Verið þakklátir — Messíasarríki Jehóva stjórnar
Verið þakklátir — Messíasarríki Jehóva stjórnar
„Vér þökkum þér, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, . . . að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.“ — OPINBERUNARBÓKIN 11:17.
1. Hvað skrifaði forseti Varðturnsfélagsins eftir Evrópuferð sína árið 1911?
SNEMMA árs 1911 flutti forseti Varðturnsfélagsins, C. T. Russell, erindaflokk í helstu borgum Evrópu. Russell lét eftirfarandi orð falla um ferð sína í Varðturninum þann 15. maí 1911: „Það kom okkur á óvart að sjá svo mörg merki velmegunar alls staðar . . . Lesendur okkar vita að um árabil höfum við búist við því að þessum tímum ljúki með ógurlegri þrengingartíð, og við væntum þess að hún brjótist út skyndilega og af miklu afli skömmu eftir október 1914, en þá mun, að svo miklu leyti sem við getum skilið út af Ritningunni, heiðingjatímunum ljúka — þeim tíma sem heiðingjaþjóðirnar fá að fara með völd á jörðinni — og þá er komið að því að Messíasarríkið taki völd.“ Áttu þessar væntingar við rök að styðjast?
2. Hvernig var friður rofinn árið 1914 og með hvaða hörmulegum afleiðingum?
2 Á fyrri árshelmingi 1914 virtist engin hætta á stríði. En þá var friðurinn skyndilega rofinn er Serbi myrti ríkisarfa Austurríkis þann 28. júní 1914. Austurríki-Ungverjaland lýsti Serbíu stríð á hendur skömmu síðar. Rússar lýstu yfir stuðningi við Serba og Þjóðverjar lýstu Rússum stríð á hendur þann 1. ágúst. Þá lýsti Þýskaland Frakklandi stríð á hendur þann 3. ágúst; og England lýsti Þýskalandi stríð á hendur þann 4. ágúst; Montenegro Austurríki-Ungverjalandi þann 7. ágúst; Japan Þýskalandi þann 23. ágúst og Austurríki-Ungverjaland Belgíu þann 28. ágúst. Margir töldu að stríðið myndi standa stutt, en í staðinn magnaðist það upp í verstu styrjöld sem orðið hafði í mannkynssögunni fram til þess tíma. Nítján þjóðir til viðbótar flæktust í heimsblóðbað sem kostaði 13 milljónir hermanna og óbreyttra borgara lífið og yfir 21 milljón manna særðist, margir alvarlega.
3, 4. Hvað gerðist í aðalstöðvum Félagsins föstudagsmorguninn 2. október 1914?
3 Föstudagsmorguninn 2. október 1914 tilkynnti Russell starfsliði aðalstöðva Varðturnsfélagsins í Brooklyn í New York: „Heiðingjatímunum er lokið; dagur konunganna er á enda.“ Tilkynningu hans var tekið með áköfu lófataki bræðranna á Betel sem merkir „hús Guðs.“
4 Hvaða tilefni höfðu C. T. Russell og félagar hans til þessarar gleði þennan októbermorgun? Hvaðan er orðið „heiðingjatímarnir“ komið? Hvaða rök eru fyrir því að heiðingjatímunum hafi lokið í október 1914? Hvaða áhrif ætti allt þetta að hafa á þig?
Jerúsalem og heiðingjatímarnir
5. Hvaðan eru orðin „tímar heiðingjanna“ tekin?
5 Orðin „tímar heiðingjanna“ eða „tilteknar tíðir þjóðanna“ eru tekin úr hinum mikla spádómi Jesú um eyðingu Jerúsalem. (Lúkas 21:5-36, Bi. 1981; NW) Tveim dögum áður en Jesús bar fram spádóminn hafði hann boðið sig fram fyrir Jerúsalembúum sem Messías. Er hann reið lítillátur á asna í átt til borgarinnar hrópaði mannfjöldinn í hrifningu eins og Sakaría 9:9 hafði sagt fyrir: „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni [Jehóva].“ — Lúkas 19:28-40.
6, 7. Hvaða skelfilega blóðskuld kölluðu Júdeumenn á fyrstu öld yfir sig og með hvaða afleiðingum?
6 En Jesús vissi að almenningsálitið myndi brátt snúast gegn honum vegna haturs og morðhugar trúarleiðtoga Jerúsalemborgar og áhrifa föður þeirra, djöfulsins. (1. Mósebók 3:15; Jóhannes 8:44) Skömmu eftir þetta, þann 14. nísan, krafðist hópur Gyðinga lífláts Jesú. „Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!“ hrópuðu þeir til rómverska landstjórans sem var tregur til að verða við óskum þeirra. (Matteus 27:24, 25) Í stað þess að viðurkenna Jesú sem Messíasarkonung lýstu æðstu prestarnir yfir: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:15) Hinn sanni Messías var síðan negldur á kvalastaur til að deyja, ranglega sakaður um undirróður gegn Róm og lastmæli gegn Guði Gyðinga. — Markús 14:61-64; Lúkas 23:2; Jóhannes 18:36; 19:7.
7 Víst var að reiði Guðs hlyti að koma yfir Júdeumenn vegna hinnar hræðilegu blóðskuldar sem þeir bökuðu sér. Jerúsalem, með sínu mikilfenglega musteri, gat ekki lengur kallast „borg hins mikla konungs,“ Jehóva. (Matteus 5:35; Lúkas 13:33-35) Nokkrum dögum fyrir dauða Jesú töluðu lærisveinar hans í aðdáunartón um musterisbyggingar borgarinnar. Jesús svarði með spádómi: „Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ — Lúkas 21:5, 6.
8. Fram til hvers annars en eyðingar Jerúsalem benti ‚táknið‘ sem Jesús gaf?
8 Lærisveinar Jesú spurðu yfir sig undrandi: „Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?“ (Lúkas 21:7) Í svari sínu spáði Jesús nákvæmlega um atburðina sem leiddu til eyðingar Jerúsalem og bætti við þessum þýðingarmiklu orðum: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:8-24) Jesús benti þannig fram til þess er gerast myndi eftir eyðingu Jerúsalem — einhvers sem yrði að bíða ‚þar til tímar heiðingjanna væru liðnir.‘ Um ‚táknið‘ sagði Jesús: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ (Lúkas 21:31) Táknið átti því að hafa tvíþætta uppfyllingu. Fyrri eða smærri uppfyllingin yrði fyrirboði þess að ‚eyðing Jerúsalem væri í nánd‘ en síðari og meiri uppfyllingin myndi eiga sér stað eftir að heiðingjatímunum væri lokið, og hún myndi gefa til kynna að ‚Guðsríki væri í nánd.‘ — Lúkas 21:20; samanber Matteus 24:3.
Æðri borg kemur í stað jarðneskrar Jerúsalem
9. Hvenær missti Jerúsalem á jörð sérstöðu sína og hvað er komið í hennar stað?
9 Var Jesús að gefa í skyn að hin jarðneska Jerúsalem myndi öðlast hylli Guðs á ný einhvern tíma síðar er hann sagði: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir“? Nei. Eftir morðið á ástkærum syni Guðs missti Jerúsalem sérstöðu sína fyrir fullt og allt og í hennar stað er komin langtum æðri ‚borg Guðs lifanda, hins himneska Jerúsalem.‘ — Hebreabréfið 12:22; Matteus 23:37, 38; 27:50, 51.
10. Hvað er átt við með orðunum ‚hin himneska Jerúsalem‘?
10 Orðin ‚himnesk Jerúsalem,‘ eru notuð í Biblíunni til að lýsa óforgengilegu, himnesku ríki sem smurðir kristnir menn eru kallaðir til. * (Hebreabréfið 11:10; 12:22, 28) Er Páll postuli ritaði þessi orð var hin jarðneska borg með musteri sínu enn mikils metin af Gyðingum. Páll minnti kristna Hebrea á að ‚við hefðum ekki borg er stendur, heldur leituðum hinnar komandi.‘ — Hebreabréfið 13:14.
Hvers vegna nefnd himnesk Jerúsalem
11. Hvað táknaði Jerúsalem fram til þess að hún missti velvild Jehóva?
11 Jerúsalem var lengi höfuðborg Ísraelsþjóðarinnar og sagt var að konungar hennar ‚sætu í hásæti Jehóva.‘ (1. Kroníkubók 29:23) Enn fremur gerði Jehóva sáttmála við Davíð þess efnis að konungdómur yrði í hans ætt að eilífu. Líkt og nú á dögum er sett jafnaðarmerki milli höfuðborga svo sem Washington, Moskvu, Kanberra og Pretoríu annars vegar og stjórnanna sem þar sitja hins vegar, eins er Jerúsalem notuð í Biblíunni sem tákn konungdæmis Davíðs. — 2. Samúelsbók 7:16; Lúkas 1:32.
12. Hvernig ber að skilja orðtakið „tímar heiðingjanna“?
12 Konungsríki Davíðs var takmarkað að stærð og náði aðeins yfir það landsvæði sem Guð hafði gefið Ísrael til forna. Jerúsalem á jörð var því aðeins tákn hins raunverulega Messíasarríkis er fara skyldi með völd af himnum ofan yfir allri jörðinni. (Sálmur 2:2, 7, 8; Daníel 7:13, 14; 2. Tímóteusarbréf 4:18) Í bókinni The Time Is At Hand, sem Varðturnsfélagið gaf út árið 1889, stóð skýrum stöfum: „Drottinn vor notaði hugtakið ‚tímar heiðingjanna‘ um tímabilið í sögu jarðar frá því að hið táknræna ríki Guðs, Ísraelsríkið, leið undir lok (Esek. 21:25-27) uns það sem það fyrirmyndaði yrði stofnsett, hið sanna ríki Guðs.“
Heiðingjatímarnir — hve langir?
13. Hvenær hófust tímar heiðingjanna? Rökstyddu svarið.
13 Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, kollvarpaði hinu táknræna ríki Guðs árið 607 f.o.t. Í sjöunda mánuðinum samkvæmt almanaki Gyðinga, um miðjan október, var landið komið í eyði. * (2. Konungabók 25:8, 9, 22, 25, 26) Því til sönnunar að þetta hefði gerst með leyfi Guðs lét Jehóva Guð Nebúkadnesar dreyma draum. Í draumnum sá hann tré sem var höggvið og síðan leyft að vaxa aftur eftir „sjö tíðir.“ Draumurinn fékk minniháttar uppfyllingu er Nebúkadnesar settist í hásæti á ný eftir að hafa verið vitskertur um tíma. — Daníel 4:10-17, 28-36.
14. Hvert var aðalatriðið í draumi Nebúkadnesars?
14 Inntakið í draumi Nebúkadnesars sýndi þó að aðaluppfylling hans var tengd táknrænu ríki Guðs sem þessum heiðingjakonungi hafði verið leyft að ‚höggva niður.‘ Draumnum lauk með þessari yfirlýsingu um tilganginn: „Að hinir lifandi viðurkenni, að hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna, og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.“ — Daníel 4:17.
15. Hvernig gat Jesús Kristur kallast ‚hinn lítilmótlegasti meðal mannanna‘? (Matteus 11:29)
15 Aðeins einn maður reyndist að öllu leyti hæfur til að kallast ‚hinn lítilmótlegasti meðal mannanna.‘ Eingetinn sonur Guðs reyndist vera sá með því að yfirgefa fúslega himneska dýrð sína til að fæðast sem maður, sem Jesús, er dó fyrir hendi Satans með auðmýkjandi og grimmilegum hætti, þeim versta sem hugsast gat. (Filippíbréfið 2:3, 5-11) Eftir að Jesús hafði verið reistur aftur upp til himneskrar dýrðar varð hann að bíða uns hinum sjö tíðum heiðingjastjórnar lauk, áður en hann yrði settur í hásæti sem Messíasarkonungur yfir mannkyninu. — Hebreabréfið 10:12, 13.
16. Hvernig hjálpar Opinberunarbókin kristnum mönnum að reikna út hvenær hinum sjö tíðum lauk?
16 Hvernig fengu vottar Jehóva skilning á því hve langar tíðirnar sjö væru? Biblían opinberar að ‚tíð og tíðir og hálf tíð,‘ alls þrjár og hálf tíð, samsvara 1260 dögum. (Opinberunarbókin 12:6, 14, Bi. 1912) Tvöfaldur sá tími, eða sjö tíðir, hljóta því að samsvara 2520 dögum. Út frá hinni spádómlegu reglu ‚dagur fyrir ár hvert‘ eru tíðirnar sjö 2520 ár. (4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6) Þessi tímareikningur sýnir að heiðingjatímarnir, sem hófust í október 607 f.o.t., tóku enda 2520 árum síðar, í október 1914.
17. Hvaða gleðilegan boðskap var hægt að kunngera árið 1914?
17 Í október 1914 setti Jehóva Guð ástkæran son sinn, Drottin Jesú Krist, í hásæti í ríkinu á himnum. Loksins byrjaði opinberunarsýn Jóhannesar postula að verða að veruleika og hægt var að kunngera: „Drottinn [Jehóva] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann [Jehóva] mun ríkja um aldir alda.“ (Opinberunarbókin 1:10; 4:1; 11:15) Þetta eru dýrlegar fréttir og mikið fagnaðarefni öllum samerfingjum og þegnum þessa ríkis! — Opinberunarbókin 11:17.
18. Hvers vegna hefur ástand mannkynsins verið slæmt frá 1914?
18 Að vísu hefur lítil hamingja ríkt á jörðinni fyrir þorra jarðarbúa eftir 1914, en hið hörmulega ástand er sönnun þess að stjórn Satans er í þann mund að taka enda. Hvernig vitum við það? Opinberunarbókin gaf til kynna að stofnsetning Guðsríkis myndi hafa í för með sér stríð á himnum. Satan og illum öndum hans yrði kastað niður af himnum og athafnasvið þeirra takmarkað við nágrenni jarðar. Eftir að hafa séð þennan sigur í spádómssýn heyrði Jóhannes sterka rödd segja: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:1-12.
19. Hvers vegna eru sannkristnir menn mjög þakklátir fyrir að vera lifandi nú á dögum?
19 Versnandi heimsástand frá 1914 er sönnun þess að sýn Jóhannesar er orðin að veruleika og að endalok allra manna, sem neita að lúta drottinvaldi Guðs, eru hættulega nærri. (Lúkas 21:10, 11, 25-32) Það er hrífandi að vera á lífi á þessum stórkostlega tíma er Jehóva Guð, hinn alvaldi, mun útkljá deilumálið mikla um drottinvald sitt yfir jörðinni! Þá verður jörðinni umbreytt í unaðslega paradís, og réttlátum mönnum, sem lifa af, verður lyft upp til fullkomleika. Jafnvel dauðir verða reistir upp og gefið tækifæri til að sýna sig hæfa til eilífs lífs. — Opinberunarbókin 20:1-3, 12, 13; 21:3-5.
Þörf á leiðréttingu
20. (a) Hverjir reyndust vera sannir þjónar Jehóva á jörð fyrir 1914? (b) Hvaða leiðréttingu voru trúfastir smurðir kristnir menn fúsir til að gera?
20 Í 38 ár fyrir 1914 bentu Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru kallaðir þá, á að heiðingjatímarnir myndu taka enda það ár. * Það er einstæð sönnun fyrir því að þeir hafi verið sannir þjónar Jehóva! En líkt og þjónar Guðs á fyrstu öld höfðu þeir líka ýmsar rangar væntingar. Til dæmis bjuggust þeir við að allir smurðir kristnir menn yrðu teknir til himna í október 1914. Þeir héldu líka að stríðið, sem braust út árið 1914, myndi leiða beint út í endalok heims Satans.
21. Hvaða ögun fengu sannkristnir menn í fyrri heimsstyrjöldinni?
21 Að því kom þó að smurðir kristnir menn gerðu sér ljóst að þeir áttu mikið verk óunnið á jörðinni. Vegna kostgæfinnar prédikunar sinnar á opinberum vettvangi á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar sættu þeir grimmilegum ofsóknum pólitískra stjórnvalda sem klerkar kristna heimsins hvöttu óspart til. (Sálmur 2:1-6) Starfi sannkristinna manna var greitt þungt högg þann 21. júní árið 1918 er forystumenn Varðturnsfélagsins í Bandaríkjunum voru dæmdir til 20 ára fangavistar fyrir upplognar sakir.
22, 23. (a) Hvað hafa trúfastir smurðir kristnir menn gert frá 1919 og með hvaða árangri? (b) Hver er hin fyrirmyndaða, ótrúa Jerúsalem?
22 Fyrri heimsstyrjöldin tók snöggan endi í nóvember 1918. Þann 25. mars 1919 var forystumönnum Varðturnsfélagsins sleppt úr fangelsi. Þeir fengu síðar fulla uppreisn æru. Hinir óvæntu friðartímar gáfu þessum trúföstu, smurðu kristnu mönnum svipað tækifæri og lærisveinar Krists fengu á fyrstu öld eftir að þeir fengu heilagan anda árið 33. — Postulasagan 2:17-21, 41.
23 Alla tíð frá 1919 hafa trúfastir smurðir kristnir menn sem hópur hlýtt kostgæfilega boðinu sem felst í orðum Jesú í Matteusi 24:14: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Af því leiðir að um 4 milljónir ‚annarra sauða‘ Krists hafa helgað líf sitt þjónustu við Jehóva, í einingu við hinar smurðu leifar. (Jóhannes 10:16) Undir áhrifum klerka sinna heldur kristni heimurinn áfram að hafna boðskap Guðsríkis. Hann treystir frekar á pólitísk áform manna og ofsækir votta Jehóva. Það er hliðstætt hinni illu meðferð sem Kristur fékk í Júdeu á fyrstu öld. Á sama hátt og Jehóva fullnægði dómi sínum á Jerúsalem, eins mun hann fullnægja dómi á því sem hin ótrúa Jerúsalem táknaði, það er að segja kristna heiminum. Og líkt og kynslóðin, sem heyrði dómsboðskap Krists, lifði nógu lengi til að sjá eyðinguna sem hann sagði fyrir, eins mun núverandi kynslóð frá 1914 „ekki líða undir lok“ áður en hin boðaða ‚mikla þrenging‘ kemur. — Matteus 24:21, 22, 34.
24. Hvað verðum við að gera til að lifa af inn í nýjan heim Guðs?
24 Hvað þurfum við að gera til að lifa af þrenginguna miklu og bjargast inn í nýjan heim Guðs? Óháð þeim röngu væntingum, sem einhver okkar kunna að hafa haft, verðum við að gæta þess að sofna ekki gagnvart kristnum skyldum okkar. (Habakkuk 2:3; 1. Þessaloníkubréf 5:1-6) Þeim fer fækkandi sem minnast atburða ársins 1914. Við þurfum því að vera vel vakandi; það má engan tíma missa. (Matteus 24:42) Allir sem vilja lifa af endalok hins illa heims Satans verða að framganga þannig núna að þeir sýni sig sammála hinum innblásnu orðum: „Vér þökkum þér, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, . . . að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.“ — Opinberunarbókin 11:17.
[Neðanmáls]
^ Sjá Varðturninn þann 1. október 1983, bls. 26, 27.
^ Nánari upplýsingar um það hvers vegna heiðingjatímarnir hófust þá er að finna í bókinni „Let Your Kingdom Come,“ 14. kafla, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
^ C. T. Russell skrifaði grein sem nefndist „Tímar heiðingjanna: Hvenær enda þeir?“ og birtist hún í tímaritinu Bible Examiner í október 1876. Á bls. 27 sagði greinin: „Hinar sjö tíðir munu taka enda árið 1914.“
Hverju svarar þú?
◻ Hvað táknaði Jerúsalem til forna en hvernig missti hún sérstöðu sína?
◻ Hvenær hófust tímar heiðingjanna, hvenær lauk þeim og með hvaða afleiðingum sem búið var að segja fyrir?
◻ Fyrirmynd hvers er eyðing hinnar ótrúu Jerúsalem?
◻ Hvernig vitum við að þrengingin mikla er nálæg og hvað verðum við að gera til að lifa hana af?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 14]
Jerúsalem og musteri hennar glötuðu virðingarstöðu sinni en Guð hélt áfram að blessa son sinn, Messías, og talaði jafnvel beint til hans af himni ofan.