Fyllist gleði
Fyllist gleði
„Lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.“ — POSTULASAGAN 13:52.
1. (a) Hvers konar ávöxtur er gleði? (b) Fyrir hvaða gleðilegu ráðstöfun ber Guði lof?
GLEÐI! Þessi kristni eiginleiki er talinn upp annar í röðinni á eftir kærleika í lýsingu Páls á ávexti andans. (Galatabréfið 5:22-25) Og hvað kallar fram þessa gleði? Það er fagnaðarerindið sem engill Guðs boðaði hógværum fjárhirðum fyrir liðlega 1900 árum: „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Síðan birtust englasveitir sem tóku undir með englinum í að lofa Guð glöðum rómi og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:10-14.
2, 3. (a) Hvers vegna var viðeigandi að Guð sendi frumgetinn son sinn til að vera lausnari mannkyns? (b) Á hvaða aðra vegu þjónaði Jesús tilgangi Guðs meðan hann var á jörð?
2 Velþóknun Guðs birtist mönnum í því að hann sér þeim fyrir hjálpræði fyrir milligöngu Krists Drottins. Þessi frumgetni sonur Guðs er persónugervingur sannrar visku og er lýst svo að hann segi um föður sinn við sköpunina: „Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma, leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.“ — Orðskviðirnir 8:30, 31.
3 Það var því viðeigandi að Jehóva skyldi senda þennan son sinn, sem hafði slíkt yndi af mannanna börnum, til að vera lausnari mannkyns. Og hvernig myndi það vera Guði til vegsemdar? Það myndi opna honum leiðina til að koma þeim stórfenglega vilja sínum í framkvæmd að fylla jörðina réttlátum og friðelskandi mönnum. (1. Mósebók 1:28) Enn fremur myndi þessi sonur, Jesús, sýna á jörðinni við erfiðustu prófraun að fullkominn maður getur drottinhollur hlýtt Jehóva sem alvöldum Drottni, og þannig myndi hann fullkomlega réttlæta hina réttmætu stjórn föður síns yfir sköpunarverki sínu. (Hebreabréfið 4:15; 5:8, 9) Ráðvendni Jesú gaf kristnum mönnum einnig fyrirmynd til að líkja gaumgæfilega eftir. — 1. Pétursbréf 2:21.
4. Hvaða enn meiri gleði hefur þolgæði Jesú í för með sér og hvernig ætti það að hvetja okkur?
4 Jesús hafði óumræðilega gleði af því að gera þannig vilja föður síns og átti í vændum enn meiri gleði eins og orð Páls í Hebreabréfinu 12:1, 2 gefa til kynna: „Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú sest til hægri handar hásæti Guðs.“ Hvers konar gleði er þetta? Það er gleðin sem Jesús hefur ekki aðeins af því að helga nafn föður síns og endurleysa mannkynið úr greipum dauðans heldur einnig af því að ríkja sem konungur og æðsti prestur er hann endurreisir hlýðið mannkyn til endanlauss lífs á jörð sem verður paradís. — Matteus 6:9; 20:28; Hebreabréfið 7:23-26.
5. Hverjir eru „bræður“ Jesú og í hvaða einstakri gleði eiga þeir hlutdeild?
5 Já, sonur Guðs hefur alltaf haft gleði af því að þjóna mannkyninu. Það hefur verið honum gleði að þjóna með föður sínum við að velja hóp ráðvandra manna sem hann kallar „bræður“ sína og eru við dauða sinn reistir upp til himna. Þeir ganga inn til einstakrar gleði með Jesú. Þeir eru lýstir ‚sælir og heilagir‘ og verða „prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ — Hebreabréfið 2:11; Opinberunarbókin 14:1, 4; 20:6.
6. (a) Hvaða gleðilegt boð lætur konungurinn ganga út til ‚annarra sauða‘ sinna? (b) Hvaða sérréttinda njóta margir þessara sauða nú á dögum?
6 Enn fremur þiggur mikill múgur ‚annarra sauða,‘ er konungurinn aðskilur og skipar sér til hægri handar sem tákn velþóknunar, boð hans: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ (Jóhannes 10:16; Matteus 25:34) Hvílík sérréttindi! Sumir þeirra, sem eiga að erfa jarðneskan vettvang ríkis hans, fá nú þegar ábyrgðarstöðu við hlið hinna smurðu, alveg eins og Jehóva sagði fyrir: „Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn verða akurmenn og víngarðsmenn hjá yður, en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar [Jehóva] og nefndir verða þjónar Guðs vors.“ Allir taka þeir undir með spámanni Guðs og segja: „Ég gleðst yfir [Jehóva], sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins.“ — Jesaja 61:5, 6, 10.
7. Hvers vegna er ‚dagurinn‘ frá 1914 mjög sérstakur?
7 Við lifum nú mjög sérstakan dag. Frá 1914 hefur verið dagur stjórnar Krists sem himneskur konungur, en honum er lýst í Sálmi 118:24, 25: „Þetta er dagurinn sem [Jehóva] hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum. [Jehóva], hjálpa þú, [Jehóva], gef þú gengi!“ Þetta er dagurinn sem ná mun hámarki er Jehóva gereyðir babýlonskum trúarbrögðum og sameinar hina 144.000 bræður Krists, brúði hans, konungi sínum á himni. Allir þjónar Guðs munu ‚gleðjast og fagna‘ yfir því. Þeir munu líka fagna yfir því að messíasarkonungurinn berst við Harmagedón til að bjarga drottinhollri þjóð sinni inn í réttlátan nýjan heim. (Opinberunarbókin 19:1-7, 11-16) Gefur Jehóva þjónum sínum gengi er þeir boða þessa gleðiríku von? Eftirfarandi skýrsla svarar því.
Vöxtur um allan hnöttinn
8. (a) Hvernig endurspeglar ársskýrsla votta Jehóva gleðina í heilögum anda? (b) Nefndu nokkur atriði úr skýrslunni sem skera sig úr.
8 Nútímavottar Jehóva eru „auðugir að voninni í krafti heilags anda.“ (Rómverjabréfið 15:13) Ársskýrsla votta Jehóva, þar sem heildarskýrslan yfir starf þeirra í öllum heiminum árið 1990 er birt í smáatriðum, sýnir það glögglega. * Það er okkur mikið fagnaðarefni að sjá virka alls 4.017.213 þjóna orðsins á akrinum, en það er ný hámarkstala! Þetta svarar til 77 prósenta aukningar síðastliðin 10 ár, en samansöfnun sauðanna heldur áfram af krafti í 212 löndum. Eftir 15 ár náðist nýtt hámark í tölu skírðra — 301.518! Óvenjumargir voru skírðir á vissum mótum, einkum þeim sem vottar úr Austur-Evrópu sóttu. Í þeirra hópi var margt ungt fólk sem afsannar þá fullyrðingu hinnar sósíölsku hugmyndafræði að trúarbrögðin myndu deyja út með gamla fólkinu.
9. (a) Hvaða gleðilegum árangri skilar kristið uppeldi frá blautu barnsbeini? (b) Hvaða frásögur, staðbundnar eða aðrar, bera það með sér?
9 Aragrúi ungs fólks svarar kallinu í Sálmi 32:11: „Gleðjist yfir [Jehóva] og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!“ Svo virðist sem margir foreldrar fylgi því ráði að fræða börn sín „frá blautu barnsbeini.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Rit og tónsnældur, gerðar handa hinum ungu, eru einnig notaðar vel. Þegar börnin hefja skólagöngu taka þau fljótlega að gefa góðan vitnisburð eins og sjá má af frásögu átta ára japanskrar stúlku: „Eftir sumarleyfi kom ég að máli við kennarann minn og spurði: ‚Vitjaðir þú grafar föður þíns í sumarleyfinu?‘ Hún svaraði: ‚Já, faðir minn var mikið ljúfmenni og ég vitja grafar hans á hverju ári.‘ Ég sagði: ‚Ef þú nemur Biblíuna og fylgir kenningum Guðs, þá munt þú geta hitt ástríkan föður þinn aftur í jarðneskri paradís.‘ Síðan gaf ég henni Biblíusögubókina mína. Núna les kennarinn okkar einn kafla úr bókinni fyrir allan bekkinn í hádegisverðarhléi í hverri viku.“
10. Hvaða jákvæðum tilgangi hefur bókin Spurningar unga fólksins þjónað? Nefndu nokkur dæmi.
10 Ungt fólk á táningaaldri hefur notfært sér bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga með ágætum, bæði til einkanáms og til að bera vitni fyrir öðrum ungmennum. Foreldrar kunna líka að meta bókina. Systir í Sviss, sem var skráður aðstoðarbrautryðjandi, ákvað að heimsækja foreldra skólasystkina barns síns. Þar fékk hún tækifæri til að eiga góðar samræður við marga foreldra og 20 bækur (aðallega Spurningar unga fólksins) og 27 blöð komust í þeirra hendur. Þegar skólastúlka á Trínidad lét kennarann sinn fá bókina fylgdi móðir hennar því eftir og útbreiddi 25 eintök meðal 36 manna starfsliðs. Hún hélt áfram mánuðinn á eftir og beindi athygli sinni sérstaklega að foreldrum sem hún þekkti persónulega. Þar dreifði hún 92 bókum og stofnaði nýtt biblíunám. Í Kóreu notaði kennari í miðskóla bókina Spurningar unga fólksins til að flytja stutt erindi um efni svo sem: „Hvernig get ég bætt einkunnir mínar?“ og „Hvernig get ég átt góð samskipti við kennarann minn?“ og bauð síðan bókina. Eftir að nemendur höfðu þegið 39 bækur tóku sumir foreldrar að kvarta, en skólastjórinn skoðaði bókina, lýsti yfir að hún væri „frábær“ og pantaði eina handa dóttur sinni.
Besta menntunin
11, 12. Nefndu nokkur dæmi um það hvernig rit Varðturnsfélagsins veita bestu menntunina.
11 Margir kunna líka að meta fræðslugildi blaðanna okkar, eins og til dæmis skóli í Bandaríkjunum sem pantaði 1200 eintök af Vaknið! þann 22. júlí 1990 (þar sem fjallað var um krakk-neyslu) til notkunar við kennslu. Fyrirmyndarhegðun barna votta Jehóva í skólanum heldur líka áfram að hafa jákvæð áhrif. Í hávaðasamri skólastofu á Taílandi lét kennarinn Racha, sem var 11 ára, standa frammi fyrir bekknum og hrósaði honum fyrir hegðun hans: „Hvers vegna líkið þið ekki öll eftir fordæmi hans?“ spurði hann. „Hann er iðinn við námið og prúður í framkomu.“ Svo bætti kennarinn við: „Ætlið þið þyrftuð ekki að verða vottar Jehóva eins og Racha til að bæta hegðun ykkar?“ — Samanber Orðskviðina 1:8; 23:22, 23.
12 Ung systir í Dóminíska lýðveldinu skrifar: „Ég var fjögurra ára og í þann mund að útskrifast úr trúarlegum forskóla þar sem ég lærði að lesa og skrifa. Að skilnaði gaf ég nunnunni, sem kenndi mér, bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð með eftirfarandi áletrun: ‚Ég er þér mjög þakklát fyrir að kenna mér að lesa og skrifa. Ég vildi óska að þú skildir líka trú mína og öðlaðist sömu von og ég um að lifa eilíflega á þessari jörð þegar hún verður að paradís.‘ Fyrir þetta var ég rekin úr skólanum. Átta árum síðan hitti ég kennarann minn aftur. Hún sagði mér frá því hvernig henni hefði, þrátt fyrir mikla andstöðu prestsins, tekist að lesa bókina. Hún fluttist til höfuðborgarinnar þar sem hún gat numið Biblíuna með votti. Nú var hún að láta skírast ásamt mér á umdæmismótinu ‚Hið hreina tungumál.‘“ Eins og spáð var getur spekin jafnvel komið út af „barna munni“! — Matteus 21:16; Sálmur 8:2, 3.
13. Hvernig bregðast margir táningar við heilræðum Salómons og hvernig ber ársskýrslan það með sér?
13 Salómon gaf þessi hvetjandi heilræði: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín.“ (Prédikarinn 11:9) Það er yndislegt að sjá svo mörg börn votta Jehóva fara eftir þessum orðum og nota unglingsárin til að búa sig undir að eyða ævinni í þjónustu Jehóva í fullu starfi. Það er besta ævistarf sem þau geta valið sér að skólagöngu lokinni. Brautryðjendum fjölgar ört og 821.108 gáfu skýrslu um slíkt starf á árinu. Að viðbættum þeim sem þjónuðu á Betel svarar það til 21 af hundraði allra boðbera!
14. Hvað leggja systur okkar af mörkum og hvaða hrós eiga þær skilið?
14 Það er athyglisvert að víða um lönd, svo sem í Bandaríkjunum, eru um 75 af hundraði brautryðjenda systur, en það kemur heim og saman við orðin í Sálmi 68:12: „[Jehóva] lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her.“ Systur okkar eiga hrós skilið fyrir það að þær skuli inna af hendi meiri hluta starfsins á akrinum. Fagmannleg biblíukennsla þeirra leiðir marga til sannleikans, og systur, sem styðja dyggilega menn sína, er bera margs kyns ábyrgð í söfnuðinum, eiga líka mikið hrós skilið. — Orðskviðirnir 31:10-12; Efesusbréfið 5:21-25, 33.
Biblíufræðslan blómgast
15. (a) Hvernig hafa sum lönd, sem greint er frá í ársskýrslunni, skarað fram úr í biblíunámsstarfinu? (b) Hvaða frásögur getur þú sagt um það hversu ríkulegan ávöxt biblíunámin geta borið?
15 Biblíufræðslan blómgast og nám er haldið um víða veröld á 3.624,091 stað á hverjum mánuði. Sannleikur Biblíunnar getur breytt persónuleika manna eins og frásagan hér á eftir ber með sér. Snemma í janúarmánuði 1987 var manni vísað úr landi í Ástralíu eftir að hafa setið 25 mánuði í fangelsi fyrir rán og skjalafals. Hann var fluttur til Nýja-Sjálands. Hann hafði verið ánetjaður fíkniefnum og hafði einnig selt þau í liðlega 17 ár. Árið eftir fór konan hans að nema Biblíuna með vottum Jehóva, og jafnhliða vaxandi þekkingu hennar tók hann eftir athyglisverðri breytingu á hegðun hennar. Hún varð betri eiginkona og móðir. Að áeggjan konu sinnar var hann viðstaddur svæðismót í júní 1989. Hann þáði heimabiblíunám og útlit hans og líferni fór að taka stórum breytingum. Öll fjölskyldan, sem er sjö manns, fór að sækja samkomur. Hann lét skírast í janúar 1990 eftir að hafa fylgt hinum frábæru heilræðum Páls í Efesusbréfinu 4:17-24.
16. (a) Hvernig eru skýrslurnar um minningarhátíðina 1990 mikið gleðiefni? (b) Hvað er mjög áríðandi núna og hvað ættum við að gera til að hjálpa í því efni?
16 Minningarhátíðin, þriðjudaginn 10. apríl 1990, var markverður atburður. Hana sóttu 9.950.058 og hafa aldrei verið fleiri. Í liðlega 70 af þeim 212 löndum, þar sem minningarhátíðin var haldin, var tala viðstaddra yfir þrefalt hærri en hámarkstala boðbera! Í sjö Afríkulöndum, þar sem starfið er takmörkunum háð, var samanlögð aðsókn að minningarhátíðinni 204.356 þótt samanlögð hámarkstala boðbera væri aðeins 62.712. Í Líberíu, þar sem stríð hefur geisað, fögnuðu boðberarnir 1914 því að sjá 7811 við minningarhátíðina. Á Haítí, þar sem hámarkstala boðbera var 6427, kom 36.551 til minningarhátíðarinnar. Boðberarnir 886 á hinum dreifðu eyjum Míkrónesíu héldu minningarhátíðina að 3958 viðstöddum. Á Srí Lanka, þar sem boðberar eru 1298, kom 4521, og í Sambíu, þar sem boðberar eru 73.729, var 326.991 viðstaddur minningarhátíðina, en það svarar til eins af hverjum 25 landsmönnum. Heimsskýrslan sýnir enn á ný að milljónir einlægra manna bíða þess að verða safnað inn í sauðabyrgið. En einlægnin nægir ekki ein sér. Getum við aukið biblíunámsstarf okkar að magni og gæðum og hjálpað fleiri gestum minningarhátíðarinnar að byggja upp sterka trú? Við viljum að þeir verði virkir félagar okkar og lofsyngi Jehóva. Líf þeirra er undir því komið! — Sálmur 148:12, 13; Jóhannes 17:3; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Fylling gleðinnar
17. Hvaða dæmi frá fyrstu öld ættu að styrkja þann ásetning okkar að varðveita gleði okkar?
17 Hvaða prófraunir sem bíða okkar skulum við alltaf vera staðráðin í að viðhalda gleði okkar. Sennilega þurfum við ekki að ganga gegnum jafnerfiða lífsreynslu og Stefán, en fordæmi hans getur eigi að síður styrkt okkur. Hann varðveitti stillingu sína og gleði þótt hann væri borinn röngum sökum. Óvinir hans „sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.“ Guð stóð með honum í eldraun hans. Hann bar djarflega vitni og var „fullur af heilögum anda“ allt þar til hann dó sem píslarvottur. Er Páll og Barnabas tóku að prédika meðal þjóðanna ‚glöddust þær og vegsömuðu orð Jehóva.‘ Enn á ný skullu á ofsóknir en þær drógu ekki kjarkinn úr þeim sem trúðu. „Lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.“ (Postulasagan 6:15; 7:55; 13:48-52) Hvað svo sem óvinir okkar gera okkur, hverjar svo sem daglegar þrengingar okkar í lífinu eru megum við aldrei láta það draga úr gleði heilags anda. Páll ráðleggur: „Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.“ — Rómverjabréfið 12:12.
18. (a) Hver er hin nýja Jerúsalem og hvers vegna ættu þjónar Guðs að fagna með henni? (b) Hvernig mun ‚hinn nýi himinn og nýja jörð‘ blessa mannkynið?
18 Það er stórkostleg von sem við eigum! Jehóva lýsir yfir við alla þjóna sína: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ Kristur Drottinn ásamt hinni ‚nýju Jerúsalem‘ (sem nú er höfuðborg himnesks skipulags Guðs, „Jerúsalem, sem í hæðum er“) og mannfélag nýja heimsins á jörðinni mun verða mannkyni ríkuleg gleðiuppspretta. (Galatabréfið 4:26) Það er stórfengleg von og gleðiefni að eiga í vændum að dánir rísi upp og öllum hlýðnum mönnum verði lyft upp til fullkomleika og eilífs lífs, til eilífrar og nytsamrar þjónustu á jörð sem verður paradís! Líkt og Jehóva sjálfur ‚fagnar yfir Jerúsalem og gleðst yfir fólki sínu,‘ eins hvetur spámaður hans þjóna Guðs: „Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana!“ (Jesaja 65:17-19; 66:10; Opinberunarbókin 14:1; 20:12, 13; 21:2-4) Megum við alltaf vera fyllt gleði og heilögum anda og hlýða hvatningarorðum Páls postula: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — Filippíbréfið 4:4.
[Neðanmáls]
^ Skýrslan er birt í heild í Árbók votta Jehóva 1991 og mörgum erlendum útgáfum Varðturnsins þann 1. janúar 1991.
Samantekt:
◻ Hvaða fordæmi um þolgæði og gleði gaf Jesús okkur?
◻ Hvaða tilefni hafa tveir vígðir hópar manna til að gleðjast?
◻ Hvernig fagna ungir sem aldnir í sannleikanum?
◻ Hvernig er bæninni: ‚Jehóva, gef þú gengi,‘ svarað ef marka má ársskýrsluna 1990?
◻ Hvenær og hvernig mun gleðin fullkomnast?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 14]
Engill Jehóva boðaði fæðingu Krists Drottins sem „mikinn fögnuð.“