Uppbyggið hver annan
Uppbyggið hver annan
„Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:29.
1, 2. (a) Hvers vegna má réttilega segja að málið sé undur? (b) Hvaða varúðar þarf að gæta í sambandi við notkun tungunnar?
„MÁLIÐ er sá töfraþráður sem bindur vini, fjölskyldur og þjóðfélög saman . . . Með hjálp hugans og með samtilltum vöðvasamdrætti [tungunnar] myndum við hljóð sem vekja ást, öfund, virðingu — já, sérhverja mannlega kennd.“ — Hearing, Taste and Smell.
2 Við notum tunguna til fleiri hluta en aðeins að kyngja og bragða; hún hjálpar okkur líka að tjá hugsanir okkar og tilfinningar. „Tungan [er] lítill limur,“ skrifaði Jakob. „Með henni vegsömum vér [Jehóva] vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs.“ (Jakobsbréfið 3:5, 9) Já, við getum notað tunguna til góðs, svo sem til að vegsama Jehóva, en með því að við erum ófullkomin getum við hæglega notað tunguna til að tala það sem er skaðlegt eða neikvætt. Jakob skrifaði: „Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.“ — Jakobsbréfið 3:10.
3. Hvaða tveim hliðum á tali okkar ættum við að gefa gaum?
3 Þótt enginn maður geti stjórnað tungu sinni fullkomlega ættum við svo sannarlega að leggja okkur fram við að bæta okkur. Páll postuli ráðleggur okkur: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Tökum eftir að þessi fyrirmæli eru tvíþætt: Þau nefna það sem við ættum að forðast og það sem við ættum að reyna að gera. Við skulum skoða báða þættina.
Forðastu skaðleg orð
4, 5. (a) Hvaða baráttu verða kristnir menn að heyja gegn ljótum munnsöfnuði? (b) Hvaða mynd gæti hæft orðalaginu „skaðlegt orð“?
4 Efesusbréfið 4:29 hvetur okkur fyrst: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni.“ Það getur verið nokkuð erfitt. Ein ástæðan er sú að ljótur munnsöfnuður er gríðarlega algengur í heiminum umhverfis okkur. Mörg kristin ungmenni heyra blót og formælingar daglega því að skólafélagarnir hugsa kannski sem svo að þannig kryddi þeir mál sitt eða séu karlar í krapinu. Við getum kannski ekki komist með öllu hjá því að heyra ljótt orðbragð en við bæði getum og ættum að leggja okkur fram um að tileinka okkur það ekki. Það á ekki heima í huga okkar eða munni.
5 Að baki orðum Páls liggur grískt orð sem notað er um úldinn fisk eða rotinn ávöxt. Reyndu að sjá þetta fyrir þér: Þú sérð mann verða óþolinmóðan og síðan öskureiðan. Að lokum missir hann stjórn á sér og þú sérð úldinn fisk koma út af munni hans. Síðan sérð þú rotna ávexti, sem ódaun leggur af, velta út úr honum og klessast í kringum hann. Hver er þetta eiginlega? Það væri hræðilegt ef þetta væri eitthvert okkar! Þessi mynd ætti þó við okkur ef við létum ‚skaðlegt orð líða okkur af munni.‘
6. Hvernig á Efesusbréfið 4:29 við um gagnrýni og neikvætt tal?
6 Til að lifa eftir Efesusbréfinu 4:29 verðum við enn fremur að forðast að vera aðfinnslusöm öllum stundum. Að sjálfsögðu höfum við öll okkar skoðanir og ólíkan smekk, en hefur þú umgengist mann sem virðist koma með neikvæða athugasemd (eða margar athugasemdir) um hvern einasta mann, stað eða hlut sem minnst er á? (Samanber Rómverjabréfið 12:9; Hebreabréfið 1:9.) Það sem hann segir rífur niður, eyðileggur og gerir fólk niðurdregið. (Sálmur 10:7; 64:3-5; Orðskviðirnir 16:27; Jakobsbréfið 4:11, 12) Hann áttar sig kannski ekki á því hve líkur hann er þeim gagnrýnu mönnum sem Malakí lýsti. (Malakí 3:13-15) Hann yrði sjálfsagt stórhneykslaður ef einhver nærstaddur segði honum að úldinn fiskur eða rotnir ávextir kæmu út af munni hans.
7. Hvaða sjálfsrannsókn ættum við öll að gera?
7 Það er auðvelt að koma auga á það ef einhver annar er sífellt með neikvæðar athugasemdir eða gagnrýni á vörunum, en spyrðu þig: ‚Hef ég tilhneigingu til að vera þannig?‘ Hyggilegt væri af og til að íhuga hvaða andi komi fram í orðum okkar. Eru þau fyrst og fremst neikvæð, gagnrýnin? Hljómum við eins og hinir þrír fölsku huggarar Jobs? (Jobsbók 2:11; 13:4, 5; 16:2; 19:2) Hvers vegna ekki að finna eitthvað jákvætt til að minnast á? Ef samræður eru að mestu leyti í gagnrýnistón, því ekki að beina þeim inn á uppbyggjandi brautir?
8. Hvaða áminningu í sambandi við mál okkar gefur Malakí 3:16 og hvernig getum við sýnt að við hlýðum henni?
8 Malakí sagði: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast [Jehóva], og [Jehóva] gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16) Tókst þú eftir viðbrögðum Guðs við uppbyggilegu tali? Hvaða áhrif er líklegt að slíkt tal hafi haft á þá sem til heyðu? Við getum persónulega lært lexíu varðandi daglegt tal okkar. Það er miklu betra fyrir okkur og aðra ef daglegar samræður okkar enduróma ‚lofgjörðarfórnir okkar fyrir Guð.‘ — Hebreabréfið 13:15.
Legðu þig fram við að uppbyggja aðra
9. Hvers vegna eru kristnar samkomur góður vettvangur til að uppbyggja aðra?
9 Safnaðarsamkomurnar eru ágætis vettvangur til að tala það sem er „gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Við getum gert það þegar við flytjum ræðu um biblíulegt efni, tökum þátt í sýnikennslu eða gefum athugasemd í atriði með spurningum og svörum. Þannig staðfestum við Orðskviðina 20:15: „Hið dýrmætasta þing eru vitrar varir.“ Og hver veit hve mörg hjörtu við snertum eða byggjum upp?
10. Hvað gætum við þurft að lagfæra eftir að hafa hugleitt hverja við tölum venjulega við? (2. Korintubréf 6:12, 13)
10 Tíminn fyrir og eftir samkomur er hentugur til að uppbyggja aðra með samræðum okkar. Auðvelt væri að eyða þessum tíma í að rabba við ættingja og lítinn hóp góðra vina. (Jóhannes 13:23; 19:26) En hví ekki að snúa sér að öðrum til að tala við í samræmi við Efesusbréfið 4:29? (Samanber Lúkas 14:12-14.) Við gætum ákveðið fyrirfram að gera meira en aðeins að kasta formlegri eða stuttri kveðju á nokkra nýja, aldraða eða unglinga og kannski sest niður með börnum eða unglingum til að vera á svipuðu plani og þeir. Einlægur áhugi okkar og uppbyggjandi samræður fá aðra til að geta endurómað tilfinningar Davíðs í Sálmi 122:1 enn betur.
11. (a) Hvað hafa margir vanið sig á í Ríkissalnum? (b) Hvers vegna sitja sumir af ásettu ráði á mismunandi stöðum í Ríkissalnum?
11 Önnur leið til að stuðla að uppbyggjandi samræðum er að sitja á mismunandi stöðum á samkomunum. Móðir með ungbarn gæti þurft að sitja nálægt mæðraherberginu og lasburða maður við endann á sætaröð, en hvað um okkur hin? Af einskærum vana gætum við alltaf sest í sama sæti eða á sömu slóðir, líkt og fugl snýr af eðlishvöt á náttstað sinn. (Jesaja 1:3; Matteus 8:20) En úr því að við getum setið hvar sem er, hví ekki að sitja á mismunandi stöðum — hægra megin, vinstra megin, framarlega, aftarlega — og kynnast þannig fleirum? Þótt það sé engin regla að við eigum að gera þetta hefur öldungum og öðrum þroskuðum einstaklingum, sem sitja á mismunandi stöðum, reynst auðveldara að skiptast á uppbyggjandi orðum við marga í stað þess að tala aðeins við fáeina, tiltölulega nána vini.
Byggið upp eins og Guð vill
12. Hvaða óæskileg tilhneiging hefur sýnt sig út í gegnum mannkynssöguna?
12 Löngun kristins manns til að uppbyggja aðra ætti að koma honum til að líkja eftir Guði í þessu efni frekar en að fylgja þeirri tilhneigingu manna að setja alls konar reglur. * Ófullkomnir menn hafa löngum reynt að ráða yfir þeim sem þeir umgangast og sumir þjónar Guðs hafa jafnvel látið undan þessari tilhneigingu. (1. Mósebók 3:16; Prédikarinn 8:9) Á dögum Jesú bundu trúarleiðtogar Gyðinga öðrum ‚þungar byrðar en sjálfir vildu þeir ekki snerta þær.‘ (Matteus 23:4) Þeir breyttu skaðlausum siðvenjum í erfðavenjur sem skylt var að halda. Óhóflegur áhugi þeirra á mannareglum kom þeim til að horfa fram hjá því sem var þýðingarmeira í augum Guðs. Hinar mörgu reglur, sem þeir settu, voru engum til uppbyggingar, og þeir hegðuðu sér ekki í samræmi við vilja Guðs. — Matteus 23:23, 24; Markús 7:1-13.
13. Hvers vegna er ekki við hæfi að setja kristnum bræðrum sínum fjölda reglna?
13 Kristnir menn vilja í einlægni fylgja lögum Guðs. Þrátt fyrir það getum jafnvel við fallið í þá gryfju að setja ótal íþyngjandi reglur. Hvers vegna? Til dæmis vegna þess að smekkur manna er ólíkur svo og skoðanir þannig að einum finnst kannski gott það sem öðrum geðjast ekki að og finnst eiga að banna. Kristnir menn eru líka ólíkir hvað varðar framfarir til kristins þroska. En eru margar reglur aðferð Guðs til að hjálpa öðrum að sækja fram til þroska? (Filippíbréfið 3:15; 1. Tímóteusarbréf 1:19; Hebreabréfið 5:14) Jafnvel þegar einhver hefur tekið stefnu sem virðist vera öfgakennd eða hættuleg, er þá besta lausnin sú að setja boð og bönn? Aðferð Guðs er sú að andlega hæfir menn reyni að leiðrétta villuráfandi einstakling með því að rökræða mildilega við hann. — Galatabréfið 6:1.
14. Hvaða tilgangi þjónuðu lögin sem Guð gaf Ísrael?
14 Að vísu setti Guð hundruð laga um tilbeiðsluna í musterinu, fórnir og jafnvel hreinlæti þegar hann notaði Ísrael sem þjóð sína. Það var við hæfi þegar ein og afmörkuð þjóð átti í hlut og mörg laganna höfðu spádómlegt gildi og stuðluðu að því að leiða Gyðingana til Messíasar. Páll skrifaði: „Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.“ (Galatabréfið 3:19, 23-25) Eftir að lögmálið var fellt úr gildi á kvalastaurnum gaf Guð kristnum mönnum ekki langan lista með reglum um flest svið lífsins, rétt eins og það væri leiðin til að halda þeim uppbyggðum í trúnni.
15. Hvaða leiðbeiningar hefur Guð gefið kristnum mönnum?
15 Að sjálfsögðu erum við ekki án laga. Guð fyrirskipar okkur að halda okkur frá skurðgoðadýrkun, saurlifnaði og hjúskaparbroti og misnotkun blóðs. Hann bannar skýrum stöfum morð, lygar, spíritisma og ýmsar aðrar syndir. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) Enn fremur gefur hann í orði sínu heilræði um mörg mál. Við erum hins vegar ábyrg fyrir því í miklu ríkari mæli en Ísraelsmenn að læra meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim. Öldungar geta uppbyggt aðra með því að hjálpa þeim að finna og hugleiða þessar meginreglur í stað þess einungis að leita að eða setja reglur.
Öldungar sem uppbyggja
16, 17. Hvaða gott fordæmi settu postularnir varðandi það að setja kristnum bræðrum sínum reglur?
16 Páll skrifaði: „Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.“ (Filippíbréfið 3:16) Í samræmi við þetta viðhorf var postulinn uppbyggjandi í samskiptum sínum við aðra. Til dæmis kom upp spurning um það hvort neyta mætti kjöts sem kynni að vera komið úr skurðgoðamusteri. Setti þessi öldungur, kannski í nafni samræmis eða einfaldleika, fram reglu fyrir alla í söfnuðinum á þeim tíma? Nei. Hann viðurkenndi að mismikil þekking og misjafnar framfarir til þroska gætu komið þessum kristnu mönnum til að taka ólíka afstöðu. Sjálfur var hann ákveðinn í að setja gott fordæmi. — Rómverjabréfið 14:1-4; 1. Korintubréf 8:4-13.
17 Kristnu Grísku ritningarnar sýna að postularnir gáfu góð ráð um ýmis persónuleg mál, svo sem um klæðnað og snyrtimennsku, en þeir gripu ekki til þess ráðs að setja alhæfandi reglur. Þetta er gott fordæmi kristnum umsjónarmönnum nú á tímum sem er annt um að uppbyggja hjörðina. Og í raun er þar um að ræða meginaðferð sem Guð fylgdi jafnvel í samskiptum við Ísrael til forna.
18. Hvaða reglur setti Jehóva Ísrael um klæðnað?
18 Guð setti Ísraelsmönnum ekki umfangsmikil lög um klæðnað. Ljóst er að karlar og konur notuðu sams konar skikkjur eða yfirhafnir, þótt yfirhafnir kvenna gætu verið litskrúðugri en karla og með skrautsaumi. Bæði kynin klæddust einnig sadhin, kyrtli eða undirflík. (Dómarabókin 14:12; Orðskviðirnir 31:24, NW; Jesaja 3:22, 23) Hvaða lög gaf Guð um klæðnað? Hvorki karlar né konur áttu að ganga í fötum sem sett voru í samband við hitt kynið, augljóslega í tengslum við kynvillu. (5. Mósebók 22:5) Ísraelsmenn áttu að sýna að þeir væru aðgreindir frá þjóðunum umhverfis með því að setja kögur á klæðafald sinn og hafa bláa snúru fyrir ofan kögrið og ef til vill skúfa á skikkjuhornunum. (4. Mósebók 15:38-41) Þetta eru í meginatriðum allar leiðbeiningar lögmálsins um klæðnað.
19, 20. (a) Hvaða leiðbeiningar gefur Biblían kristnum mönnum um klæðnað og hárgreiðslu? (b) Hvernig ættu öldungarnir að líta á það að setja reglur um klæðnað og útlit?
19 Kristnir menn eru ekki undir lögmálinu en höfum við aðrar ítarlegar reglur í Biblíunni um klæðnað og ytra skraut? Í rauninni ekki. Guð gaf öfgalausar meginreglur sem við getum farið eftir. Páll skrifaði: „Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:9) Pétur hvatti kristnar konur til þess að einbeita sér að ‚hinum hulda manni hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda,‘ í stað þess að leggja áherslu á ytra skart. (1. Pétursbréf 3:3, 4) Það að slík ráð skyldu vera gefin bendir til að sumir kristnir menn á fyrstu öld hafi kannski þurft að temja sér meira hóf og háttvísi í klæðaburði og ytra útliti. En í stað þess að krefjast — eða banna — ákveðinn klæðaburð gaf postulinn einfaldlega uppbyggjandi ráð.
20 Vottar Jehóva ættu að vera og eru yfirleitt virtir fyrir smekklegt útlit. Eigi að síður er tíska breytileg frá einu landi til annars og jafnvel milli landsvæða eða safnaða. Að sjálfsögðu getur öldungur með ákveðnar skoðanir eða smekk í sambandi við klæðaburð og hárgreiðslu tekið ákvörðun fyrir sig og sína fjölskyldu. Hvað hjörðina varðar þarf hann hins vegar að hafa í huga orð Páls: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar.“ (2. Korintubréf 1:24) Já, öldungarnir vinna að því að byggja upp trú annarra og sporna gegn sérhverri tilhneigingu til að setja söfnuðinum reglur.
21. Hvernig geta öldungar gefið þeim sem fer út í öfgar í klæðaburði uppbyggjandi leiðbeiningar?
21 Eins og á fyrstu öldinni geta nýir eða andlega veikburða einstaklingar stundum farið út á vafasama eða óskynsamlega braut hvað varðar klæðnað eða notkun andlitsfarða og skartgripa. Hvað þá? Enn og aftur leiðbeinir Galatabréfið 6:1 kristnum öldungum sem vilja í einlægni hjálpa. Áður en öldungur ákveður að gefa ráð væri hyggilegt af honum að ráðfæra sig við samöldung, helst ekki öldung sem hann veit að hefur sama smekk og hann eða hugsar líkt. Ef veraldleg stefna í klæðaburði eða hárgreiðslu virðist hafa áhrif á marga í söfnuðinum gæti öldungaráðið rætt hvernig best sé að veita hjálp, svo sem með hlýlegu, uppbyggjandi atriði á samkomu eða með því að bjóða fram persónulega aðstoð. (Orðskviðirnir 24:6; 27:17) Markmið öldunganna ætti að vera að hvetja til þess viðhorfs sem fram kemur í 2. Korintubréfi 6:3: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.“
22. (a) Hvers vegna ætti smávægilegur skoðanamunur ekki að valda óróa? (b) Hvaða gott fordæmi gaf Páll postuli?
22 Kristnir öldungar, sem eru ‚hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið þeim‘ til umsjónar, vilja fylgja leiðbeiningum Péturs um að ‚drottna ekki harðlega yfir söfnuðinum.‘ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Í kærleiksríku umsjónarstarfi þeirra gætu komið upp spurningar um mál þar sem smekkur er ólíkur. Kannski er það venja að sá sem les í Varðturns-náminu standi meðan hann les. Hópstarf úti á akrinum og mörg önnur smáatriði varðandi þjónustuna sjálfa má skipuleggja eins og venja er á hverjum stað. En væri heimurinn að hrynja ef einhver brygði eilítið út af vananum? Kærleiksríkir umsjónarmenn vilja að „allt fari sómasamlega fram og með reglu“ eins og Páll komst að orði um náðargáfur andans. En samhengið sýnir að Páli var fyrst og fremst umhugað um það sem væri „söfnuðinum til uppbyggingar.“ (1. Korintubréf 14:12, 40) Hann sýndi enga tilhneigingu til að setja endalausar reglur, rétt eins og það væri æðsta markmið hans að steypa alla í sama mótið og tryggja hámarksafköst. Hann skrifaði: ‚Drottinn gaf okkur vald til að uppbyggja, ekki til að niðurbrjóta ykkur.‘ — 2. Korintubréf 10:8.
23. Nefndu nokkrar leiðir til að líkja eftir fordæmi Páls í því að uppbyggja aðra.
23 Enginn vafi leikur á að Páll vann að uppbyggingu annarra með því að vera jákvæður og hvetjandi í tali. Í stað þess að eiga félagsskap við aðeins þröngan vinahóp lagði hann lykkju á leið sína til að heimsækja fjölda bræðra og systra, bæði þá sem voru andlega sterkir og þá sem voru sérstaklega uppbyggingarþurfi. Og hann lagði áherslu á kærleika — ekki reglur — því að „kærleikurinn byggir upp.“ — 1. Korintubréf 8:1.
[Neðanmáls]
^ Innan fjölskyldu getur, eftir aðstæðum, verið ráðlegt að setja ýmsar reglur. Biblían heimilar foreldrum að taka ákvarðanir fyrir ófullveðja börn sín. — 2. Mósebók 20:12; Orðskviðirnir 6:20; Efesusbréfið 6:1-3.
Atriði til upprifjunar
◻ Hvers vegna er breyting nauðsynleg ef við höfum tilhneigingu til að vera neikvæð eða gagnrýnin í tali?
◻ Hvað getum við gert til að vera uppbyggilegri í söfnuðinum?
◻ Hvert er fordæmi Guðs í því að setja öðrum reglur?
◻ Hvað hjálpar öldungunum að setja hjörðinni ekki mannareglur?
[Spurningar]