Verið glaðir í voninni um Guðsríki!
Verið glaðir í voninni um Guðsríki!
„Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:12.
1. Hvers vegna getum við haft gleði af samfélaginu við Jehóva og hvað hvatti Páll kristna menn til að gera?
‚HINN sæli Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11) Þessi orð lýsa Jehóva sannarlega vel! Hvers vegna? Vegna þess að öll verk hans veita honum mikla hamingju. Með því að Jehóva er uppspretta alls þess sem gott er og gleðjandi geta allar skynsemigæddar sköpunarverur hans haft ánægju og gleði af samfélagi sínu við hann. Því var við hæfi að Páll postuli skyldi hvetja kristna menn til að meta að verðleikum hin gleðilegu sérréttindi að þekkja Jehóva Guð, að vera þakklát fyrir allar hinar stórkostlegu gjafir sköpunarverksins og að gleðjast í þeirri elskuríku góðvild sem hann sýnir þeim. Páll skrifaði: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — Filippíbréfið 4:4; Sálmur 104:31.
2. Hvaða von veitir mikla gleði og hvernig eru kristnir menn hvattir til að líta á þessa von?
2 Eru kristnir menn að fara eftir þessari áminningu Páls? Svo sannarlega! Andlegir bræður Jesú Krists fagna með honum í þeirri dýrlegu von sem Guð hefur veitt þeim. (Rómverjabréfið 8:19-21; Filippíbréfið 3:20, 21) Já, þeir vita að þeir munu eiga hlut í að uppfylla þessa stórfenglegu framtíðarvon manna, bæði lifandi og dauðra, með því að þjóna með Kristi í himneskri ríkisstjórn hans. Gerðu þér í hugarlund hve mjög þeir munu gleðjast yfir þeim sérréttindum að vera samerfingjar hans og þjóna sem konungar og prestar! (Opinberunarbókin 20:6) Það mun veita þeim mikla hamingju að hjálpa trúföstu mannkyni að öðlast fullkomleika og eiga þátt í að stjórna endurreisn paradísar hér á jörð! Svo sannarlega hafa allir þjónar Guðs ‚von um eilíft líf er sá Guð, sem ekki lýgur, hefur heitið frá eilífum tíðum.‘ (Títusarbréfið 1:2) Í ljósi þessarar stórfenglegu vonar hvatti Páll postuli alla kristna menn: „Verið glaðir í voninni.“ — Rómverjabréfið 12:12. *
Sönn gleði á sér rætur í hjartanu
3, 4. (a) Hvað merkir hugtakið „að gleðjast“ og hve oft ættu kristnir menn að gleðjast? (b) Hvað er sönn gleði og hverju er hún háð?
3 Að vera glaður merkir að finna til gleði og láta hana í ljós; það merkir ekki að vera í stöðugri sæluvímu eða kætiskasti. Hebresku og grísku sagnorðin, sem þýdd eru „gleði,“ „fögnuður“ og „ánægja“ í Biblíunni, túlka bæði hina innri kennd og hin ytri merki gleðinnar. Kristnir menn eru hvattir til að ‚vera glaðir‘ og ‚vera ætíð glaðir.‘ — 2. Korintubréf 13:11; 1. Þessaloníkubréf 5:16.
4 En hvernig er hægt að vera ætíð glaður? Það er hægt vegna þess að sönn gleði á sér rætur í hjartanu; hún er djúpstæður, andlegur innri eiginleiki. (5. Mósebók 28:47; Orðskviðirnir 15:13; 17:22) Hún er ávöxtur anda Guðs sem Páll telur upp strax á eftir kærleikanum. (Galatabréfið 5:22) Þar eð hún er innri eiginleiki er hún ekki háð ytri skilyrðum, ekki einu sinni bræðrum okkar. Hins vegar er hún háð heilögum anda Guðs og hún kemur til af þeirri djúpu, innri fullnægju sem fylgir því að vita sig hafa sannleikann, vonina um Guðsríki og vera að gera það sem þóknast Jehóva. Gleði er þess vegna ekki einungis persónueinkenni sem er okkur meðfætt; hún er hluti ‚nýja persónuleikans,‘ þess samsafns eiginleika sem einkenndu Jesú Krist. — Efesusbréfið 4:24; Kólossubréfið 3:10.
5. Hvenær og hvernig getur gleðin birst út á við?
5 Þótt gleði sé eiginleiki hjartans er eigi að síður hægt að sýna hana út á við þegar svo ber undir. Og hvernig birtist þá gleðin út á við? Hún getur sýnt sig sem friðsæll andlitssvipur og allt upp í gleðistökk. (1. Konungabók 1:40; Lúkas 1:44; Postulasagan 3:8; 6:15) Má þá skilja það svo að þeir séu ekki glaðir sem eru ekki sítalandi eða alltaf með gleðibros á vör? Nei! Sönn gleði birtist ekki í stöðugu masi, hlátri eða brosi. Aðstæður valda því að gleði birtist með ýmsu móti. Það er ekki gleðin ein sem gerir okkur geðfelld í Ríkissalnum heldur frekar bróðurást og kærleikur.
6. Hvers vegna geta kristnir menn alltaf glaðst er þeir standa frammi fyrir óþægilegum aðstæðum?
6 Hinn fasti þáttur gleðinnar er sá að hún er varanleg hið innra og er hjartgróinn hluti hins nýja persónuleika kristins manns. Það er það sem gerir honum mögulegt að vera alltaf glaður. Að sjálfsögðu getum við stundum verið óróleg út af einhverju eða staðið frammi fyrir óþægilegum aðstæðum. En við getum eftir sem áður haft gleði í hjartanu. Sumir frumkristnir menn voru þrælar og áttu sér húsbændur sem erfitt var að þóknast. Gátu slíkir kristnir menn alltaf verið glaðir? Já, vegna vonarinnar um Guðsríki og þeirrar gleði sem bjó í hjörtum þeirra. — Jóhannes 15:11; 16:24; 17:13.
7. (a) Hvað sagði Jesús um gleði í þrengingum? (b) Hvað hjálpar okkur að halda út í þrengingum og hver gaf besta fordæmið í því efni?
7 Strax eftir að Páll postuli sagði: „Verið glaðir í voninni,“ bætti hann við: „Þolinmóðir í þjáningunni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Jesús talaði líka um gleði í þrengingum er hann sagði í Matteusi 5:11, 12: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja . . . Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ Gleðin og fögnuðurinn, sem hér er talað um, þarf ekki að birtast út á við; hér er fyrst og fremst um að ræða hina djúpu, innri fullnægjukennd sem fylgir því að þóknast Jehóva og Jesú Kristi með því að vera staðfastur í þrengingum. (Postulasagan 5:41) Í rauninni er það gleði sem hjálpar okkur að halda út gegnum þrengingar. (1. Þessaloníkubréf 1:6) Í þessu efni gaf Jesús besta fordæmið. Ritningin segir okkur: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi.“ — Hebreabréfið 12:2.
Glaðst í voninni þrátt fyrir vandamál
8. Hvaða vandamálum getur kristinn maður átt í en hvers vegna ræna þau hann ekki gleði hans?
8 Það að vera þjónn Jehóva losar okkur ekki við öll vandamál. Við getum staðið frammi fyrir fjölskylduvandamálum, fjárhagsörðugleikum, heilsubresti eða ástvinamissi. Enda þótt slíkt geti haft sorg í för með sér kippir það ekki grundvellinum undan því að við fögnum í voninni um Guðsríki, það er að segja hinni innri gleði sem býr í hjörtum okkar. — 1. Þessaloníkubréf 4:13.
9. Hvaða vanda átti Abraham við að glíma og hvernig vitum við að hann hafði gleði í hjarta sér?
9 Lítum á Abraham sem dæmi. Lífið var honum ekki alltaf auðvelt. Hann átti við fjölskylduvandamál að glíma. Hjákonu hans, Hagar, og eiginkonu hans, Söru, samdi illa. Það voru deilur þeirra í milli. (1. Mósebók 16:4, 5) Ísmael gerði gys að Ísak og ofsótti hann. (1. Mósebók 21:8, 9; Galatabréfið 4:29) Loks dó ástkær eiginkona Abrahams. (1. Mósebók 23:2) Þrátt fyrir þessi vandamál gladdist hann yfir voninni um sæði Guðsríkis, afkvæmi Abrahams, sem allar fjölskyldur jarðar áttu að hljóta blessun fyrir. (1. Mósebók 22:15-18) Með gleði í hjarta sér hélt hann út í þjónustu Jehóva í meira en hundrað ár eftir að hann yfirgaf heimaborg sína, Úr. Þess vegna er skrifað um hann: „Hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ Sökum trúar Abrahams á hið komandi Messíasarríki gat Drottinn Jesús sagt er Guð hafði þegar útnefnt hann til að verða konungur: „Abraham . . . vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.“ — Hebrebréfið 11:10; Jóhannes 8:56.
10, 11. (a) Í hvaða baráttu eigum við sem kristnir menn og hvernig er okkur bjargað? (b) Hvað bætir upp vanhæfni okkar í því að heyja fullkomlega baráttuna gegn syndugu holdi okkar?
10 Sem ófullkomnir menn höfum við líka hið synduga hold að kljást við og baráttan að gera það sem rétt er getur reynt talsvert á okkur. En þótt við þurfum að berjast gegn veikleikum okkar merkir það ekki að við höfum ekki von. Páli leið illa út af þessari baráttu og hann sagði: „Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama? Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn!“ (Rómverjabréfið 7:24, 25) Vegna Jesú Krists og lausnargjaldsins, sem hann sá fyrir, er okkur borgið. — Rómverjabréfið 5:19-21.
11 Fórn Krists bætir upp vanhæfni okkar að heyja stríðið fullkomlega. Við getum glaðst yfir þessu lausnargjaldi vegna þess að það gerir okkur fært að hafa hreina samvisku og fá syndir okkar fyrirgefnar. Í Hebrebréfinu 9:14 talar Páll um „blóð Krists“ sem getur ‚hreinsað samvisku vora frá dauðum verkum.‘ Samviska kristinna manna þarf því ekki að vera þjökuð sektarkennd. Það, ásamt voninni sem við höfum, er sterkt afl í átt til gleði og hamingju. (Sálmur 103:8-14; Rómverjabréfið 8:1, 2, 32) Það að ígrunda von okkar uppörvar okkur öll til að heyja sigursæla baráttu.
Höfum vonina ofarlega í huga
12. Hvaða von geta smurðir kristnir menn íhugað?
12 Það er mikilvægt, bæði fyrir hinar andasmurðu leifar og hina aðra sauði, að hafa „von hjálpræðis“ síns í huga og bera hana sem verndarhjálm. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Smurðir kristnir menn geta ígrundað hin stórfenglegu sérréttindi að öðlast ódauðleika á himnum, hafa aðgang að Jehóva Guði og eiga persónulegt samfélag við hinn dýrlega gerða Jesú Krist og postulana og alla aðra af hinum 144.000 er hafa varðveitt ráðvendni sína í aldanna rás. Það er stórkostlega auðugt samfélag sem blasir við þeim!
13. Hvernig líta hinir smurðu, sem enn eru á jörðinni, á von sína?
13 Hvernig er hinum fáeinu smurðu, sem enn eru á jörðinni, innanbrjósts gagnvart von sinni um Guðsríki? Því má vel lýsa með orðum F. W. Franz, forseta Varðturnsfélagsins, sem lét skírast árið 1913: „Von okkar er örugg og hún mun rætast fullkomlega hjá hverjum einasta af hinum 144.000 meðlimum litlu hjarðarinnar og í ríkari mæli en við höfum getað ímyndað okkur. Við af leifunum, sem vorum á sjónarsviðinu árið 1914 þegar við bjuggumst við að fara öll til himna, höfum ekki misst sjónar á verðmæti þessarar vonar. Hún er okkur jafnmikilvæg og hún hefur alltaf verið og við metum hana því meir sem við þurfum að bíða lengur eftir henni. Hún er þess virði að bíða eftir henni, jafnvel þótt biðin tæki milljón ár. Ég met von okkar meira en nokkru sinni fyrr og vona að ég megi alltaf meta hana eins og vert er. Von litlu hjarðarinnar er einnig trygging fyrir því að von hins mikla múgs annarra sauða muni fara fram úr okkar glæstustu vonum, og óhugsandi er að hún bregðist. Þess vegna höfum við verið staðfastir fram til þessa dags og við ætlum að vera staðfastir uns Guð hefur sýnt og sannað að hann haldi sín ‚dýrmætu og háleitu fyrirheit.‘“ — 2. Pétursbréf 1:4; 4. Mósebók 23:19; Rómverjabréfið 5:5.
Glaðst núna í paradísarvoninni
14. Hvaða von þarf múgurinn mikli að hafa í huga?
14 Fagnandi trú tjáð með slíkum hætti vekur sterka gleðitilfinningu með þeim sem tilheyra hinum mikla múgi. (Opinberunarbókin 7:15, 16) Þeir þurfa að hafa hugfasta vonina um að lifa af Hamagedón. Já, hlakkið til þess að sjá Guðsríki upphefja alheimsdrottinvald Jehóva Guðs og helga hið dýrlega nafn hans með því að láta þrenginguna miklu koma sem mun hreinsa jörðina af þeim óguðlegu mönnum er djöfullinn hefur verið guð yfir. Hvílík gleði verður það að lifa af þá miklu þrengingu! — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 7:14.
15. (a) Hvaða lækningastarf vann Jesús er hann var á jörðinni og hvers vegna? (b) Hverjar verða heilsuþarfir þeirra sem lifa af Harmagedón og hvers vegna eru þær ólíkar þörfum þeirra sem fá upprisu?
15 Opinberunarbókin 7:17 segir um múginn mikla: „Lambið . . . mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ Þessi spádómur á sér andlega uppfyllingu núna en þeir sem lifa af Harmagedón munu sjá hann uppfyllast bókstaflega. Hvernig þá? Nú, hvað gerði Jesús þegar hann var á jörðinni? Hann læknaði sjúka, lét halta ganga, opnaði eyru daufra og eyru blindra og læknaði holdsveiki, lömun og „hvers kyns sjúkdóm og veikindi.“ (Matteus 9:35; 15:30, 31) Er það ekki það sem kristnir menn nú á tímum þarfnast? Múgurinn mikli mun bera kvilla og krankleika gamla heimsins með sér inn í nýja heiminn. Hvað væntum við að lambið muni gera við því? Þarfir þeirra sem lifa af Harmagedón verða mjög ólíkar þörfum þeirra sem hljóta upprisu. Hinir upprisnu verða líklega endurskapaðir með heilan, heilbrigðan og hraustan líkama, þótt þeir búi ekki enn yfir mannlegum fullkomleika. Vegna þess kraftaverks sem upprisan er þarfnast þeir bersýnilega ekki undraverðrar lækningar til að lækna kvilla sem þeir voru haldnir áður. Á hinn bóginn munu margir af hinum mikla múgi þarfnast og hljóta undraverða lækningu, vegna þeirrar einstæðu reynslu sinnar að lifa af Harmagedón. Auðsætt er að tilgangurinn að baki lækningum Jesú var að stórum hluta sá að uppörva hinn mikla múg með þeirri gleðilegu framtíðarsýn að hann myndi ekki aðeins lifa af heldur einnig hljóta lækningu eftir það.
16. (a) Hvenær og með hvaða árangri geta þeir sem lifa af Harmagedón hlotið lækningu? (b) Í hvaða von munum við halda áfram að gleðjast í þúsundáraríkinu?
16 Rökrétt er að slík undraverð lækning eigi sér stað skömmu eftir Harmagedónstríðið meðal þeirra sem lifa það af, og allnokkru áður en upprisan hefst. (Jesaja 33:24; 35:5, 6; Opinberunarbókin 21:4; samanber Markús 5:25-29.) Þá mun fólk kasta frá sér gleraugum, göngustöfum, hækjum, hjólastólum, gervitönnum, heyrnartækjum og því um líku. Það verður mikið fagnaðarefni! Slík lækning af hendi Jesú snemma í þúsundáraríkinu samræmist vel hlutverki þeirra er lifa af Harmagedón sem grundvöllur hinnar nýju jarðar! Bæklandi mein verða þurrkuð út þannig að hinir eftirlifandi geti sótt fram með þrótti og horft með ákefð fram veginn til hins stórkostlega starfs Guðsríkis sem framundan er, en þurfi ekki að láta þá kvilla, sem gamli heimurinn hefur gefið þeim, draga úr sér þrótt. Og út í gegnum allt þúsundáraríkið munu þeir fagna í þeirri von að ná algjörleika fullkomins mannlífs við lok þúsund áranna.
17. Hvaða gleði mun falla okkur í skaut er endurreisn paradísar heldur áfram?
17 Ef það er von þín, hugleiddu þá einnig gleðina samfara því að eiga hlutdeild í endurreisn paradísar á jörð. (Lúkas 23:42, 43) Enginn vafi leikur á að þeir sem lifa af Harmagedón munu taka þátt í að hreinsa jörðina og búa þannig hinum dánu, sem reistir verða upp, notalegt umhverfi. Í staðinn fyrir jarðarfarir verða kannski haldnar móttökuhátíðir til að bjóða velkomna þá sem reistir eru upp, þeirra á meðal ástvini okkar sem dáið hafa. Og hugsaðu þér hve auðgandi það verður að eiga félagsskap við trúfasta karla og konur liðinna alda. Hvern langar þig sérstaklega til að tala við? Abel, Enok, Nóa, Job, Abraham, Söru, Ísak, Jakob, Jósef, Móse, Jósúa, Rahab, Debóru, Samson, Davíð, Elía, Elísa, Jeremía, Eskekíel, Daníel eða Jóhannes skírara? Þá eru þessar framtíðarhorfur einnig hluti af von þinni. Þú munt geta rætt við þessa einstaklinga, lært af þeim og unnið með þeim að því að breyta allri jörðinni í paradís.
18. Hvaða aðra gleði getum við ígrundað?
18 Hugsaðu líka um heilnæmu fæðuna, hreina vatnið og tæra loftið sem jörðin mun hafa upp á að bjóða þegar vistkerfi hennar endurheimtir aftur hið fullkomna jafnvægi sem Jehóva áskapaði henni í upphafi. Menn munu ekki njóta fullkomleika aðeins um stuttan tíma heldur verður lífið virk og tilgangsrík þátttaka í gleðilegu starfi. Sjáðu fyrir þér samfélag manna um víða veröld þar sem ekki verða glæpir, eigingirni, afbrýði eða deildur — bræðralag þar sem allir rækta og bera ávöxt andans. Það er hrífandi! — Galatabréfið 5:22, 23.
Von sem gerir lífið þess virði að lifa því
19. (a) Hvenær á gleðin, sem nefnd er í Rómverjabréfinu 12:12, að falla okkur í skaut? (b) Hvers vegna ættum við að vera staðráðin í að láta ekki byrðar lífsins ryðja voninni úr vegi?
19 Von sem hefur ræst er ekki lengur von, þannig að gleðin, sem Páll hvatti til í Rómverjabréfinu 12:12, er gleði sem okkur er ætlað að njóta núna. (Rómverjabréfið 8:24) Það eitt að hugsa um þá framtíðarblessun, sem Guðsríki mun koma til leiðar, er okkur gleðiefni. Vertu því staðráðinn í að leyfa ekki byrðum lífsins í spilltum heimi að víkja hinni dýrlegu von þinni til hliðar. Gættu þess að verða ekki lúinn og uppgefinn þannig að þú missir sjónar á voninni framundan. (Hebreabréfið 12:3) Það að yfirgefa hina kristnu lífsbraut mun ekki leysa vandamál þín. Mundu að hætti einhver að þjóna Guði vegna allra byrða lífsins, sem hvíla á honum núna, situr hann enn uppi með þessar byrðar, en glatar auk þess voninni og missir þannig tækifærið til að gleðjast yfir hinni dýrlegu framtíðarsýn.
20. Hvaða áhrif hefur vonin um Guðsríki á þá sem tileinka sér hana og hvers vegna?
20 Þjónar Jehóva hafa ærna ástæðu til að njóta lífshamingju. Hin bjarta og örvandi von gerir lífið þess virði að lifa því. Og þeir hafa ekki þessa gleðiríku von aðeins fyrir sjálfa sig. Nei, þeim er kappsmál að veita öðrum hlutdeild í henni. (2. Korintubréf 3:12) Þess vegna eru þeir sem tileinka sér vonina um Guðsríki öruggir með sig og þeir leitast við að uppörva aðra með því að segja þeim frá fagnaðarerindi Guðs. Það fyllir líf þeirra sem taka við boðskapnum með stórkostlegustu von sem mannkyninu í heild hefur nokkru sinni verið gefin — voninni um að Guðsríki muni endurreisa paradís á jörð. Þótt fólk taki ekki við henni höldum við samt sem áður áfram að gleðjast vegna þess að við höfum vonina. Þeir sem ekki hlusta tapa, ekki við. — 2. Korintubréf 4:3, 4.
21. Hvað er í nánd og hvernig ættum við að meta von okkar?
21 Fyrirheit Guðs er þetta: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ (Opinberunarbókin 21:5) Nýi heimurinn með öllum sínum hrífandi og endalausu blessunum er í nánd. Von okkar — um líf á himni eða jörð sem verður paradís — er dýrmæt; haltu því fast í hana. Á þessum örðugu síðustu dögum skaltu meira en nokkru sinni fyrr líta á hana eins og „akkeri sálarinnar, traust og öruggt.“ Með von okkar byggða tryggilega á Jehóva, hinu ‚eilífa bjargi,‘ höfum við sterka og örvandi ástæðu til að ‚fagna í voninni‘ um það sem framundan er. — Hebreabréfið 6:19; Jesaja 26:4.
[Neðanmáls]
^ Árið 1992 munu vottar Jehóva um heim allan hafa eftirfarandi ritningargrein sem árstexta: „Verið glaðir í voninni . . . staðfastir í bæninni.“ — Rómverjabréfið 12:12.
Upprifjun
◻ Hver er hin mikla von mannkynsins?
◻ Hvað er sönn gleði?
◻ Hvenær er líklegt að þeir sem lifa af Harmagedón muni læknast með undraverðum hætti?
◻ Hvers vegna ættum við ekki að láta byrðar lífsins víkja von okkar úr vegi?
◻ Hvaða gleði hlakkar þú til í nýja heiminum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 21]
Myndi það ekki fylla þig gleði að verða vitni að þess konar lækningum sem Jesús áorkaði?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Þeir sem gleðjast yfir Guðsríki uppörva aðra með því að segja frá von sinni.