Lausnargjaldið hin glataða kenning kristna heimsins
Lausnargjaldið hin glataða kenning kristna heimsins
LAUSNARGJALDIÐ, sú trú að Jesús hafi dáið fyrir syndugt mannkyn, er ein undirstaða sannrar kristni. Samt sem áður hefur þessi kenning lengi sætt mikilli gagnrýni og háði guðfræðinga kristna heimsins.
Hver er ástæðan? Sagði ekki Jesús sjálfur í Markúsi 10:45: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga“?
Sumir hafa haldið fram að Jesús hafi aldrei mælt þessi orð, heldur hafi þau verið spunnin upp eftir dauða hans undir áhrifum Páls postula. Aðrir halda því fram að ‚lausnargjald‘ sé líking eða að kenningin sé komin úr
grískri goðafræði! Kenningin um lausnargjaldið hefur því nánast horfið úr kenningasafni kirkjufélaganna.Þér kann þó að vera spurn hvernig frumkristnir menn hafi skilið dauða Jesú. Páll segir okkur í 2. Korintubréfi 5:14, 15: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla . . . til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, haldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ Hér er þessi kenning snilldarlega einföld — algerlega laus við það flókna orðskrúð sem átti eftir að breyta henni síðar er hún færi um hendur guðfræðinga kirkjufélaganna.
Getur hugsast að Páll hafi fundið upp þessa kenningu? Nei, því hann segir í 1. Korintubréfi 15:3: „Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum.“ Ljóst er að löngu áður en Páll skrifaði bréf sín höfðu kristnir menn skilið dauða Jesú svo að hann væri fórn, raunverulegt lausnargjald greitt til að endurleysa syndugt mannkyn. Auk þess skildu þeir það svo, eins og Páll gefur til kynna, að dauði Krists uppfyllti ‚ritningarnar,‘ það er að segja spádóma svo sem í Sálmi 22 og Jesaja 53 í Hebresku ritningunum eða „Gamlatestamentinu.“
Spurningar sem er ósvarað
Ef þú kýst að rannsaka málið sjálfur kemst þú að raun um að fráhvarfskenningar komust inn í kristnina skömmu eftir daga postulanna. (Postulasagan 20:29, 30; 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Eigi að síður hélt trúin á lausnarfórn Krists velli eins og sjá má af ritum fyrstu kirkjufeðranna. Er guðfræðingar tóku síðar á tímum að brjóta kenninguna um lausnargjaldið til mergjar tóku þeir hins vegar að spyrja ýmissa erfiðra spurninga svo sem: Hverjum var lausnargjaldið greitt? Og hvers vegna var slík greiðsla nauðsynleg?
Á fjórðu öld útlistuðu Gregoríus frá Nyssa og fleiri þá skoðun að lausnargjaldið hefði verið greitt Satan djöflinum! Þeir héldu því fram að Satan hefði haft tangarhald á manninum og að honum hefði verið greitt lausnargjald til að frelsa mannkynið. En samtíðarmaður hans, Gregoríus frá Nasíansus, kom auga á stóra gloppu í þessari kenningu. Hún gaf nefnilega í skyn að Guð væri skuldbundinn djöflinum — sem er fáránlegt! Sú hugmynd að lausnargjaldið hefði verið greitt djöflinum náði eigi að síður vinsældum og hélt velli um aldaraðir.
Gat hugsast að lausnargjaldið hafi verið greitt Guði sjálfum? Gregoríus frá Nasíansus taldi sig sjá ýmsa annmarka á þeirri hugmynd líka. Hví skyldi þurfa að greiða honum lausnargjald úr því að ‚við vorum ekki ánauðug [Guði]?‘ Og ‚gat faðirinn haft yndi af dauða sonarins‘ með því að krefjast lausnargjalds? Þetta virtust erfiðar spurningar sem vöktu upp efasemdir um lausnargjaldið sem slíkt.
Lausnargjaldskenningin aflögð
Rannsókn þín fær þig kannski til að nema næst staðar snemma á 12. öld. Anselm, erkibiskup af Kantaraborg, freistaði þess að svara þessum spurningum í bók sinni Cur Deus Homo (Hvers vegna Guð varð maður). Í bókinni kenndi hann að dauði Krists hefði verið leið til að fullnægja réttvísi Guðs, þótt ekki hefði verið um lausnargjald að ræða.
Anselm hélt því fram að fyrirgefning syndar með lausnargjaldi án þess að réttvísinni væri fullnægt jafngilti því að láta syndina óleiðrétta. „En Guð getur ekki með réttu látið nokkuð óleiðrétt í ríki sínu,“ sagði Anselm. Hvernig leiðrétti Guð þá málin?Anselm hélt því fram að „synd vanheiðraði Guð“ og að ekki hefði verið nóg “einungis að skila aftur því sem tekið hafði verið“ með synd Adams. Þar eð Guði hafði verið misboðið væri ekki nóg að greiða lausnargjald — jafnvel þótt fórnað væri fullkomnum manni. Kennimaðurinn hélt því fram að „í ljósi óvirðingarinnar“ hefði þurft að „skila til baka meiru en tekið var.“ (Leturbreyting okkar.) Anselm fullyrti að þetta hafi útheimt dauða einhvers sem var „bæði Guð og maður“!
Hvað sem þér kann að finnast um kenningar Anselms snerust samtíðarmenn hans til fylgis við þær og áhrifa þeirra gætir enn þann dag í dag. Með einu höggi hafði Anselm bæði styrkt þrenningarkenninguna í sessi og greitt lausnargjaldskenningunni banahögg, í það minnsta í kristna heiminum! „Fullnæging“ varð orðtak guðfræðinga en hugtakið „lausnargjald“ féll smám saman í hálfgerða gleymsku. Kenningar Anselms voru þó byggðar svo til eingöngu á villandi rökfræði, ekki Biblíunni. Er tímar liðu tóku fræðimenn svo sem Tómas frá Akvínó að grafa undan kenningu Anselms um „fullnægingu“ með sinni eigin rökfræði. Getgátur voru í algleymingi. Kenningarnar um endurlausn urðu fleiri og fleiri, og deilurnar fjarlægðust Ritninguna meir og meir og báru sífellt meiri keim af rökum manna, heimspeki og dulhyggju.
Siðbótin og lausnargjaldið
Við skulum þá færa okkur eilítið nær nútímanum. Er siðbót mótmælenda braust út á 16. öld kom fram á sjónarsviðið róttækur hópur sem kenndur var við Laelíus Socinus. * Hann afneitaði því að dauði Jesú „áynni okkur hjálpræði“ á nokkurn hátt og kallaði slíka trú „villandi, ósanna og afar skaðlega . . . í mótsögn bæði við Ritninguna og skynsemina.“ (The Racovian Catechisme) Úr því að Guð fyrirgefur fúslega þurfti alls ekkert að fullnægja réttvísinni. Hann staðhæfði að dauði Krists endurleysti á þann hátt að hann kæmi mönnum til að líkja eftir fullkomnu fordæmi hans.
Undir árásum þessarar trúvillu og annarra villukenninga gerði kaþólska kirkjan gagnárás með því að kalla saman kirkjuþingið í Trent (frá 1545 til 1563). En þótt þingið tæki afstöðu til margra kenningaratriða var afstaða þess til endurlausnarinnar óskýr og sagði hvorki af né á. Það talaði um ‚verðleika Jesú Krists‘ og notaði orðið „fullnæging“ en forðaðist vandlega orðið „lausnargjald.“ Það vantaði því mikið á að kirkjan tæki nokkra skýra, biblíulega afstöðu. Enn var því hægt að gefa getgátunum lausan tauminn.
Hvers vegna trúarleiðtogar hafa brugðist
Frá því að kirkjuþingið í Trent var haldið hafa guðfræðingar — jafnt kaþólskra sem mótmælenda — sett fram óteljandi kenningar um endurlausnina. (Sjá rammann á bls. 7.) Þó er engin samhljóða niðurstaða um þýðingu dauða Krists í sjónmáli. Guðfræðingar eru aðeins sammála í fyrirlitningu sinni á hinu biblíulega hugtaki „lausnargjaldi,“ og kjósa að láta eins og það sé ekki til, gera lítið úr því eða eyða því með útskýringum. Gildi dauða Krists er útlistað með fræðilegu fagmáli, flóknum útúrsnúningum, villandi rökfærslu og hástemmdum orðum svo sem „siðferðileg áhrif“ og „tákn efnislegrar fullnægingar.“ Í stað þess að byggja upp trú á dauða Krists hafa klerkar kristna heimsins gert kvalastaur hans að ruglingslegu fótakefli.
Hvað býr að baki þessari grófu vanrækslu? Kaþólski guðfræðingurinn Boniface A. Willems rekur hana til þess að guðfræðingar séu „menntaðir í vel verndaðri * Finnst þér þú ekki geta tekið undir þá skoðun? En Jeremía 8:9 gengur skrefi lengra og bendir á raunverulega rót vandans: „Sjá, þeir hafa hafnað orði [Jehóva], hvaða visku hafa þeir þá?“
einangrun“ — allt of fjarlægir raunverulegum þörfum manna.“Að sjálfsögðu getur kenningin um lausnargjaldið vakið upp ýmsar erfiðar spurningar. (2. Pétursbréf 3:16) En í stað þess að leita svara í Ritningunni hafa guðfræðingar horfið á vit mannlegrar visku og rökfræði. (1. Korintubréf 1:19, 20; 2:13) Þeir hafa vogað sér að hafna hverjum þeim hluta Biblíunnar sem ekki fer saman við hugmyndir þeirra — eða kenningar. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þeir hafa haldið fram óbiblíulegum kenningum svo sem um heilaga þrenningu. (Jóhannes 14:28) Og alvarlegasta vanræksla þeirra er sú að þeir hafa gert hjálpræði mannsins að aðalatriði en virt einskis hin þýðingarmeiri mál sem varða nafn Guðs og ríki. — Matteus 6:9, 10.
Málsvari lausnargjaldsins
Nú skalt þú í rannsókn þinni færa þig fram til síðari hluta 19. aldar. Guðhræddur maður að nafni Charles Taze Russell sagði skilið við meginstraum guðfræðinnar og hóf útgáfu þessa tímarits sem þú heldur á — Varðturnsins. „Allt frá upphafi,“ sagði Russell, „hefur það verið sérstakur málsvari lausnargjaldsins.“
Varðturninn gegnir því hlutverki enn þann dag í dag. Í meira en hundrað ár hefur blaðið lagt fram skýr, biblíuleg rök fyrir trú á lausnargjaldið og gefið skynsamleg svör út frá Biblíunni til að hrekja efasemdir og aðfinnslur gagnrýnenda. Við hvetjum þig til að kynna þér nánar það sem Biblían segir um dauða Jesú og gildi hans.
[Neðanmáls]
^ Sjá greinina „The Socinians — Why Did They Reject the Trinity?“ í tímaritinu Vaknið! (enskri útgáfu) þann 22. nóvember 1988.
^ Sjá þó kenningu Willems sjálfs í rammanum að ofan.
[Rammi á blaðsíðu 7]
NOKKUR SÝNISHORN ENDURLAUSNARKENNINGA
◻ STJÓRNARKENNINGIN: Hollenski guðfræðingurinn Hugo Grotius kom fram með þessa kenningu á 17. öld í því skyni að hrekja kenningar þeirra sem fylgdu Socinusi að málum. Grotius leit á dauða Krists sem „eins konar löggjörning þar sem Guð var í hlutverki stjórnara og maðurinn í hlutverki sökudólgs.“ — Encyclopedia of Religion and Ethics eftir Hastings.
◻ LÍFSNAUÐSYNLEG FRIÐÞÆGING: Mótmælendaguðfræðingurinn Clarence H. Hewitt sló fram þessari kenningu árið 1946. Hann leit ekki á verk Krists sem það að taka út lagalega hegningu heldur að ‚frelsa okkur undan yfirráðum lögmáls syndar og dauða og kalla fram iðrun og hryggð Guði að skapi, og leiða okkur þannig í það ástand frammi fyrir Guði að hann gæti fyrirgefið okkur.‘
◻ ENDURLAUSN VEGNA KRISTINS SAMFÉLAGS: Rómversk-kaþólski guðfræðingurinn Boniface A. Willems (1970) leggur „endurlausn“ að jöfnu við það „að snúa baki við sjálfselsku og opna hjörtu okkar hver fyrir öðrum.“ Hann bætir við: „Hin kristna kenning um skipti eða þjáningu eins í stað annars er sú að við vitum sjálfa okkur í fullri samstöðu með syndum hlöðnu mannkyni. . . . Kirkjan er þá samfélag þeirra sem eru reiðubúnir að helga líf sitt sérstakri þjónustu í þágu annarra.“
◻ SEKTARLAMBSKENNINGIN: Kaþólski guðfræðingurinn Raymund Schwager setti hana fram árið 1978. Hann hafnaði þeirri hugmynd að Guð „krefðist auga fyrir auga.“ Hann lítur á fórn Krists sem eins konar geðhreinsun sem leyfir mannlegu samfélagi að fá útrás — og þar með losa sig við — eðlislægar tilhneigingar sínar til ofbeldis.
◻ ÞJÓÐFÉLAGS- OG STJÓRNMÁLALEG ENDURLAUSN: Baptistaguðfræðingurinn Thorwald Lorenzen skrifaði árið 1985: „Guð leitar ekki aðeins trúarlegrar fyrirgefningar syndarans heldur einnig pólitískrar frelsunar fátækra og kúgaðra. . . . Dauði Jesú opinberar því Guð sem er annt um lækningu allra þátta mannlífsins.“
[Mynd á blaðsíðu 5]
Guðfræðingar mótmælenda og kaþólskra hafa sett saman ótal kenningar um lausnargjald og endurlausn, en hvað kennir Biblían?