Réttlæti fyrir Guði – hvernig?
Réttlæti fyrir Guði – hvernig?
„GUÐ hann segir mig í lagi.“ Einhvað á þessa leið hefur orðið „réttlæting“ verið þýtt í nýlegri útgáfu „Nýjatestamentisins“ á Nýju Gíneu-pidgin. Svo skondið sem það kann að virðast kemur það vel til skila meginhugmynd þess orðs sem þýtt er ‚sýknun‘ eða „réttlæting“ í íslenskum biblíum. — Sjá til dæmis Rómverjabréfið 5:16, 18 í biblíum frá 1912 og 1981.
Sumir segja á hinn bóginn: ‚Ég er heiðvirður maður. Ég geri öðrum gott þegar ég get. Ég er reiðubúinn að ganga til fundar við skapara minn.‘ Svo virðist sem þeir skilji réttlætingu vera sjálfsréttlætingu. Samkvæmt Biblíunni tengist kenningin um ‚réttlætingu‘ því hvernig Guð lítur á okkur og hvernig hann á samskipti við okkur. Jehóva er ‚skaparinn.‘ (Jesaja 40:28) Hann er „dómari alls jarðríkis.“ (1. Mósebók 18:25) Ekkert getur því verið þýðingarmeira en það hvaða augum hann lítur okkur.
Hvers vegna við þurfum að eignast rétt samband við Guð
Biblían segir um Jehóva: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Hann er ímynd réttlætisins. Sem skaparinn og lífgjafinn hefur hann rétt til að setja staðal um það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það sem samræmist staðli Guðs er réttlátt.
Guð setur því það markmið sem skynsemigæddar 1. Jóhannesarbréf 5:17; 3:4.
sköpunarverur hans þurfa að ná ef þær vilja lifa í sátt og samlyndi við skapara sinn. Að ná ekki þessu markmiði eða staðli er synd, en sú er frummerking þess orðs í Biblíunni. Synd er því ranglæti. Hún er það að lifa ekki eftir skilgreiningu Guðs á hvað sé rétt og rangt. Synd er því einnig eins konar röskun eða óreiða, eins konar lögleysi. —Jehóva „er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ (1. Korintubréf 14:33) Í upphafi voru allar sköpunarverur hans á himni og jörð fullkomnar. Þær voru gæddar frjálsum vilja. (2. Korintubréf 3:17) Þær nutu „dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21) Svo lengi sem réttlátir staðlar hans voru virtir ríkti friður og regla út um allan alheiminn. Truflun kom upp í alheiminum fyrst á himnum, síðan á jörðinni, þegar sumar sköpunarverur Guðs snerust til lögleysis, höfnuðu rétti hans til að ráða yfir þeim. Þær viku frá staðli Guðs á rétt og rangt. Þær misstu marks og gerðu sig því að syndurum.
Þannig fór með fyrstu foreldra okkar, Adam og Evu. (1. Mósebók 3:1-6) „Syndin kom inn í heiminn . . . og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Alla tíð frá þeirri uppreisn hefur syndin ‚ríkt í dauðanum‘ því að allir afkomendur Adams „hafa syndgað og skortir“ að ná réttlátum staðli Guðs. (Rómverjabréfið 5:21; 3:23) Þannig er til komin þörf okkar að eignast rétt samband við Guð.
Skilningur kaþólskra á „réttlætingu“
Allar kirkjur, sem kalla sig kristnar, viðurkenna þörfina á sáttum við Guð. Kirkjur kaþólskra og mótmælenda hafa hins vegar ólíkan skilning á því hvernig þeim sé náð.
Um kenningakerfi kaþólskra segir The Catholic Encyclopedia: „Réttlæting táknar þá breytingu eða ummyndun sálarinnar sem flytur manninn úr erfðasyndarástandinu sem hann, barn Adams, er fætt í, yfir til náðar og guðlegs sonarréttar í gegnum Jesú Krist, hinn síðari Adam.“ Orðabókin A Catholic Dictionary bætir við þessa skýringu: „Við einskorðum okkur hér við það hvernig fullvaxta fólki er lyft upp úr ástandi dauða og syndar til hylli og vináttu Guðs; því að hvað kornabörn varðar kennir kirkjan að þau réttlætist með skírninni án nokkurs eigin verknaðar.“
Í stuttu máli kennir kaþólska kirkjan að „réttlæting“ sé sá verknaður af hendi Guðs er einstaklingur, skírður til kaþólskrar trúar, sé í reynd gerður réttlátur og helgaður vegna guðlegrar „náðar.“ Hún kennir líka að slíka réttlætingu megi (1) auka með persónulegum verðleikum eða góðum verkum; (2) glata vegna dauðasyndar og vantrúar og (3) eignast aftur í gegnum skriftasakramenti. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi þarf hinn réttlætti kaþólski maður að játa syndir sínar fyrir presti og hljóta syndafyrirgefningu. Fyrir hverja „stundlega refsingu,“ sem enn þarf að taka út eftir syndaaflausnina, er hægt að friðþægja með góðum verkum eða gefa eftir með „afláti.“ *
Viðhorf mótmælenda
Hin ámælisverða sala aflátsbréfa snemma á 16. öld hleypti af stað siðbót mótmælenda. Árið 1517 hengdi kaþólskur munkur að nafni Marteinn Lúther skjal á hurð kastalakirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi, þar sem hann réðst harkalega í 95 liðum á þetta athæfi kirkjunnar. En í raun gekk ágreiningur Lúthers við opinbert kenningakerfi kaþólsku kirkjunnar lengra. Hann tók líka til kenninga kirkjunnar í heild um réttlætingu. Orðabókin A Catholic Dictionary staðfestir það og segir: „Skoðanaágreiningur um það hvernig syndarar réttlætist fyrir Guði var aðaldeiluatriði kaþólskra og mótmælenda á tímum siðbótarinnar. ‚Ef þessi kennisetning‘ (þ.e. kenningin um réttlætingu vegna trúar einnar) ‚fellur,‘ segir Lúther í Tischreden, ‚er úti um okkur.‘“
Hvað nákvæmlega átti Lúther við með ‚réttlætingu vegna trúar einnar‘? Sem kaþólskur maður hafði Lúther lært að réttlæting mannsins fæli í sér skírn, persónulega verðleika og góðverk, svo og skriftasakramenti frá presti sem hlýðir á skriftir, veitir aflausn og segir til um yfirbótaverk sem geta falið í sér sjálfsrefsingu.
Í viðleitni sinni til að eignast frið við Guð hafði Lúther notfært sér allt sem kenningar rómversk-kaþólskra um réttlætingu buðu upp á, þar á meðal föstur, bænir og sjálfsrefsingu, en án árangurs. Honum tókst ekki að finna ró og las því aftur og aftur Sálmana og bréf Páls. Að lokum fann hann hugarfrið eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að Guð réttlæti mennina, ekki vegna verðleika þeirra, góðra verka eða skriftasakramentis, heldur eingöngu vegna trúar þeirra. Hann varð svo yfir sig hrifinn af þessari hugmynd um „réttlætingu vegna trúar einnar“ að hann bætti við orðinu „einni“ á eftir „trú“ í þýskri þýðingu sinni á Rómverjabréfinu 3:28! *
Flestar mótmælendakirkjur tóku í grundvallaratriðum upp viðhorf Lúthers um „réttlætingu vegna náðar og trúar.“ Reyndar hafði Frakkinn Jacques Lefèvre d’Étaples látið þetta sjónarmið í ljós fyrir siðbótina. A Catholic Dictionary dregur saman mismuninn á viðhorfum kaþólskra og mómælenda til réttlætingar með þessum orðum: „Kaþólskir líta á réttlætingu sem verknað er gerir manninn í raun réttlátan; en mótmælendur líta svo á að hann sé einungis lýstur og álitinn réttlátur, því að verðleikar annars, það er að segja Krists, séu færðir honum til eignar.“
Hvorki kaþólskir né mótmælendur hafa rétt fyrir sér
Trúarkenningar kaþólskra ganga lengra en Biblían kennir þegar þær segja að ‚maðurinn sé í raun gerður réttlátur‘ vegna guðlegrar náðar sem veitist við skírnina. Það er ekki skírnin heldur úthellt blóð Krists sem þvær burt erfðasyndina. (Rómverjabréfið 5:8, 9) Á því er stór munur hvort Guð gerir manninn raunverulega réttlátan eða lítur á hann sem réttlátan. (Rómverjabréfið 4:7, 8) Sérhver heiðarlegur kaþólskur maður, sem leiðir hugann að baráttu sinni gegn syndinni, veit að hann hefur ekki verið gerður raunverulega réttlátur. (Rómverjabréfið 7:14-19) Ef hann væri réttlátur í raun og veru hefði hann engar syndir til að játa fyrir presti.
1. Jóhannesarbréf 1:9-2:2) Milliganga prests á einhverju stigi réttlætingar á sér jafnlitla stoð í Biblíunni og sú hugmynd að hægt sé að gera yfirbót með nógu mörgum góðverkum, en á henni byggist kennisetningin um aflát. — Hebreabréfið 7:26-28.
Ef trúarkenningar kaþólskra fylgdu Biblíunni myndi hinn kaþólski maður, sem finnur til syndar sinnar, auk þess játa syndir sínar fyrir Guði og biðja um fyrirgefningu í gegnum Jesú Krist. (Sá skilningur mótmælenda á réttlætingu, að kristinn maður sé lýstur réttlátur vegna fórnar Krists, er tvímælalaust nær því sem Biblían kennir. Sumar mótmælendakirkjur kenna hins vegar „réttlætingu vegna trúar einnar,“ en með slíkri kenningu er, eins og við munum sjá síðar, gengið fram hjá mjög ákveðnum rökum Páls postula og Jakobs. Hið sjálfumglaða viðhorf þessara kirkjudeilda kristallast í orðunum: „Einu sinni hólpinn, alltaf hólpinn.“ Sumir mótmælendur álíta að nóg sé að trúa á Jesú til að vera hólpinn, og að réttlæting sé því undanfari skírnarinnar.
Auk þess að kenna réttlætingu vegna trúar fylgja vissar kirkjudeildir mótmælenda franska siðbótarmanninum Jóhannesi Kalvin í því að kenna forlagatrú, en með því afneita þær kenningu Biblíunnar um frjálsan vilja mannsins. (5. Mósebók 30:19, 20) Því má segja að hvorki skilningur kaþólskra né mótmælenda á réttlætingu sé í fullu samræmi við Biblíuna.
Hvað kennir Biblían?
Biblían kennir þó greinilega „réttlætingu,“ það er að menn geti náð réttlátri stöðu frammi fyrir Guði. Við höfum séð hér á undan hvers vegna við þörfnumst réttlætingar fyrir Guði — við erum öll fædd „reiðinnar börn,“ ekki Guðs börn. (Efesusbréfið 2:1-3) Hvort reiði Guðs varir yfir okkur eða ekki er undir því komið hvort við tökum við eða höfnum miskunnarríkri ráðstöfun hans til sátta við sig, hinn heilaga, réttláta Guð. (Jóhannes 3:36) Þessi kærleiksríka ráðstöfun er ‚endurlausnin sem er í Kristi Jesú.‘ — Rómverjabréfið 3:23, 24.
Páll postuli sýndi fram á að lausnarfórn Krists opni mönnum tvenns konar von, aðra „á jörðu,“ hina „á himnum.“ Hann skrifaði: „Í honum [Kristi] þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum.“ — Kólossubréfið 1:19, 20.
Til að eignast hlutdeild í annarri hvorri þessarar vonar er nauðsynlegt að hljóta réttláta stöðu frammi fyrir Guði, og það felur miklu meira í sér en einungis að „trúa á Jesú.“ Hér fara á eftir tvær greinar sem skýra hvað það felur í sér fyrir kristna menn sem hafa himneska von, og þá sem vonast til að lifa að eilífu á paradís á jörð. Við hvetjum þig til að lesa áfram og hika ekki við að biðja þann vott Jehóva, sem þú fékkst þetta blað hjá, um að ræða efni þessara greina við þig með hjálp Biblíunnar.
[Neðanmáls]
^ Samkvæmt kenningakerfi kaþólskra felur synd í sér sekt og refsingu af tvennu tagi — eilífa og stundlega. Sekt og eilíf refsing er gefin eftir í gegnum skriftasakramentið. Friðþægja þarf fyrir stundlega refsingu í þessu lífi með góðum verkum og yfirbót eða í hreinsunareldinum í næsta lífi. Aflát er full eða takmörkuð eftirgjöf stundlegrar refsingar vegna verðleika Krists, Maríu og „dýrlinganna,“ sem geymdir eru í „náðarfjársjóði kirkjunnar.“ Hin „góðu verk,“ sem krafist er til að fá aflausn, geta verið pílagrímsferð eða fjárframlag til einhvers „góðs“ málstaðar. Til forna var safnað fé með þessum hætti til að fjármagna krossferðirnar og reisa dómkirkjur, kirkjur og sjúkrahús.
^ Lúther dró líka í efa að bréf Jakobs ætti heima í helgiritasafni Biblíunnar, því að hann áleit að röksemdafærslan í 2. kaflanum þess efnis að trú án verka sé dauð, stangaðist á við orð Páls um réttlætingu „án tillits til verka.“ (Rómverjabréfið 4:6) Hann gerði sér ekki grein fyrir að Páll var að tala um lögmálsverk Gyðinganna. — Rómverjabréfið 3:19, 20, 28.
[Innskot á blaðsíðu 5]
KAÞÓLSKA KIRKJAN kennir að réttlæting geri mann raunverulega réttlátan, en að réttlætingin geti glatast vegna dauðasyndar eða styrkst vegna eigin verðleika mannsins.
[Innskot á blaðsíðu 6]
MARGIR MÓTMÆLENDUR trúa að lýsa megi manninn réttlátan vegna trúar einnar saman, og að trú á Jesú tryggi hjálpræði. Sumir álíta að mönnum sé skömmtuð réttlæting af forlögunum.
[Innskot á blaðsíðu 7]
BIBLÍAN kennir að maðurinn hafi frjálsan vilja og að lausnarfórn Krists opni mönnum tvenns konar von, himneska eða jarðneska. Báðar fela þær í sér að hljóta réttláta stöðu frammi fyrir Guði.