Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Kostið kapps“

„Kostið kapps“

„Kostið kapps“

„Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.“ — LÚKAS 13:24.

1. Hvað þrá flestir?

 SÉ hinn sex ára gamli Robert spurður hvers vegna honum finnist gaman að koma í Ríkissalinn svarar hann: „Ég læri um Jehóva og paradís þar sem ég get lifað lengi, lengi með góðum dýrum.“ Frændi hans Dustin, sem er aðeins þriggja ára, veit nógu mikið um daglegar venjur foreldra sinna til að geta sagt á nákvæmlega réttu augnabliki: „Ég vil fara í Ríkissalinn!“ Það sem Róbert segir og Dustin er að læra að tjá hlýtur að höfða til flestra — líf, eilíft líf. Fólk vill „bjargast,“ „frelsast.“ En hvernig geta menn gert það? Er nóg einfaldlega að sækja trúarsamkomur?

2. (a) Hvers vegna er ekki hægt að ávinna sér hjálpræði? (b) Hvað þarf að gera til að hljóta hjálpræði, samkvæmt orðum Jesú í Lúkasi 13:24?

2 Ekki er hægt að ávinna sér hjálpræði með því að sækja samkomur eða gera eitthvað annað. Hjálpræði er gjöf frá Guði. Jehóva Guð krefst þó viðleitni af okkar hálfu til að gefa okkur þá gjöf sem eilíft líf er. (Rómverjabréfið 6:23) Í hverju er hún fólgin? Meðal annars kappi og kostgæfni í þjónustu hans sem mótast þarf af ósvikinni þakkarkennd til Guðs og mati á eiginleikum hans. Sonur Guðs, Jesús Kristur, var einu sinni spurður: „Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?“ Jesús svaraði ekki aðeins spurningu þessa manns heldur líka allra annarra sem áhuga hafa á hjálpræði, þeirra á meðal okkar. Hann svaraði: „Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.“ — Lúkas 13:23, 24.

3. (a) Hvað var óvenjulegt við spurningu mannsins? (b) Hvernig erum við innifalin í svari Jesú?

3 Spurning þessa ónafngreinda manns var óvenjuleg. Hann spurði: „Eru þeir fáir, sem hólpnir verða?“ Ekki: ‚Verð ég meðal þeirra fáu sem bjargast?‘ Eða: ‚Hvernig get ég orðið hólpinn?‘ Vera má að sú heimspeki Gyðinga að einungis takmarkaður fjöldi manna verðskuldaði hjálpræði hafi verið kveikjan að spurningu hans. * En af hverju sem forvitni hans stafaði heimfærði Jesús þessa fræðilegu spurningu strax á hinn einstaka mann. Hann neyddi spyrjandann til að hugleiða hvað hann þyrfti að gera til að hljóta hjálpræði. Svar Jesú átti þó ekki aðeins við þennan eina mann því að hann talaði í fleirtölu og sagði: „Kostið kapps.“ Það ætti því að koma okkur til að hugleiða vandlega hvernig við tilbiðjum Guð.

4. Hvað verðum við að gera til að hljóta eilíft líf?

4 Ekki er því jafnauðvelt að öðlast eilíft líf og margir ímynda sér. Jesús leggur áherslu á erfiði, strit og stöðuga viðleitni sem leiðina til að „komast inn um þröngu dyrnar.“ Þessi óþreytandi kappsemi á sér að baki sterka trú sem byggist á hlýðni við kenningar Krists. Til að hljóta hjálpræði verðum við því að gera meira en aðeins ‚heyra orð hans‘; við verðum að breyta stöðugt eftir þeim. — Lúkas 6:46-49; Jakobsbréfið 1:22-25.

Þú verður að „streitast“ núna

5. (a) Hvað er gefið í skyn með orðum Jesú: „Kostið kapps“? (b) Hvernig gefa þessi orð viðhorfum okkar til helgrar þjónustu aukna þýðingu?

5 Hvað merkja orðin ‚að kosta kapps‘? Í gríska frumtextanum er notað orðið agonisesþi, komið af orðinu agon sem merkir „bardagastaður.“ „Haldið áfram að streitast“ er sagt í The Kingdom Interlinear Translation. Við getum því séð fyrir okkur fornan leikvang þar sem íþróttamaðurinn streitist eða keppist af öllu afli við að vinna sigurlaunin. Þótt nota megi þetta gríska sagnorð við tæknilegar lýsingar á kappleikjum Grikkja undirstrikar notkun þess í Biblíunni hvatningu Jesú um að leggja sig fram af allri sálu. Þar dugir engin hálfvelgja. — Lúkas 10:27; samanber 1. Korintubréf 9:26, 27.

6. Hvers vegna þurfum við að leggja okkur kappsamlega fram núna?

6 Hvenær og hve lengi verðum við að „streitast við að komast inn um þröngu dyrnar“? (Lúkas 13:24, The New English Bible) Skoðaðu vandlega orð Jesú í Lúkasi 13:24 og taktu eftir hvernig hann stillir upp sem andstæðum nútíð („kostið kapps“) og framtíð („munu reyna“). Núna er því rétti tíminn til að berjast og streitast. Bersýnilega er þeim meinuð innganga sem reyna aðeins að komast inn þegar þeim sjálfum hentar. En þá er það of seint; dyrum tækifærisins hefur verið lokað og læst. Jesús heldur áfram í Lúkasi 13:25 og segir að þegar húsbóndinn hafi lokað dyrunum muni menn byrja að berja dyra og biðja: „Herra, ljúk þú upp fyrir oss!“ Þá mun hann svara: „Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.“ Það hefur sorglegar afleiðingar að láta tilbeiðsluna á Jehóva ekki vera aðaltilgang sinn í lífinu núna!Matteus 6:33.

7. Hvernig sýnir Filippíbréfið 3:12-14 að stöðug ástundun er nauðsynleg? Hvers vegna er hún það?

7 Við verðum að halda stöðugt áfram að streitast við. Ekkert okkar er komið alveg inn um „þröngu dyrnar.“ Páll gerði sér það ljóst. Hvern einasta dag lagði hann sig allan fram um að halda áfram þátttöku í kapphlaupinu um lífið. Hann skrifaði: „Ég er ekki að segja að ég sé fullkominn. Enn hef ég ekki lært allt það sem ég á að læra, en ég stefni að því að verða það sem Kristur frelsaði mig til og vill að ég sé. Nei, kæru vinir, enn er ég ekki fullkominn en þetta er mér efst í huga: Að gleyma fortíðinni og horfa fram á við til þess sem í vændum er. Ég tek á öllu sem ég á til að ná markinu og fá verðlaunin sem Guð hefur heitið okkur á himnum, og allt er það Kristi Jesú að þakka.“ (Leturbreyting okkar.) — Filippíbréfið 3:12-14, Lifandi orð.

8. (a) Hvað hindrar hina ‚mörgu‘ í að hljóta eilíft líf? (b) Hvaða aðvörun er það fyrir okkur?

8 Hverjir eru hinir ‚mörgu‘ og hvers vegna geta þeir ekki komist inn? Hinir ‚mörgu‘ eru kristni heimurinn, einkanlega klerkastétt hans. Hún þykist hafa ‚etið og drukkið með Jesú‘ og því þekkja hann náið, vera hluti af fjölskyldu hans. En klerkastéttin vill hljóta hjálpræði eftir eigin skilmálum, ekki Guðs, og Jesús neitar því afdráttarlaust að hann þekki hana og lítur á hana sem „illgjörðamenn.“ (Lúkas 13:26, 27) Í hópi þeirra, sem er meinuð innganga til eilífs lífs, gætu jafnvel verið einstaklingar sem hafa slegið slöku við í helgri þjónustu sinni við Jehóva og taka það nú rólega í sannri guðsdýrkun. Kostgæfni þeirra gagnvart hagsmunum Guðsríkis er orðin hálfvolg. (Opinberunarbókin 3:15, 16) Að vísu hafa þeir kannski enn á sér „yfirskyn guðhræðslunnar“ — taka þátt í starfinu og sækja samkomur til málamynda — en sýna engin merki slíkrar trúar sem er hinn sanni kraftur hreinnar guðsdýrkunar. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 3:5.) Þeir gera sér ekki ljóst að það er ekki nóg aðeins að reyna að komast inn um „þröngu dyrnar.“ Menn verða að berjast af krafti til að komast inn.

Hvers vegna um ‚þröngar dyr‘

9. Hvers vegna þarf kostgæfa ástundun til að komast inn um þröngu dyrnar?

9 Þröngu dyrnar til hjálpræðis standa öllum opnar. En hina ‚mörgu‘ langar ekki til að berjast til að komast inn um þær. Á hvaða vegu krefst það kappsemi, atorku og ástundunar að komast inn um þröngu dyrnar? Fyrst verður einstaklingurinn að afla sér nákvæmar þekkingar á sannindum Biblíunnar og kynnast Jehóva Guði og Kristi Jesú. (Jóhannes 17:3) Það hefur í för með sér að kasta frá sér erfikenningum og siðum veraldlegra trúarbragða, þeirra á meðal kristna heimsins. Það hefur í för með sér að gera vilja Guðs eins og Jesús þegar hann var á jörðinni. (1. Pétursbréf 2:21) Sem vígðir, skírðir kristnir menn verðum við líka að forðast efnishyggju, siðleysi og óhreinleika heimsins. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17; Efesusbréfið 5:3-5) Öllu slíku þarf að afklæðast og íklæðast eiginleikum sem líkjast Kristi. — Kólossubréfið 3:9, 10, 12.

10. Hvert er samband sjálfstjórnar og eilífs lífs?

10 Hinir ‚fáu‘ gera sér ljóst hvaða gildi kostgæfni í þjónustunni hefur, ásamt því að rækta ávexti andans, þar á meðal sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:23) Með hjálp heilags anda Jehóva berjast þeir af krafti til að drottna yfir líkama sínum og leiða hann að markinu sem er hið eilífa líf. — 1. Korintubréf 9:24-27.

Hvað þýða orð Jesú fyrir þig?

11. (a) Á hvaða sviðum lífsins geta sumir þurft að beita sér af alefli og hvers vegna? (b) Hvaða starfi geta allir sinnt kappsamlega?

11 Hvort sem við erum nýlega skírð eða höfum verið virk með skipulagi Jehóva svo áratugum skiptir megum við ekki slá slöku við í viðleitni okkar að þóknast honum. Eins og orð Jesú gefa glöggt til kynna verðum við að vera heil og óskipt í hollustu okkar við Jehóva, fús til að ganga inn um þröngu dyrnar hvað sem það kostar. Þótt Jesús hafi ekki verið að tala einfaldlega um framfarir og aukningu í þjónustu okkar við Guð, þurfa sum okkar að beita sér af alefli til að bæta hátterni sitt eða losa sig við slæma ávana ‚til að vera engum til ásteytingar á nokkurn hátt.‘ (2. Korintubréf 6:1-4) Aðrir þurfa að gefa stöðugan gaum rækilegri einkanámsdagskrá til að ‚elska þeirra aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind.‘ (Filippíbréfið 1:9-11) Enn aðrir þurfa að leggja sig sérstaklega fram við að sækja reglulega og taka þátt í safnaðarsamkomunum, þeirra á meðal safnaðarbóknáminu. (Hebreabréfið 10:23-25) Og öll getum við gefið auga hlut okkar í þjónustunni á akrinum til að skoða hvort við leggjum okkur í sannleika kappsamlega fram í því að ‚gera verk trúboða.‘ — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

12. Hvaða spurninga gætum við spurt til að kanna í hvaða mæli við leggjum okkur fram?

12 Vaxandi fjöldi boðbera hefur tekið slíkum framförum í því að kappkosta að þóknast Jehóva, að þeir hafa orðið hæfir til að gerast aðstoðarbrautryðjendur, reglulegir brautryðjendur eða þjóna á Betel. En hvað um þig? Ef þú ert boðberi Guðsríkis, getur þú þá tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfi nokkrum sinnum á ári eða jafnvel gerst reglulegur brautryðjandi? Ef þú ert nú þegar aðstoðarbrautryðjandi, seilist þú þá eftir því að verða reglulegur brautryðjandi? Ef ekki, hví ekki að hugleiða það? Í gegnum brautryðjandastarf getur þú hlotið þá blessun að eignast enn nánara samband við Jehóva Guð og Jesú Krist. — Sálmur 25:14.

Getur þú gert þér að keppikefli að verða brautryðjandi?

13. (a) Hvaða tveim skilyrðum þarf að fullnægja til að þú getir orðið brautryðjandi? (b) Á hvaða sviðum lífsins gætir þú þurft að gera breytingar til að verða brautryðjandi?

13 Ef þú gætir verið reglulegur brautryðjandi en ert það ekki, getur þú þá lagt þig í framkróka við að gera þær breytingar sem til þarf? Tvennt er nauðsynlegt: Í fyrsta lagi þarf þig að langa til að vera brautryðjandi, og í öðru lagi þurfa réttar kringumstæður að vera fyrir hendi. Ef þig vantar löngunina skalt þú biðja um hana. Talaðu við brautryðjendur. Taktu aukinn þátt í starfinu á akrinum. Vertu aðstoðarbrautryðjandi hvenær sem þú getur. Ef aðstæður þínar leyfa ekki slíka þjónustu núna, íhugaðu þá hvort þú getir gert þær breytingar sem til þarf. Ekki er víst að útivinnandi húsmóðir þurfi að vinna úti, eða sá sem kominn er á eftirlaunaaldur þurfi að halda áfram að vinna. Mikil lífsþægindi, dýr sumarleyfi og ferðalög, splunkunýir bílar og þess háttar teljast ekki beinlínis brýnustu lífsnauðsynjar. — Lúkas 12:15; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

14. (a) Hvers vegna gerðu hjón ein sig ekki ánægð með að vera safnaðarboðberar? (b) Hvaða markmið hafa þau sett börnum sínum?

14 Þriggja barna faðir (tvö voru enn undir táningaaldri) gerðist brautryðjandi fyrir sex árum. Hvers vegna? „Mig langaði til að gera meira,“ svarar hann. „Ef ég gat verið reglulegur brautryðjandi en var það ekki, þá væri ég ekki að lifa samkvæmt vígsluheiti mínu.“ Konan hans gerðist líka reglulegur brautryðjandi. Hvers vegna? „Ég hafði verið aðstoðarbrautryðjandi á reglulegum grundvelli í fjögur ár, og mér varð að lokum ljóst að það var orðið auðvelt,“ segir hún. „Mig langaði til að eiga ríkari þátt í þessu starfi, sem aldrei verður endurtekið, og setja sonum okkar gott fordæmi.“ Hjónin kynntust bæði sannleikanum að loknu háskólanámi. „Foreldrar okkar kröfðust þess að við gengjum í háskóla í fjögur ár,“ segir faðirinn. En hvaða markmið hafa þau sett sínum sonum? „Ég segi drengjunum mínum að við viljum gjarnan sjá þá gerast brautryðjendur og vinna í það minnsta fjögur ár á Betel.“

15. (a) Af hvaða ástæðum hafa sumir gerst brautryðjendur? (b) Hvers vegna myndi þig langa til að vera í fulltímaþjónustu?

15 Hér fara á eftir nokkrar ástæður fyrir því að sumir ákváðu að gerast brautryðjendur:

 „Mér miðaði ekkert fram á við andlega og það olli mér áhyggjum.“ (Robert H.)

 „Ég var aldrei ánægð með að vera aðeins safnaðarboðberi.“ (Rhea H.)

 „Brautryðjandastarf gefur lífi mínu stefnu og tilgang.“ (Hans K.)

 „Mig langaði til að þjóna Jehóva af öllum kröftum, og brautryðjandastarf er mín leið til þess.“ (Charanjit K.)

 „Ég myndi sjá eftir því ef ég notaði ekki krafta mína og æskufjör til að taka þátt í þessu mikla verki.“ (Gregory T.)

 „Jehóva blessar aðeins viðleitni. Ég þurfti að gefa honum eitthvað til að blessa.“ (Graceann T.)

 „Brautryðjandastarf hjálpar mér að tjá tilfinningar mínar til Jehóva.“ (Marco P.)

 „Fullt veraldlegt starf veitti mér ekki þá hamingju sem ég tók eftir hjá brautryðjendunum.“ (Nancy P.)

 Hvaða fleiri ástæðum gætir þú bætt við þennan lista?

Gerir þú allt sem þú getur?

16. Eru brautryðjendur þeir einu sem leggja sig kostgæfilega fram? Gefðu skýringu.

16 Fjölmargir votta Jehóva hafa skoðað kringumstæður sínar hreinskilnislega og rætt um þær við Jehóva Guð í bæn, og komist að þeirri niðurstöðu að þeir væru að gera allt sem þeir gætu við núverandi aðstæður. Vera má að þú sért einn þeirra. Ef svo er skaltu ekki missa kjarkinn. Jehóva og syni hans er annt um þig og meta mikils þá þjónsutu sem þú veitir af allri sálu. (Samanber Lúkas 21:1-4.) Í sumum löndum eru pólitísk eða efnahagsleg skilyrði til dæmis slík að bræður okkar verða að vinna níu stunda vinnudag, fimm til sex daga í viku, aðeins til að afla brýnustu lífsnauðsynja. Í einu landi þar sem starf votta Jehóva er stranglega bannað eru flestir brautryðjendurnir — og brautryðjendum fer fjölgandi í slíkum löndum — fólk sem komið er á eftirlaun, ungt fólk sem hefur næturvinnu og mæður sem ríkið hefur undanþegið veraldlegri vinnu.

17. Hvað sýnir að Jehóva mælir ekki kappsemi okkar einvörðungu eftir því hvað við gerum mikið í þjónustu hans?

17 Þú segir kannski: ‚Ég vildi óska að ég hefði meira líkamsþrek. Bara að ég væri orðinn ungur aftur!‘ En misstu ekki móðinn. Kappsemi okkar mælist ekki eingöngu eftir magni, hversu mikið við gerum í helgri þjónustu Guðs. Manstu eftir Epafródítusi? Þegar hann var sjúkur gat hann vafalaust ekki gert jafnmikið í ‚verki Drottins‘ eins og þegar hann var heill heilsu. Samt sem áður hrósaði Páll honum fyrir kappsmuni sína. Páll sagði að við ættum að ‚hafa slíka menn og konur í heiðri.‘ — Filippíbréfið 2:25-30.

18. (a) Hvernig geta þeir sem ekki hafa tök á vera brautryðjendur stuðlað að slíkri þjónustu í söfnuðinum? (b) Hvað getur þú gert til að hvetja til brautryðjandaanda í þínum söfnuði?

18 Samt sem áður er eitt sem þú getur gert til að stuðla að brautryðjandastarfi í söfnuðinum. Hvað er það? Kostaðu kapps að sýna brautryðjandaanda. Ef þú getur til dæmis ekki verið brautryðjandi núna vegna fjölskylduábyrgðar, getur þú þá hjálpað öðrum í fjölskyldu þinni — eiginkonu, börnum, bróður eða systur — að vera brautryðjandi? Þeir sem eru heilsutæpir eða eiga við önnur bágindi að stríða geta haft ósvikinn áhuga á þeim sem geta verið brautryðjendur, og farið með þeim út í þjónustuna eftir því sem kringumstæður leyfa. (Samanber 1. Korintubréf 12:19-26.) Á þann hátt geta allir í söfnuðinum lagt kapp á að halda fulltímaþjónustuna í heiðri. Það getur haft mjög hvetjandi áhrif á alla!

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Hvað felst í því fyrir þig að leggja þig kappsamlega fram? Að sækja fram til skírnar? Að sigrast á einhverjum slæmum ávana? Að styrkja samband þitt við Jehóva á einhvern hátt? Getur það þýtt aðstoðarbrautryðjandastarf? Reglulegt brautryðjandastarf? Þjónustu á Betel? Hvað sem þú þarft að gera til að taka andlegum framförum er það virði kappsamrar viðleitni núna. Höldum því öll áfram að berjast til að komast inn um þröngu dyrnar sem liggja til eilífs lífs!

[Neðanmáls]

^ Hve margir skyldu bjargast var mikið, guðfræðilegt deilumál meðal rabbínanna. Biblíuhandbók segir: „Meðal hinnar kynlegu, dulspekilegu túlkunar rabbínanna á Ritningunni var tilraun til að fastsetja fjölda þeirra, sem bjargast myndu, út frá tölulegu gildi bókstafanna í einum eða öðrum ritningarstað.“

Til íhugunar

◻ Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Kostið kapps“?

◻ Hvenær og hvernig eiga orð Jesú við þig?

◻ Hverjir eru hinir ‚mörgu‘ sem ekki geta gengið inn um þröngu dyrnar?

◻ Hvernig geta þeir sem búa við takmarkandi kringumstæður lagt sig kappsamlega fram?

◻ Hve lengi verðum við að halda áfram baráttunni við að komast inn um þröngu dyrnar?

[Spurningar]