Varðveittu trú og góða samvisku
Varðveittu trú og góða samvisku
Meginatriði 1. Tímóteusarbréfs
UM ÁRIÐ 56 varaði Páll postuli öldunga safnaðarins í Efesus við því að „skæðir vargar“ myndu rísa upp úr þeirra eigin hópi og „flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:29, 30) Fáeinum árum síðar voru fráhvarfskenningar orðnar svo magnaðar að Páll hvatti Tímóteus til að heyja andlegan hernað innan safnaðarins til að verja hreinleika hans og hjálpa trúbræðrum sínum að halda sér í trúnni. Það var meginástæðan fyrir því að Páll skrifaði Tímóteusi fyrra bréf sitt frá Makedóníu einhvern tíma á árunum 61-64.
Tímóteus fékk fyrirmæli varðandi skyldur öldungs, þá stöðu sem Guð hafði ætlað honum, um kröfurnar til öldunga og safnaðarþjóna og ýmis fleiri mál. Slík fyrirmæli eru einnig gagnleg nú á tímum.
Hvatning til trúar
Páll byrjar bréf sitt með hvatningu um að varðveita trú og góða samvisku. (1Tí 1:1-20) Hann hvatti Tímóteus til að halda kyrru fyrir í Efesus og „bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar.“ Páll var þakklátur fyrir þá þjónustu sem honum hafði verið falin, og viðurkenndi að hann hefði framgengið í þekkingarleysi og trúleysi er hann ofsótti fylgjendur Jesú. Postulinn fól Tímóteusi að heyja andlegan hernað „í trú og með góðri samvisku,“ og ekki verða eins og þeir sem ‚liðu skipbrot á trú sinni.‘
Leiðbeiningar um tilbeiðslu
Þessu næst gaf Páll leiðbeiningar sem „kennari heiðingja í trú og sannleika.“ (2:1-15) Biðja átti fyrir þeim sem hátt voru settir til að kristnir menn mættu lifa friðsamlegu lífi. Það var vilji Guðs að alls konar menn yrðu hólpnir og mikilvæg kenning að Kristur hefði ‚gefið sig sjálfan sem samsvarandi lausnargjald fyrir alla.‘ Páll benti á að konur skyldu skrýða sig háttvíslega og ekki taka sér vald yfir manninum.
Gott skipulag þurfti að ríkja í söfnuðinum. (3:1-16) Páll tíundaði því kröfurnar til umsjónarmanna og safnaðarþjóna. Af því sem postulinn skrifaði gat Tímóteus vitað hvernig hann ætti að hegða sér í söfnuðinum sem var „stólpi og grundvöllur sannleikans.“
Páll veitti Tímóteusi persónuleg ráð til að hjálpa honum að sporna gegn fölskum kenningum. (4:1-16) Síðar á tímum myndu sumir falla frá trúnni, en með því að gefa stöðugt gaum að sjálfum sér og kenningu sinni myndi Tímóteus ‚gera sjálfan sig og áheyrendur sína hólpna.‘
Tímóteusi var einnig ráðið heilt um það hvernig komið skyldi fram við einstaklinga, unga sem aldna. (5:1-25) Til dæmis skyldu gerðar viðeigandi ráðstafanir fyrir aldraðar ekkjur er hefðu á sér gott mannorð fyrir kristilegt líferni. Ungar ekkjur áttu frekar að giftast og eignast börn en rápa um og slúðra. Öldungar, sem veittu góða forstöðu, skyldu hafðir í tvöföldum metum.
Guðrækni samfara nægjusemi
Páll lýkur bréfi sínu með leiðbeiningum um guðrækni. (6:1-21) „Guðhræðslan samfara nægjusemi“ er mikill gróðavegur, en sá sem vill verða ríkur leiðir sjálfan sig út í tortímingu og glötun. Páll hvatti Tímóteus til að berjast trúarinnar góðu baráttu og ‚höndla hið sanna líf.‘ Þeir sem ríkir voru urðu að ‚treysta Guði en ekki fallvöltum auði‘ til að höndla hið sanna líf.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 30]
Hólpnar sakir barnsburðar: Páll var ekki að ræða um hjálpræði til eilífs lífs heldur viðeigandi stöðu guðrækinna kvenna er hann ritaði: „Hún mun hólpin verða, sakir barnsburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.“ (1. Tímóteusarbréf 2:11-15) Með því að eignast börn, annast þau og sjá um heimili myndi kona vera „hólpin“ gagnvart því að verða iðjulaus slúðurberi og blanda sér í það sem henni kæmi ekki við. (1. Tímóteusarbréf 5:11-15) Heimilisstörfin yrðu eins og fylling á móti þjónustu hennar við Jehóva. Að sjálfsögðu ættu allir kristnir menn að gæta að breytni sinni og nota tíma sinn viturlega. — Efesusbréfið 5:15, 16.