Verið heilbrigð í trúnni!
Verið heilbrigð í trúnni!
Meginatriði Títusarbréfsins
KRISTNU söfnuðirnir á eynni Krít á Miðjarðarhafi þörfnuðust aðstoðar. Hver gat hjálpað þeim? Að sjálfsögðu Títus, samverkamaður Páls! Hann var hugrakkur, hæfur kennari, kostgæfinn til góðra verka og heilbrigður í trúnni.
Páll kom til Krítar milli fyrri og síðari fangavistar sinnar í Róm. Hann skildi Títus eftir á eynni til að leiðrétta ýmislegt og útnefna safnaðaröldunga. Títus átti líka að ávíta falskennara og gefa gott fordæmi. Allt kemur þetta fram í bréfi Páls til Títusar sem kann að hafa verið sent frá Makedóníu á árabilinu 61 til 64. Heilræði postulans geta hjálpað umsjónarmönnum og trúbræðrum þeirra í söfnuðinum nú á dögum að vera hugrakkir, kostgæfir og heilbrigðir í trúnni.
Hvers er krafist af umsjónarmönnum?
Skipa þurfti umsjónarmenn til að taka á ýmsum alvarlegum vandamálum. (1:1-16) Sá sem var útnefndur umsjónarmaður þurfti að vera óaðfinnanlegur, til fyrirmyndar sem einstaklingur og sem fjölskyldufaðir, gestrisinn, öfgalaus og hafa stjórn á sjálfum sér. Hann varð að kenna það sem var rétt og áminna og hrekja þá sem móti mæltu. Hugrekkis var þörf því að þagga þurfti niður í óstýrilátum mönnum í söfnuðinum. Einkum var mikilvægt að þagga niður í þeim sem héldu fram umskurninni, því að þeir höfðu kollvarpað heilum heimilum. Alvarlegar áminningar voru nauðsynlegar til að söfnuðirnir gætu verið andlega heilbrigðir. Kristnir umsjónarmenn nú á tímum þurfa líka hugrekki til að áminna og uppörva í því skyni að byggja upp söfnuðina.
Haldið fram heilnæmri kenningu
Títus átti að veita andlega heilnæma kenningu. (2:1-15) Aldraðir menn áttu að vera til fyrirmyndar með því að vera hófsamir, alvörugefnir, heilbrigðir í hugsun og í trú, kærleika og þolgæði. Aldraðar konur áttu að vera í háttalagi sínu eins og „heilögum sæmir.“ Þær áttu að ‚kenna gott frá sér,‘ meðal annars með því að hjálpa ungum konum að líta skyldur sínar sem eiginkonur og mæður réttum augum. Ungir menn áttu að vera heilbrigðir í hugsun, og þrælar áttu að vera undirgefnir eigendum sínum þannig að þeir prýddu kenningu Guðs. Allir kristnir menn áttu að afneita óguðleik og lifa með heilbrigðum huga í þessu heimskerfi meðan þeir biðu hinnar dýrlegu opinberunar Guðs og Jesú Krists sem „gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ Við skulum líka ‚prýða kenningu Guðs‘ með því að fylgja þessum heilnæmu ráðum.
Lokaorð Páls stuðla að andlegu heilbrigði. (3:1-15) Nauðsynlegt er að sýna yfirvöldum viðeigandi undirgefni og rækta með sér sanngirni. Kristnir menn höfðu von um eilíft líf og leggja skyldi áherslu á orð Páls til að hvetja þá til að einbeita huganum að góðum verkum. Forðast bar heimskulegar þrætur og deilur um lögmálið og sneitt skyldi hjá klofningsmanni er hann hefði verið áminntur tvisvar. Er öldungar fylgja slíkum ráðum nú á dögum halda þeir sér og trúbræðrum sínum heilbrigðum í trúnni.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 19]
Ekki í ánauð áfengis: Þótt konur eigi ekki að kenna karlmönnum í söfnuðinum geta aldraðar systur frætt ungar konur einslega. En eigi öldruð kona að ná árangri á því sviði þarf hún að fara eftir ráðum Páls: „Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér.“ (Títusarbréfið 2:1-5; 1. Tímóteusarbréf 2:11-14) Vegna áhrifa áfengis verða umsjónarmenn, safnaðarþjónar og aldraðar konur að vera hófsamar, ekki vínhneigðar. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8, 11) Allir kristnir menn verða að forðast drykkjuskap og mega ekki neyta víns er þeir inna af hendi þá ‚heilögu þjónustu‘ að prédika fagnaðarerindið. — Rómverjabréfið 15:16; Orðskviðirnir 23:20, 21.