Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Masada — sönnun þess að Messías væri kominn?

Masada — sönnun þess að Messías væri kominn?

Masada — sönnun þess að Messías væri kominn?

BLÓÐSÚTHELLINGAR í nafni trúar er plága sem hefur tröllriðið mannkynssögunni. Masada var þar engin undantekning því að sterkar, trúarlegar ástæður voru fyrir því sem verjendur virkisins gerðu. Á uppgraftarstaðnum í Masada má sjá rústir samkunduhúss þar sem mennirnir með rýtingana komu saman til tilbeiðslu og böðin sem notuð voru til helgihreinsunar.

Slitur úr Biblíunni hafa einnig fundist í Masada. Hvernig skyldi boðskapur Biblíunnar, sem mennirnir með rýtingana höfðu aðgang að, vera í samanburði við það sem við lesum í Biblíunni nú á dögum? Dr. Yigael Yadin sagði um fyrsta fundinn í bók sinni Masada:

„Skyndiathugun þar á staðnum sýndi okkur þegar í stað að við vorum með í höndunum slitur úr Sálmunum og við gátum meira að segja greint hvaða kaflar það voru: Hér var um að ræða Sálm 81 til Sálms 85. . . . Hægt var að ársetja handritið umfram minnsta vafa. Það gat ekki verið yngra en frá árinu 73, árinu sem Masada féll. Þessi hluti Sálmanna er, eins og hinar biblíubókrollurnar sem við fundum síðar, nánast nákvæmlega eins . . . og texti þeirra biblíubóka sem við notum núna.“

Ljóst er að mennirnir með rýtingana trúðu að sá Guð, sem var höfundur Hebresku ritninganna, myndi blessa uppreisn þeirra gegn Róm. Eins og sagt er í The Universal Jewish Encyclopedia: „Sú trú að Messíasartíminn væri í nánd jók ofstækiskennda kostgæfni Gyðinganna í stríðinu mikla við Róm (árin 66-73). Missir musterisins jók einungis á vangavelturnar um að Messías væri að koma.“

Koma Messíasar

„Ákafir Messíasarsinnar meðal Gyðinga byggðu útreikninga sína oft á Daníelsbók,“ segir í The Encyclopedia of Religion. Hebreski spámaðurinn Daníel hafði líka sagt fyrir komu „hins smurða höfðingja,“ Messíasar. (Daníel 9:25) Á tveim öðrum stöðum sagði Daníel að Messías myndi verða drottnari heimsins og að ríki hans myndi eyða öllum stjórnum manna er stæðu gegn honum. — Daníel 2:44; 7:13, 14.

Uppreisnarmenn Gyðinga á fyrstu öld álitu að nú væri kominn sá tími er þessar spádómssýnir skyldu rætast. Jósefus segir þá „trú að einhver samlanda þeirra myndi á þeim tíma verða drottnari heimsins“ hafa „meira en nokkuð annað hvatt þá til stríðs.“ En Daníel sagði fyrir að hinn smurði höfðingi, Messías, yrði fyrst „afmáður“ og að eftir dauða hans myndi „þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á,“ eyða Jerúsalem og musteri hennar. — Daníel 9:25, 26.

Viðhorf Gyðinga til stjórnar heiðingja

Júdea fyrstu aldar var byggð fáeinum auðmönnum og fjölmörgum fátæklingum. Sumir auðugir Gyðingar, einkanlega úr hópi Saddúkea og Farísea, mátu mjög mikils það vald sem Róm leyfði þeim að fara með í landinu og þeir fyrirlitu almenning. Þeir voru því andsnúnir öllum uppreisnarhugmyndum og unnu að friðsamlegum samskiptum við Róm. — Lúkas 16:14; 19:45, 46; Jóhannes 2:14; 7:47-49; 11:47, 48.

Á hinn bóginn var hin rómverska skattbyrði á herðum venjulegra Júdamanna og kúgun samlanda þeirra þeim þung í skauti. Þeim var lítil hughreysting að mega njóta hins svonefnda rómverska friðar (Pax Romana) og vildu sjá breytingu á stöðu mála. Þessir hagsmunaárekstrar leiddu til skelfilegs borgarastríðs. „Einn hópurinn vildi ráða yfir öðrum,“ skrifaði Jósefus, „en annar beita ofbeldi og ræna hina ríku.“

Mennirnir með rýtingana rændu til dæmis og drápu samlanda sína og réttlættu hermdarverk sín með því að þeir væru að refsa Gyðingum sem þeir sögðu vinna með hernámsliði Rómar. Rabbíni á annarri öld, Johanan ben Torta, tilgreindi þessa ástæðu fyrir ógæfunni sem kom yfir Gyðinga á fyrstu öld: „Þeir ágirntust peninga og hötuðu hver annan.“

Það er því ekkert undarlegt að þeir Gyðingar, sem voru í sannleika guðhræddir, hafi þráð komu Messíasar sem þeir vonuðu að myndi varpa af þeim oki Rómverja og koma á réttlátu ríki Guðs. En menn, sem voru óvandir að virðingu sinni, spiluðu á þessar væntingar.

Falskir Messíasar

Um árið 33 minnti einn leiðtogi Gyðinga, er Gamalíel hét, starfsbræður sína í Jerúsalem á þetta: „Ekki alls fyrir löngu . . . kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.“ — Postulasagan 5:36, 37.

‚Skrásetningin,‘ sem leiddi til uppreisnar Júdasar, var gerð árið 6 í þeim tilgangi að auka skatttekjur Rómar. Jósefus segir frá því að Júdas hafi boðað að Gyðingar „væru raggeitur ef þeir beygðu sig fyrir því að greiða Rómverjum skatta.“ Nafnið Júdas er dregið af nafninu Júda sem bendir til þess að hann hafi verið af ættkvíslinni er Messías átti að koma af. (1. Mósebók 49:10) „Málsnilli hans, ákafi og vinsæld boðskapar hans dró mikinn fjölda til fylgis við hann og margir álitu hann vera Messías,“ segir Cyclopædia McClintocks og Strongs.

Við veitum athygli að Postulasagan 5:37 segir að fylgjendur þessa Júdasar hafi ekki fyrirfarist með honum. Gyðingurinn og fræðimaðurinn Gaalya Cornfeld segir að hreyfing hans hafi „fest djúpar rætur og vakið Messíasarvonina til lífs.“ Tveir forsprakkar mannanna með rýtingana, Menahem og Eleasar, voru reyndar afkomendur þessa Júdasar frá Galíleu. Í byrjun uppreisnar Gyðinga árið 66 bjó Menahem fylgjendur sína vopnum sem geymd höfðu verið í Masada. Síðan „sneri hann aftur til Jerúsalem sem konungur“ og „gerðist leiðtogi byltingarinnar.“ „Það er nánast víst að Menahem Júdasson var álitinn Messías,“ segir Encyclopaedia Judaica.

Sama ár var Menahem ráðinn af dögum. Þar voru að verki fylgismenn annarrar uppreisnarhreyfingar meðal Gyðinga sem þátt tóku í valdabaráttunni. Fylgjendur hans flúðu aftur til Masada þar sem Eleasar tók að sér stjórn mannanna með rýtingana fram til ársins 73. Sjálfsmorðsræða Eleasars endurómar hinar villandi kenningar Júdasar forföður hans: „Fyrir löngu afréðum við, hugrökku félagar, að þjóna hvorki Rómverjum né neinum öðrum, heldur aðeins Guði.“

Hlutleysi kristinna manna í Júdeu

Fyrir uppreisn Gyðinga árið 66 höfðu kristnir söfnuðir verið stofnsettir í Júdeu og að sjálfsögðu einnig í Jerúsalem. (Postulasagan 9:31) Í þeim voru Gyðingar sem trúðu að Jesús frá Nasaret væri sá Messías sem sagt hafði verið fyrir að myndi deyja og rísa upp. (Postulasagan 2:22-36) Kristnir Gyðingar útbreiddu trú sína með kostgæfni meðan þeir biðu þess með friðsemd að Messías kæmi aftur sem drottnari heimsins. Jesús hafði gefið í skyn að hann myndi snúa aftur „löngu síðar.“ — Matteus 25:19, 31; 28:19, 20; Postulasagan 1:8-11.

En hvað kom í veg fyrir að kristnir menn í Júdeu létu hrífast með af uppreisn Gyðinga árið 66 og velgengni hennar í byrjun? Þeir mundu vafalaust eftir varnaðarorðum meistara síns: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Jesús hafði líka gefið þeim öfgalaust viðhorf til stjórnvalds heiðinna manna: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er,“ sagði hann, „og Guði það, sem Guðs er.“ (Markús 12:17) Enn fremur hafði Jesús sagt fyrir að fram myndu koma menn sem þættust vera Messías og myndu segja: „‚Það er ég!‘ og ‚Tíminn er í nánd!‘“ en hann aðvaraði: „Fylgið þeim ekki.“ — Lúkas 21:8.

Jesús hafði jafnvel sagt fyrir hvernig uppreisn Gyðinga myndi lykta. Hann sagði: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana. . . . Því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum. Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða.“ — Lúkas 21:20-24.

Spádómur Jesú rættist á áberandi hátt með þeirri hræðilegu eyðingu sem uppreisn Gyðinga hafði í för með sér! En kristnir menn í Júdeu komust undan með því að hlýða boði Jesú og ‚flýja til fjalla.‘ „Fyrir umsátur Títusar um Jerúsalem [árið 70],“ segir Encyclopaedia Judaica, „fluttist hið kristna samfélag borgarinnar til Pella.“ Athygli vekur að Pella var í norðri við rætur fjallgarðs handan Jórdanar og Jórdandalurinn aðskildi svæðið með öllu frá Júdeu. „Það er erfitt að gera grein fyrir þessum flótta ef spádómur [Jesú] á að hafa verið skrifaður eftir að atburðirnir áttu sér stað,“ segir G. A. Williamson í inngangsorðum sínum að ritinu Josephus—The Jewish War.

Hinn merkilegi flótti kristinna manna í Júdeu er áhrifamikil sönnun fyrir því að þeir hafi verið fylgjendur hins sanna Messíasar. Það vekur upp þýðingarmiklar spurningar: Hver var tilgangurinn með fyrri komu Messíasar? Hvaða aðvörun er fólgin í hinum ömurlegu endalokum sem uppreisn Gyðinga fékk, einkum fyrir þann hluta mannkyns er kallast „kristinn“? Þessum spurningum eru gerð ítarlegri skil í greinunum sem á eftir fara.