Hollusta — hvað kostar hún?
Hollusta — hvað kostar hún?
„Við þá trúföstu ertu trúfastur.“ — SÁLMUR 18:26, ísl. bi. 1859.
1, 2. (a) Hvað er hollusta og hvernig hafa hinar mismunandi hliðar hennar áhrif á líf okkar? (b) Hvers vegna er gott að líta á Jehóva sem besta fordæmi okkar?
HVAÐ er sameiginlegt með hugtökunum skyldurækni, trúfesti, trúmennska, trúnaður, tryggð, trygglyndi og þegnskapur? Þau lýsa öll mismunandi þáttum hollustu. Hollusta er guðrækilegur eiginleiki sprottinn af djúpstæðri tryggð og ást. En hollusta skiptir litlu máli fyrir margan nútímamann. Menn leggja oft lítið upp úr tryggð í hjónabandi, skyldurækni við aldraða ættingja eða trúmennsku við vinnuveitanda. Og hvað gerist þegar árekstrar verða milli hollustu við tvo aðila? Þegar bókhaldari á Englandi sagði skatteftirlitsmönnum sannleikann um fjárhag fyrirtækisins, sem hann vann hjá, var hann rekinn úr starfi.
2 Það er auðvelt að sýna hollustu í orði kveðnu en sönn hollusta þarf að sýna sig í verkum sem bera ekki vitni um óttablandna tilslökun. Við sem erum ófullkomnir menn bregðumst oft að þessu leyti. Það er því gott fyrir okkur að hugleiða fordæmi Jehóva Guðs sjálfs, en hollusta hans verður aldrei réttilega dregin í efa.
Ímynd hollustunnar
3. Hvernig hefur Jehóva reynst trúr tilgangi sínum sem lýst er í 1. Mósebók 3:15?
3 Er Adam syndgaði lét Jehóva skýrt í ljós þann tilgang sinn að endurleysa ófætt mannkyn. Það var kærleikur til hins mannlega sköpunarverks sem kom honum til þess. (Jóhannes 3:16) Þegar þar að kom færði Jesús Kristur lausnarfórnina en hann var sæði fyrirheitisins sem sagt var fyrir í 1. Mósebók 3:15. Það hefði verið óhugsandi af Jehóva að snúa baki við yfirlýstum tilgangi sínum. Ef við viðurkennum fórn Jesú mun trú okkar ekki valda okkur vonbrigðum. — Rómverjabréfið 9:33.
4. Hvernig reyndist Jehóva trúr og hollur Jesú og með hvaða árangri?
4 Hollusta Jehóva við Jesú styrkti soninn mjög þann tíma sem hann var á jörð. Jesús vissi að hann þurfti að deyja og var staðráðinn í að vera Guði sínum trúr og hollur allt til enda. Við skírn hans og smurningu heilags anda var honum opinberuð fyllri þekking á tilveru sinni áður en hann varð maður. Nóttina sem hann var svikinn bað hann þess að mega aftur sameinast sínum himneska föður ‚með þeirri dýrð sem hann hafði hjá honum áður en heimurinn varð til.‘ (Jóhannes 17:5) Hvernig gat það orðið? Aðeins með því að Jehóva yfirgæfi ekki trúfastan son sinn í gröfinni þar sem hann yrði rotnun að bráð. Jehóva vakti hann upp frá dauðum til ódauðleika og uppfyllti þannig fyrirheitið sem felst í spádóminum í Sálmi 16:10: „Þú ofurselur Helju eigi líf mitt.“ — Postulasagan 2:24-31; 13:35; Opinberunarbókin 1:18.
5. Hvaða önnur trúföst verk Jehóva eru tengd fyrirheitum hans við Jesú?
5 Eftir upprisu sína vissi Jesús líka að hann gæti einnig reitt sig á orð Jehóva þess efnis að ‚leggja óvini hans sem fótskör að fótum hans.‘ (Sálmur 110:1) Sá tími rann upp árið 1914 við lok ‚heiðingjatímanna‘ er Guðsríki var stofnsett á himnum. Uphafning Jesú yfir óvini hans, sem heitið hafði verið, hófst er Satan og illir andar hans voru gerðir rækir af himnum. Hún nær hámarki er honum verður steypt í undirdjúp í þúsund ár og ‚konungum jarðarinnar og hersveitum þeirra‘ hefur verið gereytt. — Lúkas 21:24; Opinberunarbókin 12:7-12; 19:19; 20:1-3.
6. Hvaða örugga von hefur Guð gefið okkur og hvernig getum við sýnt að við metum hana að verðleikum?
6 Sálmaritarinn hvatti: „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið.“ (Sálmur 37:34) Við megum treysta að Jehóva muni halda áfram að standa við orð sín og bjarga körlum, konum og börnum, sem ‚gefa gætur að vegi hans,‘ heilum á húfi gegnum endalok þessa illa heims. Hebreska orðatiltækið, sem þýtt er að ‚gefa gætur að vegi hans,‘ felur í sér þá hugsun að sýna bæði kostgæfni og trúfesti í þjónustu við Jehóva. Það er því ekki rétti tíminn núna til að þreytast eða gefast upp á þeim þjónustusérréttindum sem okkur eru veitt. Núna er rétti tíminn til að leggja okkur kappsamlega fram í trúfastri þjónustu við Guð okkar og ríki hans. (Jesaja 35:3, 4) Við eigum okkur mörg góð fordæmi til uppörvunar. Við skulum hugleiða nokkur þeirra.
Ættfeðurnir sýndu hollustu
7, 8. (a) Hvaða verkefni fékk Jehóva Nóa og fjölskyldu hans? (b) Hvernig sannaði fjölskylda Nóa sig verðuga verndar Guðs í heimsflóðinu?
7 Er Jehóva ákvað að eyða illu mannfélagi í flóði gerði hann sáttmála við ættföðurinn Nóa um að fjölskylda hans myndi bjargast og halda við lífinu á jörðinni. (1. Mósebók 6:18) Nói var þakklátur fyrir það að eiga vernd Guðs í vændum, en hann og fjölskylda hans urðu líka að sýna sig verðug verndar. Hvernig? Með því að gera það sem Jehóva bauð. Fyrst stóðu þau frammi fyrir því gríðarmikla verki að smíða örkina. Er smíðinni var lokið átti Nói að fylla hana fulltrúum dýraríkisins og fóðri og matvælum til langs tíma. En það var ekki allt og sumt. Á hinum langa undirbúningstíma átti Nói að gera allt sem hann gat til að prédika, en það hafði aldrei verið gert áður, og vara við komandi dómi Guðs. — 1. Mósebók 6. og 7. kafli; 2. Pétursbréf 2:5.
8 Biblían segir okkur: „Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22; 7:5) Nói og fjölskylda hans ræktu skyldur sínar af trúmennsku. Fórnfýsi þeirra hafði í för með sér að þau notuðu tíma sinn vel, þótt verkefni þeirra kostaði mikla vinnu og prédikunin væri erfið. Með því að eignast ekki börn fyrir flóðið gátu synir Nóa og eiginkonur þeirra einbeitt sér að því starfi sem fyrir þeim lá og samstillt krafta sína. Flóðið leiddi réttlát endalok yfir óguðlegan heim. Aðeins Nói, eiginkona hans, synir þeirra þrír og tengdadætur þrjár lifðu af. Við getum glaðst yfir því að þau skyldu vera drottinholl Guði og hlýða fyrirmælum hans, því að hvert og eitt einasta okkar er beinn afkomandi Nóa af Sem, Kam eða Jafet. — 1. Mósebók 5:32; 1. Pétursbréf 3:20.
9. (a) Hvernig reyndi prófraun Abrahams á hollustu hans? (b) Hvernig sýndi Ísak hollustu líka?
9 Er Abraham bjó sig undir að fórnfæra Ísak var hann trúfastur að hlýða boði Jehóva. Þetta var mikil prófraun á hollustu hans! En Jehóva stöðvaði hönd Abrahams og sagði: „Nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ Það er hollt að hugleiða hver var undanfari þess. Á þriggja daga ferð sinni til Móríafjalls hafði Abraham greinilega kappnógan tíma til að athuga sinn gang og skipta um skoðun. Hvað um Ísak sem bar eldiviðinn til fórnarinnar og leyfði föður sínum að binda sig á höndum og fótum? Hann hvorki hvikaði í hollustu sinni við föður sinn, Abraham, né véfengdi það hvaða hlutverki hann ætti að gegna, jafnvel þótt svo væri að sjá sem hollusta hans myndi kosta hann lífið. — 1. Mósebók 22:1-18; Hebreabréfið 11:17.
Kristin hollusta
10, 11. Hvernig birtist hollusta kristinna manna á fyrstu öld?
10 Jehóva hefur alltaf sýnt hollustu. „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs,“ hvetur Páll postuli. (Efesusbréfið 5:1, 2) Kristnir menn áttu að fylgja fordæmi ættfeðranna. Frumkristnir menn gáfu okkur gott fordæmi um trúfasta tilbeiðslu eins og eftirfarandi frásaga sýnir.
11 Konstantíus I Rómarkeisari, faðir Konstantínusar keisara sem nefndur er hinn mikli, virðist hafa borið djúpa virðingu fyrir fylgjendum Jesú Krists. Til að prófreyna hollustu kristinna manna, sem tengdust höll hans, tilkynnti hann þeim að þeir mættu vera áfram í þjónustu hans því aðeins að þeir féllust á að færa skurðgoðum fórnir. Þeim var sagt að þeir ættu yfir höfði sér brottrekstur og hefnd hans ef þeir neituðu. Með þessu einfalda kænskubragði vildi Konstantíus ganga úr skugga um hverjir myndu aldrei hvika frá hollustu sinni. Þeir sem sýndu Guði og meginreglum hans hollustu fengu að vera áfram í þjónustu keisarans, sumir jafnvel sem ráðgjafar er hann bar mikið traust til. Þeir sem reyndust ótrúir boði Guðs voru reknir úr starfi með smán.
12. Hvernig ber kristnum umsjónarmönnum að sýna hollustu og hvers vegna er það nauðsynlegt velferð safnaðarins?
12 Þótt allir kristnir menn þurfi að sýna hollustu er hennar sérstaklega getið í Títusarbréfinu 1:8 þar sem taldar eru upp kröfurnar er kristinn umsjónarmaður þarf að uppfylla. William Barclay segir að gríska orðið hosios, sem merkir trúr eða hollur, lýsi „þeim manni sem hlýðir hinum eilífu lögum sem voru og eru áður en nokkur mannalög voru til.“ Það er nauðsynlegt að öldungar sýni slíka hollustu og hlýði lögum Guðs. Gott fordæmi þeirra í því efni hjálpar söfnuðinum að vaxa og vera nógu sterkur til að standast allar prófraunir og álag sem getur ógnað honum í heild eða einstökum meðlimum hans. (1. Pétursbréf 5:3) Það hvílir mikil ábyrgð gagnvart hjörðinni á hinum útnefndu öldungum að bregðast aldrei í hollustu sinni við Jehóva, því að söfnuðurinn er hvattur til að ‚líkja eftir trú þeirra.‘ — Hebreabréfið 13:7.
Hollusta — hvað kostar hún?
13. Hvað er átt við með reglunni: „Allir eru falir,“ og hvaða dæmi virðast staðfesta það?
13 „Allir menn eru falir.“ Þessi regla er eignuð Sir Robert Walpole sem var forsætisráðherra Breta á öndverðri 18. öld. Hún lýsir í hnotskurn þeirri staðreynd mannkynssögunnar að menn hafa oft látið hollustu sína í skiptum fyrir eiginhagsmuni. Biblíuþýðandanum William Tyndale urðu á þau mistök að líta á Henry Phillips sem traustan vin. Árið 1535 kom óhollusta Phillips í ljós er hann sveik Tyndale í hendur óvina hans með þeim afleiðingum að Tyndale var þegar í stað varpað í fanglesi og síðar líflátinn. Sagnfræðingur segir að Phillips, sem sennilega var útsendari annaðhvort Englandskonungs eða enskra kaþólikka, „hafi verið greitt vel fyrir Júdasarverk sitt.“ Sagnfræðingurinn var auðvitað að vísa til Júdasar Ískaríots sem sveik Jesú Krist gegn þrjátíu silfurpeninga gjaldi. Við ættum þó ekki að álykta sem svo út frá þessum dæmum að „greiðslan“ fyrir hollustu manns sé alltaf peningar. Svo er ekki.
14. Hvernig var hollusta Jósefs við Jehóva prófreynd og með hvaða árangri?
14 Er kona Pótífars nauðaði með ágengni í Jósef um að ‚leggjast með sér‘ reyndi á hollustu hans við Jehóva. Hvað ætlaði hann að gera? Jósef vissi fullkomlega hvaða meginreglur var um að ræða og hljóp út úr húsinu staðráðinn í því að aðhafast ekki „þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði.“ Jósef lét ekki möguleikann á kynferðislegum unaði koma sér til að sýna Guði sínum, Jehóva, ótryggð. — 1. Mósebók 39:7-9.
15. Hvernig sýndi Absalon óhollustu og með hvaða afleiðingum?
15 En hætturnar eru fleiri. Metnaðargirni getur grafið undan hollustu. Það var sú hvöt sem lá að baki uppreisn Absalons gegn föður sínum, Davíð konungi. Með klækjum og leynimakki reyndi Absalon að koma sér inn undir hjá þjóðinni. Loks tókst honum að draga saman her til að berjast gegn drottinhollum stuðningsmönnum föður síns. Dauði Absalons fyrir hendi Jóabs batt enda á óhollusta hans við föður sinn, Davíð. Tilraun hans til að kollvarpa guðræðislegu fyrirkomulagi var honum dýrkeypt! — 2. Samúelsbók 15:1-12; 18:6-17.
Sú hollusta sem er ekki föl
16. Hvað sýnir 2. Korintubréf 11:3 um tilefni Satans?
16 Satan staðhæfir að hver maður sé falur. Sú var raunin með Absalon en ekki Jósef. Svo hefur aldrei verið með drottinholla tilbiðjendur Jehóva. Eigi að síður býður Satan okkur hvað sem verkast vill, ef við aðeins látum af hollustu okkar við skaparann. Páll postuli lét í ljós þann ótta sinn að „eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni,“ svo kynni hugsun okkar að spillast og koma okkur til að hverfa frá hollustu við Jehóva og snúa baki við tilbeiðslunni á honum. — 2. Korintubréf 11:3.
17. Fyrir hvað hafa sumir látið dýrmæt þjónustusérréttindi af hendi?
17 Það er viðeigandi að við spyrjum okkur: ‚Eru þau sérréttindi að tilbiðja skapara minn föl gegn einhverju gjaldi?‘ Það er hryggileg staðreynd að sumir, sem voru vígðir þjónar Jehóva, kröfðust mjög lítils fyrir hollustu sína. Jafnvel sumir öldungar hafa, ólíkt Jósef, skipt á þeim ómetanlegu sérréttindum að veita heilaga þjónustu og skammvinnum unaði af syndinni. Margir sem hafa gert þetta, hvort heldur öldungar eða ekki, hafa endanlega fyrirgert einingu fjölskyldu sinnar, kærleika og virðingu safnaðarins og viðurkenningu Jehóva — hans sem getur gefið mönnum styrk til að varðveita hollustu sína og standast sérhverja freistingu Satans. — Jesaja 12:2; Filippíbréfið 4:13.
18. Hvers vegna er þýðingarmikið að hlusta á aðvörun 1. Tímóteusarbréfs 6:9, 10?
18 Margir hafa „valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum“ vegna framagirni og metnaðar að komast áfram í heiminum, þrátt fyrir skýr varnaðarorð Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Páll sagði frá kristnum manni er Demas hét sem sneri baki við trúnni af þeim orsökum, annaðhvort um tíma eða varanlega. (2. Tímóteusarbréf 4:10) Það er aldrei hægt að víkja frá hollustu við Jehóva án þess að það hafi stórskaðlegar afleiðingar. „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7.
19, 20. (a) Hvaða hættur fylgja því að horfa óhóflega mikið á sjónvarp? (b) Hvaða fordæmi setti kristin fjölskylda?
19 Stundum er kaupverðinu laumað að okkur með mjög lævísum hætti. Skýrslur frá Bandaríkjunum nefna til dæmis að algengt sé að fjölskyldur eyði um helmingi vökustunda sinna fyrir framan sjónvarpið. Ungt fólk er sérstaklega háð sjónvarpinu. Ef kristinn maður nærði huga sinn fyrst og fremst á sjónvarpinu, ásamt því kynlífi og ofbeldi sem sýnt er þar, þá gæti grafið fljótt undan kristnum siðferðisreglum hans. Það gæti síðan leitt til þess að hann yrði Jehóva ótrúr og fjarlægðist hann. Slíkur slæmur félagsskapur spillir góðum siðum. (1. Korintubréf 15:33) Við megum ekki gleyma að Ritningin áminnir okkur um að taka okkur tíma til að nema og hugleiða orð Jehóva. Er óhóflegur tími fyrir framan sjónvarpsskjáinn sanngjörn skipti fyrir þann tíma sem hægt væri að nota til að afla sér þekkingar sem leiðir til eilífs lífs drottinhollra tilbiðjenda Jehóva? Margir, sem kynnast sannleikanum nú á dögum, þurfa að gera stórtækar breytingar á hugsunarhætti sínum í þessum efnum. — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16; 2. Tímóteusarbréf 2:15.
20 Takashi er japanskur kaupsýslumaður búsettur á Englandi. Hann var vanur að sitja þrjár til fjórar klukkustundir með fjölskyldu sinni fyrir framan sjónvarpið flest kvöld. Eftir að hann og konan hans létu skírast fyrir þrem árum afréð hann að einkanám og fjölskyldunám í Biblíunni yrði að ganga fyrir. Hann setti fjölskyldu sinni gott fordæmi með því að sitja ekki að meðaltali nema einn eða tvo stundarfjórðunga á dag við sjónvarpið. Þótt Takashi þurfi að nota tvær biblíur, aðra enska og hina japanska, til náms hefur andlegur vöxtur hans verið ör og hann þjónar nú sem safnaðarþjónn í enskumælandi söfnuði. Konan hans er aðstoðarbrautryðjandi. „Við viljum standa vörð um andlegt hugarfar drengjanna okkar tveggja,“ segir hann, „þannig að ég fylgist líka vandlega með því hvað við hjónin leyfum þeim að sjá í sjónvarpinu.“ Slíkur sjálfsagi er umbunarríkur.
21. Hvað vitum við um starfsaðferðir Satans og hvernig getum við verndað okkur?
21 Eitt megum við vera viss um: Satan þekkir veikleika okkar, kannski betur en við sjálf. Hann mun láta einskis ófreistað til að fá okkur til að hverfa frá eða veiklast í hollustu okkar við Jehóva. (Samanber Matteus 4:8, 9.) Hvernig getum við þá verndað okkur? Með því að hafa stöðugt í huga að við höfum vígst Jehóva og hafa ánægju af því að þroska hæfni okkar í að þjóna andlegum þörfum annarra. Sem drottinhollir þjónar Jehóva verðum við að vera önnum kafin í þjónustu hans og láta heilagt orð hans leiða okkur öllum stundum. Það mun hjálpa okkur að standa við þann ásetning að Satan skuli aldrei fá keypt hollustu okkar við Guð fyrir nokkurt verð. — Sálmur 119:14-16.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig hafa Jehóva og Jesús sýnt hollustu?
◻ Nefndu önnur dæmi úr Biblíunni um hollustu.
◻ Hvað getur Satan átt til að bjóða okkur eða reynt að gera?
◻ Hvernig getum við styrkt okkur til að varðveita hollustu í tilbeiðslunni á Jehóva?
[Spurningar]