Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sækist þú eftir umsjónarstarfi?

Sækist þú eftir umsjónarstarfi?

Sækist þú eftir umsjónarstarfi?

„Sækist einhver eftir biskupsstarfi [umsjónarstarfi, NW], þá girnist hann fagurt hlutverk.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:1.

1. Hvert er eitt helsta markmið votta Jehóva?

 VOTTAR Jehóva hafa mörg markmið sem þeir keppa að á guðrækilega vísu. Það er ekkert undarlegt því að Guð þeirra hefur göfug markmið og hrindir tilgangi sínum alltaf í framkvæmd. (Jesaja 55:8-11) Þjónar Jehóva ættu ekki að líkjast þeim mönnum sem skortir góð og göfug markmið og þeysa andvaralausir gegnum lífið án þess að gera öðrum en sjálfum sér mikið gagn. Eitt fremsta hugðarefni votta Guðs er að rækja hið göfuga starf að boða boðskap Guðsríkis og gefa öðrum hlutdeild í þekkingunni á orði Guðs sem veitir líf. — Sálmur 119:105; Markús 13:10; Jóhannes 17:3.

2. Hvaða markmið hvetur Páll kristna menn til að hafa í 1. Tímóteusarbréfi 3:1?

2 Innan skipulags Jehóva eru ýmis fleiri göfug markmið. Páll postuli nefndi eitt þeirra er hann skrifaði: „Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi [umsjónarstarfi, NW], þá girnist hann fagurt hlutverk.“ Slíkur maður vill áorka einhverju gagnlegu í þágu annarra. Hann girnist „fagurt hlutverk“ eða starf, ekki upphefð og makindalegt líf. Önnur þýðing segir: „Það má með sanni segja að sá maður sem keppir eftir forystuhlutverki hefur lofsvert metnaðartakmark.“ — 1. Tímóteusarbréf 3:1Phillips.

Hættur fyrir öldunga

3, 4. Hvers vegna ætti maður, sem sækist eftir umsjónarstarfi, að gæta hjarta síns?

3 Hvernig má segja að sá maður, sem sækist eftir því að vera kristinn umsjónarmaður, hafi „lofsvert metnaðartakmark“? Metnaður er brennandi löngun í að ná ákveðnu markmiði. Metnaður getur að vísu bæði átt sér göfugt tilefni og auvirðilegt, en sækist kristinn maður auðmjúkur í bragði eftir umsjónarstarfi, af því að hann vill þjóna öðrum, þá veitir hann þjónustu sína af góðum hvötum og getur verið öðrum til andlegrar blessunar. Hann þarf samt sem áður að gæta að hjarta sínu. — Orðskviðirnir 4:23.

4 Metnaðargjarnir menn sækjast stundum eftir upphefð. Sumir vilja ráða yfir öðrum. Framasýki og valdagræðgi er eins og fúin rót sem getur skyndilega orðið myndarlegu tré að falli. Kristinn maður gæti líka orðið fórnarlamb metnaðargirndar af röngum hvötum. (Orðskviðirnir 16:18) „Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins,“ sagði Jóhannes postuli, „en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.“ (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Metnaðargirnd Díótrefesar var ókristileg. Hroki og valdagræðgi á alls ekki heima meðal sannra fylgjenda Jesú. — Orðskviðirnir 21:4.

5. Með hvaða hugarfari ætti umsjónarmaður að rækja skyldur sínar?

5 Kristinn umsjónarmaður, sem rækir skyldur sínar af réttum hvötum, setur sér ekki eigingjörn metnaðartakmörk. Hann lítur á kristið umsjónarstarf sem sérréttindi frá Guði og gætir hjarðar Guðs „ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.“ Hann, ‚drottnar ekki yfir söfnuðunum heldur er fyrirmynd hjarðarinnar.‘ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Já, umsjónarmenn ættu að gæta þess að láta ekki þroskast með sér hroka og löngun í að misbeita valdi sínu.

6. Hvers vegna má öldungur ekki drottna yfir þjónum Guðs?

6 Öldungur ætti ekki að drottna harðlega yfir öðrum kristnum mönnum því að hann er samverkamaður þeirra, ekki ‚drottnari yfir trú þeirra.‘ (2. Korintubréf 1:24) Þegar sumir af postulunum reyndu að gera sig öðrum fremri sagði Jesús: „Þér vitið, að þeir, sem ráða yfir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo á meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:20-28) Öldungur er ekki yfirhirðir, aðeins undirhirðir. Ef hann drottnar yfir hjörðinni ber það vott um dramb. Einkum yrði það til tjóns ef hann tældi aðra til að hjálpa sér að ná rembilátum metnaðartakmörkum sínum. Orðskviður segir: „Sérhver hrokafullur maður er [Jehóva] andstyggð, hér er höndin upp á það: Hann sleppur ekki óhegndur!“ — Orðskviðirnir 16:5.

7, 8. (a) Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir kristinn öldung að vera auðmjúkur? (b) Nefndu dæmi um auðmjúkan öldung.

7 Kristnir öldungar ættu því að ‚auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd.‘ Dramb takmarkar andlegt notagildi manns, því að einungis auðmjúkir menn hafa rétt hugarfar og hjartalag til að gera vilja Guðs. „Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (1. Pétursbréf 5:5, 6) Já, Jehóva blessar auðmjúka menn. Það er úr hópi þeirra sem skipaðir eru hæfir karlmenn til að þjóna sem kristnir öldungar.

8 Nútímasaga votta Jehóva geymir ótal frásögur af auðmjúkri þjónustu guðrækinna manna. Við skulum nefna sem dæmi hinn blíðlynda W. J. Thorn sem var eitt sinn pílagrímur eða farandumsjónarmaður og þjónaði á Betel í fjöldamörg ár. Annar kristinn maður sagði um hann: „Ég gleymi aldrei því sem bróðir Thorn sagði einu sinni og hjálpar mér enn þann dag í dag. Hann sagði: ‚Hvenær sem ég fer að hugsa hátt um sjálfan mig rek ég sjálfan mig út í horn, ef svo má að orði komast, og segi: „Þú litla rykkorn. Hvað hefur þú til að monta þig af?“‘“ Þetta er hrósunarverður eiginleiki fyrir öldunga og aðra! Munum að „laun auðmýktar, ótta [Jehóva], eru auður, heiður og líf.“ — Orðskviðirnir 22:4.

Þjónustulund af Guði gefin

9. Hvers vegna má segja að löngunin til að þjóna sem öldungur sé af Guði gefin?

9 Er löngun þín til að þjóna sem umsjónarmaður af Guði gefin? Já, því að andi Jehóva vekur upp áhugahvöt, hugrekki og styrk til að veita honum heilaga þjónustu. Hvað gerðist til dæmis þegar ofsóttir fylgjendur Jesú báðu um dirfsku til að prédika? Þá „hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ (Postulasagan 4:27-31) Úr því að heilagur andi verkaði með þessum hætti, þá getur hann líka komið manni til að sækjast eftir umsjónarstarfi.

10. (a) Nefndu eina ástæðu fyrir því að kristinn maður sækist kannski ekki eftir umsjónarstarfi. (b) Hvað megum við vera viss um ef Guð veitir okkur þjónustusérréttindi?

10 Af hvaða ástæðu gæti svo farið að þroskaður kristinn maður sæktist ekki eftir umsjónarstarfi? Þótt hann sé andlegur maður getur honum fundist sem hann hafi ekki hæfni til. (1. Korintubréf 2:14, 15) Að sjálfsögðu ættum við að vera hógvær í mati á sjálfum okkur og þekkja okkar takmörk. (Míka 6:8) Í stað þess að halda sjálfan sig hæfastan til að gegna ákveðinni ábyrgð er gott að muna að „hjá lítillátum er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) En við ættum einnig að gera okkur ljóst að Guð gefur okkur nauðsynlegan styrk til að valda þeim þjónustusérréttindum sem hann veitir okkur. Eins og Páll sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

11. Hvað getur kristinn maður gert ef honum finnst hann skorta næga visku til að gefa öðrum ráð?

11 Kristnum manni getur fundist hann skorta næga visku til að ráða öðrum heilt, og það getur valdið því að hann sækist ekki eftir umsjónarstarfi. Þá getur hann kannski aflað sér visku með því að vera kostgæfari nemandi orðs Guðs, og tvímælalaust ætti hann að biðja um visku. Jakob skrifaði: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá [Jehóva].“ (Jakobsbréfið 1:5-8) Til svars við bæn Salómons gaf Guð honum „gaumgæfið hjarta“ sem gerði hann færan um að greina gott frá illu er hann dæmdi. (1. Konungabók 3:9-14) Aðstæður Salómons voru óvenjulegar, en með kostgæfu námi og Guðs hjálp geta karlmenn, sem veitt hefur verið ábyrgð í söfnuðinum, leiðbeint öðrum í réttlæti. „Því að [Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ — Orðskviðirnir 2:6.

12. Hvað getur hjálpað þeim bróður sem sækist ekki eftir umsjónarstarfi vegna þess að hann hræðist þær áhyggjur sem fylgja því?

12 Vissar áhyggjur geta haldið aftur af manni að keppa eftir umsjónarstarfi. Honum getur fundist hann ófær um að axla þá þungu ábyrgð að vera öldungur. Jafnvel Páll viðurkenndi: „Ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.“ (2. Korintubréf 11:28) En postulinn vissi hvað hann átti að gera þegar áhyggjur sóttu að honum, því hann skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Já, bæn og traust til Guðs getur átt drjúgan þátt í að bæla niður slíkar áhyggjur.

13. Hvernig getur bróðir beðið ef hann veigrar sér við að sækjast eftir umsjónarstarfi?

13 Ef einhverjar áhyggjur sitja eftir getur sá sem veigrar sér við að sækjast eftir umsjónarstarfi beðið líkt og Davíð: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálmur 139:23, 24) Andi Guðs getur hjálpað okkur að takast á við áhyggjur og kvíða, hvert svo sem er eðli þeirra, þannig að við getum tekið andlegum framförum. Það er vel að orði komist í öðrum sálmi: „Þegar ég hugsaði ‚Mér skriðnar fótur,‘ þá studdi mig miskunn þín, [Jehóva]. Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ — Sálmur 94:18, 19.

Þjónaðu glaður eins og Jehóva vill

14. Hvers vegna ætti sá maður, sem sækist ekki eftir umsjónarstarfi, að biðja um heilagan anda Guðs?

14 Ef áhyggjur, vanmáttarkennd eða ónóg áhugahvöt veldur því að kristinn maður sækist ekki eftir umsjónarstarfi, þá væri tvímælalaust við hæfi fyrir hann að biðja um anda Guðs. Jesús sagði: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13) Með því að friður og sjálfstjórn eru ávextir anda Guðs, þá getur andi hans hjálpað okkur að berjast gegn áhyggjum og vanmáttarkennd. — Galatabréfið 5:22, 23.

15. Hvers konar bænir geta hjálpað þeim sem skortir áhugahvöt til að bjóða sig fram til aukinna sérréttinda?

15 Hvað er hægt að gera ef áhugahvötina vantar? Við sem erum skírðir kristnir menn þurfum að biðja Guð að láta okkur gera það sem þóknast honum. Davíð bað: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], . . . lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér.“ (Sálmur 25:4, 5) Slíkar bænir hjálpa okkur að forðast villigötur, og við getum beðið á svipaðan hátt ef okkur skortir áhugahvöt til að sækjast eftir umsjónarstarfi. Við getum beðið Jehóva um að láta okkur langa til að þiggja þjónustusérréttindi. Ef við biðjum um anda Guðs og látum hann leiða okkur munum við vafalaust vera fúsir til að þiggja þjónustusérréttindi sem okkur eru boðin. Vígðir þjónar Guðs vilja undir engum kringumstæðum sporna gegn áhrifum anda hans. — Efesusbréfið 4:30.

16. Hvaða viðhorf vekur sterka hvöt til að sækjast eftir ábyrgð í söfnuðinum?

16 Ef við höfum „huga Krists“ höfum við yndi af að gera vilja Guðs. (1. Korintubréf 2:16) Jesús var sama sinnis og sálmaritarinn sem sagði: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“ (Sálmur 40:9) Kristur sagði: „Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn,“ og það fól í sér að deyja á kvalastaur. (Hebreabréfið 10:9, 10) Löngun til að gera allt sem hægt er í þjónustu Jehóva er sterk hvöt til að sækjast eftir ábyrgð í söfnuðinum.

Horfðu til framtíðarinnar

17. (a) Hvers vegna ættu þeir, sem geta ekki gert jafnmikið og áður, ekki að missa kjarkinn? (b) Hver eru mestu sérréttindi sem við getum notið?

17 Heilsubrestur eða aðrir erfiðleikar geta valdið því að sumir, sem áður gegndu mikilvægum skyldum í söfnuðinum, geri það ekki nú. Þeir ættu ekki að missa kjarkinn. Við vitum að fjölmargir trúfastir bræður, sem geta ekki lengur þjónað í sama mæli og þeir gerðu áður, standa enn stöðugir og varðveita ráðvendni. (Sálmur 25:21) Auðmjúkir bræður, sem hafa gegnt öldungsstarfi um langt árabil, geta haldið áfram að miðla af reynslu sinni með því að sitja áfram í öldungaráðinu. Þótt aldur eða heilsubrestur setji þeim takmörk þurfa þeir ekki að draga sig í hlé. Megi hver einasti vottur Jehóva jafnframt meta sem fjársjóð þau sérréttindi, sem dýrmætust eru, að mega ‚tala um dýrð konungdóms Guðs‘ og halda heilögu nafni hans hátt á lofti. — Sálmur 145:10-13.

18. (a) Hvað getur þurft að gera fyrir bróður sem hefur verið tekinn af skrá sem öldungur eða safnaðarþjónn? (b) Hvaða góð viðhorf birtust hjá bróður sem hafði verið tekinn af skrá sem öldungur?

18 Ef þú hefur verið öldungur og safnaðarþjónn, en þjónar ekki sem slíkur núna, þá máttu eigi að síður treysta að Guði sé annt um þig. Vera má að hann veiti þér einhver óvænt sérréttindi í framtíðinni. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Ef þú þarft að breyta einhverju hjá þér, þá skaltu vera fús til að viðurkenna ágalla þinn og vinna að því að bæta hann með Guðs hjálp. Komið hefur fyrir að þeir sem hafa verið teknir af skrá sem öldungar hafi tileinkað sér ókristin viðhorf; fáeinir eru jafnvel orðnir óvirkir eða hafa fallið frá sannleikanum. Það er tvímælalaust miklu betra að tileinka sér jákvæðan anda eins og aðrir hafa gert við þessar aðstæður. Öldungur, sem hafði þjónað í Mið-Ameríku um árabil, var tekinn af skrá. Hann sagði: „Mér þykir ákaflega sárt að hafa misst þau sérréttindi sem ég hef metið mikils lengi, en ég ætla að leggja mig kappsamlega fram við hvaðeina sem bræðurnir vilja nota mig til og vinna að því að endurheimta þjónustusérréttindi mín.“ Síðar meir var þessi bróðir útnefndur öldungur á ný.

19. Hvaða góðum ráðum ætti sá bróðir að fylgja sem hefur verið tekinn af skrá sem öldungur eða safnaðarþjónn?

19 Ef þú hefur verið tekinn af skrá sem öldungur eða safnaðarþjónn, þá skaltu varðveita auðmjúkt hugarfar. Forðastu þá beiskju sem myndi gera þig óhæfan til að hljóta sérréttindi í framtíðinni. Sá sem ræktar með sér guðrækni ávinnur sér virðingu annarra. Í stað þess að missa kjarkinn skaltu hugleiða hvernig Jehóva blessar þig og þjónustu þína eða heimili þitt. Byggðu fjölskyldu þína upp andlega, heimsæktu sjúka og uppörvaðu þá sem eru veikir í trúnni. Framar öllu öðru skaltu meta mikils þau sérréttindi að lofsyngja Guði og boða fagnaðarerindið sem einn af vottum Jehóva. — Sálmur 145:1, 2; Jesaja 43:10-12.

20. Hvað getur öldungaráðið gert til að hjálpa fyrrverandi umsjónarmanni eða safnaðarþjóni?

20 Öldungaráðið ætti líka að gera sér ljóst að það getur verið álag fyrir bróður að missa þau sérréttindi að vera umsjónarmaður eða safnaðarþjónn, jafnvel þótt hann dragi sig í hlé af eigin frumkvæði. Ef öldungarnir taka eftir að bróðirinn er niðurdreginn, og hann hefur ekki verið gerður rækur, ættu þeir að sýna kærleikshug og veita honum andlega hjálp. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Þeir ættu að hjálpa honum að gera sér ljóst að hans sé þörf í söfnuðinum. Jafnvel þegar það þarf að leiðbeina honum þarf ekki að líða langur tími uns auðmjúkur og þakklátur maður hlýtur aftur aukin þjónustusérréttindi í söfnuðinum.

21. Hverjir biðu eftir sérréttindum og hvað eru þeir sem bíða eftir þeim núna hvattir til að gera?

21 Ef þú ert að sækjast eftir umsjónarstarfi getur verið að þú þurfir að bíða um sinn áður en þú öðlast aukin sérréttindi. Vertu ekki óþolinmóður. Móse beið í 40 ár áður en Guð notaði hann til að frelsa Ísraelsmenn úr fjötrum í Egyptalandi. (Postulasagan 7:23-36) Áður en Jósúa var útnefndur arftaki Móse hafði hann þjónað honum lengi. (2. Mósebók 33:11; 4. Mósebók 27:15-23) Davíð beið um tíma áður en hann var settur í hásæti í Ísrael. (2. Samúelsbók 2:7; 5:3) Pétur og Jóhannes Markús þurftu greinilega að slípast um tíma. (Matteus 26:69-75; Jóhannes 21:15-19; Postulasagan 13:13; 15:36-41; Kólossubréfið 4:10) Ef þú hefur ekki sérstökum skyldum að gegna í söfnuðinum núna, þá má vera að Jehóva sé að láta þig mótast með því að leyfa þér að öðlast meiri reynslu. Hver sem er staða þín skaltu leita hjálpar Guðs er þú sækist eftir umsjónarstarfi; þá veitir hann þér kannski aukin þjónustusérréttindi. Uns það gerist skaltu vinna kostgæfur að því að verða hæfur til ábyrgðastarfa í söfnuðinum og sýna sams konar hugarfar og Davíð sem lýsti yfir: „Munnur minn skal mæla orðstír [Jehóva], allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.“ — Sálmur 145:21.

Hvert er svar þitt?

◻ Gagnvart hvaða hættum ætti kristinn öldungur að vera á varðbergi?

◻ Hvað getur hjálpað þeim sem lætur áhyggjur eða vanmáttarkennd koma í veg fyrir að hann sækist eftir umsjónarstarfi?

◻ Hvað getur verið manni hvöt til að bjóða sig fram til ábyrgðar í söfnuðinum?

◻ Með hvaða hugarfari ættu fyrrverandi öldungar og safnaðarþjónar að horfa til framtíðarinnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

W. J. Thorn setti gott fordæmi sem auðmjúkur öldungur.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Ert þú, eins og Jesús, fús til að gera allt sem þú getur í þjónustu Jehóva?