Ræktað besta vináttusamband í öllum alheiminum
Ræktað besta vináttusamband í öllum alheiminum
„En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.“ — JESAJA 41:8.
1. Hvað veldur því að sannur vinur bregst aldrei?
HVERSU dýrmætt er það ekki að eiga vin sem aldrei bregst! En hver er eiginlega grundvöllur ósvikinnar og traustrar vináttu? Hún er byggð á eiginleika sem aldrei bregst, þannig að sannur vinur bregst aldrei. Hver er þessi eiginleiki? Það er kærleikurinn sem Páll postuli talaði um þegar hann sagði: „Kærleikurinn bregst aldrei.“ — 1. Korintubréf 13:8, NW.
2. Hvaða sérstaka merkingu hefur sagnorðið sem gríska orðið fyrir „vinur“ er myndað af?
2 Það nafnorð í Hebresku ritningunum, sem þýtt er „kærleikur,“ er myndað af sögn sem merkir „að elska.“ (5. Mósebók 6:4, 5; samanber Matteus 22:37.) Og orðin „þú skalt elska“ í hebreska textanum eru þýdd með sagnorðinu agapan í grísku Sjötíumannaþýðingunni. En í þeirri fornu þýðingu og í kristnu Grísku ritningunum er nafnorðið, sem þýtt er „vinur,“ ekki dregið af agapan heldur er það filos, myndað af sögn sem merkir „að þykja vænt um.“ Gríski frumtextinn gefur því til kynna að milli vina ríki væntumþykja og ástúð. Íslenska orðið „vinur“ er einnig talið skylt latnesku orði sem meðal annars þýðir „kærleikur.“ — Sjá Dansk etymologisk ordbok.
3. Hvers konar kærleiksböndum eru lærisveinar Jesú tengdir honum, borið saman við kærleika Guðs til mannheimsins?
3 Gríska sögnin, sem nafnorðið „vinur“ er leitt af, felur því í sér hlýlegri og innilegri tilfinningu en þá sem tjáð er með sögninni agapan sem kemur fyrir í gríska textanum í Jóhannesi 3:16. Þar er haft eftir Jesú: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Kærleikurinn, (á grísku agape) sem Jehóva sýnir, er því nógu víðfeðmur til að ná til alls mannheimsins þrátt fyrir syndugt eðli mannsins. En hinn eingetni sonur Guðs sagði ellefu trúföstum postulum sínum að þeir væru bundnir honum enn hlýlegri og innilegri kærleiksböndum.
Dýrmæt vinátta
4. Hvað urðu lærisveinar Jesú að gera til að varðveita vináttu hans, og hvaða trúnaðarsamband myndi sú vinátta veita þeim?
4 Jesús sagði þessum postulum að þeir myndu halda áfram að vera vinir hans ef þeir gerðu það sem hann byði þeim. Af orðum Jesú kemur fram að þessi vinátta myndi hafa í för með sér innilegt trúnaðarsamband byggt á gagnkvæmu trausti. Hann sagði: „Ég kalla yður ekki framar þjóna, því að þjónninn veit ekki hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því að ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:14, 15) Þegar Jesús sagði þetta notaði hann orðið filos um einn og sérhvern af þessum postulum.
5. Á hverju byggist vináttan, sem getið er um í Orðskviðunum 18:24, og hversu traust er slíkt samband?
5 Samkvæmt Orðskviðunum 18:24 sagði hinn innblásni spekingur: „Að vera allra vinur er til tjóns, en til er ástvinur sem er tryggari en bróðir.“ Slík vinátta byggist ekki á blóðböndum heldur réttu mati á manngildi vinarins. Ættingjar að holdinu geta yfirgefið hver annan af ýmsum eigingjörnum ástæðum, en traustur vinur bregst ekki og bregður ekki vináttu sinni þótt erfiðleikar, vandamál og prófraunir verði á veginum.
6. Vináttu hverra erum við minnt á og hvernig endurgalt Davíð síðar þá vináttu?
6 Hér koma ef til vill upp í hugann Jónatan, sonur Sáls konungs sem fallinn var í ónáð, og Davíð sem Jehóva Guð hafði útvalið og smurt til að vera konungur Ísraels. Vinátta þeirra hélst allt þar til Jónatan féll á stríðsvellinum. Þegar þær sorglegu fréttir bárust Davíð til eyrna orti hann sorgarljóðið sem skráð er í 2. Samúelsbók 1:17-27. Orð Davíðs bera því glöggt vitni hversu innilegt vináttusamband hans við Jónatan var: „Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ Vinátta sem þessi myndi ekki gleymast. Hún var ástæðan fyrir miskunn Davíðs við Mefíbóset, eftirlifandi son Jónatans. — 2. Samúelsbók 9:1-10.
7. (a) Er vinátta, eins og ríkti milli Davíðs og Jónatans, horfin af sjónarsviðinu núna? (b) Hvaða trúnaðarsamband er samfara slíkri vináttu eins og Jesús greindi trúföstum postulum sínum frá?
7 Þessa dýrmætu tegund vináttu er enn að finna á jörðinni. Núna, við ‚endi veraldar‘ þegar ‚kærleikur flestra hefur kólnað,‘ má glöggt finna fyrir slíkum hlýjum vináttuböndum meðal hinna vígðu, skírðu votta Jehóva Guðs sem gefa um allan heim þann vitnisburð sem Jesús sagði fyrir um. (Matteus 24:3-14) Vinir eru vanir að segja hver öðrum leyndarmál vegna þess að þeir sýna hver öðrum trúnaðartraust. Munum að þegar Jesús var að ræða síðla kvölds við postulana ellefu, sem höfðu staðið með honum, sagði hann: „Ég kalla yður vini, því að ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóhannes 15:14, 15) Já, andlegar upplýsingar í orði Guðs, til dæmis spádómar sem bráðum munu uppfyllast, eru fyrst opinberaðir hinum sönnu, andagetnu ‚vinum‘ meistarans, Jesú Krists. Þessir „vinir“ skyldu síðan hafa þau sérréttindi og þá ábyrgð að opinbera áður leynda hluti þeim sem vildu eignast vináttusamband við Jehóva Guð, en hann er höfundur slíkra leyndra hluta.
8. Hverjum veitir Jehóva trúnaðarsamband við sig og hvernig talaði Jesús um sáttmálann sem felur í sér slíkt trúnaðarsamband?
8 Þannig hefur Jehóva komið fram gagnvart andagetnum dýrkendum sínum sem fengið hafa aðild að nýja sáttmálanum fyrir milligöngu Jesú Krists. Þegar Jesús stofnsetti kvöldmáltíð Drottins sagði hann: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthelt.“ (Lúkas 22:20, Ísl. bi. 1912) Það var í samræmi við Sálm 25:14 sem segir: „[Jehóva] sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.“ Þeir sem eignast vináttusamband við Jehóva Guð og meðalgangarann, Jesú Krist, eignast hlutdeild í mjög óvenjulegri þekkingu!
Þeir sem Jehóva vingast við
9. Er það ofdirfska af okkur að halda að Jehóva stofni til vináttu við menn? Hvaða ritningargreinar staðfesta svar þitt?
9 Er hugsanlegt að við getum átt hinn hæsta og alvalda Guð sem náinn einkavin? Hefur hann lítillækkað sig svo mikið að hann geti orðið vinur okkar? Það er engin ofdirfska að álíta það. Í bréfi til andlegra Ísraelsmanna, skrifað fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70, sagði Jakob: „Ritningin rættist, sem segir: ‚Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður Guðs vinur.“ (Jakobsbréfið 1:1; 2:23; 1. Mósebók 15:6; Galatabréfið 6:16) Á einum stað í Hebresku ‚ritningunni,‘ sem Jakob vísaði hér í, lesum við þetta ákall Jósafats konungs til Guðs þegar umfangsmikil árás vofði yfir Jerúsalem: „Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi.“ (2. Kroníkubók 20:7) Hebreska orðið, sem hér er þýtt ‚vinur,‘ felur í sér kærleika frekar en vináttu. Enginn vafi leikur á að Abraham elskaði Jehóva, Guðinn sem kallaði hann út úr Úr í Kaldeu og leiddi hann inn í fyrirheitna landið. Kærleikur Abrahams gerði að verkum að Jehóva gat vingast við hann, gert hann að ástvini sínum.
10. Orð hvers um vináttu er að finna í Jesaja 41:8, og hvaða viðhorf til Jehóva veitti Abraham sérstaka stöðu gagnvart Guði?
10 Í Jesaja 41:8 finnum við hins vegar þessi hvetjandi orð Jehóva til þjóðarinnar sem komin var af Abraham: „En þú, Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.“ Hinn hæsti Guð heiðraði þetta vináttusamband við Abraham með því að veita honum að vera hinn nafntogaði forfaðir Jesú Krists, frelsara alls mannkynsins, þar á meðal Abrahams sjálfs. Þessi afkomandi Abrahams var langtum meira en aðeins vinur Jehóva Guðs því að hann var ástkær sonur hans. — Jóhannes 3:16.
11. Hvers vegna hlýtur vináttusamband við Jehóva að verða prófreynt?
11 Hvaða ályktun getum við dregið af því sem á undan er komið? Að mannverur hérna niðri á „fótskör“ Jehóva eigi kost á að vera vinir hans. (Jesaja 66:1) Að sjálfsögðu mun hið dýrmæta vináttusamband okkar við hann verða prófreynt í þessum gamla heimi, því að Satan djöfullinn, „guð þessarar aldar,“ mun reyna að spilla því. — 2. Korintubréf 4:4.
12. Hvað ættum við, eins og Job í Úz-landi, að vera staðráðin í að gera í sambandi við vináttu okkar við hinn hæsta?
12 Við skulum taka sem dæmi afburðamann trúarinnar til forna, Job að nafni. Kristni lærisveinninn Jakob sagði um hann: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Job var engin goðsagnapersóna heldur var hann til og bjó í Úz-landi á sínum tíma. Djöfullinn véfengdi að vinátta Jobs við Guð væri traust og varanleg, og Jehóva leyfði því Satan að leggja mjög erfiða prófraun fyrir Job. Satan reyndi að fá Job til að afneita Jehóva með því að leiða yfir hann átakanlegar raunir, en Job neitaði að styðja djöfulinn með því að afneita Guði sem hefði haft í för með sér að Job hefði dáið Satans megin í deilumálinu um drottinvaldið yfir alheiminum. Þess í stað sannaði Job Satan djöfulinn vera auvirðilegan lygara. Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sannaði hann hið sama. En hvað um okkur núna? Þeir sem kunna að meta vináttusamband Jehóva eru staðráðnir í að styðja málstað hans í þessari miklu deilu. Þeir munu halda því áfram þar til Satan og illum öndum hans er kastað í undirdjúpið og þaggað niður í þeim áður en þúsundáraríki Jesú Krists hefst. — Opinberunarbókin 20:1-4.
13. Hvaða gildi hefur vináttusamband við Jehóva Guð og eingetinn son hans, og hvaða stefnu verðum við að taka til að vera ekki kallaðir ‚ótrúir‘?
13 Ekkert vináttusamband jafnast á við það sem við getum átt við hinn hæsta Guð, Jehóva. Vinátta við hinn eingetna son Guðs er í næsta sæti. Slík vináttutengsl við þá hafa í för með sér eilíft líf og takmarkalausa hamingju fyrir okkur. Með réttu krefjast þeir af okkur algerrar hollustu. Við getum ekki bæði átt vináttusamband við þá og þennan dæmda, gamla heim. Við viljum ekki láta stimpla okkur andlegar ‚hórkonur‘ sem lesa má eftirfarandi um í Jakobsbréfinu 4:4: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ Þessum orðum var beint til andlegra Ísraelsmanna á fyrstu öld okkar tímatals, en þau eiga líka við votta Jehóva sem lifa núna á 20. öldinni.
Forðastu vináttubönd sem bregðast
14. Hvernig fá vottar Jehóva umflúið þá reynslu sem lýst er í Sakaría 13:4-6?
14 Úr því að vottar Jehóva gera sig ekki að vinum þessa spillta, ofbeldisfulla, gamla heims mega þeir þola illt umtal, misþyrmingar og ofsóknir. Hið sama mátti mesti vottur Jehóva á jörðinni, Jesús Kristur, þola og við erum honum ekki fremri. (Opinberunarbókin 1:5; 3:14) Með því að þeir eru heiðarlegir í því að laga hugsun sína eftir orði síns besta vinar, Jehóva Guðs, hafa þeir ekki orðið fyrir þeirri reynslu sem lýst er spádómlega í Sakaría 13:4-6. Þar stendur: „Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum [embættisklæðum úr hári, NW] til þess að blekkja aðra, heldur mun hver þeirra segja: ‚Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku.‘ Og segi einhver við hann: ‚Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?‘ þá mun hann svara: ‚Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna.‘“
15. Hvers vegna hafa klerkar kristna heimsins borið sérstök embættisklæði á opinberum vettvangi, og við hverja hafa þeir stofnað eigingjörn vináttubönd?
15 Um aldaraðir hafa klerkar kristna heimsins borið ‚embættisklæði‘ í þeim tilgangi að vekja athygli á trúarlegri atvinnu sinni og aðgreina sig frá og upphefja yfir þá safnaðarmeðlimi sem þeir kalla „leikmenn.“ Þetta gerir klerkastéttin þótt ekki sé nokkur minnsta vísbending um að Jesús Kristur, postular hans eða trúboðarnir, sem hann sendi út, hafi nokkurn tíma borið embættisklæði til að vekja athygli á stöðu sinni og miklast af henni. Nú er langt liðið á ‚endalokatíma veraldar‘ sem hófst þegar ‚tímum heiðingjanna‘ lauk árið 1914. (Matteus 24:3; Lúkas 21:24) Lengi hefur prestastéttin reynt að eiga gott vináttusamband við viðskipta-, hernaðar- og stjórnmálaöfl þessa heims. Það hefur hún gert í eigingjörnum tilgangi og án þess að hafa nokkurt samviskubit út af því. En þessi eigingjörnu vináttusambönd þeirra verða skammlíf!
16. (a) Hvað munu veraldlegir ‚vinir‘ klerkastéttarinnar fljótlega gera við hana samkvæmt spám Biblíunnar? (b) Hvaða örlög mun klerkastéttin ekki fá umflúið þrátt fyrir breytta stöðu sína?
16 Klerkar jafnt sem leikmenn lifa núna á tímum mikillar tækni og vísinda. Álag þessara tíma reynir mjög á slík veraldleg sambönd. Klerkastéttin fullyrðir að hún standi með Guði himnanna, en afskipti hennar af viðskipta-, hernaðar- og stjórnmálaöflum heimsins hafa hvorki aflað henni hylli Guðs né bætt ástandið í heimsmálunum. Brátt munu veraldlegir ‚vinir‘ klerkastéttarinnar gera sér ljóst að hún er þeim einskis virði, já, til trafala, og að spár hennar um bættan efnahag, óháðar ríki Jehóva í höndum Krists, eru falskar. Þessir veraldlegu ‚vinir‘ munu finna sig knúna til að gefa útrás vantrausti sínu, fyrirlitningu og hatri. Þeir munu tortíma prestastéttinni, eða í það minnsta svipta hana embættisklæðum, og lægja niður á leikmannastig eins og greint er frá í Sakaría 13:4-6. En þessi breytta staða mun ekki vernda prestastéttina gegn tortímingu með Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, sem sagt er fyrir um í Opinberunarbókinnni 17. og 18. kafla. Veraldlegir ‚vinir‘ klerkastéttarinnar munu bregðast henni algerlega.
17. Hvaða vináttuband er þess virði að rækta og hversu lengi?
17 Sannarlega er mikilvægt, þegar allt þetta er skoðað, að forðast eigingjörn vináttusambönd sem eru af rangri tegund! Hversu dýrmætt ætti ekki að vera fyrir okkur besta vináttusambandið sem kostur er að rækta! Það er þess virði að við ræktum það að eilífu.
Hvað finnst þér?
◻ Hvað verða lærisveinar Jesú að gera til að halda áfram að vera vinir hans?
◻ Hvernig vitum við að menn geta notið vináttu Jehóva, og hverjum sýnir hann trúnaðartraust?
◻ Hvers vegna hlýtur vinátta okkar við Guð að verða prófreynd?
◻ Hvernig geta vottar Jehóva forðast það sem sagt var fyrir um í Sakaría 13:4-6?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 19]
Davíð og Jónatan áttu innilegt, dýrmætt vináttusamband. Þú getur líka ræktað slík vináttubönd.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Abraham var „Guðs vinur.“ Ert þú það?