Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Útbreiðum ilm þekkingarinnar á Guði

Útbreiðum ilm þekkingarinnar á Guði

Útbreiðum ilm þekkingarinnar á Guði

„En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.“ — 2. KORINTUBRÉF 2:14.

1. Hver er sá ilmur sem við erum að ræða um hér og hvernig ber að líta á þau sérréttindi að útbreiða hann?

 ÞÚ dregur djúpt að þér andann. Hvílíkur ilmur! Við erum þó ekki að tala um sæta angan blómanna heldur táknrænan ilm sem stafar frá bestu ritum veraldar. Hér er ekki átt við ritverk manna heldur táknrænan blómvönd innblásinn af skapara blómanna sem prýða jörðina og senda frá sér sætan angan. Það er dýrmætur fjársjóður að mega útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði. Já, það er mjög verðmæt þjónusta sem mannkynið í heild fær ekki að inna af hendi.

2. Hvenær byrjuðu lærisveinar Krists að útbreiða hinn táknræna ilm og með hvaða árangri?

2 Lærisveinar Krists öðluðust þessi dýrmætu sérréttindi er þeir tóku að þjóna Jehóva Guði af kappi á hvítasunnudeginum árið 33. Fylltir heilögum anda fóru þeir að útbreiða táknrænan ilm er þeir tóku að tala um „stórmerki Guðs.“ (Postulasagan 2:1-4, 11) Fyrir þeirra tilstilli átti ilmur þekkingarinnar á Guði að ná til annarra, ekki aðeins umskorinna Gyðinga heldur líka óumskorinna þjóða, kynkvísla, lýða og tungna. (Postulasagan 10:34, 35) Sannir lærisveinar Krists litu á þessa þjónustu sem verðmætri en allan þann efnislega auð er menn gátu safnað sér.

3. Í hvaða mæli er það starf að útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði unnið og hvaða spurningar þurfum við að spyrja okkur?

3 Núna er unnið að því að útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði um víða veröld — í margfalt umfangsmeiri mæli en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. Það starf er fólgið í því að bera vitni fyrir öllu mannkyni um stofnsett ríki Guðs í höndum hins krýnda konungs hans, Jesú Krists. (Matteus 6:10; Postulasagan 1:8) Lítur þú á það sem ómetanlegan fjársjóð að mega kunngera konunginn og ríki hans? Það gerði Jesús Kristur sem veitti forystu prédikun fagnaðarerindisins um ríkið og gaf okkur þar með fordæmi. — Matteus 4:17; 6:19-21.

Angan á leið sigurgöngunnar

4. Hvernig leiðir Guð þjóna sína á jörðinni samkvæmt 2. Korintubréfi 2:14 og til hvaða forna siðar vísa orð Páls?

4 Hvers vegna er þjónusta við Guð dýrmæt? Meðal annars vegna þess að nú þegar hafa þeir sem þjóna Jehóva þau einstæðu sérréttindi að láta Guð leiða sig í stórkostlegri sigurgöngu. Annað Korintubréf 2:14 segir: „Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum [„lætur þekkingu okkar á honum breiðast út um heiminn eins og unaðslegan ilm,“ Phillips] á hverjum stað.“ Þessi orð Páls postula vísa til sigurgöngu eins og tíðkaðist meðal Rómverja til forna. *

5, 6. (a) Hvers eðlis voru sigurgöngur Rómverja til forna og hvað táknaði hinn sæti reykelsisilmur fyrir þátttakendurna? (b) Hvernig ber að skilja 2. Korintubréf 2:14-16 í yfirfærðri merkingu?

5 Einhver mesti heiður sem rómverska öldungaráðið gat veitt sigursælum hershöfðingja var sá að leyfa honum að fagna sigri með íburðarmikilli skrúðgöngu, sigurgöngu. Skrúðgangan mjakaðist eftir Via Triumphalis og síðan eftir bugðóttum veginum upp til musteris Júpíters á tindi Capitoleum-hæðarinnar. Konungar, prinsar og hershöfðingjar, sem teknir höfðu verið stríðsfangar, ásamt börnum þeirra og þjónum, voru leiddir með í hlekkjum, oft naktir þeim til auðmýkingar.

6 Er skrúðgangan hélt sem leið lá gegnum Rómaborg köstuðu borgarbúar blómum fyrir stríðsvagn sigurvegarans og brenndu ilmreykelsi alla leiðina sem skrúðgangan fór um. Sætur ilmurinn var virðingarvottur við hina sigursælu hermenn og ávísun á tryggari tilveru. Fyrir fangana, sem ekki hlutu náðun og voru líflátnir þegar skrúðgangan var á enda, var ilmurinn tákn dauðans. Þessi vitneskja varpar ljósi á andlega heimfærslu þessarar líkingar Páls í 2. Korintubréfi 2:14-16. Þar er Páli og kristnum bræðrum hans lýst sem dyggum þegnum Guðs í félagi við Krist, sem allir taka þátt í hinni miklu sigurgöngu Guðs eins og hann leiðir hana þar sem ilmurinn liggur í loftinu.

Ilmur af lífi eða ilmur af dauða

7, 8. (a) Hvernig útbreiða vottar Jehóva hinn sæta ilm þekkingarinnar á Guði? (b) Hver eru viðbrögð þeirra sem bjargast við þeim ilmi sem vottar Jehóva útbreiða? (c) Hver eru viðbrögð þeirra sem farast?

7 Með því að útbreiða sem víðast sannindi Biblíunnar í höndum Krists eru vottar Jehóva að útbreiða sætan ilm þekkingarinnar á hinum miskunnsama Guði sem hefur með sannleika sínum frelsað þá úr fjötrum falskra trúarbragða. Þeir ganga sigurglaðir fram í þjónustu Jehóva. Fórnirnar, sem þeir færa í þjónustunni sem vottar hans og konungs hans, eru eins og sætur reykelsisilmur fyrir Jehóva. Við skiljum þannig betur hvað postulinn átti við er hann sagði: „Vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast; þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs [„lífgandi ilmur til lífs,“ ísl. bi. 1859; „hinn hressandi ilmur lífsins sjálfs,“ Phillips].“ — 2. Korintubréf 2:15, 16.

8 Hjartahreinir menn með sauðumlíkt hugarfar skynja sætleika þekkingarinnar á Jehóva sem vottar hans útbreiða. Fyrir þetta fólk ber vitnisburðurinn með sér ilm af heilsu og lífi, af lifandi og lífgandi sannleika. Þeir færa Jehóva og konungi hans þakkir, slást í för með sigurgöngunni og hrópa hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:10) Þeir teyga andrúmsloft sannleikans um Guðsríki sem er eins og hressandi ilmur af lífi sem leiðir til lífs. En Satan og illir andar hans hafa rangsnúið lyktarskyni þeirra sem ríghalda í falstrúarbrögðin, þannig að þeir halda fyrir nefið og neita fullir fyrirlitningar að taka við sannleikanum. Í nösum þeirra sem „glatast“ ber sannleikurinn og trúfastir boðberar hans með sér angan af dauða sem leiðir til dauða. Eða, eins og íslenska biblían frá 1859 orðar það: „Þessum banvænn eimur til dauða.“ Þýðing Phillips orðar það svona: „Hinum síðarnefndu finnst það vera eins og banvæn lykt af dauðadómi.“

9. Hvaða spurningu varpar Páll nú fram, hvernig myndir þú svara og hvers vegna?

9 „Og hver er til þessa hæfur?“ spyr postulinn síðan. (2. Korintubréf 2:16) Það er að segja, „hver er hæfur til starfs sem þessa?“ (The Jerusalem Bible) „Og hver er hæfur til slíkrar þjónustu?“ (Weymouth) Biblían svarar: Vottar Jehóva! Hvernig getum við sagt það? Vegna þess að einungis kostgæfir menn, sem eru heiðarlegir, einlægir og sækjast ekki eftir eigingjörnum ávinningi og tala sannleikann skýrt, án þess að blanda hann í nokkru falstrúarbrögðum, eru hæfir til þess starfs að útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði. — Kólossubréfið 1:3-6, 13; 2. Tímóteusarbréf 2:15.

10. Hvers vegna er klerkastéttin ekki hæf til þess starfs að útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði?

10 Prestastétt kristna heimsins, sem sækist eftir góðu áliti í þessum heimi, er ekki hæf til þessarar óeigingjörnu þjónustu. Hvers vegna? Vegna þess að hún stenst ekki þá kröfu sem er gefin í skyn í orðum Páls: „Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.“ (2. Korintubréf 2:17) Eða eins og New International Version orðar það: „Ólíkt mörgum falbjóðum við ekki orð Guðs í gróðaskyni. Þess í stað tölum við í Kristi frammi fyrir Guð í einlægni, líkt og menn sendir af Guði.“

11, 12. (a) Hvers vegna er ekki hægt að segja að vottar Jehóva ‚prangi með orð Guðs‘ þótt þeir taki við framlögum? (b) Hvað bera vottar Jehóva fram, ólíkt hinni menguðu útgáfu kristninnar sem margir kaupa?

11 Vottar Jehóva eru sendir af Guði og bera vitni í augsýn Guðs. Þótt þeir sjái áhugasömu fólki fyrir verðmætum bókum og öðrum ritum til skýringar á orði Guðs, og taki við frjálsum framlögum til stuðnings prédikun Guðsríkis um víða veröld, er það ekki hið sama og að falbjóða eða spilla orði Guðs. Slík fjárframlög eru einfaldlega hjálp til að stuðla að útbreiðslu þekkingarinnar á Guði til enn fleiri.

12 Margir nútímamenn hafa, vitandi eða óafvitandi, keypt sér mengaða útgáfu kristninnar sem hæfir eigingjörnum löngunum þeirra og rekst í engu á við þann lífsstíl sem þeir hafa valið sér. Þeir trúa að þeir séu Guði þóknanlegir ef þeir staðhæfa að þeir elski hann í hjörtum sér. Sé hins vegar sýnt fram á að trú þeirra og hátterni stangast á við orð Guðs rangsnúa þeir Ritningunni til að upphefja persónulegar skoðanir sínar yfir réttan skilning á Biblíunni. (Matteus 15:8, 9; 2. Pétursbréf 3:16) En vottar Jehóva halda fram hreinum, ómenguðum sannleika Biblíunnar og útbreiða þannig sætan ilm sem er velþóknanlegur Guði og sönnum dýrkendum hans. Þannig reka þeir á flótta allar trúarlegar erfðavenjur og annað sem er hindrun í vegi sannrar þekkingar á Guði.

13. Hverjir taka þátt í sigurgöngu Guðs, auk smurðra kristinna manna, og hvað gera þeir hvert sem þeir fara?

13 Það að vera í sigurgöngu Guðs í félagi við Krist eru óviðjafnanleg sérréttindi sem bæði smurðir kristnir menn og ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ fær nú að njóta, því að sigur Guðsríkis er framundan. (Opinberunarbókin 7:4, 9; Jóhannes 10:16) Með því að við væntum frekari sigra konungsins útbreiðum við hvert sem við förum hina lífgandi þekkingu á Guði, líkt og ilmvatn eða dýrmætt reykelsi, til þeirra sem þrá í hjörtum sér sannleika og réttlæti. Það eru mikil sérréttindi að vera hæfur til að taka þátt í þessu einstæða starfi. — Jóhannes 17:3; Kólossubréfið 3:16, 17.

Umboð til að útbreiða ilm þekkingarinnar

14. Hvers vegna þarfnast þeir sem útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði ekki vottorðs eða skírteinis frá mönnum?

14 En þurfa ekki þeir sem útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði og ríki hans að hafa i höndum prófskírteini eða embættisvottorð útgefið af mönnum? Nei! Við höfum þegar fengið starfsumboð sem vottar æðsta drottinvalds alheimsins. Við þurfum því ekki að hika við að ganga út á akurinn og útbreiða ilm fagnaðarerindisins um Guðsríki. Höfum í huga að Jehóva leiðir okkur. Þjónusta Jesú var unnin andspænis ‚fjandskap syndara.‘ (Hebreabréfið 12:3) En frásögn Biblíunnar af þjónustu Jesú verður ekki breytt og boðunarstarf hans á akrinum eru meðmæli með honum og vitnisburður þess að hann hafi verið sannur þjónn orðsins skipaður af Jehóva Guði.

15. Hvernig sýndi Páll postuli fram á að sannkristnir menn þurfi ekki að fá „meðmælabréf“?

15 Þjónustuumboð Páls postula var einnig dregið í efa á sínum tíma og hann svaraði: „Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður? Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.“ — 2. Korintubréf 3:1-3.

16. Hvers konar bréfi framvísa vottar Jehóva sem sönnun fyrir því að þjónusta þeirra sé frá Guði?

16 Veraldleg yfirvöld viðurkenna ekki starfsumboð okkar sem vottar Jehóva. En látum það starf okkar að útbreiða ilm þekkingarinnar á Jehóva tala sínu máli! Sumir neita að sjálfsögðu að lesa þessi meðmælabréf um þjónustu okkar, en þeir geta aldrei afmáð árangurinn af henni. Klerkar geta veifað prófskírteinum og embættisbréfum, en þau eru ekkert annað en pappírsmiðar sem á eru letruð orð manna. Vottar Jehóva standa sem vitnisburðarbréf af holdi og blóði, auk þess að eiga sér stuðning í orði Guðs. Tekist hefur að flytja miklum múgi annarra sauða fagnaðarerindið um ríkið, og hann hefur einnig safnast konungi Jehóva á hægri hönd. (Matteus 25:33, 34) Allir þeir eru meðmælabréf okkar, bréf sem við, vottar Jehóva, berum alltaf með okkur í hjörtum og hugum og getum framvísað öruggir í bragði. Þeir sem taka afstöðu með drottinvaldi Guðs yfir alheimi og þjóna Guði í félagi við votta Jehóva eru sjálfir meðmælabréf sem ekki verður hjá komist að allir menn lesi og þekki.

17. Hvernig er „bréf Krists“ skrifað og hvers vegna segir Páll að það sé skrifað á hjörtu?

17 Ofsatrúarmenn falstrúarbragðanna verða að sjálfsögðu reiðir og öfundsjúkir er þeir lesa meðmælabréfin. Þrátt fyrir það er hinn sívaxandi mikli múgur annarra sauða meðmælabréf frá Jesú Kristi, góða hirðinum, sem notar alla votta Jehóva við hjarðgæslu sína. Við erum penninn eða verkfærið sem hann notar til að skrifa þetta bréf. Bréfið er ekki skrifað með bleki sem hægt er að afmá heldur er það skrifað með hjálp starfskraftar eða anda Guðs sem starfar í okkur. Þetta er ekki eins og þá er Móse fékk boðorðin tíu rituð með fingri Guðs á tvær steintöflur. Bréf okkar eru rituð á hjartaspjöld manna af holdi því að hin andlega þjónusta okkar veldur hjarta- og hugarfarsbreytingu hjá þeim sem taka við hinu ilmhreina fagnaðarerindi.

18. Hvað er það sem gerir móttakanda fagnaðarerindisins að meðmælabréfi?

18 Starf okkar með orð Guðs hefur haft áhrif á þakkláta viðtakendur fagnaðarerindisins og valdið undraverðum breytingum. Ákvörðun þeirra um að þjóna Guði er ekki sprottin af skyndilegu hrifnæmi sem einhver vakningarprédikari kallar fram með miklu tilfinningaspili. Nei, hin kristaltæru sannindi heilagrar Biblíu hafa valdið varanlegri breytingu á lífi þeirra. Kærleikur til hins sanna Guðs, Jehóva, vekur með þeim hvöt til að ‚afklæðast hinum gamla persónuleika með hinum tælandi girndum og íklæðast nýja persónuleikanum‘ sem endurspeglar ‚ávöxt andans.‘ (Efesusbréfið 4:20-24; Galatabréfið 5:22, 23) Það er þessi árangur sem gerir þá að meðmælabréfi er talar skýrar en nokkurt handskrifað bréf frá sjálfum okkur eða einhverri sýnilegri stofnun sem kynni að senda okkur.

19. Hvernig lýsir Páll hæfileikum ‚þjóna nýs sáttmála‘ og hvaða áhrif hefur starf þeirra haft á múginn mikla?

19 Í 2. Korintubréfi 3:4-6 heldur Páll áfram: „En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist. Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði, sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála.“ Þótt einungis þeir sem tilheyra hinum smurðu leifum séu ‚þjónar nýs sáttmála‘ hefur starf þeirra haft áhrif á hinn mikla múg annarra sauða og á enn eftir að hafa áhrif á ótalinn fjölda þeirra sem eftir er að safna. Þetta er það traust sem allir vottar Jehóva bera til Jehóva Guðs fyrir milligöngu Krists Jesú. Með þakklátum huga hvetja leifarnar hinn mikla múg annarra sauða til að taka af öllu hjarta þátt í þeim ‚bréfaskriftum‘ sem felast í þjónustunni er Jesús Kristur sagði fyrir í Matteusi 24:14 og 28:19, 20.

20. (a) Hvað segir skýsla Árbókarinnar um þá sem útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði? (b) Hvað getum við öll sagt um hæfileika okkar til að veita þessa þjónustu?

20 Ljóst er af skýrslunni í Árbók votta Jehóva 1991 að vottar Jehóva hafa gert það. Þar kemur fram að þeir hafa útbreitt ilm þekkingarinnar á Guði í 212 löndum. Þeir telja nú yfir 4.000.000 virka boðbera og síðastliðið ár vörðu þeir um 895.000.000 klukkustundum í að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Síðasta ár (1990) voru 9.950.058 viðstaddir kvöldmáltíð Drottins. Bæði hinar smurðu leifar og þeir sem tilheyra múginum mikla geta sagt: ‚Hæfileiki okkar er frá Guði.‘ Eða eins og The Jerusalem Bible orðar það: „Allir hæfileikar okkar koma frá Guði.“

21. Hvað ættum við öll að gera og hvers vegna?

21 Við skulum því útbreiða hinn sæta, lífgandi ilm þekkingarinnar á Guði út um allt! Láttu starfssvæði safnaðar þíns anga af þekkingunni á Jehóva. Þá mun hann, sem sigursæll herforingi guðveldisins, láta þig vera þátttakanda í sigurgöngu sinni ásamt öllum vottum hans er sækja fram í hinni dýrlegu þjónustu nú á tímum!

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1128-9, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða líkingu dregur Páll upp í 2. Korintubréfi 2:14-16?

◻ Hvaða áhrif hefur það á aðra að vottar Jehóva skuli útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði?

◻ Hverjir einir eru hæfir til þessa starfs og hvers vegna?

◻ Hvers vegna þurfa þeir menn, sem útbreiða ilm þekkingarinnar á Guði, ekki að hafa handskrifuð meðmælabréf vegna þjónustu sinnar?

[Spurningar]