Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Himneskur stríðsvagn Jehóva sækir fram

Himneskur stríðsvagn Jehóva sækir fram

Himneskur stríðsvagn Jehóva sækir fram

„En hjólin voru í mín eyru nefnd ‚hvirfilbylur.‘“ — ESEKÍEL 10:13.

1. Hvers konar farartæki notar Jehóva?

 NÚ Á dögum, þegar leiðtogar þjóða ferðast með rennilegum þotum, finnst þeim kannski að þeir hafi náð svo langt sem náð verður í skjótum samgöngum. En Jehóva opinberaði fyrir 2600 árum að hann hafi sitt eigið farartæki sem tekur öllum öðrum fram, sem líkist engu því er nokkur verkfræðingur hefur nokkru sinni séð. Það er stór og ógnþrunginn stríðsvagn! Hljómar það undarlega að skapari alheimsins skuli aka farartæki sem líkist stríðsvagni? Nei, því að hið himneska farartæki Jehóva er gerólíkt nokkru því sem menn hafa upphugsað.

2. Hvernig lýsir 1. kafli Esekíelsbókar himneskum stríðsvagni Jehóva og hverjum vekur spámaðurinn fyrst athygli okkar á?

2 Í 1. kafla spádóms Esekíels er Jehóva lýst sem aki hann risastórum, himneskum vagni. Þessi fjórhjólavagn er slíkur að hann vekur djúpa lotningu. Hann er sjálfknúinn og getur gert undraverða hluti. Esekíel sá þennan himneska stríðsvagn Guðs í sýn árið 613 f.o.t. er hann var staddur við einn af skurðunum í Forn-Babýlon. Spámaðurinn vekur fyrst athygli okkar á því hverjir séu í fylgdarliði hins himneska stríðsvagns Jehóva. Um leið og við lesum skulum við reyna að sjá fyrir okkur það sem Esekíel sá.

Fjórar verur

3. Hvað tákna hin fjögur andlit hvers af kerúbunum fjórum?

3 Esekíel skýrir svo frá: „Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, . . . út úr honum sáust myndir af fjórum verum.“ (Esekíel 1:4, 5) Hver þessara vera eða kerúba hafði fjóra vængi og fjögur andlit. Þær voru með ljónsandlit til tákns um réttvísi Jehóva, nautsandlit til tákns um mátt Jehóva og arnarandlit til tákns um visku Jehóva. Þær höfðu líka mannsandlit er táknaði kærleika Jehóva. — 5. Mósebók 32:4; Jobsbók 12:13; Jesaja 40:26; Esekíel 1:10; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

4. Hvers vegna höfðu kerúbarnir fjögur andlit og hve fljótir voru þeir í förum?

4 Hver kerúb hafði andlit er sneru til fjögurra átta. Því gátu þeir á augabragði breytt um stefnu og fylgt andlitinu sem horfði í þá átt sem þeir ætluðu. En hvað um hraða þeirra? Þeir gátu farið með eldingarhraða! (Esekíel 1:14) Ekkert farartæki gert af mannahöndum hefur nokkurn tíma náð þeim hraða.

5. Hvernig lýsir Esekíel hjólum og hjólbaugum stríðsvagnsins?

5 Skyndilega birtast hjól stríðsvagnsins. Þau eru sannarlega óvenjuleg! Vers 16 og 18 segja: „Voru þau . . . þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. . . . Og hjólbaugar þeirra — þeir voru háir og ógurlegir — hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum.“ Það var hjól hjá hverjum kerúb sem þýddi að hjólin voru fjögur á fjórum stöðum, í ákveðinni afstöðu hvert til annars. Hjólin voru að sjá eins og þegar blikar á krýsolít sem er hálfgagnsær gulur eða grænn steinn. Með þessum orðum bætist nýtt ljós og fegurð við þessa dýrlegu sýn. Þar eð hjólbaugarnir voru „alsettir augum“ allan hringinn fóru þeir ekki í blindni í hvaða átt sem vera skyldi. Og þessi hjól voru gríðarlega há þannig að þau gátu farið langa vegalengd við aðeins einn snúning um möndul sinn. Þau gátu hreyfst með eldingarhraða líkt og kerúbarnir fjórir.

Eitt hjól innan í öðru

6. (a) Hvernig var eitt hjól innan í öðru? (b) Hvað ræður stefnu hjólanna?

6 Og þá var annað óvenjulegt. Innan í hverju hjóli var annað af sama þvermáli sem gekk hornrétt á hið fyrra. Þannig og aðeins þannig var hægt að segja að hjólin ‚gengju til allra fjögurra hliða.‘ (Vers 17) Hjólin gátu skipt um stefnu í einu vetfangi vegna þess að hjólbaugarnir snerust í allar áttir. Hjólin gengu í sömu átt og kerúbarnir fjórir. Á þessum fjórum hjólum gat stríðsvagn Guðs ekið, borinn uppi á einhverju ósýnilegu, líkt og öflugt loftpúðaskip svífur á loftpúða yfir yfirborði sjávar.

7. Hvaðan fengu hjólin afl sitt?

7 Hvaðan fengu hjólin þetta afl til að fylgja kerúbunum fjórum? Frá heilögum anda hins alvalda Guðs. Vers 20 segir: „Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær . . . andi veranna var í hjólunum.“ Sami ósýnilegi starfskraftur Guðs var innra með kerúbunum og í þessum hjólum.

8. Hvað voru hjólin nefnd og hvers vegna?

8 Hjólin eru nefnd „hvirfilbylur.“ (Esekíel 10:13) Nafnið virðist tilkomið af því sem hjólin gera — þau snúast eða þjóta áfram. Að þessum hluta hins himneska stríðsvagns skuli gefið slíkt nafn beinir athyglinni að því með hve miklum hraða stríðsvagninn færir sig stað úr stað. Þótt hjól hins himneska stríðsvagns geystust svona hratt áfram gátu þau alltaf séð leiðar sinnar vegna þess að þau voru alsett augum.

9. Hvernig lýsti Esekíel því sem var fyrir ofan hin hraðfara hjól stríðsvagnsins?

9 En við skulum nú líta ofar þessum ógnarháu og hraðskreiðu hjólum og sjá hvað þar er. Vers 22 í 1. kafla Esekíelsbókar segir: „Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra.“ Þótt hvelfingin væri úr föstu efni var hún gagnsæ, „blikandi sem kristall,“ glitrandi sem þúsundir demanta í sólarljósi. Sannarlega stórfenglegt!

Hinn dýrlegi ekill stríðsvagnsins

10. (a) Hvernig er hásætinu og þeim sem í því sat lýst? (b) Hvað táknar sú staðreynd að ekill stríðsvagnsins er umvafinn dýrð?

10 Stríðsvagninn nemur bersýnilega staðar til þess að sá sem ekur honum geti talað til Esekíels. Uppi yfir hvelfingunni var sem hásæti úr safírsteini, dimmblátt að lit. Sá sem situr í hásætinu var í mannslíki. Mannslíkið var best fallið til að hjálpa Esekíel að meta að verðleikum þessa opinberun Guðs. Mannslíki þetta var hjúpað dýrð, glóandi sem lýsigull, sem skínandi eldur. Hvílík hrífandi fegurð! Þessi mikla dýrð teygði sig bæði upp og niður þaðan frá sem mittið var þannig að öll þessi mynd var hjúpuð dýrð. Það gefur til kynna að Jehóva sé ólýsanlega dýrlegur. Auk þess var í för með þeim sem í vagninn sat unaðslega fagur regnbogi. Þegar regnboginn birtist eftir að stormur er hjá er hann ímynd kyrrðar og stillingar! Jehóva sýnir stillingu og lætur visku sína, réttvísi, mátt og kærleika vera í fullkomnu jafnvægi.

11. Hvaða áhrif hafði það á Esekíel að sjá stríðsvagn Jehóva og hásæti í sýn?

11 Stríðsvagn Jehóva og hásæti er umvafið ljósi og fögrum litum. Það er sannarlega ólíkt Satan, höfðingja myrkurs og dulhyggju! Og hvaða áhrif hafði þessi sýn á Esekíel? „Er ég sá hana,“ segir hann, „féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.“ — Esekíel 1:28.

Það sem stríðsvagninn táknaði

12. Hvað táknar himneskur stríðsvagn Jehóva?

12 Hvað táknar þessi undursamlegi stríðsvagn? Hið himneska skipulag Jehóva Guðs. Það er myndað úr öllum heilögum andaverum hans á hinu ósýnilega tilverusviði — seröfum, kerúbum og englum. Með því að Jehóva er hinn hæsti Guð eru allar andaverur hans honum undirgefnar og hann ekur yfir þeim í þeim skilningi að hann drottnar með góðvild yfir þeim og notar þær samkvæmt tilgangi sínum. — Sálmur 103:20.

13. (a) Hvers vegna má segja að Jehóva aki skipulagi sínu? (b) Hvaða áhrif hefur þessi sýn Esekíels á þig?

13 Jehóva ekur þessu skipulagi eins og stríðsvagn væri og lætur það fara hvert sem andi hans knýr það til. Það þeysist ekki áfram með tryllingi, stjórnlaust, án þess að því sé stýrt af skynsemd. Jehóva lætur ekki skipulag sitt fara í hverja þá átt sem því dettur í hug heldur fylgir það fyrirmælum hans. Sameiginlega hreyfa allir sig fram til að ná markmiðum Guðs fullkomlega. Þessi himneski, fjórhjóla stríðsvagn, sem Esekíel sá á hreyfingu í sýn sinni, opinberar hversu stórkostlegt hið himneska skipulag Jehóva er! Í samræmi við það er skipulagi Jehóva lýst sem sé það rétthyrnt, í fullkomnu jafnvægi.

Skipaður varðmaður

14. Hvern táknar spámaðurinn Esekíel?

14 En hvern táknar spámaðurinn Esekíel? Af staðreyndum sögunnar er ljóst að það er hópur andasmurðra votta Jehóva sem hefur verið tengdur hinum himneska stríðsvagni. Esekíel táknar þannig vel hinar smurðu leifar votta Jehóva frá árinu 1919. Himneskt skipulag Jehóva komst andlega í samband við hinar smurðu leifar það ár til að endurlífga þær sem votta um Jehóva fyrir öllum heiminum. (Samanber Opinberunarbókina 11:1-12.) Skipulagið sótti fram á þeim tíma og gerir það enn. Ljóst er að hjólin snúast hraðar nú en nokkru sinni fyrr. Jehóva sækir hratt fram!

15. Hvað segir rödd þess sem ekur stríðsvagninum og hvaða boð fær Esekíel?

15 Esekíel fýsti að vita hvers vegna þessi himneski stríðsvagn hefði komið akandi til sín og staðnæmst. Hann komst að raun um það er rödd þess sem á vagninum sat ávarpaði hann. Þetta mikla sjónarspil vakti slíka lotningu hjá Esekíel að hann féll fram á ásjónu sína. Hlýðum á rödd þess sem sat á vagninum er hann talar: „Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig.“ (Esekíel 2:1) Jehóva skipar síðan Esekíel varðmann og hann á að vara hið uppreisnargjarna hús Ísraels við. Honum er jafnvel fyrirskipað að tala í nafni Guðs. Nafnið Esekíel merkir „Guð styrkir.“ Guð hefur styrkt Esekíelhópinn og sent hann fram og skipað varðmann sinn fyrir kristna heiminum.

16, 17. (a) Hvaða gagn hafði Esekíel af því að sjá hinn himneska stríðsvagn í sýn? (b) Hvaða áhrif hefur það haft á Esekíelshópinn og hinn mikla múg á okkar dögum að skilja sýn Esekíels?

16 Það að sjá hinn himneska stríðsvagn í sýn var bæði tilefni alvarlegrar umhugsunar fyrir Esekíel og bjó hann undir það verkefni hans að vera varðmaður og vara við hinni komandi eyðingu Jerúsalem. Eins hefur það verið með varðmannshópinn nú á dögum. Skilningur á sýninni, þar sem himneskur stríðsvagn Jehóva er á ferð, hefur haft mikil áhrif á hinar smurðu leifar. Árið 1931 lærðu þær meira um sýn Esekíels eins og opinberað var í 1. bindi bókarinnar Réttlæting. Þær fylltust svo djúpstæðu þakklæti að frá og með 15. október 1931 til 1. ágúst 1950 birtist hugmynd listamanns um stríðsvagninn himneska, sem Esekíel sá, á forsíðu Varðturnsins í efra horninu til hægri. Esekíelhópurinn hefur því lifað eftir því umboði sem honum var falið og þjónað sem varðmaður, látið aðvörun Guðs hljóma. Hin brennandi eyðing kristna heimsins frá Jehóva, sem situr í hásæti á hinum himneska stríðsvagni, hefur aldrei verið nær!

17 „Mikill múgur“ sauðumlíkra manna er nú í félagi við hinar smurðu leifar. (Opinberunarbókin 7:9) Sameiginlega láta þeir hljóma aðvörunina um hina komandi eyðingu kristna heimsins og alls þess kerfis sem djöfullinn ræður yfir. Aðvörunarstarfið gengur hratt fyrir sig og, eins og Opinberunarbókin 14:6, 7 gefur til kynna, nýtur það stuðnings engla.

Sótt fram með hinum himneska stríðsvagni

18. Hvað þarf að gera til að njóta áfram stuðnings englanna og fyrir hverju ættum við að vera næm?

18 Hinir undirgefnu englar eru fullkomlega samstilltir sem hluti af himnesku skipulagi Guðs er þeir aðstoða okkur við það verkefni að boða dóma Guðs og aðvaranir. Ef við þráum að njóta verndar og leiðsagnar þessara voldugu engla, þjóna Guðs, þá verðum við líka að vera samstilltir og samstíga hinum táknræna hjólabúnaði. Sýnilegt skipulag Jehóva er samstíga hinum himneska stríðsvagni og við sem erum hluti af því verðum enn fremur að vera næm fyrir leiðsögn anda Guðs. (Samanber Filippíbréfið 2:13.) Ef við erum vottar Jehóva verðum við að stefna í sömu átt og hinn himneski stríðsvagn. Við megum alls ekki ganga þvert á stefnu hans. Þegar okkur er leiðbeint um hvaða leið við ættum að fara, þá ættum við að fara hana. Þannig er söfnuðurinn ekki sundraður. — 1. Korintubréf 1:10.

19. (a) Fyrir hverju verða þjónar Jehóva að vera vakandi, á sama hátt og hjól stríðsvagnsins voru alsett augum hringinn í kring? (b) Hvaða stefnu ættum við að fylgja á þessum ólgutímum?

19 Það að hjólbaugar stríðsvagnsins voru alsettir augum allan hringinn gefur til kynna árvekni. Við verðum að vera vökul fyrir því að styðja jarðneskt skipulag Jehóva alveg eins og hið himneska skipulag er vökult. Við getum sýnt þann stuðning á safnaðargrundvelli með því að vera samstarfsfús við öldungana á staðnum. (Hebreabréfið 13:17) Á þessum ólgutímum þurfa kristnir menn að halda sér mjög nálægt skipulagi Jehóva. Við viljum ekki túlka atburðina eftir eigin höfði því að þá værum við ekki samstíga stríðsvagninum. Við skulum alltaf spyrja okkur: ‚Í hvaða átt stefnir hinn himneski stríðsvagn?‘ Ef við sækjum fram með sýnilegu skipulagi Guðs, þá munum við alltaf vera samstíga hinum ósýnilega hluta skipulags Guðs.

20. Hvaða góð ráð gefur Páll postuli í Filippíbréfinu 3:13-16?

20 Páll skrifaði í þessu sambandi: „Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú. Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta. Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á,“ eða samkvæmt Nýheimsþýðingunni, skulum við „ganga regluföst eftir þessari sömu venju.“ — Filippíbréfið 3:13-16.

21. Hvaða venja getur hjálpað okkur að taka andlegum framförum með skipulagi Guðs?

21 Orðið „venja,“ eins og það er notað hér, merkir ekki að sitja fastur í sama farinu og geta ekki rifið sig upp úr því. Þjónar Jehóva hafa góða, fasta venju sem hjálpar þeim að taka andlegum framförum. Þetta er venja sem felst í því að hafa reglulegt einkabiblíunám, sækja safnaðarsamkomur, vera reglulegir þátttakendur í að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og endurspegla persónueinkenni hins himneska skipulags Guðs. Slík venja gerir þeim kleift að fylgja handleiðslu hins himneska skipulags Jehóva sem líkt er stríðsvagni. Með því að halda slíkri venju náum við markmiði okkar, hvort heldur það er ódauðleiki á himnum eða eilíft líf í paradís á jörð.

22. (a) Hvað þarf að gera til að hinar smurðu leifar og mikill múgur annarra sauða myndi skipulega heild? (b) Hvað fer ekki fram hjá Jehóva?

22 Eins og Jóhannes 10:16 gefur til kynna áttu hinir ‚aðrir sauðir‘ og Esekíelhópurinn að vera sameinaðir á skipulegan hátt. Það er því mikilvægt að allir í skipulagi Jehóva skilji til fullnustu merkingu og þýðingu sýnarinnar í 1. kafla Esekíelsbókar, ef þeir ætla sér að vera samstíga hinum himneska stríðsvagni Guðs. Sýnin hjálpar okkur að gera okkur ljóst að við ættum að sækja fram, samstillt skipulagi Jehóva, sýnilegu og ósýnilegu. Höfum líka í huga að augu Jehóva „hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ (2. Króníkubók 16:9) Það er ekkert sem fer fram hjá Jehóva, einkum það sem tengt er þeim tilgangi hans að upphefja sjálfan sig sem drottinvald alheimsins.

23. Hvað verðum við að gera er himneskur stríðsvagn Jehóva sækir fram?

23 Himneskur stríðsvagn Jehóva er enn á ferð nú á dögum. Bráðlega verður allt gert dýrlegt í samræmi við hinn dýlega Guð sem ekur stríðsvagninum — allt til upphafningar honum sem drottinvaldi alheimsins. Serafar hans, kerúbar og englar styðja við bakið á okkur nú á dögum í hinu mikla prédikunarstarfi okkar um víða veröld. Sækjum því fram með himnesku skipulagi Jehóva. En hvernig getum við haldið í við hinn hraðfara, himneska stríðsvagn?

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða eiginleika tákna verurnar fjórar sem Esekíel sá?

◻ Hvað táknar himneskur stríðsvagn Jehóva?

◻ Hverja táknar Esekíel, spámaður Guðs?

◻ Hvaða áhrif hefur skilningur á himneskum stríðsvagni Jehóva haft á Esekíelhópinn og múginn mikla?

[Spurningar]