Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hin aldalanga barátta góðs og ills

Hin aldalanga barátta góðs og ills

Hin aldalanga barátta góðs og ills

Í KVIKMYNDUM hér áður fyrr sigruðu „góðu kallarnir“ alltaf hið illa. En veruleikinn hefur aldrei verið svona einfaldur. Í heimi veruleikans virðist hið illa allt of oft hafa undirtökin.

Uggvænlegar fréttir af vonskuverkum eru fastur þáttur kvöldfréttanna. Í Milwaukee í norðurhluta Bandaríkjanna myrðir maður 11 manns og safnar lemstruðum líkamsleifum þeirra í frysti hjá sér. Suður í Texas ekur ókunnur maður inn í veitingahús og hefur skothríð á hvern sem fyrir er. Eftir tíu mínútur liggja 23 í valnum, þeirra á meðal hann sjálfur. Andstæðingur votta Jehóva í Kóreu kveikir í Ríkissal þeirra með þeim afleiðingum að 14 tilbiðjendur farast.

Auk þessara fyrirvaralausu ofbeldisverka er heimurinn oft felmtri sleginn yfir öðrum hræðilegum illskuverkum — þjóðarmorðum eða skipulagðri útrýmingu. Reiknað hefur verið út að ein milljón Armena, sex milljónir Gyðinga og yfir ein milljón Kambódíumanna hafi verið drepnar í kynþáttahreinsunum og pólitískum hreinsunum aðeins á þessari öld. Svokallaðar þjóðernishreinsanir hafa kostað marga lífið þar sem áður hét Júgóslavía. Enginn veit hve margar milljónir saklausra manna hafa verið pyndaðar grimmilega um heim allan.

Harmleikir eins og þessir neyða okkur til að horfast í augu við spurningu sem veldur okkur óróa: Hvers vegna hegðar fólk sér svona? Við getum ekki látið eins og þessi hermdarverk séu einungis verk fáeinna vitfirringa. Umfang þeirra illskuverka, sem hafa átt sér stað á okkar öld, sýnir að slík skýring fær ekki staðist.

Illvirki er verknaður sem er siðferðilega rangur. Það er verk einhvers sem getur valið milli þess að gera gott og illt. Einhvern veginn brenglast siðferðisvitund hans og hið illa sigrar. En hvers vegna gerist það og hvernig?

Trúarlegar skýringar á tilvist hins illa eru oft ófullnægjandi. Kaþólski heimspekingurinn Tómas frá Aquino fullyrti að „margt gott myndi hverfa ef Guð leyfði enga illsku.“ Margir heimspekingar mótmælenda eru sama sinnis. Til dæmis, eins og fram kemur í The Encyclopædia Britannica, áleit Gottfried Leibniz að hið illa væri „aðeins mótvægi hins góða í heiminum sem það eykur við andstæðuna.“ Með öðrum orðum áleit hann að hið illa sé einmitt það sem vantaði til að við kunnum að meta hið góða. Þetta er áþekk rökfærsla og að segja krabbameinssjúklingi að veikindi hans séu nauðsynleg til að einhver annar geti fundið að hann sé fullhraustur og sprelllifandi.

Ill áform hljóta að koma einhvers staðar frá. Eru þau óbeint Guði að kenna? Biblían svarar: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ Ef Guð ber ekki ábyrgð á því, hver þá? Versið á eftir svarar: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd.“ (Jakobsbréfið 1:13-15) Þannig fæðist illskuverk þegar gælt er við löngun til að gera illt í stað þess að uppræta hana. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Biblían segir að illar langanir komi upp vegna grundvallarveilu í manninum — ófullkomleika sem er honum meðfæddur. Páll postuli skrifaði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Vegna arfgengrar syndar getur eigingirni mátt sín meira í hugsun okkar en góðvild, og grimmd meira en gæska.

Flestir vita auðvitað ósjálfrátt að ákveðin hegðun er röng. Samviska þeirra — ‚lögmálið sem er ritað í hjörtu þeirra‘ eins og Páll orðaði það — letur þá þess að vinna ill verk. (Rómverjabréfið 2:15) Miskunnarlaust umhverfi getur hins vegar bælt niður slíkar tilfinningar og samviskan getur orðið óvirk ef rödd hennar er sífellt þögguð niður. * — Samanber 1. Tímóteusarbréf 4:2.

Getur mannlegur ófullkomleiki einn og sér skýrt skipulögð illvirki á okkar tímum? Sagnfræðingurinn Jeffrey Burton Russell sagði: „Að vísu býr eitthvað illt með okkur öllum, en jafnvel þótt við leggjum saman ótalmörg einstaklingsbundin illvirki megna þau ekki að skýra Auschwitz [fangabúðir nasista í Póllandi] . . . Illvirki af þessari stærðargráðu virðast af öðrum toga, bæði hvað varðar umfang og eðli.“ Það var enginn annar en Jesús Kristur sem sýndi fram á hver væri uppspretta þessarar illsku sem er að eðli til ólík annarri illsku.

Skömmu fyrir dauða sinn sagði Jesús að mennirnir, sem voru að leggja á ráðin um að drepa hann, væru ekki að því aðeins af eigin hvötum. Ósýnilegt afl stýrði þeim. Jesús sagði þeim: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum.“ (Jóhannes 8:44) Djöfullinn, sem Jesús kallaði ‚höfðingja þessa heims,‘ á greinilega stóran þátt í að kynda undir illsku. — Jóhannes 16:11; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Bæði mannlegur ófullkomleiki og áhrif Satans hafa valdið miklum þjáningum um þúsundir ára. Og þess sjást engin merki að tök þeirra á mannkyninu séu að slakna. Er illskan komin til að vera eða munu góðu öflin yfirbuga hana að lokum?

[Neðanmáls]

^ Rannsóknarmenn hafa nýverið fundið samband milli grófs ofbeldis í sjónvarpi og unglingaglæpa. Tíð afbrot í byggðarlaginu og sundraðar fjölskyldur stuðla einnig að andfélagslegri hegðun. Linnulaus áróður á nasistatímanum í Þýskalandi, sem ól á kynþáttahatri, kom sumum til að réttlæta — og jafnvel dásama — grimmdarverk gegn Gyðingum og Slöfum.

[Mynd/Credit Line á blaðsíðu 3]

Ljósmynd: Bandaríkjaher.