál og ágreining? Hvað ef það er stundum ágreiningur ykkar á milli? Gefur það til kynna að samband ykkar sé ekki að ganga? Ekki endilega. Öll pör eru einhvern tíma ósammála. Gott hjónaband samanstendur af tveim einstaklingum sem geta unnið saman og leyst ágreining sem kemur upp. Hvernig ykkur tekst að leysa vandamál sem koma upp núna leiðir ef til vill í ljós hvort hjónaband ykkar verði farsælt. Spyrjið ykkur: Getum við rætt málin af ró og virðingu? Viðurkennum við fúslega mistök okkar og reynum að bæta okkur? Erum við fljót að gefa eftir, biðjast afsökunar og fyrirgefa? (Ef. 4:31, 32) Ef þið á hinn bóginn deilið stöðugt í tilhugalífinu batnar það trúlega ekki eftir að þið giftið ykkur. Ef þú áttar þig á því að hinn einstaklingurinn er ekki sá rétti fyrir þig væri besta ákvörðunin fyrir ykkur bæði að binda enda á sambandið. d

13. Hvað getur hjálpað pari að ákveða hversu langan tíma það ætti að taka til að kynnast?

13 Hversu langan tíma þurfið þið til að kynnast? Ákvarðanir teknar í flýti hafa oft neikvæðar afleiðingar. (Orðskv. 21:5) Þið ættuð því að taka ykkur nægilegan tíma til að kynnast vel. Þið ættuð samt ekki að teygja þetta tímabil lengur en nauðsynlegt er. Biblían segir: „Langdregin eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ (Orðskv. 13:12) Auk þess getur verið erfiðara að standast kynferðislegar freistingar eftir því sem þið verjið meiri tíma saman. (1. Kor. 7:9) Í stað þess að einblína á tímann sem þið hafið notað í að kynnast gætuð þið velt því fyrir ykkur hvað þið þurfið að vita meira um hvort annað til að geta ákveðið ykkur.

HVERNIG GETA AÐRIR STUTT PAR SEM ER AÐ KYNNAST?

14. Hvernig geta aðrir veitt pari í tilhugalífi hjálp og stuðning? (Sjá einnig mynd.)

14 Hvernig getum við aðstoðað par sem við þekkjum í tilhugalífi? Við gætum boðið því í mat, fjölskyldunám eða afþreyingu með okkur. (Rómv. 12:13) Þannig geta þau kynnst hvort öðru jafnvel enn betur. Þú gætir kannski aðstoðað þau með því að vera siðgæðisvörður, vera þeim samferða í bíl eða gefa þeim tækifæri til að tala saman í næði. (Gal. 6:10) Alicia, sem áður er minnst á, rifjar upp hvað hún og Aschwin kunnu að meta. Hún segir: „Það gladdi okkur þegar sumir bræður og systur buðu okkur í heimsókn til að geta hist án þess að við værum bara tvö ein.“ Þú getur litið á það sem dýrmæta leið til að hjálpa vinum þínum ef þú ert beðinn um að vera siðgæðisvörður. Gættu þess að skilja þau ekki eftir tvö ein en gefðu þeim samt tækifæri til að tala saman í næði. – Fil. 2:4.

Ef við þekkjum par í tilhugalífi getum við stutt það á ýmsa vegu. (Sjá 14. og 15. grein.)


15. Hvað fleira geta vinir gert til að aðstoða par í tilhugalífi? (Orðskviðirnir 12:18)

15 Við getum líka stutt par í tilhugalífi með því sem við segjum og látum ósagt. Við gætum stundum þurft að sýna sjálfstjórn. (Lestu Orðskviðina 12:18.) Við erum kannski mjög spennt að segja öðrum frá pari sem er að kynnast en það vill kannski fá að segja frá því sjálft. Við ættum ekki að slúðra um par í tilhugalífi eða gagnrýna það í sambandi við persónuleg mál. (Orðskv. 20:19; Rómv. 14:10; 1. Þess. 4:11) Og par kann ef til vill ekki að meta athugasemdir og spurningar sem gefa í skyn að það ætti eða muni gifta sig. Systir sem heitir Elise og eiginmaður hennar segja: „Okkur fannst það vandræðalegt þegar aðrir spurðu okkur um brúðkaup þegar við höfðum ekki rætt það sjálf.“

16. Hver ættu viðbrögð okkar að vera þegar par bindur enda á sambandið?

16 Hvað ef par ákveður að binda enda á sambandið? Við ættum að forðast að skipta okkur af því eða kenna öðru hvoru um hvernig fór. (1. Pét. 4:15) Systir sem heitir Lea segir: „Ég frétti að aðrir hefðu velt því fyrir sér hvers vegna ég og bróðir hættum saman. Það særði mig mikið.“ Eins og áður er minnst á er það ekki endilega slæmt ef par slítur sambandinu. Venjulega þýðir það að tilhugalífið hafi þjónað sínum tilgangi, það hafi hjálpað parinu að taka góða ákvörðun. En ákvörðunin gæti samt hafa valdið þeim tilfinningalegum sársauka og þau gætu verið einmana. Við ættum frekar að reyna að styðja þau. – Orðskv. 17:17.

17. Hvað ætti par í tilhugalífi að halda áfram að gera?

17 Eins og við höfum séð getur tilhugalíf haft áskoranir í för með sér en það getur líka verið ánægjulegt. Jessica segir: „Tilhugalífið var í sannleika sagt mikil vinna. En það var algerlega þess virði að nota þann tíma og orku sem það krafðist.“ Haldið áfram að kynnast hvort öðru vel ef þið eruð í tilhugalífi. Ef þið gerið það verður það árangursríkt og hjálpar ykkur báðum að taka skynsamlega ákvörðun.

SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Að gæla við kynfæri annarrar persónu er ein mynd kynferðislegs siðleysis og slíkt athæfi kallar á að safnaðaröldungar skipi dómnefnd. Að gæla við brjóst eða eiga siðlausar samræður í skilaboðum eða síma getur eftir aðstæðum einnig kallað á að safnaðaröldungar skipi dómnefnd.

d Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. ágúst 2000 til að fá frekari upplýsingar.