Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Málsvarar sannleikans í guðlausum heimi

Málsvarar sannleikans í guðlausum heimi

Málsvarar sannleikans í guðlausum heimi

„Þitt orð er sannleikur.“ — JÓHANNES 17:17.

1. (a) Hvenær og hvernig varð sannleikurinn að deiluefni? (b) Hvaða stórfengleg, ný sannindi voru kunngerð í Eden?

 SANNLEIKUR hefur lengi verið deiluatriði! Þessi deila er jafngömul mannkyninu. Hún kom upp í Eden þegar hinn gamli höggormur véfengdi sannsögli hins alvalda Drottins, Jehóva. Þegar okkar fyrstu foreldra var freistað völdu þau að hugsa óháð Guði og fara sína eigin, sjálfselsku braut. Þau voru ekki ráðvandir málsvarar sannleikans. En þar gerði Guð kunnug hin stórkostlegustu nýju sannindi þess efnis að „sæði“ myndi koma fram sem skyldi mola í sundur verk djöfulsins. — 1. Mósebók 3:1-6, 14, 15.

2. (a) Hvernig sætti sannleikur árásum í heiminum fyrir flóðið? (b) Hvers vegna fann Nói og fjölskylda hans náð í augum Jehóva?

2 Sannleikurinn sætti nú árás. Erkisvikarinn tryggði sér stuðning annarra uppreisnargjarnra andasona Guðs til að spilla jörðinni. Hin siðlausa kynslóð fyrir flóðið var svo niðursokkin í að ‚gera það sem henni sýndist‘ að hún lét varnaðarorð Guðs, sem Nói boðaði, sem vind um eyru þjóta. Hún tortímdist. Á hinn bóginn lifði Nói og fjölskylda hans af vegna óaðfinnanlegrar ráðvendni sinnar. Þegar þessir málsvarar sannleikans yfirgáfu örk björgunarinnar var þeim efst í huga að færa Jehóva þakkarfórn, honum til ‚þægilegs ilms.‘ — 1. Mósebók 6:4-12; 8:18-21; Lúkas 17:26, 27; 2. Pétursbréf 2:5.

Ósannindin magnast

3. Hvað er Babýlon hin mikla og hvernig varð hún til?

3 Þessi gamli höggormur, djöfullinn, hélt áfram tilraunum sínum til að óhreinka vötn sannleikans. Vafalaust var það vegna áhrifa Satans að Forn-Babýlon var reist. ‚Leyndardómar Babýlonar‘ urðu grundvöllur heimsveldis falskra trúarbragða sem í Opinberunarbókinni 17:5 er kallað „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.“ Hinir mörg þúsund angar hennar með sínum ósamhljóða sértrúarkenningum hafa lifað fram á þennan dag sem firnastór fjárhirsla trúarlegrar villu. — 1. Mósebók 10:8-10; Jeremía 51:6.

4. Hvernig var Jesús málsvari sannleikans og hvað lagði hann í sölurnar fyrir hann?

4 Þegar Jesús Kristur var á jörðinni var hann djarfur talsmaður sannleikans. Hann sagði trúarlegum hræsnurum samtíðar sinnar: „Þér eigið djöfulinn að föður . . . Hann var . . . aldrei í sannleikanum, því að í honum finnst enginn sannleikur.“ Enn fremur undirstrikaði Jesús, hið boðaða „sæði“ fyrirheitisins, mikilvægi sannleikans þegar hann sagði Pontíusi Pílatusi: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ Jesús fórnaði mannslífi sínu fyrir málstað sannleikans — sannleikans um Guðsríki. — Jóhannes 8:44; 18:37; 1. Mósebók 3:2-5.

5, 6. (a) Hvernig hélt Satan áfram baráttu sinni gegn sannleikanum? (b) Hvaða mengun hlaust af því og hvaða ósannindi má rekja til þess? (c) Hvers vegna ættum við að vilja vera kostgæfir málsvarar sannleikans?

5 Ósannindi haldast í hendur við lögleysi. Það kemur því ekki á óvart að Satan skyldi í sinni linnulausu baráttu gegn sannleikanum vekja upp fráhverfa klerkastétt sem 2. Þessaloníkubréf 2:3 kallar ‚mann syndarinnar‘ eða ‚lögleysingjann.‘ (Neðanmáls) Eftir dauða postula Jesú Krists upphófu þessir löglausu fráhvarfsmenn sig yfir leikmennina og menguðu hina hreinu kristnu kenningu með því að blanda hana babýlonskum „leyndardómum“ og grískri heimspeki, ekki síst kenningu Platons um að mannssálin sé ódauðleg.

6 Þau ósannindi hafa verið grunnurinn að öðrum ósannindum svo sem þeim að ‚allir góðir menn fari til himna,‘ að ‚þeir sem eru ekki sérlega góðir fari í hreinsunareld‘ og að ‚hinir vondu séu steiktir að eilífu í vítiseldi.‘ Í ljósi þess að svona miklar villukenningar eru innan babýlonskra trúarbragða getum við fagnað því að Jesús lofaði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“! Við ættum að vilja vera kostgæfir málsvarar sannleikans sem gerir okkur frjáls. — Jóhannes 8:31, 32.

Mikil villukenning lítur dagsins ljós

7. (a) Hvert er markmið Satans og hvernig reynir hann að ná því? (b) Hvaða falskenning kom fram á sjónarsviðið á 19. öld?

7 Djöfullinn lætur þó einskis ófreistað í andstöðu sinni gegn sannleikanum. Hann er ævareiður yfir því að nokkur skuli leggja trúnað á sannleiksorð Guðs, Heilaga Biblíu. Takmark hans er að ‚blinda huga hinna vantrúuðu til að þeir þekki ekki hinn dýrlega fagnaðarboðskap um Krist.‘ Djöfullinn hefur reynt að skapa vantraust til sannleikans — ekki aðeins með því að láta ‚lögleysingja‘ kristna heimsins reyna að prjóna villukenningar við Biblíuna, heldur einnig með því að fullyrða að Biblían sé byggð á goðsögum og þjóðsögum. Á 19. öldinni ungaði þessi gamli höggormur því út enn einni villukenningu. Hún hefur verið nefnd þróunarkenningin. — 2. Korintubréf 4:4.

8. Hvernig er kenning Darwins?

8 Árið 1859, þegar nálgast tók hinn biblíulega ‚endalokatíma,‘ gaf Charles Darwin út bók sína Um uppruna tegundanna vegna náttúruvals eða varðveislu hinna hæfustu kynstofna í baráttunni fyrir lífinu. (Daníel 12:4) Darwin sló fram þeirri kenningu að lifandi verur hefðu ekki komið til vegna beinnar sköpunar, heldur hefðu allar lífverur þróast af þeim sem fyrir voru „vegna náttúruvals sem er afleiðing baráttunnar fyrir tilverunni.“ Að síðustu hafi maðurinn þróast af eins konar apa. Darwin fullyrti að þessi þróun byggðist á því að ‚hinir hæfustu lifðu af.‘

9. (a) Hvaða biblíusannindi, sem Jesús kenndi, væru merkingarlaus ef þróunarkenningin væri sönn? (b) Hvernig hefur kenningin um að „hinir hæfustu lifi“ verið mannkyninu til mikils tjóns?

9 Þessi kenning jafngildir því að afneita blygðunarlaust frásögn Biblíunnar af sköpuninni og syndafalli mannsins. Hún gerir lausnarfórn Jesú og kenningar Biblíunnar um Guðsríki, upprisuna, eilíft líf og paradís á jörð merkingarlausar. Auk þess myndi þróunarkenningin, ef hún væri sönn, létta af mannkyninu allri siðferðilegri ábyrgð gagnvart skapara. * Með því að kenna að „hinir hæfustu lifðu“ tryggði þróunarkenningin frjóa jörð fyrir marxisma, nasisma, fasisma og ýmsa aðra hugmyndafræði. * Málsvarar þróunarkenningarinnar bera verulega ábyrgð á drjúgum hluta þess guðleysis og þjáninga sem er í heiminum núna. — Sálmur 14:1-4.

Málsvarar ósannindanna

10. Hvernig reyndist klerkastéttin vera málsvari lyginnar að því er kenningu Darwins varðaði?

10 Reis klerkastéttin á tímum Darwins upp til baráttu gegn þessari kenningu sem er Guði til vanheiðurs? Prófessor við Cambridge-háskóla segir, svo undarlegt sem það kann að hljóma: „Andstaðan við kenningu Darwins kom í fyrstu að miklu leyti frá vísindamönnum á grundvelli sönnunargagna, en ekki frá guðfræðingum á grundvelli Ritningarinnar.“ Annar lærður doktor bætir við: „Með sárafáum undantekningum féllust fremstu hugsuðir kristninnar á Stóra-Bretlandi og í Ameríku mjög fúslega á darwinisma og þróunarkenninguna.“ Árið 1882 var Darwin meira að segja borinn til grafar meðal konunga í Westminster Abbey, með sérstöku samkomulagi við anglíkanska prófastinn þar! — Samanber Postulasöguna 20:30; 2. Tímóteusarbréf 4:3.

11. Hvað hafa klerkar sagt um kenningu Darwins?

11 Hin guðlausa kenning Darwins er nú viðurkennd sem „heilagur sannleikur“ af mörgum klerka kristna heimsins. Erkibiskupinn af York, næstæðsti yfirmaður Englandskirkju, álítur að færðar hafa verið svo miklar sönnur á kenninguna um þróun lífsins, að hún sé „eini hugsanlegi grundvöllur nútímalíffræði.“ Á nýlegum fundi í Páfagarði sögðu 12 fræðimenn sem teljast fulltrúar æðsta vísindaráðs kaþólsku kirkjunnar: „Við erum sannfærðir um að ríkuleg sönnunargögn taki af allan meiriháttar vafa um að þróunarhugmyndin eigi við manninn og aðra prímata.“ Við þetta bætir alfræðibókin New Catholic Encyclopedia: „Allsherjarþróun, jafnvel þróun mannslíkamans, virðist líklegasta, vísindalega skýringin á uppruna lífsins.“ Er þróunarkenningin studd áreiðanlegum, vísindalegum sönnunargögnum? Þú átt líf þitt undir því að ganga úr skugga um hver sé sannleikurinn í þessu máli. — Jóhannes 14:6; 16:13; 17:17.

12. Hvers vegna hljótum við að segja að hugmyndir sumra trúfélaga um sköpunina séu bæði óbiblíulegar og ótrúlegar?

12 Nýlega hafa ýmis bókstafstrúar-trúfélög sett fram „sköpunarhyggju“ sem svarið við þróunarkenningunni. En um leið slá þau fram fullyrðingu sem er bæði óbiblíuleg og ótrúleg. Hún er sú að himinninn, jörðin og allt sem á jörðinni er hafi verið skapað af Guði á sex dögum sem hver sé 24 klukkutíma langur — já, á aðeins 144 klukkustundum! Þessi kenning hefur komið mörgum til að spotta Biblíuna. En er „dagur,“ eins og Biblían notar það hugtak, alltaf 24 stunda langur? 1. Mósebók 2:4 talar um ‚þann dag þegar Jehóva Guð gerði himin og jörð.‘ (NW) Þessi eini dagur felur í sér alla hina sex sköpunardaga í fyrsta kafla 1. Mósebókar. Hugtakið „dagur,“ eins og Biblían notar það, er einfaldlega tímabil af mældri lengd. „Dagur“ hjá Jehóva getur verið þúsund ár eða margar þúsundir ára — eins og var með sköpunardagana. Í þessu efni er því frásögn Biblíunnar trúverðugleg og samræmist sönnum vísindum. — 2. Pétursbréf 3:8.

Uppruni lífsins

13. (a) Hvernig skýra málsvarar þróunarkenningarinnar uppruna lífsins? (b) Hvers vegna er fáránlegt að halda því fram að hin lifandi fruma hafi skapað sjálfa sig af hreinni slysni?

13 En svo vikið sé að þróunarkenningunni aftur, hvernig skýra stuðningsmenn hennar uppruna lífsins? Þeir segja að fyrir nokkrum milljörðum ára hafi hafdjúpið, sem þakti jörðina, hugsanlega orðið að eins konar „lífrænni súpu“ þótt það væri enn lífvana. Síðan segja þeir að ‚sérstaklega athyglisverð sameind hafi myndast fyrir mjög ólíklega slysni.‘ Eins og fyrir kraftaverk fjölgaði hún sér og myndaði aðrar sameindir sem þyrptust saman til að mynda lifandi frumu. Getur nokkuð hljómað fjarstæðukenndara en þetta? Höfundur þessarar lýsingar sagði í inngangsorðum bókar sinnar: „Þessi bók ætti að lesa nánast eins og hún væri vísindaskáldsaga.“ Já, skáldsaga en tæplega vísindi! Tímaritið National Geographic hefur sagt að framkvæmdafyrirmælin (DNA) í einni örsmárri frumu „myndu fylla þúsund 600 blaðsíðna bækur ef þau væru skrifuð út.“ Það er fáránlegt að segja að hin lifandi fruma hafi skapað sig sjálfa fyrir einskæra slysni í einhverri frumsúpu!

14. Hvaða öðrum meginkenningum Biblíunnar verðum við, málsvarar sannleikans, að halda á lofti?

14 Skýringin, sem biblíuritarinn Davíð gefur, er miklu skynsamlegri og auðskildari. Hann sagði í Sálmi 36:6 og 10: „[Jehóva] . . . hjá þér er uppspretta lífsins.“ Til að vera málsvarar sannleikans verðum við að styðja þessa grunnkenningu Biblíunnar. — Sjá einnig Sálm 100:3; Jesaja 42:5, 8.

Framþróun eða bein sköpun?

15. (a) Hvernig ætti steingervingasagan að styðja þróunarkenninguna ef hún væri sönn? (b) Hvað sýnir steingervingasagan og hvað viðurkenndi Darwin?

15 En gæti ekki hugsast að eftir að lífið varð til hafi mismunandi tegundir þróast smám saman yfir í aðrar tegundir? Nú, ef það hefði gerst ætti steingervingasaga liðinna alda að sýna það. En gerir hún það? Við skulum líta á hið svonefnda kambríum-tímabil. Þar birtast steingervingar helstu flokka hryggleysingja fyrst saman og gera það mjög skyndilega. Ef þessir gríðalegu ólíku hópar birtust allir skyndilega og samtímis, hvernig getur þá hugsast að þeir hafi þróast hver af öðrum? Sjálfur Darwin viðurkenndi hreinskilnislega: „Ef fjölmargar tegundir . . . hafa í raun orðið til í sömu andránni myndi það ganga af þróunarkenningunni dauðri!“ Já, ganga af henni dauðri! — 1. Korintubréf 3:19, 20.

16. (a) Hvað sýnir steingervingasagan sem afhjúpar þróunarkenninguna? (b) Hver er sannleikur málsins sem fram kemur í 1. Mósebók 1:25?

16 Steingervingasagan sýnir að ólíkar og afar flóknar lífsmyndir komu skyndilega og fullmyndaðar fram á sjónarsviðið. Prófessor einn í náttúruvísindum sagði: „Hvalir, leðurblökur, hestar, prímatar, fílar, hérar, íkornar o.s.frv., eru allir jafnólíkir þegar þeir fyrst koma fram eins og þeir eru núna. Ekki er minnsti vottur um sameiginlegan forföður og þaðan af síður hlekk er tengi þau nokkru skriðdýri sem á að vera forfaðir þeirra.“ Eru til nokkrir steingervingar af gíröffum með háls sem nemur tveim þriðju eða þrem fjórðu af núverandi lengd? Nei, þeir eru ekki til. Sannleikur málsins er sá sem fram kemur í 1. Mósebók 1:25: „Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.“ Já, mjög gott!

17. Hvaða fjölbreytni og fegurð er að finna meðal lifandi vera og frá hverjum einum getur slíkt verið komið?

17 Við skulum líka íhuga þá hrífandi fjölbreytni sem við sjáum núna meðal lífveranna hér á jörðinni! Fengu rósin, fiðrildið, kólibrífuglinn, páfagaukurinn og þúsundir annarra lífvera sína sérkennandi fegurð fyrir tilviljun í baráttunni milli hinna hæfustu? Eða eru þau meistaraleg verk elskuríks Guðs sem vill að mannkynið hafi yndi af verkum hans? Þegar við skoðum hversu yndisleg þau eru hin mörgu furðuverk, sem Guð hefur gert hér á þessari yndislegu jörð, hljótum við að hrópa upp yfir okkur: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.

18. Hvers vegna myndir þú segja að breiðnefurinn hljóti að vera gerður af Guði?

18 Hönnun kallar alltaf á vitran hönnuð. Og lifandi verur bera vott um undraverða hönnun. Tökum sem dæmi breiðnefinn sem á heimkynni í Ástralíu. Hann er á stærð við kanínu; hefur feld eins og oturinn, nef líkt og önd, spora líkt og haninn og er með sundfit milli tánna og auk þess klær. Hann verpir eggjum eins og skriðdýr og hefur unga sína á spena eins og spendýr. Hann er á heimavelli bæði á láði og legi. Af hvaða lífveru þróaðist breiðnefurinn? Þar eð hann er á ferli aðeins að næturlagi mætti kalla hann martröð þróunarfræðinganna. Líffræðingur við Harvard-háskóla lýsir honum sem „skepnu, afbragðsvel gerða fyrir sérstaka og óvenjulega lífshætti.“ Hver var hinn mikli hönnuður? Það getur aðeins verið Guð sem segir: „Mín eru öll skógardýrin.“ — Sálmur 50:10.

19. (a) Hvaða furðulegt afrek vinnur agnarlítill fugl? (b) Hvernig fer hann að því?

19 Og hvað um eðlishvötina sem svo margar lifandi verur eru gæddar? Til dæmis er til lítill fugl, norður-ameríski skógarsöngvarinn, sem vegur aðeins um 20 grömm. Hann kann að velja rétta haustveðrið til að fljúga frá Alaska til Nýja-Englands. Þar fitar hann sig á góðu æti og bíður eftir að kuldaskil gangi yfir. Þá leggur hann af stað og klifrar upp í 6 kílómetra hæð eða meira (um 20.000 fet) til að nýta sér þar hraðan vestanvind. Hann stefnir á Afríku en breytir um stefnu þegar hann kemur í staðvinda sem flytja hann til ákvörðunarstaðar síns í Suður-Ameríku. Öll hin eðlislæga vitneskja skógarsöngvarans er skráð í heila á stærð við baun. Getur þróunarfræðingurinn skýrt hvernig slík eðlishvöt varð til? Hann getur það ekki. En Biblían bendir á að Jehóva sé hinn alvitri ‚skapari himins og jarðar, hafsins og alls sem í því er,‘ þar á meðal skepnanna sem eru „vitrar af eðlishvöt.“ — Sálmur 146:5, 6; Orðskviðirnir 30:24-28, NW.

Ert þú þakklátur?

20. (a) Hver hlýtur að vera skýringin á þeim undrum sem við sjáum umhverfis okkur? (b) Hvernig birtist ást og góðvild skaparans gagnvart okkur? (c) Hver ættu að vera viðbrögð okkar, málsvara sannleikans?

20 Sannleikur málsins er þessi: Það er svo margt sem er yndislegt, hagkvæmt og ógnþrungið á himni og á jörðinni umhverfis okkur að eina skýringin á því getur verið að það sé skapað af ástríkum og almáttugum hönnuði! Skilningarvitin, sem eru okkur af Guði gefin, eiga svo stórkostlega við okkar náttúrlega umhverfi, að við eðlileg, heilbrigð skilyrði er lífið mjög ánægjulegt! Hið litfagra sólsetur sem við sjáum, angan blómanna sem við finnum, gómsætir ávextir sem við brögðum, svalandi gola sem leikur um vanga okkar, tónlist skógarins og fuglanna sem við heyrum — svo sannarlega tjáir allt þetta elskuríka góðvild skapara okkar og Guðs! (Sálmur 136:1-6, 25, 26) Við ættum af einlægni að vilja tjá honum þakklæti okkar með því að vera málsvarar sannleikans í þessum guðlausa heimi! Svo sannarlega er ‚orð Guðs sannleikur‘!

[Neðanmáls]

^ Karl Marx sagði: „Bók Darwins er mjög þýðingarmikil og gagnar mér sem grundvöllur stéttabaráttunnar í sögunni.“

Hverju svarar þú sem ert málsvari sannleikans?

◻ Hvernig varð sannleikur að deiluatriði?

◻ Hvernig afhjúpa sannindi Biblíunnar babýlonskar villukenningar?

◻ Hver er eina skýringin á uppruna hinna ýmsu tegunda lífsins?

◻ Hvað segir margbreytileg gerð hinna lifandi vera okkur?

◻ Hvernig getum við þakkað skapara okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Jesús sagði andstæðingum sannleikans berum orðum: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

[Mynd á blaðsíðu 10]

Charles Darwin — málsvari apamannakenningarinnar.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Englandskirkja skrínlagði Darwin sem helgan dóm í Westminster Abbey.

[Mynd credit line á blaðsíðu 13]

Mynd: U.S. Fish & Wildlife Service