Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð bjargar Gyðingum frá þjóðarmorði

Guð bjargar Gyðingum frá þjóðarmorði

Höfuðþættir biblíubókanna Esterarbók 1:1-10:3

Guð bjargar Gyðingum frá þjóðarmorði

Fjöldamorðin verða ógnvekjandi en áhrifarík — jafnt ungir sem aldnir, börn sem konur verða brytjuð niður vægðarlaust. Enginn mun voga sér að andmæla þessu áformi því að aftökuskipunin ber innsigli konungs. Já, Gyðingar munu deyja eins og varnarlaus sláturlömb!

Þannig lítur það að minnsta kosti út í augum Hamans, forsætisráðherra í Persíu til forna. Hann hefur lagt á ráðin um þetta fjöldamorð sökum skefjalauss haturs til Gyðingsins Mordekais. En þegar Haman bíður sjálfumglaður sigursins biður gyðingaþjóðin Guð að bjarga sér. Hvernig fer? Það er opinberað í Esterarbók í Biblíunni. Bókin, sem er rituð af Mordekai sjálfum, er trústyrkjandi frásaga af því hvernig hjálp Guðs — og trú ungrar konu — bjargaði heilli þjóð.

Ester verður drottning

Lestu Esterarbók 1:1-2:23. Um árið 484 f.o.t. heldur Ahasverus Persakonungur (Xerxes I) mikla veislu. En Vastí drottning neitar að hlýða boði konungs um að koma fram þar. Konungur reiðist, sviptir hana drottningardómi og hefur leit að nýrri drottningu. Eftir að hafa virt fyrir sér fegurstu konur í ríkinu velur hann hógværa gyðingastúlku að nafni Hadassa sem föðurbróðir hennar, Mordekai, hafði búið til þess hlutverks. Unga konan leynir því að hún sé Gyðingur og notar hið persneska nafn sitt Ester.

1:3-5 — Hvers vegna var þessi veisla haldin?

Að sögn Heródótusar sagnfræðings kallaði Xerxes einu sinni saman þing til að leggja drög að herför gegn Grikklandi. Vera má að það hafi verið þessi samkunda. Líklegt er að Xerxes hafi sýnt auðæfi og vegleika ríkis síns í því skyni að sannfæra höfðingjana um að hann væri fær um að fara í herförina til Grikklands.

1:8 — Hver voru fyrirmælin um drykkju?

Svo virðist sem Persar hafi haft fyrir sið að hvetja hver annan til að drekka visst magn í slíkum samkvæmum. Konungur gerði hins vegar undantekningu við þetta tækifæri. Biblían lætur þess ógetið hvort það stuðlaði að hófsamari drykkju eða hinu gagnstæða.

2:19, 20 — Hvers vegna ‚sat Mordekai í konungshliði‘?

Ljóst er að Mordekai var einn af embættismönnum Ahasverusar konungs. Slíkir menn sátu yfirleitt í konungshliði og biðu skipana konungs. Mordekai hlýtur að hafa verið töluvert hátt settur, ella hefði Haman líklega getað losað sig við hann samstundis. Mordekai var því í aðstöðu til að frétta af og koma upp um samsæri um að ráða konung af dögum.

Lærdómur fyrir okkur: Ester sýndi fram á gildi lítillætis og hæversku með því að biðja ekki um skartgripi eða skrúðklæðnað áður en hún gekk fyrir konung. Hún lét hinn hulda mann hjartans með sínum ‚hógværa og kyrrláta anda‘ vinna hylli konungs. (1. Pétursbréf 3:1-5) Á sama hátt hafa þeir af hinum smurðu leifum, sem safnað hefur verið eftir 1914, aflað sér hylli konungsins Jesú Krists.

Samsæri Hamans

Lestu 3:1-5:14. Ahasverus skipar Amalekíta að nafni Haman forsætisráðherra. En Mordekai er þess minnugur að Jehóva hafði ákveðið að ‚heyja ófrið við Amalekíta frá kyni til kyns,‘ og neitar að falla á kné og lúta Haman. (2. Mósebók 17:8-16) Í hefndarskyni telur hin drambsami Haman konung á að útrýma Gyðingum!

Mordekai biður Ester að skerast í leikinn og minnir hana á að þegi hún muni „Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað.“ Þar eð hér er um að tefla örlög þjóðar Jehóva og dóm hans gegn Amalekítum treystir Mordekai að Guð muni veita þjóð sinni undankomu. (1. Samúelsbók 12:22) Ester gengur óboðin fyrir konung sem gat hæglega varðað lífláti! En Ahasverus lætur hana halda lífi og þiggur boð hennar að sækja veislu sem hún hefur búið. Haman kemur heim til sín æfur yfir að Mordekai skuli ekki falla fram fyrir honum, og leggur drög að lífláti hans.

3:7 — Hvað fólst í því að varpa „púr“?

„Púr“ virðist vera persneskt orð sem merkir „hlutur“ (í hlutkesti). Stjörnuspámenn vörpuðu oft hlutkesti til að spá um óorðna hluti. Líklega var þetta gert til að velja heillavænlegasta tímann fyrir Haman til að framkvæma þjóðarmorðið.

4:3 — Hvers vegna föstuðu Mordekai og Gyðingar?

Þar eð þjóðarógæfa var yfirvofandi voru alvarlegar hugleiðingar við hæfi. (Prédikarinn 3:4) Gyðingar þörfnuðust sárlega leiðbeiningar Guðs. Fasta var því merki þess að þeir sneru sér til Jehóva í leit að nauðsynlegum styrk og visku. Leitar þú líka í bæn til Guðs þegar við þér blasa prófraunir? — Hebreabréfið 5:7.

5:6-8 — Hvers vegna dró Ester það að skýra konungi frá málavöxtum?

Ester brast greinilega ekki hugrekki því að hún hafði nú þegar hætt lífi sínu. Sennilega vildi hún þó fyrst vera viss um velvild konungs. Hún bauð honum því til annarrar veislu. Handleiðsla Guðs átti líka hlut að máli því að ákveðnir atburðir áttu sér stað þar á milli.

Lærdómur fyrir okkur: Ester sýndi trú, hugrekki og var fús til að fara eftir ráðum Mordekais. Þeir sem orðið hafa hluti hinna smurðu leifa frá 1919 hafa sýnt sambærilega trú, hugrekki og fúsleika til að vinna með þeim sem eldri eru af brúði Krists. Þetta er gott fordæmi!

Samsærið að engu gert

Lestu 6:1-7:10. Ahasverus varð andvaka, vafalaust af völdum Guðs. Ef til vill hafði hann á tilfinningunni að honum hefðu orðið á einhver mistök og lét lesa fyrir sig úr annálabókinni sem ef til vill var dagbók konungs. Hann uppgötvar að Mordekai hefur ekki verið launað fyrir að koma upp um samsærið gegn konungi og biður Haman að stinga upp á viðeigandi umbun. Haman ímyndar sér að konungur hafi hann sjálfan í huga og stingur upp á viðamikilli athöfn. Sér til skelfingar er honum skipað að láta sýna Mordekai allan þennan heiður! Ráðgjafar Hamans telja það fyrirboða um fall hans.

Þessi auðmýking er ekki fyrr liðin en Haman er fylgt til annarrar veislu Esterar. Þar býður einvaldurinn Ester að bera fram bón sína. „Þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar,“ biður hin hugrakka drottning. Hún segir konungi að hún sé Gyðingur og afhjúpar ráðagerð Hamans. Skelfingu lostinn biður Haman sér vægðar en er þess í stað hengdur — á gálganum sem hann ætlaði Mordekai!

7:4 — Hvers vegna hefði eyðing Gyðinga verið konungi til skaða?

Hefði Haman áformað að selja Gyðinga að þrælum hefði það líklega skilað Ahasverusi töluverðum hagnaði. Dráp heillar þjóðar hefði verið konungi mun meira fjártjón en sem nam þeim 10.000 silfurtalentum sem Haman hafði lofað að greiða. Hefði þjóðarmorðið verið framið hefði það líka orðið til þess að konungur missti drottningu sína og þar með verið höggvið mjög nærri honum!

7:8 — Hvers vegna var auglit Hamans hulið?

Haman huldi ekki auglit sitt sjálfur fullur blygðunar eða eftirsjár. Bersýnilega voru það hirðmenn sem gerðu það, hugsanlega til tákns um smán eða dóm. Líklega var þetta fyrsta skrefið til fullnægingar dauðadómi.

Lærdómur fyrir okkur: Hugrökk hætti Ester lífi sínu með því að segja frá því að hún væri Gyðingur. Frá 1931 hafa þjónar Guðs á sama hátt hætt á ofsóknir með því að lýsa sig votta Jehóva! (Jesaja 43:10-12) Ert þú svona hugrakkur?

Fólk Guðs frelsað!

Lestu 8:1-10:3. Mordekai er skipaður forsætisráðherra í stað Hamans. Aftur hættir Ester lífi sínu með því að ganga óboðin fram fyrir konung og sárbæna hann um að ráðagerð Hamans verði ónýtt. Einvaldurinn fellst á það og leyfir Mordekai að semja í nafni Ahasverusar yfirlýsingu gegn hinni fyrri. Þótt ekki væri hægt, samkvæmt siðum Persa, að ógilda fyrri tilskipun um útrýmingu, heimila hin nýju lög Gyðingum að verja sig.

Mikill fögnuður brýst út meðal Gyðinga! Nú eru þeir ekki lengur hjálparvana fórnarlömb heldur fá nokkurra mánaða frest til að skipuleggja varnir sínar. Loks rennur upp 13. adar (febrúar-mars). Um 75.000 manns, sem ‚leituðu Gyðingum tjóns,‘ falla fyrir hendi Gyðinga. Til að Gyðingar gleymi ekki að sigurinn er frá Jehóva gefur Mordekai þá tilskipun að haldin skuli árleg púrímhátíð þann 14. og 15. adar.

8:5 — Hvernig sýndi Ester góða dómgreind?

Ester vandaði val orða sinna og beiddist þess af konungi að hann ógilti skjöl Hamans „þau er hann ritaði.“ Með háttvísi forðaðist hún að nefna ábyrgð konungs í þessu máli. Kristnir menn sýna líka háttvísi þegar þeir bera vitni fyrir embættismönnum stjórnvalda.

8:17 — Hvernig ‚gjörðust landsbúar Gyðingar‘?

Sjötíumannaþýðingin segir að þessir Gyðingar ‚hafi verið umskornir og gerst Gyðingar.‘ Bersýnilega litu margir Persar á hina nýju tilskipun sem merki um stuðning Guðs við Gyðinga, og tóku gyðingatrú. Eins hefur ‚mikill múgur‘ af ‚öðrum sauðum‘ nú á tímum tekið afstöðu með hinum smurðu leifum. — Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16; Sakaría 8:23.

9:10, 15, 16 — Hvers vegna tóku Gyðingar ekki herfang?

Tilskipun konungs heimilaði þeim að taka herfang. Sú staðreynd að þeir gerðu það ekki tók af öll tvímæli um að þeim gekk einungis sjálfsvörn til, ekki það að auðga sig.

Lærdómur fyrir okkur: Eins og Gyðingar á dögum Esterar leita vottar Jehóva réttilega verndar stjórnvalda og dómstóla fyrir óvinum sínum. Einkum meðan síðari heimsstyrjöldin stóð yfir þurftu þeir að gera það sökum árása sem þeir urðu fyrir að undirlagi klerka. Með blessun Jehóva hafa margir sigrar unnist fyrir dómstólum.

Esterarbók er vottum Jehóva nú á tímum uppspretta vonar og hvatningar. Þeir vita að brennandi hatur Satans til þeirra mun brátt brjótast út í allsherjarárás til að útrýma þeim. Með hvaða hætti Jehóva mun þá vernda þá á eftir að koma í ljós. (Esekíel 38:16-23) Þeir treysta þó, eins og var á dögum Esterar, að Jehóva muni ekki yfirgefa þjóna sína. Á réttu augnabliki mun hann veita þeim „frelsun og hjálp.“