Haldið áfram að vara við óvenjulegu verki Jehóva
Haldið áfram að vara við óvenjulegu verki Jehóva
„[Jehóva] mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon.“ — JESAJA 28:21.
1, 2. Hvaða óvanalegt verk vann Jehóva í þágu þjóna sinna á dögum Davíðs?
UNDARLEGUR verknaður! Afar óvenjulegt verk! Það var það sem Jehóva vann í þágu þjóðar sinnar til forna á 11. öld f.o.t. Þetta undarlega verk var fyrirmynd enn óvenjulegra verks sem hann mun vinna í náinni framtíð. Hvaða verk var þetta forðum daga? Skömmu eftir að Davíð var settur í hásæti sem konungur í Jerúsalem gerði grannþjóðin Filistar árás sem var kveikjan að undarlegu verki Jehóva. Fyrst fóru Filistar ránshendi um Refaímdal. Davíð spurði Jehóva hvað hann ætti að gera og var fyrirskipað að gera árás. Davíð hlýddi Jehóva og gersigraði hinn öfluga her Filista við Baal Perasím. En Filistar viðurkenndu ekki ósigur sinn. Skömmu síðar sneru þeir aftur og fóru ránshendi um Refaímdal á nýjan leik og Davíð leitaði aftur leiðsagnar Jehóva.
2 Í þetta sinn var honum sagt að fara aftan að Filistum með her sinn. Jehóva sagði: „Þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer [Jehóva] fyrir þér til þess að ljósta her Filista.“ Og þannig fór það. Davíð beið uns Jehóva lét heyrast í bakatrjánum, ef til vill með sterkum vindi, sem væri þar her á göngu. Þegar í stað stökk Davíð með her sinn fram úr launsátri, réðst á Filistana að óvörum og vann stórsigur á þeim. Skurðgoðunum, sem Filistar skildu eftir á vígvellinum, var safnað saman og þau eyðilögð. — 2. Samúelsbók 5:17-25; 1. Kroníkubók 14:8-17.
3. Hvers vegna var hið undarlega verk Jehóva áhugavert fyrir Gyðinga á dögum Jesaja og hvers vegna ætti það að vekja áhuga kristinna nútímamanna?
3 Þetta var óvenjulegt verk, undarleg athöfn Jehóva gegn Filistum og í þágu hins smurða konungs síns. Þetta einstæða verk er sérstaklega áhugavert vegna þess að spámaðurinn Jesaja varaði við því að Jehóva myndi vinna ámóta undarlegt og máttugt verk gegn andlegum drykkjurútum Júda. Hinir ótrúu trúarleiðtogar á dögum Jesaja þurftu því að taka vel eftir. Kristni heimurinn ætti líka að gefa því gaum vegna þess að það sem henti Júda er fyrirmynd endanlegra örlaga kristna heimsins.
„Hvílan mun verða of stutt“
4, 5. (a) Hvernig lýsir Jesaja á myndrænu máli óþægilegri aðstöðu trúarleiðtoga samtíðar sinnar? (b) Hvað veldur óþægindum kristna heimsins nú á dögum?
4 Fyrst vakti Jesaja athygli á að þeir stjórnmálasáttmálar, sem þessir andlegu drykkjurútar til forna treystu á, væru blekking, lygi. Síðan lýsti hann á myndrænan hátt að þeir sem settu von sína á þá lygi væru í afar óþægilegri aðstöðu. Hann sagði: „Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.“ (Jesaja 28:20) Sá sem teygir úr sér í of stuttu rúmi finnur fæturna standa út í kuldann. Ef hann hins vegar hniprar sig saman til að koma sér fyrir í stuttu rúminu uppgötvar hann að ábreiðan eða sængin er of mjó til að skýla honum. Stór hluti líkamans er enn óvarinn. Hvernig sem hann reynir að hagræða sér er einhver hluti hans alltaf úti í kuldanum.
5 Þannig var ástatt hjá þeim mönnum á dögum Jesaja er treystu á athvarf sem var lygi. Og þeir eru í sömu óþægilegu aðstöðunni nú á dögum sem setja traust sitt á athvarf kristna heimsins sem er lygi. Þeir eru úti í kuldanum ef svo má að orði komast. Þess vegna er ekki rétti tíminn núna til að leita skjóls hjá veraldlegri ráðstöfun til friðar og öryggis. Í skugga hins yfirvofandi dóms af hendi Guðs mun bandalag við pólitíska valdhafa hvorki veita kristna heiminum hlýju né hughreystingu.
Hið undarlega verk Jehóva
6. Hvernig ætlaði Jehóva að ganga fram gegn Júda og hvernig mun hann ganga fram gegn kristna heiminum?
6 Eftir að hafa lýst óþægilegri aðstöðu hinnar ótrúu Jerúsalem sinnar samtíðar — og hins ótrúa kristna heims nútímans — heldur Jesaja áfram: „[Jehóva] mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.“ (Jesaja 28:21) Já, Jesaja aðvaraði að Jehóva myndi bráðlega rísa upp eins og hann gerði við Baal Perasím. Í þetta sinn myndi hann mun ráðast gegn ótrúrri þjóð sinni, líkt og vatnsflaumur úr sprunginni stíflu sem ekkert fær staðið í móti. Sáttmáli Jerúsalem við dauðann yrði sýndur vera dauður og ómerkur. Á sama hátt mun Jehóva láta til skarar skríða í náinni framtíð gegn kristna heiminum sem mun uppgötva að allir hinir ölvandi samningar hans við þennan heim eru marklausir. Hinu víðáttumikla skipulagi hans verður sundrað og áhangendum hans tvístrað. Falsguðir hans verða brenndir upp til agna.
7. Hvers vegna var tilgangur Jehóva í tengslum við Júda nefndur ‚undarlegur‘ og ‚óvenjulegur‘?
7 Hvers vegna kallar Jesaja aðgerð Jehóva gegn Jerúsalem undarlegt verk og óvanalegt starf? Á dögum Jesaja var Jerúsalem setur tilbeiðslunnar á Jehóva og borg hins smurða konungs Jehóva. (Sálmur 132:11-18) Sem slíkri hafði henni aldrei verið eytt fyrr. Musteri hennar hafði aldrei verið brennt. Hinu konunglega húsi Davíðs, sem grundvallað hafði verið í Jerúalem, hafði aldrei verið kollvarpað. Slíkt var óhugsandi. Það var afar óvenjulegt að Jehóva skyldi íhuga það að leyfa slíkt.
8. Hvaða aðvörun gaf Jehóva varðandi hið komandi, óvenjulega verk sitt?
8 En Jehóva varaði rækilega við því fyrir munn spámanna sinna að átakanlegir atburðir ættu eftir að gerast. (Míka 3:9-12) Til dæmis sagði spámaðurinn Habakkuk sem uppi var á sjöundu öld f.o.t.: „Litist um! Fallið í stafi og undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum — þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því. Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki. Ægileg og hræðileg er hún.“ — Habakkuk 1:5-7.
9. Á hvaða hátt uppfyllti Jehóva aðvörun sína gegn Jerúsalem?
9 Árið 607 f.o.t. uppfyllti Jehóva aðvörun sína. Hann leyfði að her Babýlonar færi gegn Jerúsalem og leyfði honum að eyða borginni og musterinu. (Harmljóðin 2:7-9) Enn fremur leyfði hann að Jerúsalem yrði eytt öðru sinni. Hvers vegna? Eftir 70 ára útlegð sneru iðrunarfullir Gyðingar aftur heim í land sitt og um síðir var annað musteri reist í Jerúsalem. En aftur fjarlægðust Gyðingarnir Jehóva. Á fyrstu öld vitnaði Páll í orð Habakkuks í áheyrn Gyðinga sinnar samtíðar og varaði þannig við að þessi spádómur ætti eftir að rætast á ný. (Postulasagan 13:40, 41) Jesús sjálfur hafði sérstaklega varað við því að Jerúsalem og musteri hennar yrði eytt vegna trúleysis Gyðinga. (Matteus 23:37-24:2) Létu Gyðingar á fyrstu öld sér segjast? Nei. Líkt og forfeður þeirra höfnuðu þeir algerlega aðvörun Jehóva. Því endurtók Jehóva hið undarlega verk sitt. Jerúsalem og musteri hennar var eytt árið 70 fyrir hendi rómverskra hersveita.
10. Hvert verður verk Jehóva gegn kristna heiminum í náinni framtíð?
10 Hví skyldi þá nokkur halda að Jehóva eigi ekki eftir að gera eitthvað svipað á okkar tímum? Staðreyndin er sú að hann mun uppfylla tilgang sinn, þótt þeim sem efast þyki það undarlegt og óvenjulegt. Í þetta sinn mun verk hans beinast að kristna heiminum sem segist, eins og Júda til forna, tilbiðja Guð en er orðinn svo spilltur að hann á sér ekki viðreisnar von. Fyrir milligöngu hins meiri Davíðs, Krists Jesú, mun Jehóva ráðast á „Filistana,“ kristna heiminn, á þeirri stundu er hann á sér einskis ills von. Hann mun vinna hið óvenjulega verk sitt svo rækilega að trúkerfi kristna heimsins verða gjörsamlega afmáð. — Matteus 13:36-43; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.
Varað við verki Jehóva
11, 12. Hvernig hafa vottar Jehóva varað við komandi dómum Jehóva?
11 Svo árum skiptir hafa vottar Jehóva varað við þessum komandi dómi af hendi Jehóva. Þeir hafa bent á að eyðing Jerúsalem og musteris hennar árið 607 f.o.t. og aftur árið 70 hafi verið spádómlegar aðvaranir um það sem koma ætti yfir kristna heiminn. Enn fremur hafa þeir sýnt fram á að kristni heimurinn hafi, vegna fráhvarfs síns frá trúnni, orðið hluti af heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu. Vegna þessa mun dómur Guðs yfir Babýlon hinni miklu koma sérstaklega hart niður á kristna heiminum, því að hann er sekasti hluti þessarar samsteypu Satans. — Opinberunarbókin 19:1-3.
12 Vottar Jehóva hafa bent á spádómlegar aðvaranir Biblíunnar þess efnis að stjórnmálalegir friðlar Babýlonar hinnar miklu muni, þegar tími Jehóva kemur til, snúast gegn henni. Þeir birtast í líki tíu horna á skarlatsrauðu villidýri. Opinberunarbókin aðvarar: „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna [Babýlon hina miklu] og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Trúarbrögð kristna heimsins verða uppbrennd og þeim gereytt ásamt öllum öðrum fölskum trúarbrögðum. Þetta verður hið undarlega verk Jehóva, hið óvanalega starf hans á okkar dögum.
13. Hvernig hafa viðbrögðin við aðvörun Jehóva nú á dögum verið áþekk þeim sem Jesaja kynntist?
13 Þegar vottar Jehóva vara við þessum komandi hamförum er oft hlegið háðslega að þeim. Fólk veltir fyrir sér hverja þeir haldi sig vera að segja slíkt. Kristni heimurinn virðist svo traustur, svo rótgróinn. Sumum finnst jafnvel staða hans fara batnandi. Sumar ríkisstjórnir, sem áður fyrr kúguðu kirkjufélögin, hafa nýverið veitt þeim aukið athafnafrelsi. En kristni heimurinn ætti í raun réttri að taka til sín heilræði Jesaja: „Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, [Jehóva] allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.“ — Jesaja 28:22; 2. Pétursbréf 3:3, 4.
14. Hvernig munu fjötrar kristna heimsins styrkjast og herðast?
14 Kristni heimurinn mun að stærstum hluta halda áfram að fjandskapast gegn konunginum og ríki hans. (2. Þessaloníkubréf 2:3, 4, 8) En um leið verða fjötrar hans harðari. Með öðrum orðum verður eyðing hans sífellt öruggari og vissari. Jehóva mun ekki frekar hverfa frá þeirri ákvörðun sinni að láta eyða kristna heiminum en hann hvarf frá þeirri ávörðun að leyfa eyðingu Jerúsalem og musteris hennar árið 607 f.o.t.
„Gangið út“
15. Hvaða undankomuleið er opin réttsinnuðum einstaklingum?
15 Hvernig getur nokkur maður umflúið örlög kristna heimsins? Á dögum Ísraels sendi Jehóva trúfasta spámenn til að safna hjartahreinum mönnum saman til hreinnar guðsdýrkunar. Á okkar tímum hefur hann vakið upp votta sína, sem nú teljast í milljónum, í áþekkum tilgangi. Þeir afhjúpa óttalaust að kristni heimurinn sé andlega dauður. Með því eru þeir í trúfesti að enduróma þær yfirlýsingar, sem eru eins og plágur, er felast í básúnublæstri englanna í 8. og 9. kafla Opinberunarbókarinnar. Enn fremur hafa þeir kostgæfilega gert kunnug hvatningarorðin í Opinberunarbókinni 18:4: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér . . . hreppið ekki plágur hennar.“ Þessi „hún,“ sem hér er talað um, er Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, en kristni heimurinn er fremsti hluti hennar.
16. Á hvaða hátt hafa milljónir manna sloppið úr fjötrum falstrúarbragða?
16 Eftir 1919 og þó sér í lagi frá 1922 hefur ört vaxandi hópur auðmjúkra manna brugðist jákvætt við þessari hvatningu og yfirgefið Babýlon hina miklu. Fyrst þúsundir, síðan hundruð þúsunda, og nú milljónir manna hafa aðgreint sig frá falstrúarbrögðunum, einkum frá kristna heiminum, og leitað hælis í sannri guðsdýrkun. (Jesaja 2:2-4) Þeir vita að það er aðeins með því að yfirgefa þannig Babýlon hina miklu sem fólk getur komist hjá því að hreppa plágur hennar sem munu enda með því að henni verður eytt er tíminn kemur til að fullna hið óvenjulega verk Jehóva.
17, 18. Hvernig hefur Jehóva orðið höfuðdjásn og höfuðsveigur þjóna sinna?
17 Spámaðurinn Jesaja lýsir gleðilegri aðstöðu þeirra sem taka afstöðu með sannri guðsdýrkun. Hann segir: „Á þeim degi mun [Jehóva] allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borgarhliðum óvinanna.“ — Jesaja 28:5, 6.
18 Sökum hollustu þeirra sem mynda hinn trúa og hyggna þjón við sannleikann er Jehóva ófölnandi höfuðsveigur þeirra. Svo hefur verið einkanlega frá árinu 1926. Með örvandi grein er nefndist „Hver mun heiðra Jehóva?“ lagði Varðturninn þann 1. janúar það ár áherslu á nauðsyn þess að mikla nafn Jehóva. Síðan þá hafa smurðir kristnir menn kunngert þetta nafn um víða veröld í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Árið 1931 kenndu þeir sig enn betur við Jehóva og nafn hans með því að taka sér nafnið vottar Jehóva. Auk þess hefur mikill múgur annarra sauða einnig komið út úr kristna heiminum og öðrum hlutum Babýlonar hinnar miklu. Þeir hafa líka tekið sér nafn Guðs. Með hvaða árangri? Jehóva sjálfur — í stað tímabundins þjóðlegs sjálfstæðis — er orðinn dýrlegur höfuðsveigur ríflega fjögurra milljóna manna í um 212 löndum og eyjum hafsins. Hvílíkur heiður fyrir þá að bera nafn hins eina lifandi og sanna Guðs! — Opinberunarbókin 7:3, 4, 9, 10; 15:4.
‚Yfir honum mun hvíla andi Jehóva‘
19. Hver er sá sem situr í dómum og hvernig hefur Jehóva orðið honum réttlætisandi?
19 Jehóva er orðinn „réttlætisandi“ fyrir Jesú, honum sem ‚í dómum situr.‘ Þegar Jesús var á jörðinni neitaði hann að láta áfengan anda veraldlegra bandalaga yfirbuga sig. Núna er Jesús krýndur konungur Jehóva, hann er fylltur heilögum anda og þess vegna getur hann fellt öfgalausa og skarpskyggna úrskurði. Spádómur Jesaja hefur uppfyllst á Jesú: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta [Jehóva].“ (Jesaja 11:2) Jehóva mun sannarlega fyrir milligöngu Jesú ‚gera réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði.‘ (Jesaja 28:17) Andlega drukknir óvinir verða gersigraðir og gereytt en heilagt nafn Jehóva og drottinvald yfir alheimi verður sýnt í besta ljósi.
20, 21. Á hvaða hátt hafa orð Jesaja 28:1-22 áhrif á þig?
20 Spádómurinn í 28. kafla Jesajabókar hefur þannig stórkostlega þýðingu fyrir okkur nú á tímum! Ef við höldum okkur fjarri andlegum drykkjurútum kristna heimsins og höldum okkur fast við sanna guðsdýrkun, þá munum við njóta verndar er Jehóva vinnur hið undarlega verk sitt og hið óvanalega starf sitt. Það er okkur mikið fagnaðarefni að vita þetta! Og það veitir okkur mikla gleði að vita að þegar þetta gerist, þá munu allir neyðast til að viðurkenna að Jehóva hersveitanna hefur látið til skarar skríða í þágu trúfastra þjóna sinna og til réttlætingar sjálfum sér fyrir milligöngu Jesú Krists! — Sálmur 83:18, 19.
21 Megi því allir sannkristnir menn halda óttalausir áfram að vara við undarlegri athöfn Jehóva. Megi þeir halda áfram að segja frá óvenjulegu verki hans. Megir þeir, er þeir gera það, boða öllum að óhagganleg von okkar sé bundin ríki Guðs í höndum hins krýnda konungs. Megi kostgæfni þeirra, einbeitni og hollusta verða hinum alvalda Guði okkar, Jehóva, til ævarandi lofs. — Sálmur 146:1, 2, 10.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er kristni heimurinn í óþægilegri aðstöðu?
◻ Hver var tilgangur Jehóva með Jerúsalem og hvers vegna var hann ‚undarlegur‘ og ‚óvenjulegur‘?
◻ Hvaða aðvaranir hafa vottar Jehóva látið frá sér fara varðandi kristna heiminn og hvaða viðbrögð hafa mætt þeim?
◻ Hvernig geta menn umflúið örlög kristna heimsins?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jehóva mun endurtaka hið undarlega verk sitt, núna gegn kristna heiminum.