Ráða forlögin framtíð þinni?
Ráða forlögin framtíð þinni?
MYNDU þér finnast örlögin vera þér hliðholl ef þú kæmist naumlega hjá slysi sem hefði getað kostað þig lífið, eða myndir þú hrósa happi yfir því að hafa einfaldlega verið á réttum stað á réttum tíma?
Spekingurinn Salómon sagði: „Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ (Prédikarinn 9:11) Oft eiga sér stað óvænt atvik: Sigurstranglegur íþróttamaður meiðist og sá vinnur sem síst var búist við. Óvænt skakkaföll gera heiðarlegan kaupsýslumann gjaldþrota en auðga óheiðarlegan keppinaut hans. En kenndi Salómon forlögunum um? Alls ekki. Það eru einfaldlega „tími og tilviljun“ sem valda.
Jesús Kristur lét orð falla í svipaða veru. Hann vísaði til atburðar sem áheyrendum hans var greinilega kunnugt um og spurði: „Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa?“ (Lúkas 13:4) Jesús kenndi ekki einhverjum dularfullum forlögum eða vilja Guðs um þetta banaslys, og ekki taldi hann að fórnarlömbin hefðu að einhverju leyti verið sekari en aðrir. Þetta hörmulega slys var einfaldlega enn eitt dæmi um áhrif tíma og tilviljunar.
Hvergi aðhyllist Biblían þá hugmynd að Guð hafi ákveðið dánardægur okkar fyrirfram. Að vísu segir í Prédikaranum 3:1, 2: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma.“ En Salómon var einfaldlega að ræða hér um hina stöðugu hringrás lífs og dauða sem ófullkomið mannkyn er undirorpið. Við fæðumst og þegar tíminn kemur, þegar venjulegum hámarksaldri er náð — yfirleitt eftir 70 til 80 ár eða þar um bil — þá deyjum við. En dauðastund okkar hefur ekkert frekar verið ákveðin af Guði en það augnablik er bóndinn ákveður „að gróðursetja“ eða „að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið.“
Salómon sýnir reyndar síðar að menn geti dáið ótímabærum dauða og segir: „Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi — hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn?“ (Prédikarinn 7:17) Hvaða vit væri í þessum heilræðum ef dauðastund okkar væri fyrirfram ákveðin og yrði ekki breytt? Biblían hafnar þannig forlagahugmyndinni. Guð fordæmdi þunglega trúvillta Ísraelsmenn sem aðhylltust þessa heiðnu hugmynd. Jesaja 65:11 segir: „Þér, sem yfirgefið [Jehóva], sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina.“
Það er því heimskulegt að kenna forlögunum um slys og ófarir og enn verra að kenna Guði sjálfum um! „Guð er kærleikur,“ segir Biblían og það að saka hann um að vera frumkvöðull mannlegra báginda gengur í berhögg við þennan grundvallarsannleika. — 1. Jóhannesarbréf 4:8.
Framtíðartilgangur Guðs
En hvað um möguleika okkar á hjálpræði? Merkir sú staðreynd að engin óhjákvæmileg forlög ráða lífi okkar að við verðum að láta reka stefnulaust gegnum lífið? Alls ekki, því að Guð hefur ákveðið framtíð mannkynsins í heild. Biblían talar um sköpun ‚nýrrar jarðar‘ þar sem ‚réttlæti mun búa.‘ — 2. Pétursbréf 3:13.
Til að áorka því mun Guð hlutast beint til um málefni mannanna. Vel má vera að þú hafir óafvitandi beðið þess að það mætti gerast, með því að hafa yfir bænina þar sem segir: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Þetta ríki er raunveruleg stjórn sem situr á himnum. Með því að biðja þess að hún komi ert þú að biðja um að Guðsríki taki völdin yfir jörðinni af núverandi stjórnum. — Daníel 2:44.
Tryggðu þér góða framtíð
Áhrif þessara miklu atburða á framtíð þína eru ekki háð forlögunum og ekki heldur tíma og tilviljun heldur þeirri stefnu sem þú kýst að taka. Mundu eftir harmleiknum við Sílóamturninn. Jesús notaði þennan sorlega atburð til að kenna mikilvæga lexíu. Þeir sem fórust er turninn hrundi gátu ekki umflúið það sem gerðist. Hins vegar gátu áheyrendur Jesú umflúið þá eyðingu sem leiddi af vanþóknun Guðs. Jesús aðvaraði þá: „Ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.“ (Lúkas 13:4, 5) Augljóslega gátu þeir sjálfir ráðið framtíð sinni.
Okkur stendur opið sama tækifæri — að vinna að eigin hjálpræði. (Filippíbréfið 2:12) Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Og enda þótt erfðir og uppruni hafi einhver áhrif á eitt og sérhvert okkar hefur Guð gefið okkur frjálsan vilja — hæfnina til að ákveða hvernig við viljum nota líf okkar. (Matteus 7:13, 14) Við getum gert það sem er rétt eða það sem er rangt. Við getum áunnið okkur velvild Jehóva Guðs og öðlast líf og við getum snúist gegn honum og dáið.
Margir kjósa að lifa lífi sínu óháðir Guði. Þeir helga sig kapphlaupi eftir efnislegum hlutum, skemmtunum eða frægð. En Jesús aðvaraði: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Undir hverju er líf okkar þá komið? Biblían svarar því í 1. Jóhannesarbréfi 2:15-17: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. . . . Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“
Að velja lífið
Hvernig getur þú fullvissað þig um að þú sért í raun og veru að gera vilja Guðs? Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Nákvæm þekking frá Biblíunni er grundvöllur þess að trúa. „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Sú þekking sem þú þarft að afla þér er auðfengin. Vottar Jehóva hafa hjálpað milljónum manna að afla sér hennar með reglulegu námi í Biblíunni. *
Þú þarft að gera ýmsar breytingar til að þóknast Guði. Þú gætir þurft að leggja af slæma ávana eða jafnvel siðlausar athafnir. En gefstu ekki upp, rétt eins og það væri ógerlegt fyrir þig að breyta þér. Sú hugmynd að engu sé hægt að breyta er enn einn arfur forlagatrúarinnar. Með hjálp Jehóva getur hver sem er ‚endurnýjað hugarfar sitt‘ og tileinkað sér ‚hinn nýja mann.‘ (Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 4:22-24) Viðleitni þín til að þóknast Guði mun ekki fara fram hjá honum. Hann er ávallt reiðubúinn að blessa þá sem gera vilja hans.
Það leysir að vísu ekki öll vandamál þín að kynnast Biblíunni. Sannir þjónar Guðs eru undirorpnir slysum og skakkaföllum eins og allir aðrir. En Guð getur gefið okkur visku til að takast á við erfiðar aðstæður. (Jakobsbréfið 1:5) Þá má ekki gleyma gleðinni sem er því samfara að vita sig eiga gott samband við Guð. „Sæll er sá, sem treystir [Jehóva],“ segja Orðskviðirnir 16:20.
Í endurreistri paradís undir stjórn Guðsríkis mun okkur ekki lengur finnast tími og tilviljun ógna okkur. Guð mun afmá allt það sem núna spillir hamingju manna. „Hann mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til,“ lofar Biblían. (Opinberunarbókin 21:4) Óteljandi fórnarlömb slysa munu fá upprisu. — Jóhannes 5:28, 29.
Munt þú erfa þessa dýrlegu framtíð? Þegar Ísraelsmenn voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið sagði Móse þeim: „Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska [Jehóva] Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn.“ — 5. Mósebók 30:19, 20.
Nei, við erum ekki hjálparvana peð í höndum miskunnarlausra örlaga. Framtíðarhamingja þín, já, eilíf framtíð þín er í þínum eigin höndum. Við hvetjum þig til að velja lífið.
[Neðanmáls]
^ Slík aðstoð er fáanleg með því að hafa samband við útgefendur þessa tímarits.
[Innskot á blaðsíðu 5]
Guð fordæmdi þunglega trúvillta Ísraelsmenn sem aðhylltust hina heiðnu forlagahugmynd.