Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Réttlæti fæst ekki gegnum munnlegar erfðavenjur

Réttlæti fæst ekki gegnum munnlegar erfðavenjur

Réttlæti fæst ekki gegnum munnlegar erfðavenjur

„Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.“ — MATTEUS 5:20.

1, 2. Hvað gerðist rétt áður en Jesús flutti fjallræðuna?

 JESÚS hafði verið alla nóttina uppi á fjalli. Stjörnurnar tindruðu á himninum. Smá náttdýr voru á ferli og það skrjáfaði undan þeim í runnunum. Í austri gjálfruðu öldur Galíleuvatnsins við ströndina. En Jesús hefur varla veitt nema óljósa athygli hinni friðsælu og sefandi fegurð umhverfisins. Hann hafði eytt nóttinni á bæn til föður síns á himni, Jehóva. Hann þarfnaðist leiðsagnar föður síns vegna þess þýðingarmikla dags sem framundan var.

2 Það birti á austurhimni. Fuglarnir tóku að flögra um og kvaka lágt. Villiblómin bærðust fyrir vindinum. Er sólin sendi fyrstu geislana yfir sjóndeildarhring kallaði Jesús lærisveinana til sín og valdi tólf þeirra sem postula. Hann hélt síðan af stað niður fjallshlíðina ásamt þeim öllum. Þegar mátti sjá mannfjöldann streyma að frá Galíleu, Týrus og Sídon, Júdeu og Jerúsalem. Menn komu til að fá lækningu meina sinna. Kraftur frá Jehóva streymdi út af Jesú er margir snertu hann og læknuðust. Þeir höfðu líka komið til að heyra orð hans sem voru eins og læknandi smyrsl kvalinni sál þeirra. — Matteus 4:25; Lúkas 6:12-19.

3. Hvers vegna voru lærisveinarnir og mannfjöldinn eftirvæntingarfullir er Jesús tók til máls?

3 Rabbínarnir voru vanir að setjast niður er þeir kenndu, og þennan vormorgun árið 31 settist Jesús einnig, augljóslega ögn ofar í hlíðinni en mannfjöldinn. Er lærisveinarnir og mannfjöldinn sáu það var þeim ljóst að eitthvað sérstakt var í vændum og söfnuðust með eftirvæntingu frammi fyrir honum. Menn voru eftirvæntingarfullir er hann byrjaði að tala, en undruðust það sem þeir höfðu heyrt er hann lauk ræðu sinni alllöngu síðar. Við skulum kynna okkur ástæðuna. — Matteus 7:28.

Tvenns konar réttlæti

4. (a) Hvaða tvenns konar réttlæti talaði Jesús um? (b) Hver var tilgangur hinna munnlegu erfðavenja og var þeim tilgangi náð?

4 Í fjallræðunni, sem sagt er frá bæði í Matteusi 5:1-7:29 og Lúkasi 6:17-49, dró Jesús upp skarpar andstæður milli tveggja hópa — annars vegar fræðimannanna og faríseanna og hins vegar almennings sem þeir kúguðu. Hann talaði um tvenns konar réttlæti, hið hræsnisfulla réttlæti faríseanna og hið ósvikna réttlæti Guðs. (Matteus 5:6, 20) Sjálfsréttvísi faríseanna átti sér rætur í munnlegum erfðavenjum. Þær höfðu komið fram á annarri öld f.o.t. sem „girðing kringum lögmálið“ til að vernda það gegn áhrifum hellinisma (grískrar menningar). Með tímanum var farið að líta á þær sem hluta lögmálsins, og fræðimennirnir tóku munnlegar erfðavenjur jafnvel fram yfir hið skráða lögmál. Mísna, sem er safn lagahefða og siðaboða Gyðingdómsins, segir: „Fylgja skal orðum fræðimanna [munnlegum erfðavenjum] af meiri strangleika en orðum hins skráða lögmáls.“ Erfðavenjur þeirra voru þannig ekki ‚verndargirðing kringum lögmálið‘ heldur veiktu það og ógiltu eins og Jesús sagði: „Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.“ — Markús 7:5-9; Matteus 15:1-9.

5. (a) Hvernig var almúginn, sem kom til að hlýða á Jesú, á vegi staddur og hvernig litu fræðimennirnir og farísearnir á almenning? (b) Hvað gerði erfðavenjurnar að svona þungri byrði fyrir vinnandi fólk?

5 Almúganum, sem þyrptist að stórum hópum til að heyra Jesú, hafði verið steypt í andlega fátækt „því að þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Með hroka og stærilæti litu fræðimennirnir og farísearnir niður á almenning, kölluðu hann ʽam haʼarets (fólk landsins) og fyrirlitu hann sem fáfróða, fordæmda syndara er ekki verðskulduðu upprisu þar eð þeir héldu ekki hinar munnlegu erfðavenjur. Á dögum Jesú voru þessar erfðavenjur orðnar svo viðamiklar og slík þjakandi byrði smásmugulegra lagaboða — ofhlaðin tímafrekum siðvenjum — að ógerlegt var fyrir nokkurn vinnandi mann að halda þau. Engin furða er að Jesús skyldi fordæma erfðavenjurnar sem ‚þungar byrðar lagðar mönnum á herðar.‘ — Matteus 23:4; Jóhannes 7:45-49.

6. Hvernig komu inngangsorð Jesú á óvart og hvaða breytingu gáfu þau til kynna fyrir lærisveina hans annars vegar og fræðimenn og farísea hins vegar?

6 Það voru því lærisveinar Jesú og andlega hungraður mannfjöldi sem færði sig nær Jesú til að hlusta á hann er hann settist niður í fjallshlíðinni. Þeim hlýtur að hafa brugðið við inngangsorð hans: ‚Sælir eru fátækir, sælir eru hungraðir, sælir eru þeir sem gráta og sælir eru þeir sem menn hata.‘ Hver getur verið sæll ef hann er fátækur, hungraður, grátandi eða hataður? Þá lýsti Jesús veii á hendur þeim sem voru auðugir, saddir, hlæjandi og litið var upp til! (Lukas 6:20-26) Með aðeins fáeinum orðum hafði Jesús endaskipti á hinum venjulegu, viðteknu mælikvörðum manna. Hér var verið að skipta algerlega á hlutverkum í samræmi við orð Jesú síðar meir: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Lúkas 18:9-14.

7. Hvaða áhrif hljóta inngangsorð Jesú að hafa haft a hinn andlega hungraða mannfjölda sem hlýddi á Jesú?

7 Ólíkt hinum sjálfsánægðu faríseum og fræðimönnum voru þeir sem komu til Jesú þennan morgun sér vel meðvitandi um hið sorglega, andlega ástand sitt. Inngangsorð hans hljóta að hafa vakið með þeim von: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína, því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ Þeir hljóta að hafa glaðst mjög er hann bætti við: „Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.“ (Matteus 5:3, 6NW; Jóhannes 6:35; Opinberunarbókin 7:16, 17) Þeir myndu fyllast réttlæti en ekki sams konar og farísearnir.

Ekki er nóg að vera ‚réttlátir í augum manna‘

8. Hvers vegna hljóta sumir að hafa undrast að réttlæti þeirra skyldi eiga að taka fram réttlæti fræðimannanna og faríseanna, en hvers vegna varð það að gera það?

8 „Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea,“ sagði Jesús, „komist þér aldrei í himnaríki.“ (Matteus 5:17-20; sjá Markús 2:23-28; 3:1-6; 7:1-13.) Sumir hljóta að hafa hugsað: ‚Réttlátari en farísear? Þeir fasta og biðja og gefa tíund og ölmusur og eyða ævi sinni í að rannsaka lögmálið. Hvernig getum við nokkurn tíma orðið réttlátari en þeir?‘ En svo varð að vera. Farísearnir kunna að hafa verið hátt skrifaðir í augum manna en ekki í augum Guðs. Við annað tækifæri sagði Jesús við þessa farísea: „Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.“ — Lúkas 16:15.

9-11. (a) Nefndu eitt atriði sem fræðimennirnir og farísearnir héldu myndi veita þeim réttlæti frammi fyrir Guði. (b) Nefndu annað atriði sem þeir hugðu veita sér réttlæti. (c) Nefndu þriðja atriðið sem þeir reiddu sig á. Hvernig sýna orð Páls postula að þeir voru á villigötum?

9 Rabbínarnir höfðu fundið upp sínar eigin reglur um það hvernig öðlast mætti réttlæti. Ein var sú að vera kominn af Abraham: „Lærisveinar Abrahams, föður vors, njóta þessa heims og erfa þann, sem koma á.“ (Mísna) Ef til vill var Jóhannes skírari að andmæla þessari erfðavenju er hann aðvaraði faríseana sem til hans komu: „Berið ávöxt samboðinn iðruninni! Latið yður ekki til hugar koma, að þið getið sagt með sjálfum yður: ‚Vér eigum Abraham að föður [rétt eins og það væri nóg].‘“ — Matteus 3:7-9; sjá einnig Jóhannes 8:33, 39.

10 Að sögn faríseanna mátti einnig ávinna sér réttlæti með því að gefa ölmusu. Tvær apókrýfubækur, skrifaðar af trúuðum Gyðingum á annarri öld  f.o.t., endurspegla þessa erfðavenju. Í Tóbíasbók 12:9 stendur: „Góðgjörðasemi frelsar frá dauðanum, og hreinsar af allri synd.“ (Bi. 1859) Síraksbók tekur undir: „Vatn slökkur logandi eld, og góðgjörðasemi forlíkar [sættir] fyrir syndir.“ — 3:33, Bi. 1859.

11 Verk lögmálsins voru þriðja leið faríseanna til að ávinna sér réttlæti. Munnlegar erfðavenjur þeirra kenndu að maður yrði hólpinn ef verk hans væru að mestu leyti góð. Að því er Mísna segir voru menn dæmdir „eftir því hvort flest verk þeirra eru góð eða ill.“ Til að hljóta hagstæðan dóm urðu menn að „ávinna sér verðleika er vega meira en syndirnar.“ Ef góð verk einhvers manns væru fleiri eða meiri en vond verk hans, þá myndi hann bjargast — rétt eins og Guð héldi bókhald yfir ómerkileg verk þeirra! (Matteus 23:23, 24) Páll leiðrétti þetta viðhorf og skrifaði: „Enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum [Guði] af lögmálsverkum.“ (Romverjabréfið 3:20) Auðsætt er að réttlæti kristins manns þarf að taka fram réttlæti fræðimanna og farísea!

„Þér hafið heyrt, að sagt var“

12. (a) Hvernig breytti Jesús út frá því sem hann var vanur að hafa fyrir inngangsorð þegar hann vitnaði í Hebresku ritningarnar, og hvers vegna? (b) Hvað lærum við af því er Jesús sagði í sjötta sinn: „Sagt var“?

12 Er Jesús hafði áður vitnað í Hebresku ritningarnar sagði hann: „Ritað er.“ (Matteus 4:4, 7, 10) En sex sinnum í fjallræðunni vitnaði hann með formálsorðunum: „Sagt var,“ í orð sem hljóma eins og þau séu tekin úr Hebresku ritningunum. (Matteus 5:21, 27, 31, 33, 38, 43) Hvers vegna? Vegna þess að hann var að vitna í ritninguna eins og hún var túlkuð samkvæmt erfðavenjum faríseanna er gengu gegn boðorðum Guðs. (5. Mósebók 4:2; Matteus 15:3) Það kemur skýrt fram í sjöttu og síðustu tilvitnun Jesú af þessu tagi: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘“ En ı Móselögunum stóð hvergi: „Hata óvin þinn.“ Það var túlkun fræðimannanna og faríseanna á þvı að elska náunga sinn — af hópi Gyðinga, ekki annarra.

13. Hvernig varar Jesús við því að stíga fyrsta skrefið á braut sem gæti leitt til morðs?

13 Lítum nú á hina fyrstu tilvitnun Jesú af þessu tagi. Hann sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ‚Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.‘ En ég segi yður, hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi.“ (Matteus 5:21, 22) Reiði í hjartanu getur kveikt lastmæli og formælingar og jafnvel leitt menn út í að fremja morð. Langvarandi reiði í hjartanu getur verið banvæn: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:15.

14. Hvernig varar Jesús okkur við fyrsta skrefinu í átt til hórdóms?

14 Síðan sagði Jesús: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:27, 28) Þú ætlar þér ekki að drýgja hór, er það? Þá skaltu ekki einu sinni stíga fyrsta skrefið með því að gæla við tilhugsunina um það. Varðveittu hjarta þitt þaðan sem slíkar hugsanir eru sprottnar. (Orðskviðirnir 4:23; Matteus 15:18, 19) Jakobsbréfið 1:14, 15 aðvarar: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ Menn segja stundum að ekki skuli byrja á því sem ekki er hægt að ljúka við. Í þessu tilviki ættum við að segja að við skulum ekki byrja á því sem við getum ekki stöðvað. Sumir sem hafa verið trúfastir jafnvel þegar þeim hefur verið hótað lífláti frammi fyrir dauðasveit, hafa síðar fallið fyrir lokkandi táli siðleysis.

15. Hvernig var afstaða Jesú til hjónaskilnaðar gerólík munnlegum erfðavenjum Gyðinga?

15 Við erum nú komin að þriðju tilvitnun Jesú: „Þá var og sagt: ‚Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.‘ En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu [sem er fráskilin á öðrum grundvelli en siðleysi], drýgir hór.“ (Matteus 5:31, 32) Sumir Gyðingar komu sviksamlega fram við konur sínar og skildu við þær af minnsta tilefni. (Malakí 2:13-16; Matteus 19:3-9) Samkvæmt munnlegri erfðavenju mátti maður skilja við konu sína „jafnvel ef hún eyðilagði matinn hans“ eða „ef hann fann aðra fegurri en hana.“ — Mísna.

16. Hvaða siður Gyðinga gerði eiðstafi merkingarlausa og hvaða afstöðu tók Jesús?

16 Jesús hélt áfram í svipuðum tón: „Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ‚Þú skalt ekki vinna rangan eið‘ . . . en ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja.“ Svo var komið að Gyðingar voru farnir að misnota sér eiðstaf með því að sverja eiða varðandi smáatriði en án þess að halda þá. En Jesús sagði: „Þér eigið alls ekki að sverja, . . . en þegar þér talið, sé yðar já og nei sé nei.“ Reglan, sem hann setti, var einföld: Segið alltaf satt, þannig að þið þurfið ekki að sverja eið að orðum ykkar. Sverjið eið aðeins í mikilvægum málum. — Matteus 5:33-37; samanber 23:16-22.

17. Hvaða betri leið en „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ kenndi Jesús?

17 Eftir þetta sagði Jesús: „Þér hafið heyrt að sagt var: ‚Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.‘ En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ (Matteus 5:38-42) Jesús er ekki að tala um högg sem ætlað er að meiða heldur löðrung sem gefinn er í móðgunarskyni. Ekki niðurlægja þig með því að gjalda í sömu mynt. Svaraðu ekki illu með illu heldur með góðu og ‚sigraðu þannig illt með góðu.‘ — Rómverjabréfið 12:17-21.

18. (a) Hvernig breyttu Gyðingar lagaboðinu um að elska náunga sinn en hvernig andmælti Jesús því? (b) Hverju svaraði Jesús löglærðum manni sem vildi takmarka merkingu hugtaksins „náungi“?

18 Í sjötta og síðasta dæminu kom greinilega fram hjá Jesú hvernig erfðavenjur rabbínanna veiktu Móselögin: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.‘ En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:43, 44) Í hinum skráðu Móselögum voru kærleikanum engin takmörk sett: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (3. Mósebók 19:18) Það voru farísearnir sem færðust undan því að hlýða þessu boðorði, og í því skyni þrengdu þeir merkingu hugtaksins „náungi“ svo að það næði aðeins yfir þá sem héldu erfðavenjurnar. Því var það að löglærður maður sneri út úr fyrir Jesú síðar meir er Jesús minnti hann á boðið um að ‚elska náungann eins og sjálfan sig,‘ og spurði: „Hver er þá náungi minn?“ Jesús svaraði með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann sem kennir okkur að vera náungi þess sem þarfnast hjálpar okkar. — Lúkas 10:25-37.

19. Hvernig eigum við að líkja eftir afstöðu Jehóva til óguðlegra, að sögn Jesú?

19 Jesús hélt ræðu sinni áfram með því að lýsa yfir að ‚Guð elski hina óguðlegu með því að láta sól sína renna upp yfir þá og rigna yfir þá. Það er ekkert sérstakt þótt við elskum þá sem okkur elska; það gera hinir vondu líka. Það er engin ástæða til að launa það. Við þurfum að sýna okkur syni Guðs, líkja eftir honum og gera okkur náunga allra, og elska náunga okkar. Þannig verðum við fullkomin eins og faðir okkar á himnum er fullkominn.‘ (Matteus 5:45-48) Þetta er mjög krefjandi staðall og sýnir hve skammt réttlæti fræðimanna og farísea náði.

20. Hvernig áréttaði Jesús Móselogin og jók vægi þeirra?

20 Þegar Jesús vitnaði síðar í hluta lögmálsins og bætti við: „En ég segi yður,“ þá var hann ekki að víkja Móselögunum til hliðar og skáka fram einhverju öðru í staðinn. Nei, hann var að árétta og auka vægi þess með því að draga fram andann sem að baki því bjó. Hið æðra lögmál bróðurkærleikans dæmir langvarandi illvilja sem morð. Hið æðra lögmál hreinleikans dæmir viðvarandi, lostafulla hugsun sem hórdóm. Hið æðra lögmál hjónabandsins bannar hjónaskilnað af litlu tilefni af því að nýtt hjónaband hefur í för með sér hjúskaparbrot. Hið æðra lögmál sannleikans sýnir að síendurteknir eiðstafir eru óþarfir. Hið æðra lögmál mildinnar hafnar hefnigirni. Hið æðra lögmál kærleikans kallar á takmarkalausan kærleika líkt og Guð sýnir.

21. Hvað leiða áminningar Jesú í ljós varðandi sjálfréttvísi rabbínanna og hvað annað átti mannfjöldinn eftir að læra?

21 Þessi einstæðu áminningarorð hljóta að hafa haft djúp áhrif á þá sem nú heyrðu þau í fyrsta sinn. Þau afhjúpuðu hversu einskis virði það hræsnisfulla sjálfsréttlæti var sem fékkst með því að þrælka undir erfðavenjum rabbínanna! Er Jesús hélt áfram fjallræðu sinni fékk mannfjöldinn, sem hungraði og þyrsti eftir réttlæti Guðs, að kynnast því hvernig hægt var að öðlast þetta réttlæti. Greinin á eftir fjallar um það.

Upprifjun

◻ Hvers vegna urðu erfðavenjur Gyðinganna til?

◻ Hvernig hafði Jesús endaskipti á aðstöðu fræðimanna og farísea annars vegar og almennings hins vegar?

◻ Hvernig ætluðu fræðimenn og farísear sig öðlast réttlæti frammi fyrir Guði?

◻ Hvernig sagði Jesús að menn skyldu forðast hórdóm og hjúskaparbrot?

◻ Hvaða æðri staðal setti Jesús með því að draga fram andann að baki Móselögunum?

[Spurningar]