Dýrin í Opinberunarbókinni – hvers vegna að lesa um þau?
Dýrin í Opinberunarbókinni – hvers vegna að lesa um þau?
OPINBERUNARBÓKIN er það nafn sem gefið hefur verið síðustu bók Biblíunnar. Bókin er full af myndrænum lýsingum, og er þar meðal annars dregin upp mynd af dreka og þrem villidýrum. Þessi villidýr vekja óhug með sumum. Aðrir líta á efni Opinberunarbókarinnar sem heilaspuna gamals manns. Hvers vegna ættir þú þá að lesa um dýr Opinberunarbókarinnar? Vegna þess að þau tengjast hamingju þinni.
Jóhannes postuli var aldraður maður þegar hann ritaði Opinberunarbókina fyrir næstum 1900 árum. En merkir það að dýrin, sem hún lýsir, séu aðeins skynvillur elliærs manns? Nei, því að Jóhannes var ekki fyrsta gamalmennið sem sá slíkar sýnir. Maður að nafni Daníel sá líka dýr í sýn þegar hann var orðinn háaldraður, og þessar sýnir reyndust vera nákvæmir spádómar um breytingar á mannlegu stjórnarfari. (Daníelsbók 7. og 8. kafli) Jesús Kristur leit auk þess á Daníelsbók sem innblásna af Guði, kallaði Daníel spámann og vitnaði í rit hans. — Matteus 24:15.
Jesús gaf til kynna að postular hans myndu fá frekari fyrirmæli frá Guði eftir að hann sjálfur væri fallinn frá. (Jóhannes 17:12, 13) Þar eð margar af lýsingum Opinberunarbókarinnar hafa ræst með eftirtektarverðum hætti megum við treysta að sýnir Jóhannesar postula um dýrin hafi líka verið innblásnar af Guði. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Inngangsorð Opinberunarbókarinnar hljóða svo: „Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum . . . Og hann sendi engil sinn, og lét hann tákna það fyrir Jóhannesi, þjóni sínum.“ (Opinberunarbókin 1:1, Ísl. bi. 1912) Myndrænar lýsingar Opinberunarbókarinnar, þar á meðal af dýrunum, eru því táknrænar, ekki bókstaflegar. Engin ástæða er til að vera smeykur við að lesa þær. Þessi táknrænu dýr veita kristnum mönnum mikilvæga vitneskju og gerir þeim fært að varðveita samband sitt við Guð. Jóhannes gat því ritað: „Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ Já, skilningur þinn á þessum táknum getur fært þér hamingju nú og í framtíðinni. — Opinberunarbókin 1:3.