Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Konur sem leggja hart á sig fyrir Drottin‘

‚Konur sem leggja hart á sig fyrir Drottin‘

‚Konur sem leggja hart á sig fyrir Drottin‘

„Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 16:12.

1. Á hvaða veg reyndist jarðnesk þjónusta Jesú vera konum til blessunar?

 JARÐNESK þjónusta Jesú var konum meðal Gyðinga til mikillar blessunar. Starfið, sem hann hóf, átti eftir að veita konum af öllum kynþáttum hughreystingu, von og nýja reisn. Hann fylgdi ekki erfðavenjum Gyðingdómsins sem ‚ógiltu orð Guðs.‘ (Matteus 15:6) Margar þessara erfðavenja virtu að vettugi þau undirstöðuréttindi sem Guð hafði gefið konum.

Viðhorf Jesú til kvenna

2. Hvers vegna má segja að viðhorf Jesú til kvenna hafi verið byltingarkennd á þeim tíma?

2 Viðhorf Jesú til kvenna voru gerólík afstöðu trúarleiðtoga Gyðinganna! Svo vitnað sé í Encyclopaedia Judaica álitu hinir síðarnefndu konur vera „ágjarnar, forvitnar, latar og afbrýðisamar.“ Það var illa séð að karlmaður ætti samtal við konu og „það var vansæmilegt fyrir fræðimann að tala við konu á götum úti.“ (Jerusalem In the Time of Jesus eftir Joachim Jeremias; samanber Jóhannes 4:27.) Margt fleira mætti segja um fyrirlitningu leiðtoga Gyðingdómsins á konum, en þetta nægir til að sýna hvernig afstaða Jesú til kvenna var í sannleika byltingarkennd á þeim tíma.

3. Hvaða atvik úr þjónustu Jesú sýna að hann var fús til að kenna konum djúp, andleg sannindi?

3 Jesús er fullkomið fordæmi um það hvernig karlmenn geta átt hlýlegt en þó hreint samband við konur. Bæði ræddi hann við þær og kenndi þeim djúp, andleg sannindi. Meira að segja var fyrsta manneskjan, sem hann sagði opinskátt frá Messíasardómi sínum, kona og samversk að auki. (Jóhannes 4:7, 25, 26) Enn fremur sýnir atvikið, sem átti sér stað á heimili Mörtu og Maríu, greinilega að ólíkt trúarleiðtogum Gyðinga taldi Jesús ekki að konan hefði engan rétt til að yfirgefa potta og pönnur um stund til að auka andlega þekkingu sína. Við það tækifæri valdi María „góða hlutskiptið“ með því að setja andleg mál á oddinn. (Lúkas 10:38-42) En fáeinum mánuðum síðar, eftir að bróðir þeirra dó, var það Marta, ekki María, sem sýndi meiri ákafa í að hitta meistarann. Það er mjög hrífandi enn þann dag í dag að lesa hið djúptæka, andlega samtal Jesú og Mörtu um upprisuvonina. (Jóhannes 11:20-27) Hvílík sérréttindi fyrir Mörtu.

Konur sem þjónuðu Jesú

4, 5. Hverjar fylgdu Jesú í þjónustu hans í Galíleu, auk postulanna, og hvernig þjónuðu þær honum?

4 Jesús þáði einnig þjónustu kvenna er hann ferðaðist um landið. Í guðspjalli sínu nefnir Markús ‚konur sem fylgdu Jesú og þjónuðu honum er hann var í Galíleu.‘ (Markús 15:40, 41) Hverjar voru þessar konur og hvernig þjónuðu þær Jesú? Við þekkjum þær ekki allar með nafni en Lúkas nafngreinir fáeinar og skýrir nánar á hvaða hátt þær þjónuðu Jesú.

5 Lúkas skrifar: „Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.“ (Lúkas 8:1-3) Jesús var fús til að láta þessar konur fylgja sér og nota eigur sínar til að fullnægja efnislegum þörfum hans og postula hans.

6. (a) Hverjar fylgdu Jesú á síðustu ferð hans til Jerúsalem? (b) Hverjar stóðu með Jesú allt til dauða hans og hvernig var sumum þeirra umbunað? (c) Hvað er eftirtektarvert við frásöguna í Jóhannesi 20:11-18 miðað við erfðavenjur Gyðingdómsins?

6 Er Jesús var líflátinn „voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. Meðal þeirra var María Magdalena, [og] María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs.“ (Matteus 27:55, 56) Margar trúfastar konur voru því viðstaddar er Jesús dó. Það er einnig eftirtektarvert að konur voru fyrstu vottarnir að upprisu hans. (Matteus 28:1-10) Það var í sjálfu sér áfall fyrir gyðinglega hefð því að innan Gyðingdómsins voru konur álitnar þess óverðugar að vera lögmæt vitni. Með það í huga skulum við lesa Jóhannes 20:11-18 og reyna að gera okkur í hugarlund djúpa geðshræringu Maríu Magdalenu er hinn upprisni meistari birtist henni, nefndi hana með nafni og notaði hana sem vott sinn til að skýra lærisveinunum frá að hann væri í raun lifandi!

Trúfastar kristnar konur eftir hvítasunnuna

7, 8. (a) Hvernig vitum við að konur voru viðstaddar er heilögum anda var úthellt á hvítasunnunni? (b) Hvernig áttu kristnar konur þátt í útbreiðslu kristninnar fyrst í stað?

7 Eftir uppstigningu Jesú til himna voru guðræknar konur viðstaddar ásamt hinum trúföstu postulum í loftstofunni í Jerúsalem. (Postulasagan 1:12-14) Augljóst er að konur voru meðal þeirra sem heilögum anda var úthellt yfir á hvítasunnunni. Hvers vegna? Vegna þess að þegar Pétur útskýrði hvað gerst hafði vitnaði hann í Jóel 3:1-5 þar sem sérstaklega er minnst á „dætur“ og „ambáttir.“ (Postulasagan 2:1, 4, 14-18) Andagetnar, smurðar kristnar konur voru því hluti kristna safnaðarins allt frá stofnsetningu hans.

8 Konur gegndu þýðingarmiklu, þó ekki ráðandi, hlutverki í útbreiðslu kristninnar. María, móðir Markúsar og frænka Barnabasar, átti greinilega stórt hús sem söfnuðurinn í Jerúsalem fékk til afnota. (Postulasagan 12:12) Og hún var fús til að gera þetta á þeim tíma þegar ný ofsóknaralda gegn kristnum mönnum var að skella á. (Postulasagan 12:1-5) Hinar fjórar dætur Filippusar trúboða fengu þau sérréttindi að vera kristnar spákonur. — Postulasagan 21:9; 1. Korintubréf 12:4, 10.

Viðhorf Páls til kvenna

9. Hvaða leiðbeiningar varðandi kristnar konur gaf Páll í fyrra bréfi sínu til Korintumanna og hvaða meginreglur Guðs var hann að hvetja konur til að virða?

9 Páll postuli er stundum sakaður um kvenhatur. Það var að vísu Páll sem undirstrikaði að konur ættu að virða sín takmörk innan kristna safnaðarins. Undir eðlilegum kringumstæðum áttu konur ekki að kenna á safnaðarsamkomum. (1. Korintubréf 14:33-35) Ef kristin kona talaði á samkomu, annaðhvort vegna þess að enginn kristinn karlmaður var viðstaddur eða vegna þess að hún spáði undir áhrifum heilags anda, átti hún að bera höfuðfat. Þetta höfuðfat var „tákn um yfirráð,“ sýnilegt merki þess að konan virti fyrirkomulag Guðs um yfirráð. — 1. Korintubréf 11:3-6, 10.

10. Um hvað hafa sumir sakað Pál postula en hvað sýnir að það er röng ásökun?

10 Páll taldi greinilega nauðsynlegt að minna frumkristna menn á þessar meginreglur guðveldisins til að allt gæti farið „sómasamlega fram og með reglu“ á safnaðarsamkomum. (1. Korintubréf 14:40) En merkir það að Páll hafi verið kvenhatari eins og sumir fullyrða? Nei, alls ekki. Var það ekki Páll sem sendi hlýjar kveðjur til níu kristinna kvenna í lokakafla bréfsins til Rómverjanna? Sýndi hann ekki að hann mæti mikils þær Föbe, Prisku (Priskillu), Trýfænu og Trýfósu og sagði að tvær hinar síðasttöldu hefðu „lagt hart á sig fyrir Drottin“? (Rómverjabréfið 16:1-4, 6, 12, 13, 15) Og var það ekki Páll sem skrifaði undir innblæstri: „Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ (Galatabréfið 3:27, 28) Páll greinilega elskaði og mat að verðleikum kristnar systur sínar, þeirra á meðal Lýdíu sem sýndi einstaka gestrisni á erfiðum tíma. — Postulasagan 16:12-15, 40; Filippíbréfið 4:2, 3.

Iðjusamar konur nú á dögum

11, 12. (a) Hvernig rætist Sálmur 68:12 bókstaflega á okkar dögum? (b) Í hvaða aðstöðu eru margar af kristnum systrum okkar og hvers vegna þarfnast þær ástúðar okkar og bæna?

11 Innan kristna safnaðarins nú á dögum eru margar kristnar konur sem ‚leggja hart á sig fyrir Drottin.‘ Talnaskýrslur sýna meira að segja að „konurnar sem sigur boða eru mikill her,“ því að þær mynda stærsta hluta þess vottahers sem Jehóva notar nú á tímum endalokanna. (Sálmur 68:12) Þessar dugmiklu kristnu konur hafa áunnið sér gott nafn með því að leggja sig fram um að rækja hlutverk sitt sem eiginkonur, mæður, bústýrur, fyrirvinnur og kristnir boðberar.

12 Margar þessara ágætu systra eiga menn sem ekki eru í trúnni. Þær þurfa að búa við það allan sólarhringinn. Sumar hafa lagt hart að sér svo árum skiptir að vera góðar eiginkonur, jafnhliða því að lifa eftir þeim kröfum sem Jehóva gerir til trúrra þjóna sinna. Það hefur ekki verið auðvelt en þær hafa verið þolgóðar og alltaf haldið í vonina um að menn þeirra mættu ‚vinnast orðalaust‘ vegna góðrar breytni kristinna eiginkvenna sinna. Og það er mikil gleði fyrir alla fjölskylduna þegar slíkur eiginmaður tekur trú! (1. Pétursbréf 3:1, 2) Uns það gerist þurfa þessar trúföstu systur sannarlega á bróðurástúð að halda og bænum annarra í söfnuðinum. Á sama hátt og hinn ‚hógværi og kyrrláti andi,‘ sem þær reyna að sýna, er ‚dýrmætur í augum Guðs,‘ eins er staðfesta þeirra og ráðvendni dýrmæt í okkar augum. — 1. Pétursbréf 3:3-6.

13. Hvers vegna má segja um brautryðjandasystur okkar að þær ‚leggi hart á sig fyrir Drottin‘ og hvernig ætti að líta á þær í söfnuðinum?

13 Systur í brautryðjandastarfi leggja svo sannarlega ‚hart á sig fyrir Drottin.‘ Margar þeirra þurfa að sjá um heimili, eiginmann og börn, auk prédikunarstarfsins. Sumar vinna úti hluta úr degi til að sjá fyrir sér. Allt þetta krefst góðrar skipulagningar, einbeitni, úthalds og mikils erfiðis. Þessar kristnu konur ættu að geta fundið fyrir kærleika og stuðningi þeirra sem ekki hafa aðstöðu til að skila brautryðjandatíma í boðunarstarfinu.

14. (a) Hvaða gott fordæmi um þrautseigju er nefnt hér? (b) Hvaða aðrar kristnar konur verðskulda hrós og hvers vegna? Nefndu staðbundin dæmi ef til eru.

14 Sumar kristnar konur hafa sýnt einstaka þrautseigju í brautryðjandaþjónustunni. Grace Lounsbury í Kanada kynntist brautryðjandastarfinu fyrst árið 1914. Árið 1918 þurfti hún að hætta sem brautryðjandi sökum veikinda, en árið 1924 var hún aftur komin í fulla þjónustu. Þegar þetta er skrifað er hún enn brautryðjandi þótt hún sé 104 ára að aldri! Margar trúboðssystur, sem hlutu fræðslu í fyrstu bekkjum biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, á fimmta áratugnum, þjóna enn trúfastar, annaðhvort úti á trúboðsakrinum eða sem meðlimir Betelfjölskyldunnar í Brooklyn eða við eitthvert af útibúum Varðturnsfélagsins. Allar þessar kristnu konur, og raunar allar systur sem leggja sig fram í Betelþjónustu, sýna fórnfúsan anda og eru góð fordæmi. Segjum við þeim einhvern tíma hve mikils við metum þær?

Eiginkonur farandumsjónarmanna

15, 16. Hvaða hópur kristinna kvenna verðskuldar sérstaklega hlýlegt hrós og hvers vegna?

15 Eiginkonur farandumsjónarmanna eru annar hópur kristinna kvenna sem verðskulda hlýlegt hrós og uppörvun. Þessar kæru systur eru reiðubúnar að fylgja eiginmönnum sínum er þeir ferðast frá einum söfnuði til annars, eða frá einu farandsvæði til annars, til að uppbyggja bræður sína andlega. Flestar þeirra fara á mis við þau þægindi sem fylgja því að eiga fast heimili; þær sofa í ókunnu rúmi í hverri viku og ekki alltaf í góðu rúmi. En þær þiggja með þökkum hvaðeina sem bræðurnir geta boðið þeim. Þær eru gott fordæmi andlegum systrum sínum.

16 Þessar kristnu konur veita mönnum sínum líka ómetanlegan stuðning, mjög líkt og hinar guðræknu konur sem ‚fylgdu Jesú og þjónuðu honum.‘ (Markús 15:41) Þær hafa ekki mikinn tíma til að vera einar með mönnum sínum sem hafa alltaf kappnóg að gera í verki Drottins. (1. Korintubréf 15:58) Sumar þeirra, líkt og Rosa Szumiga í Frakklandi sem hóf þjónustu í fullu starfi árið 1948, hafa verið að setja niður í töskur fyrir eiginmenn sína og ferðast með þeim í 30 eða 40 ár. Þær eru fúsar til að færa fórnir fyrir Jehóva og bræður sína og systur. Þær verðskulda þakklæti okkar, kærleika og bænir.

Eiginkonur öldunga

17, 18. (a) Hvaða eiginleika er krafist af eiginkonum bræðra sem skipaðir eru í þjónustustöður? (b) Hvaða fórnir eru eiginkonur öldungar fúsar til að færa Jehóva og bræðrum sínum og hvernig geta aðrar eiginkonur hjálpað eiginmönnum sínum?

17 Er Páll postuli tíundar hvaða kröfur eru gerðar til bræðra sem má útnefna öldunga og safnaðarþjóna, minnist hann einnig á konur og segir: „Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.“ (1. Tímóteusarbréf 3:11) Þessi almennu ráð eiga að sjálfsögðu við allar kristnar konur, en í ljósi samhengisins ættu eiginkonur bræðra, sem eru skipaðir til þjónustu, að sjálfsögðu að vera til fyrirmyndar í að fylgja þeim.

18 Það er ánægjulegt að þúsundir eiginkvenna kristinna umsjónarmanna gera það. Þær eru hófsamar í venjum og klæðaburði, taka kristilegt líf alvarlega, eru gætnar í orðum og reyna í einlægni að vera trúfastar í öllu. Þær eru líka fúsar til að færa fórnir og sætta sig við að eiginmenn þeirra þurfi að helga söfnuðinum tíma sem þeir annars myndu verja með þeim. Þessar trúföstu kristnu konur verðskulda ást okkar og uppörvun. Kannski gætu fleiri bræður sóst eftir sérréttindum innan hinna fjölmörgu safnaða okkar ef eiginkonur þeirra féllust í auðmýkt á að færa slíkar fórnir öðrum til góðs.

Trúfastar, aldraðar konur

19. Hvers vegna eru hinar mörgu trúföstu ‚öldruðu konur‘ mikils metnar í söfnuðum sínum og hvernig ættum við að hugsa um þær?

19 Í umfjöllun okkar um konur Biblíunnar höfum við séð að aldur kemur ekki í veg fyrir að trúuð kona þjóni Jehóva. Það sýndi sig í sambandi við Söru, Elísabetu og Önnu. Eins er það nú á dögum að til eru margar kristnar konur, sem komnar eru á efri ár, en eru gott fordæmi í trú og þolgæði. Auk þess geta þær á háttvísan veg stutt öldungana með því að hjálpa yngri systrunum. Vegna langrar lífsreynslu sinnar geta þær gefið yngri konum viturleg ráð eins og Ritningin heimilar þeim að gera. (Títusarbréfið 2:3-5) Stundum getur komið fyrir að öldruð systir þurfi sjálf að fá leiðbeiningar. Ef svo er ætti öldungurinn, sem veitir þær, að ‚áminna hana sem móður.‘ Öldungar ættu að „heiðra ekkjur“ og skipuleggja efnislega hjálp handa þeim ef þörf krefur. (1. Tímóteusarbréf 5:1-3, 5, 9, 10) Okkar ástkæru, öldruðu systur ættu sannarlega að finna að við þörfnumst þeirra og metum þær mikils.

Meðstjórnendur Krists

20. Hvaða einstæð sérréttindi hafa boðist mörgum kristnum konum og hvers vegna geta hinir aðrir sauðir fagnað því?

20 Það er augljóst af Ritningunni að „Guð fer ekki í manngreinarálit“ eftir kynþætti eða kynferði. (Rómverjabréfið 2:10, 11; Galatabréfið 3:28) Og það gildir einnig um það hvernig Jehóva útvelur þá sem eiga að ríkja með syni hans á himnum. (Jóhannes 6:44) Hinn mikli múgur annarra sauða getur verið innilega þakklátur fyrir að trúfastar konur, svo sem María móðir Jesú, María Magdalena, Priskilla, Trýfæna, Trýfósa og fjöldi annarra kvenna í frumkristna söfnuðinum, eiga nú aðild að stjórn Guðsríkis og auðga hana með næmum skilningi sínum á tilfinningum og aðstæðum kvenna! Það ber vott um elskuríka fyrirhyggju og visku af hálfu Jehóva! — Rómverjabréfið 11:33-36.

21. Hvaða tilfinningar berum við til kvennanna sem „hafa lagt hart á sig fyrir Drottin“?

21 Við getum tekið undir með Páli postula er hann talaði með ástúð og þakklæti um konurnar sem ‚börðust með honum við boðun fagnaðarerindisins.‘ (Filippíbréfið 4:3) Allir vottar Jehóva, karlar sem konur, álíta það gleðiefni og sérréttindi að starfa hlið við hlið ásamt hinum ‚mikla kvennaher sem flytur fagnaðarerindið,‘ já, ‚konunum sem leggja hart á sig fyrir Drottin.‘ — Sálmur 68:12; Rómverjabréfið 16:12.

Upprifjun

◻ Hvernig sýndi Jesús að hann var ekki haldinn sömu fordómum gagnvart konum og trúarleiðtogar Gyðinga?

◻ Hvernig þjónuðu guðhræddar konur Jesú og hvaða stórkostleg sérréttindi hlutu sumar þeirra?

◻ Hvaða leiðbeiningar gaf Páll varðandi konur á safnaðarsamkomum?

◻ Hvaða systrahópar verðskulda sérstaklega ástúð okkar og stuðning og hvers vegna?

◻ Hvernig ætti okkur að vera innanbrjósts gagnvart öllum þeim nútímakonum sem ‚leggja hart á sig fyrir Drottin‘?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Konur þjónuðu Jesú og postulum hans.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Fórnfúsar eiginkonur farandumsjónarmanna og annarra öldunga leggja verðmætt framlag til starfs Guðs.