Gangið fram sem samverkamenn í sannleikanum
Gangið fram sem samverkamenn í sannleikanum
Meginatriði 2. og 3. Jóhannesarbréfs
ÞEKKING á sannleikanum er kennimerki tilbiðjenda Jehóva. (Jóhannes 8:31, 32; 17:17) Það að ganga í sannleika Guðs er forsenda hjálpræðis. Og þjónar Guðs verða að vera samverkamenn í sannleikanum.
Hið annað og þriðja innblásna bréf Jóhannesar tala um að „ganga fram í sannleika.“ (2. Jóhannesarbréf 4; 3. Jóhannesarbréf 3, 4) Þriðja Jóhannesarbréf hvetur okkur einnig til samstarfs sem „samverkamenn sannleikans.“ (3. Jóhannesarbréf 5-8) Líklega voru bæði bréfin skrifuð í Efesus eða næsta nágrenni um árið 98. Efni þeirra getur hins vegar verið þjónum Jehóva nú á tímum til gagns.
2. Jóhannesarbréf leggur áherslu á sannleika
Annað Jóhannesarbréf leggur fyrst áherslu á sannleika og kærleika og varar við ‚andkristi.‘ (Vers 1-7) Bréfið er stílað á ‚hina útvöldu frú,‘ og er þar ef til vill átt við einstakling. Ef það var hins vegar sent söfnuði voru ‚börn‘ hennar andagetnir kristnir menn, ‚útvaldir‘ af Guði til lífs á himnum. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Filippíbréfið 3:12-14) Það var Jóhannesi fagnaðarefni að ýmsir skyldu „ganga fram í sannleika“ og þar með standa gegn fráhvarfi frá trúnni. Samt þurftu þeir að vera á verði gegn ‚andkristi‘ sem afneitaði því að Jesús hefði komið í holdi. Vottar Jehóva nú á tímum taka til sín slíkar aðvaranir gegn fráhvarfi.
Þessu næst gaf Jóhannes leiðbeiningar um hvernig tekið skyldi á fráhvarfsmönnum og lauk síðan bréfinu með persónulegri ósk og kveðjum. (Vers 8-13) Með erfiði svo sem prédikun höfðu hann og aðrir borið ávöxt sem varð til þess að viðtakendur bréfsins höfðu snúist til trúar. Aðeins með því að ‚hafa gætur á sjálfum sér‘ myndu þeir „fá full laun,“ meðal annars hinn himneska ‚sveig‘ ætlaðan hinum smurðu er varðveittu trúfesti. (2. Tímóteusarbréf 4:7, 8) Ef einhver, sem var ‚ekki stöðugur í kenningu Krists,‘ kæmi til þeirra áttu þeir ‚ekki að taka hann inn á heimili sín og ekki biðja hann vera velkominn‚‘ þannig að þeir yrðu ekki hluttakendur í ‚vondum verkum‘ hans. Eftir að Jóhannes hafði látið í ljós þá von að hann gæti komið og talað við þessa trúbræður sína augliti til auglitis lauk hann bréfinu með kveðjuorðum.
3. Jóhannesarbréf leggur áherslu á samvinnu
Þriðja bréf Jóhannesar er stílað á Gajus og nefnir fyrst ýmislegt sem hann var að gera fyrir trúbræður sína. (Vers 1-8) Gajus ‚lifði í sannleika‘ með því að halda sér við allar hinar kristnu kenningar í heild sinni. Hann ‚sýndi af sér trúmennsku‘ (JHM) með því að greiða götu bræðra sem komu í heimsókn. Jóhannes skrifaði: „Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ Vottar Jehóva sýna farandumsjónarmönnum nú á tímum sams konar gestrisni.
Eftir að hafa borið saman vonda hegðun Díótrefesar og góða hegðun Demetríusar lauk Jóhannes bréfi sínu. (Vers 9-14) Díótrefes vildi upphefja sig og sýndi Jóhannesi enga virðingu. Hann reyndi jafnvel að reka úr söfnuðinum þá sem tóku með gestrisni á móti bræðrunum. Demetríus nokkur var þó nefndur sem gott fordæmi. Jóhannes vonaðist til að hitta Gajus fljótlega og lauk bréfinu með kveðjum og ósk um að Gajus mætti njóta friðar.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 20]
Með pappír, penna og bleki: Jóhannes þráði að heimsækja ‚hina útvöldu frú‘ og ‚börn‘ hennar í stað þess að skrifa þeim margt „með pappír og bleki.“ Postulinn vonaðist líka til að hitta Gajus bráðlega í stað þess að halda áfram að skrifa honum „með bleki og penna.“ (2. Jóhannesarbréf 1, 12; 3. Jóhannesarbréf 1, 13, 14) Gríska orðið, sem þýtt er „penni“ (kalamos), merkir reyr eða reyrstafur og má þýða sem „skriftarreyr.“ Meðal Grikkja og Rómverja var reyrpenni yddaður og gerð í hann skora líkt og fjöðurpenna síðar á tímum. Gríska orðið melan, sem þýtt er „blek,“ er hvorugkynsorð myndað af karlkynsmynd lýsingarorðsins melas sem merkir „svartur.“ Kolefni var notað sem litarefni í elsta blekið, annaðhvort sót fengið við brennslu olíu eða trés, eða þá kolað efni úr jurta- eða dýraríkinu. Blek var yfirleitt geymt þurrkað í stöngum eða kökum sem ritarinn síðan bleytti og strauk penna sínum eða pensli yfir. Pappír þess tíma var í þunnum örkum gerðum úr ræmum papýrusplöntunnar. Frumkristnir menn notuðu slíkan pappír sem bréfsefni, í bókrollur og bækur.