Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Masada — hvers vegna gerðist það?

Masada — hvers vegna gerðist það?

Masada — hvers vegna gerðist það?

„FYRIR löngu afréðum við, hugrökku félagar, að þjóna hvorki Rómverjum né neinum öðrum, heldur aðeins Guði . . . Komið nú, meðan hendur okkar eru enn frjálsar til að halda sverðinu . . . Deyjum áður en við verðum þrælar óvina okkar, og kveðjum þetta líf saman sem frjálsir menn ásamt konum okkar og börnum!“

Þessi örvæntingarorð eru höfð eftir Eleasar Jaírsyni (eða Ben Yair) og var beint til þeirra er vörðu Masada-virkið. Hana er að finna í frásögn Jósefusar sagnfræðings á fyrstu öld af stríði Gyðinga. Hvers vegna hvatti þessi forystumaður Gyðinga félaga sína til fjöldamorðs og sjálfsmorðs, í berhögg við lögmál Guðs? (2. Mósebók 20:13) Og það sem mikilvægara er: Hvernig getur þekking á kringumstæðunum hjálpað okkur að lifa af í ofbeldisfullum heimi nútímans?

Mennirnir með rýtingana í Masada

Fyrir uppreisn Gyðinga árið 66 var rómverskt setulið staðsett í Masada, víggirtri hæð nálægt Dauðahafinu. Þótt Masada væri afskekkt lét Heródes mikli reisa þar fagra vetrarhöll. Hann lét gera þar vatnsveitu þannig að hægt var jafnvel að taka heit böð. Ekki var síður mikilvægt að Rómverjar höfðu þar stórt vopnabúr meðan þeir sátu þar. Er andstaðan gegn rómverska hernámsliðinu í Palestínu magnaðist var hætta á að vopnin kæmust í hendur uppreisnarmanna Gyðinga. Einn uppreisnarhópurinn var nefndur Sicarii, sem merkir mennirnir með rýtingana, og eru þeir nefndir í Biblíunni sem uppreisnarmenn og þar kallaðir ‚morðvargar.‘ — Postulasagan 21:38.

Árið 66 náðu mennirnir með rýtingana Masada. Þeir héldu síðan til Jerúsalem með vopnin sem þeir höfðu náð á sitt vald, til stuðnings uppreisninni gegn stjórn Rómverja. Fjöldamorð uppreisnarmanna Gyðinga á rómverska setuliðinu, bæði í Masada og Jerúsalem, kallaði reiði Rómaveldis yfir landsmenn. Fyrir árslok 66 hafði tólfta hersveit Rómverja undir stjórn Cestíusar Gallusar gengið fylktu liði inn í Júdeu og sett niður búðir sínar fyrir utan Jerúsalem. Rómverjar réðust á borgina úr öllum áttum og gengu svo langt að grafa undan undirstöðum musterisins norðanverðu. En skyndilega dró Cestíus Gallus her sinn til baka og hvarf frá Júdeu án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Jósefus, sem var sjónarvottur að þessum atburðum, segir: „Ef hann hefði haldið umsátrinu áfram ögn lengur hefði hann lagt borgina skjótlega undir sig.“

En Rómverjar voru ekki af baki dottnir. Fjórum árum síðar gekk Títus hershöfðingi fylktu liði til Jerúsalem með fjórar hersveitir. * Nú var öll borgin jöfnuð við jörðu og Júdea aftur beygð undir járnaga Rómar. Það var aðeins ein undantekning — Masada.

Rómverjar voru staðráðnir í að brjóta þessa síðustu andspyrnu á bak aftur og reistu þykkan múr umhverfis virkið ásamt átta herbúðum sem voru umluktar múrum. Að síðustu gerðu þeir skábraut úr jarðvegi upp á hæðarbrúnina. Hún var tæplega 200 metra löng og reis um 55 metra! Á henni reistu þeir turn og komu þar fyrir múrbrjót til að brjótast inn í Masadavirkið. Nú var ekki spurning um hvort heldur aðeins hvenær rómverskur her myndi brjótast inn í Masadavirkið og leggja undir sig síðasta virki Júdamanna!

Enn þann dag í dag mótar skýrt fyrir útlínum herbúða Rómverja, umsátursmúrnum umhverfis virkið og skábrautinni miklu sem ber því vitni hvernig uppreisn Gyðinga lyktaði. Árið 1965 lauk umfangsmiklum fornleifagrefti í Masada. The New Encyclopædia Britannica (1987) segir um fornleifafundina: „Lýsing hins rómversk-gyðinglega sagnaritara Jósefusar reyndist afar nákvæm, en fram til þess tíma var hún eina ítarlega heimildin um sögu Masada.“

En hvernig brugðust mennirnir með rýtingana við ræðu Eleasars Jaírsonar er Rómverjar voru í þann mund að brjótast gegnum múra Masada? Jósefus segir: „Hver og einn einasti fyrirkom fjölskyldu sinni; . . . síðan, eftir að tíu menn höfðu verið valdir með hlutkesti til að taka hina af lífi, lagðist hver og einn niður við hlið konu sinnar og barna, vafði þau örmum og beraði hálsinn þeim er átti að vinna hið sársaukafulla verk. * Hinir síðarnefndu drápu þá alla hiklaust og fóru síðan eins að hver með annan, . . . en gömul kona ásamt annarri . . . komst undan. Fórnarlömbin reyndust 960, að konum og börnum meðtöldum.“

Hvers vegna hlaut uppreisn Gyðinga svona ömurleg endalok? Hafði hún einhver tengsl við líf og dauða Jesú frá Nasaret?

[Neðanmáls]

^ Fornleifafræðingar hafa fundið peninga í hundraðatali í Masada með hebreskum áletrunum þar sem uppreisninni er fagnað. Þar má lesa meðal annars: „Til frelsis Síonar“ og „Jerúsalem, hin heilaga.“ Dr. Yigael Yadin segir í bók sinni Masada: „Siklarnir, sem við höfum fundið, eru frá öllum uppreisnarárunum, allt frá árinu 1 til ársins 5, þess síðasta er sikillinn var sleginn og er sá mjög fágætur, en það svarar til ársins 70 e.Kr. er musterið í Jerúsalem var jafnað við jörðu.“ Sjá myntina hér að ofan.

^ Á hernaðarlega mikilvægum stað nálægt einu af hliðum Masada fundust 11 leirtöflubrot og var hebreskt stuttnefni krotað á hvert þeirra. Allmargir fræðimenn telja að þarna kunni að vera hlutirnir sem notaðir voru við hlutkestið er Jósefus talar um. Á eitt brotið var skrifað „Ben Yair“ sem merkir „Jaírson.“ „Fundur Yadins á hlutunum, meðal annars þeim sem ber nafnið Ben Jaír, er undraverð staðfesting á frásögn Jósefusar,“ segir Louis Feldman í ritinu Josephus and Modern Scholarship.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Gyðingamynt frá árinu 67 með áletruninni „Árið 2“ í stríðinu gegn Róm.

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.