Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öldungar — Leiðréttið aðra mildilega

Öldungar — Leiðréttið aðra mildilega

Öldungar — Leiðréttið aðra mildilega

HJARTA sannkristins má líkja við andlegan garð sem gefur góðan ávöxt. Þar blómgast eðlilega kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn. Og hví ekki? Þegar allt kemur til alls eru þetta ávextir heilags anda sem Jehóva Guð gefur vígðum þjónum sínum. (Galatabréfið 5:22, 23) Eigi að síður verður sérhver kristinn maður, sem þráir að viðhalda garði hjarta síns þannig að hann gleðji himneskan föður hans, að heyja harða og stöðuga baráttu gegn illgresi hinnar arfgengu syndar. — Rómverjabréfið 5:5, 12.

Af og til byrjar eitthvað óæskilegt að vaxa í ófullkomnu hjarta guðrækins manns. Lífsferill hans sem kristins manns hefur kannski verið óaðfinnanlegur. En þá kemur upp eitthvert vandamál sem hugsanlega á rætur sínar að rekja til óheilnæms félagsskapar eða óskynsamlegrar ákvörðunar. Hvernig geta öldungar safnaðarins hjálpað slíkum manni andlega?

Postulleg ráð

Þegar öldungar hjálpa kristnum manni, sem hefur syndgað, þurfa þeir að fylgja leiðbeiningum Páls postula: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann [„þótt maður stígi óvart víxlspor,“ NW], þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ (Galatabréfið 6:1) Þegar trúbróðir ‚stígur óvart víxlspor‘ er það ábyrgð öldunganna að bjóða fram hjálp sína eins fljótt og hægt er.

Páll talar um „mann“ sem verður á misgjörð en gríska orðið anþropos, sem hér er notað, getur átt bæði við karl og konu. Og hvað merkir það að ‚leiðrétta‘ annan mann? Þetta gríska orð, katartizo, merkir „að færa í rétt horf.“ Sama orð er notað um að gera við net. (Matteus 4:21) Það er líka notað um að lagfæra beinbrot. Læknir gerir það af ítrustu varfærni til að valda ekki sjúklingi sínum óþörfum sársauka. Eins þarf mikla gætni, háttvísi og samkennd til að hjálpa bróður eða systur að leiðrétta andlega stefnu sína.

Öldungarnir sýna að þeir hafi sjálfir andlegt hugarfar með því að vera mildir þegar þeir reyna að leiðrétta aðra. Jesús var mildur í lund og tæki vissulega með mildi á slíkum málum. (Matteus 11:29) Öldungar ættu að láta þennan eiginleika í ljós í samskiptum við þjón Jehóva sem hefur stigið víxlspor, vegna þess að þeir eru ekki sjálfir yfir það hafnir að geta syndgað, þrátt fyrir góðan vilja í hjarta sér. Það getur átt eftir að gerast, ef það hefur ekki þegar gerst í fortíðinni.

Þessir andlega hæfu menn ættu á kærleiksríkan hátt að ‚bera byrðar‘ trúbræðra sinna. Öldungum er það hjartans mál að hjálpa bróður eða systur að berjast gegn Satan, freistingum, veikleikum holdsins og álagi syndarinnar. Það er vissulega ein leið fyrir kristna umsjónarmenn til að ‚uppfylla lögmál Krists.‘ — Galatabréfið 6:2.

Menn, sem eru andlegir, það er að segja hafa til að bera ósvikna andlega hæfileika, eru auðmjúkir og gera sér grein fyrir að „sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.“ (Galatabréfið 6:3) Hversu hart sem öldungarnir leggja að sér að reyna að gera það sem er rétt og hjálplegt ná þeir ekki að líkja algerlega eftir hinum fullkomna, umhyggjusama og elskuríka syni Guðs, Jesú Kristi. En það gefur þeim enga ástæðu til að gera ekki sitt besta.

Öldungar vita að það væri rangt að fordæma trúbróður sinn með yfirlæti og og láta eins og þeir séu heilagri en hann. Það myndi Jesús aldrei gera. Hann lagði líf sitt í sölurnar ekki aðeins fyrir vini sína heldur meira að segja óvini! Öldungar gera sér far um að sýna sams konar kærleika þegar þeir reyna að hjálpa bræðrum eða systrum úr erfiðleikum og færa þau nær himneskum föður sínum og réttlátum stöðlum hans. Hvað getur hjálpað öldungunum að leiðrétta trúbræður sína?

Nokkur hagnýt ráð

Biðjið til Jehóva, reiðið ykkur á hann og verið mildir bæði í orðum og athöfnum. Jesús var mildur í lund, bað himneskan föður sinn ákaft um leiðsögn og gerði alltaf það sem var honum þóknanlegt. (Matteus 21:5; Jóhannes 8:29) Öldungar ættu að gera það líka þegar þeir reyna að leiðrétta þann sem orðið hefur eitthvað á. Öldungur, sem er mildur undirhirðir, er uppörvandi og uppbyggjandi í tali en ekki yfirgangssamur og niðrandi. Meðan samtalið fer fram reynir hann að skapa slíkt andrúmsloft að sá sem er hjálparþurfi eigi eins auðvelt með að tjá hugsanir sínar og frekast er kostur. Innileg bæn í upphafi samtalsins er mikil hjálp til þess. Sá sem gefnar eru leiðbeiningar á mildilegan hátt opnar frekar hjarta sitt ef hann veit að ráðgjafinn vill, eins og Jesús, gera það sem gleður Guð. Bæn í lok samtalsins er líkleg til að innprenta einstaklingnum nauðsyn þess að fara eftir þeim ráðum sem honum hafa verið gefin á kærleiksríkan og mildilegan hátt.

Hrósið einstaklingnum einlæglega eftir bænina. Kannski er hægt að hrósa honum fyrir góða eiginleika, svo sem góðvild, áreiðanleika eða iðjusemi. Minnast mætti á trúfasta þjónustu hans við Jehóva, ef til vill um langt árabil. Þannig sýnum við að okkur eru umhugað um einstaklinginn og að við berum umhyggju fyrir honum eins og Kristur. Jesús hóf boðskap sinn til safnaðarins í Þýatíru með hrósi og sagði: „Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.“ (Opinberunarbókin 2:19) Þessi orð fullvissuðu meðlimi safnaðarins um að Jesú væri kunnugt um góð verk þeirra. Þótt söfnuðurinn hefði sína galla —hann umbar ‚Jessabelaráhrif‘ — gerði hann samt vel að öðru leyti, og Jesús vildi að þessir bræður og systur vissu að tekið hefði verið eftir kostgæfu starfi þeirra. (Opinberunarbókin 2:20) Á líkan hátt ættu öldungarnir að hrósa fyrir það sem er hrósunarvert.

Takið ekki harðar á misgerð en nauðsyn krefur. Öldungarnir verða að venda hjörð Guðs og halda skipulagi hans hreinu. Einn eða tveir öldungar geta þó tekið á sumum andlegum víxlsporum, sem kalla á alvarlegar leiðbeiningar, án þess að kalla þurfi til dómnefnd. Í mörgum tilvikum er það mannlegur veikleiki en ekki vísvitandi illska sem liggur misgerðinni að baki. Öldungar ættu að meðhöndla hjörðina mildilega og muna þetta: „Dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.“ (Jakobsbréfið 2:13; Postulasagan 20:28-30) Í stað þess að gera mikið úr málinu ættu öldungarnir að vera mildir í framkomu við iðrunarfullan trúbróður, líkt og umhyggjusamur og miskunnsamur Guð okkar, Jehóva. — Efesusbréfið 4:32.

Sýnið skilning á því sem kann að hafa leitt til misgerðarinnar. Öldungar þurfa að hlusta með athygli þegar trúbróðir þeirra úthellir hjarta sínu. Úr því að ‚Guð fyrirlítur ekki sundurmarið og sundurkramið hjarta‘ ættu þeir ekki að gera það heldur. (Sálmur 51:19) Kannski má rekja vandamálið til þess að maki hans styður hann ekki tilfinningalega. Alvarlegt og langvinnt þunglyndi getur hafa veikt tilfinningalegan þrótt einstaklingsins eða gert honum afar erfitt að taka viturlegar ákvarðanir. Kærleiksríkir öldungar taka tillit til slíks, því að enda þótt Páll hafi hvatt bræður sína til að ‚vanda um við þá sem óreglusamir eru‘ bætti hann við: „Hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Enda þótt öldungar ættu ekki að draga úr krafti hinna réttlátu staðla Guðs ættu þeir að taka tillit til mildandi aðstæðna eins og Guð gerir. — Sálmur 103:10-14; 130:3.

Forðist að grafa undan sjálfsvirðingu trúbróður ykkar. Við viljum aldrei ræna nokkurn bróður eða systur mannlegri reisn sinni eða láta líta svo út að hann eða hún sé einskis virði. Þess í stað ættum við að fullvissa einstaklinginn um að við treystum á kristna eiginleika hans og kærleika til Guðs; það hvetur hann til að leiðrétta mistök sín. Trúlega hefur það hvatt Korintumenn til að vera örlátir er Páll sagði þeim að hann hefði hrósað þeim við aðra fyrir ‚áhuga‘ þeirra og „góðan vilja“ í þessu efni. — 2. Korintubréf 9:1-3.

Sýnið að hægt sé að leysa vandamálið með því að treysta á Jehóva. Já, reynið í einlægni að hjálpa einstaklingnum að sjá að það að treysta á Guð og fara eftir leiðbeiningum orðs hans geti stuðlað að nauðsynlegri breytingu. Til að ná því markmiði verða orð okkar að byggjast á Biblíunni og biblíuritum. Markmið okkar er tvíþætt: (1) að hjálpa þeim sem er hjálparþurfi að sjá og skilja sjónarmið Jehóva og (2) að sýna honum hvernig hann hafi að einhverju marki litið fram hjá eða vanrækt að fylgja þessum leiðbeiningum Guðs.

Samtvinnið heilræði Ritningarinnar vingjarnlegum en þó markvissum spurningum. Það getur reynst mjög áhrifaríkt til að ná til hjartans. Fyrir milligöngu spámannsins Malakí varpaði Jehóva fram spurningum til að koma þjóð sinni í skilning um að hún hefði farið út á villigötur. „Á maðurinn að pretta Guð?“ spurði hann og bætti svo við: „Þér prettið mig.“ (Malakí 3:8) Það að Ísraelsmenn vanræktu að greiða tíunda hluta uppskeru sinnar, eins og krafist var samkvæmt Móselögunum, jafngilti því að pretta Jehóva. Til að bæta úr því urðu Ísraelsmenn að rækja skyldur sínar í sambandi við hreina guðsdýrkun, í trausti þess að Guð myndi blessa þá ríkulega. Með tillitssömum spurningum, sem örva hugsunina, geta öldungar einnig lagt áherslu á að það að gera rétt nú á dögum feli í sér að treysta himneskum föður okkar og hlýða honum. (Malakí 3:10) Nái sú hugsun til hjartans stuðlar það mjög að því að hjálpa bræðrum okkar að ‚láta fætur sína feta beinar brautir.‘ — Hebreabréfið 12:13.

Leggið áherslu á kostina sem fylgja því að fara eftir leiðbeiningunum. Áhrifaríkar leiðbeiningar fela í sér bæði áminningu um afleiðingar þess að fylgja rangri stefnu og um kostina sem fylgja því að leiðrétta það sem þarf. Eftir tímabæra aðvörun fullvissaði Jesús þá sem tilheyrðu hinum andlega sinnulausa söfnuði í Laódíkeu um að þeir myndu njóta einstæðra sérréttinda, meðal annars vonarinnar um að ríkja með honum á himnum, ef þeir iðruðust sinnar fyrri, röngu stefnu og yrðu kostgæfir lærisveinar. — Opinberunarbókin 3:14-21.

Hafið áhuga á því hvort leiðbeiningunum er fylgt. Góður læknir fylgist af og til með því hvort brotið bein, sem hann hefur sett saman, sé enn í réttum skorðum. Á sama hátt ættu öldungarnir að reyna að fylgjast með því hvort farið er eftir biblíulegum ráðum. Þeir gætu spurt sig: Er frekari hjálpar þörf? Ætti að endurtaka leiðbeiningarnar, kannski með öðrum orðum? Jesús þufti að leiðbeina lærisveinum sínum margsinnis um nauðsyn þess að vera auðmjúkir. Um alllangt skeið reyndi hann þolinmóður að leiðrétta hugsun þeirra með leiðbeiningum, líkingum og áþreifanlegum dæmum. (Matteus 20:20-28; Markús 9:33-37; Lúkas 22:24-27; Jóhannes 13:5-17) Á hliðstæðan hátt geta öldungar fylgt leiðbeiningum sínum eftir með biblíulegum umræðum og stuðlað þannig að því að bróðir eða systir leiðrétti stefnu sína fullkomlega. Þannig geta þeir hjálpað einstaklingnum að ná aftur fullri andlegri heilsu.

Hrósið fyrir allar þær framfarir sem verða. Ef sá sem steig víxlspor reynir í einlægni að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar verðskuldar hann hlýlegt hrós. Það mun styrkja hinar upphaflegu leiðbeiningar og líklega hvetja til enn meiri framfara. Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna var Páll tilneyddur að koma með mjög ákveðnar leiðbeininar í sambandi við ýmis mál. Skömmu eftir að Títus skýrði postulanum frá hinum ágætu viðtökum, sem bréfið fékk, skrifaði hann þeim annað bréf til að hrósa þeim. „Nú er ég glaður,“ sagði hann, „ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi.“ — 2. Korintubréf 7:9.

Gleðiefni

Já, Páll gladdist þegar hann frétti að leiðbeiningar hans hefðu hjálpað Korintumönnum. Á svipaðan hátt er það nútímaöldungum mikið gleðiefni þegar trúbróðir þeirra nær sér eftir mistök sem honum urðu á, vegna þess að hann bregst jákvætt við kærleiksríkri aðstoð þeirra. Þeir geta svo sannarlega haft ánægju af því að hjálpa iðrunarfullum kristnum manni að uppræta þyrnótt illgresi syndarinnar úr hjarta sér þannig að ávöxtur Guði að skapi geti dafnað þar ríkulega.

Ef öldungunum tekst að leiðrétta einstakling, sem hefur stigið víxlspor, er honum snúið af braut sem gæti kostað hann algert andlegt skipbrot. (Samanber Jakobsbréfið 5:19, 20.) Sá sem þiggur slíka hjálp ætti að þakka Jehóva Guði fyrir hana. Það væri einnig við hæfi að hann tjáði öldungunum þakklæti sitt fyrir elskuríka hjálp þeirra, umhyggju og skilning. Og þegar hann hefur náð fullum andlegum bata geta allir sem hlut áttu að máli fagnað því að leiðréttingunni skuli hafa verið komið mildilega til vegar.