Haldið áfram að ganga í ljósi og kærleika
Haldið áfram að ganga í ljósi og kærleika
Meginatriði 1. Jóhannesarbréfs
JEHÓVA er uppspretta ljóss og kærleika. Við verðum að horfa til Jehóva til að hljóta andlegt ljós. (Sálmur 43:3) Og kærleikur er einn af ávöxtum heilags anda hans. — Galatabréfið 5:22, 23.
Ljós, kærleikur og sitthvað fleira er umræðuefni Jóhannesar postula í fyrsta, innblásna bréfi hans sem líklega var skrifað í eða í grennd við Efesus um árið 98. Eitt megintilefnið með ritun bréfsins var að vernda kristna menn gegn fráhvarfi og hjálpa þeim að halda áfram að framganga í ljósinu. Úr því að kærleikur okkar, trú og ráðvendni við sannleikann sætir árásum er okkur tvímælalaust til gagns að kynna okkur þetta bréf.
‚Gangið í ljósinu‘
Jóhannes tók skýrt fram að trúfastir kristnir menn verði að ganga í andlegu ljósi. (1Jó 1:1–2:29) Hann sagði: „Guð er ljós, og myrkur [eitthvað illt, siðlaust, ósatt eða vanheilagt] er alls ekki í honum.“ Með því að andasmurðir kristnir menn ‚ganga í ljósinu‘ eiga þeir „samfélag“ við Guð, Krist og hver annan. Þeir hafa líka verið hreinsaðir af synd vegna blóðs Jesú.
Hvort sem við erum smurðir kristnir menn með himneska von eða hlökkum til eilífs lífs á jörð verðum við að elska bræður okkar en ekki heiminn ef við viljum halda áfram að njóta góðs af fórn Jesú. Við verðum líka að forðast það að láta fráhvarfsmenn, svo sem ‚andkrist‘ sem afneitar bæði föðurnum og syninum, hafa áhrif á okkur. Og við skulum aldrei gleyma að þeir einir munu njóta eilífs lífs sem halda sér fast við sannleikann og iðka réttlæti.
Börn Guðs sýna kærleika
Jóhannes bendir þessu næst á hverjir séu börn Guðs. (3:1–4:21) Meðal annars gera þeir það sem er réttlátt. Þeir hlýða líka boði Jehóva Guðs um að ‚þeir trúi á nafn sonar hans, Jesú Krists, og elski hver annan.‘
Einstaklingur sem „þekkir Guð“ þekkir tilgang Jehóva og veit hvernig kærleikur hans birtist. Það ætti að hjálpa honum að sýna kærleika. Í raun er það svo að „sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ Kærleikur Guðs birtist þegar Guð „sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ Fyrst Jehóva elskaði okkur í slíkum mæli, þá er okkur skylt að elska hver annan. Já, hver sá sem fullyrðir að hann elski Guð verður líka að elska andlegan bróður sinn.
Trú „sigrar heiminn“
Kærleikur fær börn Guðs til að halda boðorð hans, en það er vegna trúar sem þau ‚sigra heiminn.‘ (5:1-21) Trú okkar á Guð, orð hans og son gerir okkur kleift að ‚sigra heiminn‘ með því að hafna röngum hugsunarhætti hans og háttum og með því að halda boðorð Jehóva. Guð hefur gefið þeim sem ‚sigra heiminn‘ vonina um eilíft líf og heyrir bænir þeirra sem eru samkvæmar vilja hans. Þar eð sá sem „af Guði er fæddur“ iðkar ekki synd nær Satan ekki tangarhaldi á slíkum manni. En bæði hinir smurðu og þjónar Jehóva með jarðneska von ættu að muna að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 19]
Friðþægingarfórn: Jesús er „friðþægingarfórn fyrir syndir okkar [smurðra fylgjenda hans], en ekki aðeins fyrir syndir okkar, heldur einnig fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:2, í þýðingu Jóns Hilmars Magnússonar) Dauði hans var „friðþæging“ (á grísku hilasmos sem merkir „leið til að friða“ eða „bætur“) en ekki í þeim skilningi að verið sé að friða Guð af því að hann sé særður. Fórn Jesú friðaði, bætti fyrir eða fulnægði kröfum fullkominnar réttvísi Guðs. Hvernig? Með því að skapa réttlátan og réttvísan grundvöll til að veita aflausn frá synd þannig að Guð „sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann [sem er að eðlisfari syndugur], sem trúir á Jesú.“ (Rómverjabréfið 3:23-26; 5:12) Með því að opna leið til að friðþægja fullkomlega fyrir syndir mannsins gerir fórn Jesú það hagstætt fyrir manninn að sækjast eftir og endurheimta rétt samband við Jehóva. (Efesusbréfið 1:7; Hebreabréfið 2:17) Við ættum öll að vera innilega þakklát fyrir það!