Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjum ber að vera undirgefinn Guði og hvers vegna?

Hverjum ber að vera undirgefinn Guði og hvers vegna?

Hverjum ber að vera undirgefinn Guði og hvers vegna?

„Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — JEREMÍA 10:23.

1. Hvers konar sjálfstæði hafa menn víða metið mjög mikils?

 SJÁLFSTÆÐISYFIRLÝSING Bandaríkjanna er ein kunnasta yfirlýsing sem gefin hefur verið út. Þar lýstu 13 nýlendur Breta í Norður-Ameríku á 18. öld yfir sjálfstæði gagnvart föðurlandi sínu, Bretlandi. Nýlendurnar vildu frelsi, og sjálfstæði gagnvart erlendri stjórn hélst í hendur við frelsi. Pólitískt og efnahagslegt sjálfstæði getur verið mikils virði. Á síðustu árum hafa sum ríki Austur-Evrópu stigið skref í átt til pólitísks sjálfstæðis. Það verður hins vegar að viðurkenna að slíkt sjálfstæði hefur haft mörg alvarleg vandamál í för með sér í þessum löndum.

2, 3. (a) Hvers konar sjálfstæði er ekki æskilegt? (b) Hvernig kom það greinilega í ljós í upphafi mannkynssögunnar?

2 Enda þótt sjálfstæði í ýmsum myndum geti verið mjög eftirsóknarvert er þó sjálfstæði af einu tagi ekki æskilegt — sjálfstæði gagnvart skapara mannsins, Jehóva Guði. Það er ekki blessun heldur bölvun. Hvers vegna? Vegna þess að manninum var aldrei ætlað að vera óháður skapara sínum eins og orð spámannsins Jeremía hér að ofan segja svo vel. Með öðrum orðum var manninum ætlað að vera undirgefinn skapara sínum. Undirgefni við skapara okkar merkir að vera honum hlýðin.

3 Fyrstu mannlegu hjónin voru rækilega minnt á þessa staðreynd þegar Jehóva sagði þeim það sem lesa má í 1. Mósebók 2:16, 17: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ Er Adam neitaði að vera undirgefinn skapara sínum leiddi hann synd, þjáningar og dauða yfir sig og afkomendur sína. — 1. Mósebók 3:19; Rómverjabréfið 5:12.

4, 5. (a) Hvaða afleiðingar hefur það haft að menn skuli hafa neitað að vera undirgefnir Guði? (b) Hvaða siðferðislögum komast menn ekki undan?

4 Það er bæði óskynsamlegt og siðferðilega rangt af mönnum að neita að vera undirgefnir Guði. Sú afstaða hefur haft í för með sér útbreidda lögleysu, glæpi, ofbeldi og kynferðislegt siðleysi ásamt samræðissjúkdómum sem af því leiða. Og stafa ekki hin útbreiddu afbrot unglinga aðallega af því að þeir neita að vera undirgefnir Jehóva, foreldrum sínum og landslögum? Þessi sjálfstæðisandi birtist í afkáralegum og druslulegum klæðaburði margra og grófu málfari þeirra.

5 Enginn getur þó komist undan ósveigjanlegum siðferðislögum skaparans: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ — Galatabréfið 6:7, 8.

6, 7. Hver er undirrót þess að margir neita að vera undirgefnir og hvaða dæmi sýna það?

6 Hver er undirrót þess að svona margir neita að vera undirgefnir? Í stuttu máli eigingirni og stolt. Það var þess vegna sem Eva, fyrsta konan, lét höggorminn blekkja sig og neytti ávaxtarins sem henni var bannað að snerta. Ef hún hefði verið hógvær og auðmjúk hefði henni ekki fundist freistandi að verða eins og Guð, að ákveða sjálf hvað væri gott og illt. Og ef hún hefði verið óeigingjörn hefði hún ekki viljað það sem skapari hennar, Jehóva Guð, hafði skýlaust bannað. — 1. Mósebók 2:16, 17.

7 Skömmu eftir syndafall Adams og Evu kom dramb og eigingirni Kains honum til að myrða Abel, bróður sinn. Eigingirni kom einnig sumum englum til að fara sínar eigin leiðir; þeir yfirgáfu upprunalega stöðu sína og mynduðu sér efnislíkama til að geta notið holdlegs unaðar. Nimrod lét stolt og eigingirni ráða gerðum sínum og það hefur einkennt flesta valdhafa heims upp frá því. — 1. Mósebók 3:6, 7; 4:6-8; 1. Jóhannesarbréf 3:12; Júdasarbréfið 6.

Hvers vegna við skuldum Jehóva undirgefni

8-11. Hvaða fjórar mikilvægar ástæður höfum við til að vera undirgefin Guði?

8 Hvers vegna skuldum við skapara okkar, Jehóva Guði, undirgefni? Í fyrsta lagi vegna þess að hann er drottinvaldur alheimsins. Allt vald er með réttu í höndum hans. Hann er dómari okkar, löggjafi og konungur. (Jesaja 33:22) Vel hefur verið um hann sagt: „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ — Hebreabréfið 4:13.

9 Auk þess er skapari okkar almáttugur og þar af leiðandi getur enginn komist upp með það að standa gegn honum; enginn getur látið sem honum sé ekki skylt að vera honum undirgefinn. Fyrr eða síðar munu þeir sem neita að gera það tortímast eins og Faraó til forna gerði og Satan djöfullinn mun gera þegar tími Guðs til þess rennur upp. — Sálmur 136:1, 11-15; Opinberunarbókin 11:17; 20:10, 14.

10 Undirgefni er skylda sem hvílir á öllum skynsemigæddum sköpunarverum vegna þess að þær eru til í þeim tilgangi að þjóna skapara sínum. Opinberunarbókin 4:11 lýsir yfir: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Hann er leirkerasmiðurinn mikli og mennirnir eru leirker sem hann gerir til að þjóna tilgangi sínum. — Jesaja 29:16; 64:8.

11 Við ættum ekki að horfa fram hjá þeirri staðreynd að skapari okkar er alvitur þannig að hann veit hvað er okkur til góðs. (Rómverjabréfið 11:33) Lög hans eru ‚okkur fyrir bestu.‘ (5. Mósebók 10:12, 13) Framar öllu ‚er Guð kærleikur‘ þannig að hann vill okkur aðeins það besta. Við höfum fjölmargar knýjandi ástæður til að vera undirgefin skapara okkar, Jehóva Guði! — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Jesús Kristur, hið fullkomna fordæmi um undirgefni við Guð

12, 13. (a) Hvernig var Jesús Kristur undirgefinn Guði? (b) Hvaða orð Jesú sýna undirgefni hans?

12 Ekki leikur nokkur minnsti vafi á því að eingetinn sonur Jehóva, Jesús Kristur, er okkur fullkomið fordæmi um að vera undirgefin Guði. Páll postuli bendir á það í Filippíbréfinu 2:6-8: „Þótt [Jesús] væri í Guðs mynd hvarlaði rán ekki að honum, það er að hann skyldi vera jafn Guði. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á [kvalastaur].“ (Vers 6 samkvæmt NW.) Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann aftur og aftur að hann gerði ekkert af eigin frumkvæði; hann fór ekki sínar eigin leiðir heldur var alltaf undirgefinn himneskum föður sínum.

13 Við lesum í Jóhannesi 5:19, 30: „Jesús . . . sagði við þá: ‚Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig. Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.‘“ Eins bað hann margsinnis nóttina sem hann var svikinn: „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ — Matteus 26:39, 42, 44; sjá einnig Jóhannes 7:28; 8:28, 42.

Dæmi úr fortíðinnni um undirgefni við Guð

14. Á hvaða vegu sýndi Nói undirgefni við Guð?

14 Nói var meðal þeirra fyrstu sem voru Guði undirgefnir. Hann sýndi undirgefni sína á þrjá vegu. Í fyrsta lagi var hann réttlátur maður og óaðfinnanlegur meðal samtíðarmanna sinna. Hann gekk með hinum sanna Guði. (1. Mósebók 6:9) Í öðru lagi smíðaði hann örkina. Hann „gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22) Í þriðja lagi var hann ‚prédikari réttlætisins‘ með því að vara við hinu komandi heimsflóði. — 2. Pétursbréf 2:5.

15, 16. (a) Hvaða gott fordæmi gaf Abraham um undirgefni við Guð? (b) Hvernig sýndi Sara undirgefni?

15 Abraham var annað framúrskarandi fordæmi í því að vera Guði undirgefinn. Hann sýndi undirgefni sína með því að hlýða boði Guðs: „Far þú burt úr landi þínu.“ (1. Mósebók 12:1) Það þýddi að hann þurfti að yfirgefa þægileg lífsskilyrði í Úr (fornleifafundir sýna að Úr var engin smáborg) til að flakka sem hirðingi um ókunnugt land í hundrað ár. Einkum sýndi Abraham undirgefni við Guð með því að standast þá miklu prófraun að vera fús til að fórna Ísak, syni sínum. — 1. Mósebók 22:1-12.

16 Sara, eiginkona Abrahams, er annað gott dæmi um undirgefni við Guð. Vafalaust fylgdu því ýmis óþægindi að flakka um ókunnugt land, en við lesum þó hvergi að hún hafi kvartað. Hún gaf gott fordæmi um undirgefni í þau tvö skipti er Abraham kynnti hana fyrir heiðnum valdhöfum sem systur sína. Í bæði skiptin var hún samvinnuþýð enda þótt það hefði næstum í för með sér að hún yrði hluti af kvennabúri þeirra. Það ber vitni um undirgefni hennar við Guð að hún skyldi innst inni kalla eiginmann sinn, Abraham, „herra“ sem sýnir að það var það sem henni fannst í hjartans einlægni. — 1. Mósebók 12:11-20; 18:12; 20:2-18; 1. Pétursbréf 3:6.

17. Hvers vegna má segja að Ísak hafi verið Guði undirgefinn?

17 Við skulum ekki heldur horfa fram hjá fordæmi Ísaks, sonar Abrahams, um undirgefni við Guð. Samkvæmt arfsögnum Gyðinga var Ísak um 25 ára þegar Jehóva fyrirskipaði föður hans að fórna honum. Ísak hefði sjálfsagt haft í fullu tré við föður sinn sem var hundrað árum eldri en hann. En Ísak veitti ekki mótspyrnu. Þótt hann undraðist að faðir hans skyldi ekki hafa neitt dýr til að fórna leyfði hann honum að koma sér fyrir á altarinu og síðan binda sig á höndum og fótum í þeim tilgangi að hindra eða stöðva hugsanleg ósjálfráð viðbrögð hefði slátrunarhnífnum verið beitt. — 1. Mósebók 22:7-9.

18. Hvernig var Móse til fyrirmyndar í að vera undirgefinn Guði?

18 Mörgum árum síðar gaf Móse gott fordæmi um undirgefni við Guð. Það sést vel af því að honum er lýst svo að hann hafi verið „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Undirgefni hans við Guð sýndi sig enn fremur í því að hann skyldi hlýðinn í bragði framfylgja boðum Jehóva í eyðimörkinni í 40 ár, jafnvel þótt hann þyrfti að hafa umsjón með uppreisnargjarnri, tveggja til þriggja milljóna manna þjóð. Frásagan segir: „Móse gjörði svo. Eins og [Jehóva] hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði.“ — 2. Mósebók 40:16.

19. Hvaða orð Jobs bera vitni um undirgefni hans við Jehóva?

19 Job er enn eitt afbragðsdæmi um mann sem var undirgefinn Guði. Eftir að Jehóva hafði leyft Satan að gera Job eignalausan, drepa börn hans og slá hann síðan „illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja“ sagði kona Jobs við hann: „Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!“ En Job sýndi undirgefni sína við Guð er hann sagði við hana: „Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?“ (Jobsbók 2:7-10) Orð hans í Jobsbók 13:15 lýsa sama hugarfari: „Jafnvel þótt hann deyddi mig, myndi ég ekki bíða?“ (NW) Að vísu hugsaði Job mikið um það að réttlæta sjálfan sig, en við megum samt ekki gleyma að Jehóva sagði við einn af svonefndum huggurum hans: „Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.“ Job er okkur tvímælalaust góð fyrirmynd um undirgefni við Guð. — Jobsbók 42:7.

20. Á hvaða vegu sýndi Davíð Guði undirgefni?

20 Nefnum enn eitt dæmi úr Hebresku ritningunum, Davíð. Þegar Sál konungur elti Davíð eins og veiðibráð fékk Davíð tvö tækifæri til að binda enda á erfiðleika sína með því að drepa Sál. En undirgefni Davíðs við Guð kom í veg fyrir að hann gerði það. Við finnum orð hans í 1. Samúelsbók 24:7: „[Jehóva] láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, [Jehóva] smurða, að ég leggi hönd á hann, því að [Jehóva] smurði er hann.“ (Sjá einnig 1. Samúelsbók 26:9-11.) Hann sýndi einnig undirgefni sína við Guð með því að taka áminningu þegar honum urðu á mistök eða hann syndgaði. — 2. Samúelsbók 12:13; 24:17; 1. Kroníkubók 15:13.

Páll — fordæmi um undirgefni

21-23. Við hvaða mismunandi tækifæri sýndi Páll postuli undirgefni við Guð?

21 Af kristnu Grísku ritningunum má sjá að Páll postuli var frábært fordæmi í því að sýna Guði undirgefni. Í því líkti hann eftir meistara sínum, Jesú Kristi, eins og hann gerði á öllum öðrum sviðum postulaþjónustu sinnar. (1. Korintubréf 11:1) Enda þótt Jehóva Guð hafi notað Pál meira en nokkurn hinna postulanna fór hann aldrei sínar eigin leiðir. Lúkas segir okkur að þegar sú spurning hafi komið upp hvort menn af þjóðunum, sem tækju kristna trú, þyrftu að umskerast hafi bræðurnir í Antíokkíu ákveðið „að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.“ — Postulasagan 15:2.

22 Galatabréfið 2:9 segir okkur um trúboðsstarf Páls: „Og er þeir höfðu komist að raun um, hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu.“ Páll ráðfærði sig við aðra en fór ekki sínar eigin leiðir.

23 Eins var það þegar Páll var í Jerúsalem í síðasta sinn að hann þáði ráð öldunganna þar um að fara til musterisins og fylgja þar kröfum lögmálsins þannig að allir mættu sjá að hann væri ekki fráhvarfsmaður frá lögmáli Móse. Voru það mistök hjá honum að vera undirgefinn þessum öldungum úr því að það endaði með því að stofnað var til skrílsláta gegn honum? Alls ekki eins og sjá má af Postulasögunni 23:11: „Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: ‚Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.‘“

24. Hvaða aðrar hliðar undirgefninnar er fjallað um í greininni á eftir?

24 Ritningin gefur okkur svo sannarlega veigamiklar ástæður til að vera undirgefnir Guði og segir frá eftirtektarverðu fordæmi þeirra sem voru það. Í greininni á eftir munum við skoða nokkur svið þar sem við getum verið Jehóva Guði undirgefin, hvað hjálpar okkur til þess og launin sem það hefur í för með sér.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers konar sjálfstæði er ekki æskilegt?

◻ Hver er undirrót þess að margir neita að vera undirgefnir?

◻ Af hvaða orsökum skuldum við Jehóva undirgefni?

◻ Hvaða góð fordæmi höfum við í Biblíunni um undirgefni við Guð?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Nimrod, fyrsti valdhafinn eftir flóðið sem neitaði að vera undirgefinn Guði.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Nói, óaðfinnanlegt fordæmi um undirgefni við Guð. — 1. Mósebók 6:14, 22.