Reiddu þig á styrk frá Guði
Reiddu þig á styrk frá Guði
Meginatriði 2. Tímóteusarbréfs
JEHÓVA gefur þjónum sínum kraft til að þola þrengingar og ofsóknir. Tímóteus og aðrir kristnir menn þurftu sannarlega á styrk frá Guði að halda! Stór hluti Rómar varð eldsvoða að bráð árið 64 og sá kvittur lagðist á að Neró keisari hefði látið kveikja í borginni. Til að bera það af sér sakaði hann kristna menn um eldsvoðann og það virðist hafa hleypt af stað ofsóknaröldu. Það var líklega á þeim tíma (um árið 65) sem Páll var aftur fangi í Róm. Þótt hann ætti þá von á dauða sínum skrifaði hann Tímóteusi síðara bréf sitt þaðan.
Bréf Páls bjó Tímóteus undir að standa gegn fráhvarfsmönnum og vera staðfastur í ofsóknum. Það hvatti hann til að halda áfram að taka andlegum framförum og greindi frá aðstæðum Páls í fangelsinu. Bréfið hjálpar líka nútímalesendum sínum að reiða sig á styrk frá Guði.
Þolið illt og kennið mildilega
Guð veitir okkur sem boðberum fagnaðarerindisins styrk til að þola ofsóknir. (2Tí 1:1-18) Páll gleymdi aldrei Tímóteusi í bænum sínum og minntist hræsnislausrar trúar hans. Guð gaf Tímóteusi ‚ekki anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.‘ Hann þurfti því ekki að fyrirverða sig fyrir vitnisburð sinn og þjáningar í þágu fagnaðarerindisins. Hann var líka hvattur til að ‚hafa sér til fyrirmyndar heilnæmu orðin,‘ sem hann hafði heyrt hjá Páli, líkt og við ættum að halda okkur ófrávíkjanlega við ósvikin, kristin sannindi, þótt aðrir kunni að hverfa frá þeim.
Það sem Páll kenndi átti að fá í hendur trúum mönnum er skyldu kenna öðrum. (2:1-26) Tímóteus var hvattur til að vera góður hermaður Krists, trúfastur er hann liði illt. Páll var sjálfur í fangelsisfjötrum vegna prédikunar fagnaðarerindisins. Hann hvatti Tímóteus til að gera sitt ýtrasta til að reynast verðugur verkamaður Guðs og forðast vanheilagar hégómaræður er svívirtu það er heilagt var. Honum var sagt að þjónn Drottins yrði að fræða aðra mildilega.
Prédikaðu orðið!
Styrkur frá Guði yrði nauðsynlegur til að horfast í augu við síðustu daga og halda sannindum Ritningarinnar á lofti. (3:1-17) Úr hópi hinna guðlausu myndu rísa upp menn sem ‚væru alltaf að reyna að læra en gætu aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.‘ Slíkir ‚vondir menn og svikarar myndu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.‘ En Tímóteus átti að ‚halda stöðuglega við það sem hann hafði numið.‘ Það ættum við líka að gera, vitandi að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“
Tímóteus átti að standa gegn fráhvarfsmönnum og fullna þjónustu sína. (4:1-22) Það gat hann gert með því að ‚prédika orðið‘ og halda sér fast við það. Það var nauðsynlegt því að söfnuðurinn átti í vændum „ótíma,“ erfiðleikatíma vegna þess að sumir kenndu falskar kenningar. Vottar Jehóva halda sér líka við orð Guðs núna, prédika það af krafti í söfnuðinum og fyrir fólki utan hans, jafnvel þar sem aðstæður eru óhagstæðar. Páll ‚varðveitti trúna‘ þótt sumir hefðu yfirgefið hann. En ‚Drottinn veitti honum kraft til þess að hann mætti fullna prédikunina.‘ Megum við líka reiða okkur á styrk frá Guði og halda áfram að prédika fagnaðarerindið.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
Góður hermaður: Páll hvatti Tímóteus: „Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú. Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.“ (2. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Rómverskur fótgönguliði ‚þoldi illt‘ er hann þurfti að bera þung vopn, öxi, körfu, þriggja daga matarskammt og ýmislegt fleira. (Wars of the Jews, eftir Jósefus, 3. bók, 5. kafli) Hann bendlaði sig ekki við atvinnustörf því það myndi ekki falla yfirboðara hans í geð, og honum var séð fyrir nauðsynjum. Á líkan hátt þolir kristinn maður þrengingar er tengjast því að hann er „góður hermaður Krists.“ Þótt hann vinni kannski veraldleg störf til að rækja þær skyldur, sem Ritningin leggur honum á herðar, má hann ekki bendla sig svo við efnislega hluti að hann hætti að heyja andlegan hernað. (1. Þessaloníkubréf 2:9) Er hann ber vitni hús úr húsi beitir hann „sverði andans, sem er Guðs orð,“ og hjálpar fólki að losna úr fjötrum trúarlegrar villu. (Efesusbréfið 6:11-17; Jóhannes 8:31, 32) Með því að lífið er í húfi ættu allir kristnir hermenn að halda áfram að þóknast Jesú Kristi og Jehóva Guði á þennan hátt.