Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fáum nýjan kraft, lýjumst ekki

Fáum nýjan kraft, lýjumst ekki

Fáum nýjan kraft, lýjumst ekki

„Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“ — JESAJA 40:29.

1, 2. Hvað eiga kristnir menn sameiginlegt með maraþonhlaupurum?

 FAGRAN októbermorgun árið 1984 streymdu um 16.000 manns út á götur New Yorkborgar til að taka þátt í maraþonhlaupi. Markið var í 42,2 kílómetra fjarlægð. Það var óvenjuheitt miðað við árstíma, og bæði hitinn og hátt rakastig reyndi á þolrif hlauparanna. Þetta hlaup reyndist jafnvel bestu íþróttamönnum hin erfiðasta raun. Nálega 2000 gáfust upp og féllu úr hlaupinu. Þeir sem luku hlaupinu höfðu staðist afar erfiða þolraun.

2 Kristnir menn taka líka þátt í hlaupi. Sigurlaunin, sem þeir geta hlotið, eru eilíft líf. Líkt og keppandi í maraþonhlaupi þurfa þeir að þreyja hlaupið allt til enda. Þeir verða að hafa mikið úthald og þreklyndi og alls ekki gefast upp. Kapphlaup okkar um lífið líkist meira langhlaupi en stuttu spretthlaupi. Páll sagði kristnum bræðrum sínum í Korintu: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin. Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ (1. Korintubréf 9:24) Kristnir menn verða að beita sér af öllu afli til að ljúka hlaupinu. — Lúkas 13:24.

3. Hver er eina leiðin til að halda góðum hraða þar til hlaupinu er lokið?

3 Einhverjum kann að vera spurn hver geti haldið slíkri ferð allt til enda hlaupsins. Ekkert okkar getur það af eigin rammleik. Til að hljóta sigurlaunin verðum við að sækja kraft til frumuppsprettu allrar orku, Jehóva Guðs. — Jobsbók 36:22; Sálmur 108:13.

Jehóva — uppspretta afls og orku

4. Hvers vegna getum við, að því er spámaðurinn Jesaja segir, treyst mætti Jehóva til að halda þjónum sínum uppi?

4 Enginn vafi leikur á því að Jehóva getur haldið þjónum sínum uppi. Hinn alvaldi lét spámanninn Jesaja tala um takmarkalausa hæfni sína og óviðjafnanleg máttarverk. „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um,“ sagði hann. „Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant. . . . Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? [Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.“ — Jesaja 40:26-28.

5, 6. Nefnið nokkur dæmi um hinn mikla mátt Jehóva.

5 Allt frá hinu smæsta upp í hið stærsta birtist hinn ógnþrungni sköpunarmáttur Jehóva! Leiddu til dæmis hugann að byggingareindunum sem allt efni, þar á meðal við, erum gerð úr — frumeindunum. Þær eru svo smáar að einn vatnsdropi inniheldur hundrað milljón milljón milljón frumeindir. En svo ótrúlegt sem það virðist er slík orka geymd í kjarna þessara frumeinda, að væri hún öll leyst úr læðingi á sama andartaki myndi sprengingin skilja eftir hundrað metra djúpan og 400 metra breiðan gíg.

6 Nálægt hinum enda stærðarkvarðans er sólin. Þessi risavaxni kjarnaofn, sem vegur milljarða tonna, hitar upp sólkerfið. Orka sólarinnar er öll komin úr örsmáum frumeindum. Enda þótt allt líf á jörðinni — jurtirnar, dýrin og mennirnir — sé háð þeirri orku, sem þetta risaorkuver í himingeimnum gefur frá sér, berst í rauninni aðeins agnarlítið brot sólarorkunnar til jarðar. Samt nægir það til að viðhalda lífi hér. Í bók sinni Astronomy segir stjarnfræðingurinn Fred Hoyle: „Hið agnarlitla brot af orku sólarinnar, sem nær til jarðar — talið vera um fimm hundrað milljón milljónustu hlutar — er um hundrað þúsund sinnum meiri en öll sú orka sem notuð er í öllum iðjuverum heims.“

7. Hverjar ættu að vera tilfinningar okkar til Jehóva eftir að við höfum íhugað hinn mikla mátt sem birtist í sköpunarverki hans?

7 Sólin er þó aðeins ein stjarna af mörgum milljörðum sem eru í vetrarbrautinni — og hún er aðeins meðalstór stjarna. Stjarnfræðingar áætla að í hinum þekkta alheimi séu um hundrað milljarðar vetrarbrauta. Það er næstum óskiljanleg stærð. Ekki er að undra að Job sagði eftir að hafa íhugað hvernig Jehóva „þenur út himininn aleinn,“ að Guð ‚gjöri mikla hluti og órannsakanlega og dásemdarverk er eigi verða talin.‘ — Jobsbók 9:8-10.

Jehóva getur gefið þér kraft

8. (a) Hverjir einir geta notfært sér kraft Jehóva til fulls og hvers vegna? (b) Hvernig styrkir loforðið í Jesaja 40:29-31 trú okkar?

8 Sannir tilbiðjendur Jehóva geta ótakmarkað sótt kraft í þessa orkulind sem skapaði og viðheldur alheiminum. Þjónar Jehóva geta ‚styrkst fyrir heilagan anda að krafti hið innra með sér‘ og þurfa aldrei að óttast orkuskort. (Efesusbréfið 3:16; Sálmur 84:5, 6) Hvort við sigrum í kapphlaupinu um lífið er undir því komið að við treystum skilyrðislaust að máttug hönd Guðs geti sveiflað okkur í gegnum markið. Hann getur gefið okkur kraft. Eins og spámaðurinn Jesaja segir um Jehóva: „Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, en þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jesaja 40:29-31) Já, það eitt að lesa þessi orð getur aukið okkur kraft!

9. Hvernig getur Jehóva hjálpað þér að yfirstíga ‚fjallhá‘ vandamál?

9 Þér getur fundist þú smár og lítilvægur þegar þú stendur frammi fyrir að því er virðist óleysanlegum vandamálum sem virðast ætla að kæfa kostgæfni þína gagnvart sannri guðsdýrkun. En örvæntu ekki. Leitaðu til þíns alvalda, himneska föður. Hann styrkir ‚alla sem vona á hann.‘ Getur ekki skapari frumeindarinnar gefið þjónum sínum nægan kraft til að flytja slík „fjöll“? Það getur hann sannarlega! — Markús 11:23.

10. (a) Hvað getur gert kristinn hlaupara þreyttan? (b) Hvað vill Satan að þú gerir?

10 Sumir kristnir menn geta hins vegar verið svo lémagna af daglegri baráttu sinni gegn álagi heimsins, sem lætur fyrirlitningu sína á kristnum meginreglum opinskátt í ljós, að þeir finni fyrir freistingu til að hægja á sér eða jafnvel hætta þátttöku í kapphlaupinu um lífið. Veikindi, fjárhagsörðugleikar, heimilisvandamál, einmanaleiki eða aðrir erfiðleikar geta líka dregið úr þeim kjark. Og kjarkleysi getur á skammri stundu dregið allan þrótt úr kristnum manni, jafnauðveldlega og steikjandi hiti getur látið maraþonhlaupara örmagnast á skammri stundu. Óvinurinn mikli, Satan djöfullinn, notfærir sér slíkt til að reyna að brjóta niður ráðvendni þína sem þjónn Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8) Láttu djöfulinn ekki gera það! Leitaðu til skapara hinna óteljandi vetrarbrauta og biddu hann að endurnýja andlegan þrótt þinn. Jehóva getur haldið þér uppi. — Sálmur 37:17; 54:6.

11. Hvað getum við lært af því hvernig Davíð yfirsté vandamál?

11 Þegar erfiðleikar urðu á vegi Davíðs reyndist Jehóva honum alltaf uppspretta nýs kraftar. Með hjálp heilags anda gat Davíð yfirstigið hvers kyns andstöðu eða hindranir. Hann sagði: „Fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.“ Hann sagði einnig: „Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.“ (Sálmur 18:30; 60:14) Jehóva getur gert hið sama fyrir þig.

Berstu gegn andlegri þreytu

12. (a) Hvers vegna þarf að bregðast skjótt til varnar gegn andlegri þreytu? (b) Nefnið nokkur einkenni andlegrar þreytu. (c) Hvað hefur Jehóva gert til að gefa hinum andlega þreytta nýjan kraft?

12 Við verðum að vera fljót til að koma auga á merki um andlega þreytu, og síðan jafnfljót að bregðast rétt við þeim. Hvers vegna? Vegna þess að þeir einir hljóta launin, eilíft líf, sem ‚kosta kapps um að komast inn um þröngu dyrnar,‘ þeir hlauparar sem fara í gegnum markið. (Lúkas 13:24; Filippíbréfið 3:12, 13) Skoðaðu rammann á næstu síðu sem ber yfirskriftina „Leiðir til að berjast gegn andlegri þreytu.“ Hefur þú veitt athygli einhverjum þessara sjúkdómseinkenna hjá sjálfum þér eða fjölskyldu þinni? Ef svo er skalt þú tafarlaust gera viðhlítandi breytingar. Endurnýjaðu andlegt hugarfar þitt með því að leita styrks hjá Jehóva eins og lýst er þar.

13, 14. (a) Fordæmi hverra getur hjálpað okkur að endurnýja andlegan þrótt okkar? (b) Hvað getur hjálpað okkur að halda hlaupinu áfram?

13 Þú getur barist gegn andlegri þreytu með því að líkja eftir fordæmi sigursælla þjóna Guðs sem Biblían greinir frá. Margir, bæði karlar og konur, ungir og aldnir, voru þolgóðir allt til enda. Lestu um þá í Biblíunni, til dæmis Hebreabréfinu 11:4-40. Nú á tímum heldur líka fjöldi bræðra og systra óþreytandi áfram að þjóna Jehóva.

14 George, sem býr í suðurhluta Bandaríkjanna, er dæmi um kristinn hlaupagarp sem ekki hefur þreyst. Í meira en fimm áratugi hefur hann tekið þátt í kapphlaupinu um lífið og er enn kappsfullur. Hvað ráðleggur hann okkur?

Ég vil leggja þunga áherslu á að þú haldir þér við skipulagið. Mundu að Jesús Kristur er skipaður af Jehóva til að stjórna skipulaginu. Misstu því ekki kjarkinn þótt einhver þér mjög nákominn gerist ótrúr. Ef þú skilur ekki eitthvað til fullnustu eða átt erfitt með að viðurkenna það, skaltu treysta að sá vandi leysist fljótlega. Skipulag Jehóva hefur fært okkur svona langt. Treystu að það muni leiða okkur inn í hina nýju skipan. — Jóhannes 6:66-68.

15. Hvernig getum við látið gott fordæmi annarra styrkja okkur?

15 Í söfnuði þínum kann að vera einhver slíkur, eða þá að þú getur hitt þá á mótum safnaðanna. Talaðu við þá. Lærðu af þeim. Frásögur fjölda trúfastra bræðra og systra er að finna í Árbókunum, Varðturninum og öðrum ritum Varðturnsfélagsins. Lestu frásögurnar og hugleiddu hvernig þú getur látið þær styrkja þig.

Öldungar — verið „styrkjandi hjálp“

16. (a) Hvernig geta öldungar hjálpað kristnum bræðrum sínum að endurnýja þrótt sinn? (b) Hvað þurfa öldungar að varast þegar þeir gefa góð ráð og hvatningu?

16 Safnaðaröldungar ættu að vera sérstaklega vakandi fyrir því að hjálpa þeim sem virðast vera að missa móðinn. Jesaja 35:3 gefur þessi góu ráð: „Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!“ Hvernig getið þið öldungar gert ykkar til þess? Í fyrsta lagi með því að vera eftirtekarsamir og reyna að koma auga á raunverulega orsök þess að einhver virðist vera að hægja á sér. Gefið hagnýt, biblíuleg ráð sniðin eftir þörfum þess einstaklings. En verið varkárir. Þið ætlið ykkur að hvetja en ekki letja bræður ykkar. * Reynið því ekki að þröngva ykkar eigin samvisku upp á einhvern annan eða þvinga hann til að fylgja ykkar tillögum eða stimpla hann óþroskaðan ef hann er tregur til að samþykkja persónuleg sjónarmið ykkar. Öldungar verða að byggja ráð sín og hvatningarorð á Biblíunni. Enginn öldungur vill tefja aðra þátttakendur í kapphlaupinu með því að íþyngja þeim með óþörfum safnaðarreglum. — Berið saman Matteus 11:28, 29 og Matteus 23:2-4.

17. Hvernig geta öldungar unnið gegn tilraunum Satans til að hægja á kristnum hlaupagörpum?

17 Öldungar geta sett gott fordæmi sem fylgjendur Krists með því að vera fljótir til að hrósa öðrum í söfnuðinum. Látið þá finna í einlægni að þeir séu metnir að verðleikum og þeirra sé þörf! Skipulag Satans er alltaf meira en reiðubúið að láta kristna menn fá á tilfinninguna að þeim sé í flestu áfátt. Á þessu stigi í kapphlaupi sínu um lífið hafa bræður okkar mesta þörf fyrir vini sem hvetja þá til sigurs, ekki gagnrýnendur. Þegar miðaldra systir til dæmis varð að hætta sem brautryðjandi brann hjarta hennar af löngun til að hefja aftur fulltímaþjónustu. Hún gat það hins vegar ekki af fjárhagsástæðum. Öldungur, sem áreiðanlega gekk gott eitt til, spurði hana í fremur gagnrýnum tón: „Hvenær ætlar þú að gerast brautryðjandi aftur?“ Stuttaralegt svar hennar kom honum á óvart: „Þegar maðurinn minn getur borgað húsaleiguna.“ Það sem öldungurinn vissi ekki á þeirri stundu var að maðurinn hennar hafði haft slíkar tekjur að hún gat verið brautryðjandi. Þegar vinnuveitandi hans tók að sér æ fleiri verkefni, sem var vafasamt fyrir kristinn mann að koma nálægt, kom samviska mannsins hennar honum til að leita sér annarrar vinnu. Hann var kominn á þann aldur að nýtt starf var ekki auðfundið. Hann varð því að sætta sig við starf sem gaf mun minna í aðra hönd en hitt, og því þurfti konan hans að vinna fulla vinnu utan heimilis.

18. Á hvaða veg geta öldungarnir verið „styrkjandi hjálp“?

18 Eigum við að draga þá ályktun af þessu atviki að öldungar ættu að hika við að gefa trúbræðrum sínum leiðbeiningar? Nei. Hún ætti að kenna okkur að þegar ráðleggingar eða hvatningar er þörf, ættu öldungarnir að gera sér ljóst hverjar eru raunverulegar kringumstæður bræðranna, ekki dæma aðeins eftir ytra útliti. (Jakobsbréfið 2:15, 16) Á þann hátt geta öldungarnir verið „styrkjandi hjálp“ í söfnuði sínum. — Kólossubréfið 4:11, NW.

19. Hvernig getur þú hjálpað brautryðjendum að vera þolgóðir?

19 Þeim boðberum Guðsríkis fjölgar sem hafa aukið hraðann og eru nú reglulegir brautryðjendur. Hvatningaróp áhorfenda geta örvað maraþonhlaupara og aukið þeim kraft. Hvað gerir þú til að hvetja brautryðjendurna í þínum söfnuði til sigurs? Hjónin Douglas og Joanne hafa valið sér brautryðjandastarf að ævistarfi. Það getur verið letjandi fyrir þau þegar aðrir spyrja: „Hvenær ætlið þið að eignast börn?“ eða: „Hvenær ætlið þið eiginlega að slaka á og koma ykkur fyrir?“ En hvað gerist þegar aðrir vottar veita þeim siðferðilegan stuðning með því að segja: „Þið hafið valið ykkur gott starf. Haldið því áfram. Það er okkur mikil ánægja að hafa ykkur sem brautryðjendur í söfnuði okkar“? Það bægir ekki aðeins frá andlegri þreytu; það hjálpar þeim líka að ‚fljúga sem ernir‘ í brautryðjandastarfi sínu! — Samanber Jesaja 40:31.

Hvernig brautryðjendur geta haldið þrótti sínum

20, 21. Hvernig hafa sumir fulltímaþjónar haldið kröftum sínum?

20 Heyrum hvað hjónin Frederick og Marian segja. Þau vita hvernig á að öðlast kraft. Bæði eru þau brautryðjendur í landi í Mið-Ameríku, og bæði komin yfir sjötugt. Hann hefur verið brautryðjandi frá 1946, hún frá 1950. Hvað heldur þeim gangandi í þjónustu Jehóva? Frederick svarar: „Það að hafa markið, hið eilífa líf, ofarlega í huga, auk þess að elska Jehóva og þrá að hjálpa öðru fólki.“ Kona hans svarar því til að ‚fyrirheit Guðs hafi haldið þeim gangandi.‘ Hvað forðar þeim frá því að þreytast og lýjast? Frederick gefur þetta ráð: „Þú skalt vera upptekinn af hverju því verkefni sem þú færð.“ Hún mælir með „staðfestu í guðræðislegu starfi“ og bætir svo við: „Þegar fólk eldist getur það ekki gert allt sem það langar til. Ég gæti látið það fara í taugarnar á mér en ég tala um það við Jehóva í bæn.“ Frederick segir að lokum: „Við biðjum Jehóva um hjálp á hverju kvöldi.“ Það ættum við öll að gera. — 1. Pétursbréf 4:7.

21 Lavonía er 67 ára og hefur verið reglulegur brautryðjandi síðastliðin 20 ár. Á síðasta ári lá hún á spítala í tvær vikur og þarf núna að taka lyf vegna hjartans. Auk þess hefur hún orðið fyrir miklu tilfinningaálagi, vegna þess að allmargir í fjölskyldu hennar, þeirra á meðal eiginmaður hennar og faðir, hafa dáið. Samt sem áður leggur hún sig kappsamlega fram. Hvernig hefur hún varðveitt þrek sitt og þol? „Það að geta tekið aukinn þátt í prédikunarstarfinu hefur hjálpað mér,“ segir hún, „því að þegar ég get talað við aðra um Jehóva er ég ekki með hugann við vandamál mín, og það veitir mér hugarfrið og gleði sem gerir lífið þess virði að lifa því.“ Hún hyggst ekki hætta brautyrðjandastarfi heldur segir: „Að sjá aðra kynnast Jehóva og dýrlegum tilgangi hans veitir mér slíka gleði, að ég get ekki hugsað mér að hætta sem brautryðjandi.“ — Postulasagan 20:35.

22. Hvað verðum við að halda áfram að gera til að vinna í kapphlaupinu um eilífa lífið?

22 Hvort sem við getum lagt okkur fram sem brautryðjendur um þessar mundir eða ekki, þá getum við öll verið nátengd hinni miklu uppsprettu orku og afls, Jehóva, og skipulagi hans. Höldum áfram að öðlast nýan kraft með því að þjóna drottinholl Guði okkar. Þá getum við sagt eins og Habakkuk: „[Jehóva] Guð er styrkur minn! Hann gjörir fætur mína sem hindanna.“ (Habakkuk 3:19) Ef við gerum það þá þreytumst við ekki né lýjumst. Munum að kapphlaupinu er næstum lokið. Markið er í nánd!

[Neðanmáls]

^ Athyglisvert er að orðið, sem þýtt er „upphvatning“ og „uppörvun“ í Filippíbréfinu 2:1 og Hebreabréfinu 6:18, er komið af grískri sögn sem merkir „að hafa góð áhrif með orðum“ eða „að tala við einhvern á jákvæðan, vingjarnlegan hátt.“

Til upprifjunar

◻ Hverjir einir geta fengið ótakmarkað af hinum mikla mætti Jehóva?

◻ Nefnið nokkur einkenni andlegrar þreytu.

◻ Hvaða ráðstafanir Jehóva geta hjálpað okkur að fá nýjan kraft?

◻ Hvernig geta öldungar og aðrir í söfnuðinum hjálpað brautryðjendum að halda áfram þátttöku í „hlaupinu“?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 29]

Leiðir til að berjast gegn andlegri þreytu

Þreytumerki

◻ Ónóg sjálfstjórn gagnvart mat, drykk og skemmtun.

◻ Dvínandi eldmóður gagnvart sannleikanum, sjálfsánægja og sinnuleysi.

◻ Alvarlegar og langvinnar efasemdir.

◻ Samkomur og samfélagið vanrækt.

◻ Kostgæfni og gleði í þjónustunni vantar.

◻ Ósanngjörn gagnrýni á öldungana og skipulagið.

Hjálp til að halda út

◻ Bæn um hjálp heilags anda. — Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23; 1. Pétursbréf 4:7.

◻ Einkanám. — Sálmur 1:1, 2.

◻ Að hugleiða biblíuleg mál. — Sálmur 77:13.

◻ Regluleg sókn á samkomur og mót. — Nehemía 8:1-3, 8, 10; Hebreabréfið 10:23-25.

◻ Regluleg þátttaka í starfinu á akrinum. — Postulasagan 20:18-21.

◻ Andleg hjálp frá safnaðaröldungum og farandumsjónarmönnum. — Rómverjabréfið 1:11, 12; Hebreabréfið 13:17.

[Myndir á blaðsíðu 27]

Jehóva, skapari alheimsins, hjálpar vottum sínum að halda kröftum.

[Credit line]

Ljósmynd: NASA