Varastu hvers konar skurðgoðadýrkun
Varastu hvers konar skurðgoðadýrkun
„Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð?“ — 2. KORINTUBRÉF 6:16.
1. Hvað táknuðu tjaldbúð og musteri Ísraels?
JEHÓVA á sér musteri sem hýsir ekki skurðgoð. Það var táknað með tjaldbúð Ísraels sem Móse gerði og musterunum sem síðar voru reist í Jerúsalem. Þessar byggingar táknuðu ‚tjaldbúðina, hina sönnu,‘ hið mikla andlega musteri Jehóva. (Hebreabréfið 8:1-5) Þetta musteri er ráðstöfun Guðs til að menn geti nálgast hann í tilbeiðslu á grundvelli lausnarfórnar Jesú Krists. — Hebreabréfið 9:2-10, 23.
2. Hverjir verða stólpar í hinu mikla andlega musteri Guðs og hvaða stöðu hefur múgurinn mikli?
2 Sérhver smurður kristinn maður verður ‚stólpi í musteri Guðs‘ og fær bústað á himnum. „Mikill múgur“ annarra dýrkenda Jehóva ‚þjónar honum‘ í því sem forgarðar heiðingjanna í musterinu, sem Heródes endurreisti, táknaði. Vegna trúar á fórn Jesú standa þeir réttlátir sem verður til þess að þeir verða varðveittir gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ — Opinberunarbókin 3:12; 7:9-15.
3, 4. Hvað er söfnuði smurðra kristinna manna á jörðinni líkt við og hvaða saurgun verður hann að vera laus við?
3 Söfnuði smurðra kristinna manna á jörðinni er einnig á táknmáli líkt við annað musteri sem er laust við skurðgoðadýrkun. Páll postuli sagði slíkum mönnum sem voru ‚innsiglaðir með heilögum anda‘: „Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í [Jehóva]. Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.“ (Efesusbréfið 1:13; 2:20-22) Þessir 144.000 innsigluðu einstaklingar eru „lifandi steinar“ sem byggt er úr „andlegt hús, til heilags prestafélags.“ — 1. Pétursbréf 2:5; Opinberunarbókin 7:4; 14:1.
4 Úr því að þessir undirprestar eru „Guðs hús“ leyfir hann ekki að þetta musteri saurgist. (1. Korintubréf 3:9, 16, 17) „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ aðvaraði Páll. „Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð?“ Smurðir kristnir menn, sem tilheyra ‚Jehóva alvöldum,‘ verða að vera lausir við skurðgoðadýrkun. (2. Korintubréf 6:14-18) Þeir sem tilheyra múginum mikla verða líka að forðast hvers kyns skurðgoðadýrkun.
5. Hvað gera frumkristnir menn úr því að Jehóva krefst óskiptrar hollustu?
5 Til er bæði opinská skurðgoðadýrkun og dulin. Skurðgoðadýrkun takmarkast ekki við dýrkun falskra guða og gyðja. Hún er tilbeiðsla á öllu eða öllum öðrum en Jehóva. Sem drottinvaldur alheimsins krefst hann réttilega og verðskuldar óskipta hollustu. (5. Mósebók 4:24) Sannkristnum mönnum er það ljóst og þeir taka til sín varnaðarorð Ritningarinnar gegn allri skurðgoðadýrkun. (1. Korintubréf 10:7) Við skulum líta á nokkrar myndir skurðgoðadýrkunar sem þjónar Jehóva verða að forðast.
Fyrirmynd um skurðgoðadýrkun kristna heimsins
6. Hvaða viðurstyggðir sá Esekíel í sýn?
6 Meðan spámaðurinn Esekíel var í útlegð í Babýlon árið 612 f.o.t. sá hann í sýn þær viðurstyggðir sem fráfallnir Gyðingar stunduðu í musteri Jehóva í Jerúsalem. Esekíel sá ‚líkansúlu sem afbrýði vakti.‘ Hann sá sjötíu öldunga færa reykelsisfórn í musterinu. Konur sáust gráta yfir falsguði. Og 25 menn tilbáðu sólina. Hvað táknuðu þessar fráhvarfsathafnir?
7, 8. Hvað kann ‚líkansúlan sem vakti afbrýði‘ að hafa verið og hvers vegna vakti hún afbrýði Jehóva?
7 Þær viðurstyggðir, sem Esekíel sá í sýn, táknuðu skurðgoðadýrkun kristna heimsins. Til dæmis sagði hann: „Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið. Og [Jehóva Guð] sagði við mig: ‚Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum.‘“ — Esekíel 8:1-6.
8 Þessi líkansúla, sem vakti afbrýði, kann að hafa verið súla sem táknaði falsgyðjuna er Kanverjar litu á sem eiginkonu guðs síns Baals. Hvert svo sem táknið var vakti það afbrýði Jehóva af því að það kom í veg fyrir að Ísraelsmenn sýndu honum óskipta hollustu og kom þeim til að brjóta boðorð hans: „Ég er [Jehóva] Guð þinn . . . Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, [Jehóva] Guð þinn, er vandlátur Guð [„Guð sem krefst óskiptrar hollustu,“ NW].“ — 2. Mósebók 20:2-5.
9. Hvernig hefur kristni heimurinn vakið afbrýði Guðs?
9 Tilbeiðsla þessa afbrýðistákns í musteri Guðs var ein hinna miklu viðurstyggða sem ísraelskir fráhvarfsmenn höfðu í frammi. Á líkan hátt eru kirkjur kristna heimsins saurgaðar táknum sem svívirða Guð og líkneskjum sem koma í veg fyrir að þær veiti honum, sem þær segjast þjóna, óskipta hollustu. Það vekur einnig afbrýði Jehóva að prestar skuli hafna ríki hans sem einu von mannkynsins og gera Sameinuðu þjóðirnar — „viðurstyggð eyðingarinnar . . . á helgum stað“ þar sem þær ættu ekki að standa — að skurðgoði sínu. — Matteus 24:15, 16; Markús 13:14.
10. Hvað sá Esekíel inni í musterinu og hvernig er það í samanburði við það sem sjá má í kristna heiminum?
10 Esekíel gekk inn í musterið og segir svo frá: „Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna. Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss . . . og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur.“ Hugsaðu þér! Ísraelskir öldungar í musteri Jehóva voru að færa falsguðum, sem hinar viðbjóðslegu veggjaristur táknuðu, reykelsisfórnir. (Esekíel 8:10-12) Á sambærilegan hátt eru fuglar og villidýr notuð til að tákna þjóðir kristna heimsins sem fólk veitir hollustu sína. Enn fremur eru margir þessara presta sekir um þátttöku í því að afvegaleiða fjöldann með því að aðhyllast hina röngu kenningu um þróun mannsins af hinum óæðri dýrum, í stað þess að halda fram kenningu Biblíunnar um að Jehóva Guð sé skapari alls. — Postulasagan 17:24-28.
11. Hvers vegna grétu ísraelskar fráhvarfskonur Tammús?
11 Við dyrnar á hliði húss Jehóva sá Esekíel ísraelskar fráhvarfskonur gráta Tammús. (Esekíel 8:13, 14) Baýloníumenn og Sýrlendingar litu á Tammús sem guð gróðurs sem vex á regntímanum og deyr á þurrkatímanum. Dauði gróðurins táknaði dauða Tammúsar og dýrkendur hans grétu hann á hverju ári þegar hitinn var mestur. Þegar gróðurinn birtist aftur á regntímanum átti Tammús að vera snúinn aftur úr undirheimum. Fyrsti stafurinn í nafni hans, hið forna tá sem var krosslaga, var tákn hans. Það minnir okkur kannski á þá skurðgoðadýrkun sem tengist krossi kristna heimsins.
12. Hvað sá Esekíel 25 ísraelska fráhvarfsmenn gera og hvaða svipað athæfi á sér stað í kristna heiminum?
12 Þessu næst sá Esekíel 25 ísraelska fráhvarfsmenn tilbiðja sólina í innri forgarði musterisins — brot á banni Jehóva gegn slíkri skurðgoðadýrkun. (5. Mósebók 4:15-19) Þessir skurðgoðadýrkendur héldu einnig svívirðilegum vöndli upp að nösum Guðs sem ef til vill var tákn um lim karlmannsins. Það er engin furða að Guð skyldi ekki svara bænum þeirra. Kristni heimurinn mun líka árangurslaust leita hjálpar hans í ‚þrengingunni miklu.‘ (Matteus 24:21) Á sama hátt og þessir ísraelsku fráhvarfsmenn tilbáðu sólina, sem gefur ljós, og sneru baki í musteri Jehóva, eins snýr kristni heimurinn baki við ljósi frá Guði og kennir falskar kenningar, stillir veraldlegri visku upp á stall og lætur sem hann sjái ekki siðleysið. — Esekíel 8:15-18.
13. Á hvaða vegu forðast vottar Jehóva þær myndir skurðgoðadýrkunar sem Esekíel sá í sýn sinni?
13 Vottar Jehóva forðast þær myndir skurðgoðadýrkunar sem Esekíel sá fyrir að stundaðar yrðu í kristna heiminum sem Jerúsalem táknaði. Við dýrkum ekki tákn sem svívirða Guð. Þótt við sýnum „yfirvöldum“ virðingu er undirgefni okkar við þau afstæð. (Rómverjabréfið 13:1-7; Markús 12:17; Postulasagan 5:29) Hollusta hjartna okkar beinist að Guði og ríki hans. Við tökum ekki þróunarkenninguna fram yfir Guð og sköpun hans. (Opinberunarbókin 4:11) Við tilbiðjum aldrei krossinn né dýrkum vitsmunahyggju, heimspeki eða annars konar veraldlega visku. (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Við vörumst líka skurðgoðadýrkun í öllum öðrum myndum. Hvaða myndir eru það?
Aðrar myndir skurðgoðadýrkunar
14. Hvaða afstöðu taka þjónar Jehóva til ‚dýrsins‘ í Opinberunarbókinni 13:1?
14 Kristnir menn taka ekki þátt í því með mannkyninu að gera hið táknræna ‚villidýr‘ að guði. Jóhannes postuli sagði: „Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn . . . Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það.“ (Opinberunarbókin 13:1, 8) Dýr geta táknað ‚konunga‘ eða stjórnmálaöfl. (Daníel 7:17; 8:3-8, 20-25) Sjö höfuð hins táknræna villidýrs standa því fyrir heimveldi — Egyptaland, Assýríu, Babýlon, Medíu-Persíu, Grikkland, Róm og hið ensk-ameríska tvíveldi Bretlands og Bandaríkja Norður-Ameríku. Klerkar kristna heimsins sýna Guði og Kristi mikla óvirðingu með því að ganga á undan í því að dýrka stjórnmálakerfi Satans, ‚höfðingja þessa heims.‘ (Jóhannes 12:31) Sem hlutlausir kristnir menn og stuðningsmenn Guðsríkis hafna þjónar Jehóva hins vegar slíkri skurðgoðadýrkun. — Jakobsbréfið 1:27.
15. Hvernig líta þjónar Jehóva á stjörnur heimsins og hvað sagði vottur einn um það efni?
15 Þjónar Guðs forðast líka að dýrka stjörnur skemmtanalífs og íþrótta í heiminum. Tónlistarmaður sagði eftir að hann varð vottur Jehóva: „Skemmti- og danstónlist getur vakið upp rangar langanir . . . Söngvarinn syngur um hamingju og blíðu sem mörgum áheyrendum finnst vanta í fari maka síns. Söngvarinn verður oft ímynd þess sem hann syngur um. Sumir tónlistarmenn og söngvarar, sem ég þekki, eru af þessum orsökum mjög vinsælir meðal kvenna. Þegar einhver fer að lifa í slíkum draumaheimi getur það leitt til þess að hann tilbiðji söngvarann. Það getur byrjað sakleysislega með því að einhver biðji söngvarann um eiginhandaráritun til minja. En sumir fara að líta á listamanninn sem ímynd hins fullkomna, og með því að stilla honum á stall gera þeir hann að goði. Þeir hengja kannski myndir af stjörnunni á vegginn og byrja að klæðast og greiða sér eins og hún. Kristnir menn þurfa að hafa í huga að tilbeiðsla tilheyrir Guði einum.“
16. Hvað sýnir að réttlátir englar hafna skurðgoðadýrkun?
16 Já, Guð einn verðskuldar tilbeiðslu. Þegar Jóhannes „féll . . . niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins,“ sem sýndi honum mikil undur, neitaði þessi andavera að láta dýrka sig og sagði: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.“ (Opinberunarbókin 22:8, 9) Ótti við Jehóva eða djúp lotning fyrir honum fær okkur til að tilbiðja hann einan. (Opinberunarbókin 14:7) Þannig verndar sönn guðrækni okkur fyrir skurðgoðadýrkun. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
17. Hvernig getum við varast skurðgoðadýrkun í mynd kynferðislegs siðleysis?
17 Kynferðislegt siðleysi er önnur mynd skurðgoðadýrkunar sem þjónar Jehóva hafna. Þeir vita að „enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, — sem er sama og að dýrka hjáguði —, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ (Efesusbréfið 5:5) Hér er um skurðgoðadýrkun að ræða af því að löngun í óleyfilegan unað verður að dýrkun. Óviðeigandi kynferðislegar langanir stofna eiginleikum, sem Guð hefur velþóknun á, í hættu. Sá sem hneigir augu sín og eyru að klámi stofnar sérhverju því sambandi, sem hann kynni að hafa við hinn heilaga Guð Jehóva, í hættu. (Jesaja 6:3) Til að varast þess konar skurðgoðadýrkun verða þjónar Guðs því að varast klám og spillandi tónlist. Þeir verða að halda sig við sterkt, andlegt verðmætamat byggt á Ritningunni, og þeir verða að vera klæddir „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — Efesusbréfið 4:22-24.
Forðastu græðgi og ágirnd
18, 19. (a) Hvað er græðgi og ágirnd? (b) Hvernig getum við varast skurðgoðadýrkun í mynd græðgi og ágirndar?
18 Kristnir menn varast líka græðgi og ágirnd sem eru nátengdar myndir skurðgoðadýrkunar. Græðgi er hóflaus eða taumlaus löngun og ágirnd er græðgi í hvaðeina sem tilheyrir einhverjum öðrum. Jesús varaði við ágirnd og talaði um ágjarnan, ríkan mann sem gat ekki notið auðs síns við dauðann og var í því sorglega ástandi að vera ekki „ríkur hjá Guði.“ (Lúkas 12:15-21) Páll gaf trúbræðrum sínum þetta viðeigandi ráð: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: . . . ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ — Kólossubréfið 3:5.
19 Þeir sem eru gagnteknir peningaást og gráðugir í mat og drykk, eða sækjast eftir völdum, gera slíkar langanir að skurðgoðum sínum. Eins og Páll benti á er gráðugur maður skurðgoðadýrkandi sem mun ekki erfa Guðsríki. (1. Korintubréf 6:9, 10; Efesusbréfið 5:5) Þess vegna er hægt að víkja skírðum einstaklingum, sem stunda skurðgoðadýrkun með því að vera ágjarnir, úr kristna söfnuðinum. Með því að lifa eftir Biblíunni og biðja einlæglega getum við hins vegar forðast græðgi. Orðskviðirnir 30:7-9 segja: „Um tvennt bið ég þig [Jehóva Guð], synja mér þess eigi, áður en ég dey: Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð. Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: ‚Hver er [Jehóva]?‘ eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.“ Slíkur andi getur hjálpað okkur að varast skurðgoðadýrkun í mynd græðgi og ágirndar.
Varastu að dýrka sjálfan þig
20, 21. Hvernig varast þjónar Jehóva að dýrka sjálfa sig?
20 Þjónar Jehóva varast líka að dýrka sjálfa sig. Það er algengt í þessum heimi að menn dýrki sjálfa sig og sinn eigin vilja. Löngun í frægð og frama kemur mörgum til að beita brögðum til að ná markmiði sínu. Þeir ætla að fá sínum vilja framgengt, ekki Guðs. En við getum ekki átt samband við Guð ef við dýrkum sjálfa okkur með því að reyna með brögðum að fá okkar fram og reyna að drottna yfir öðrum. (Orðskviðirnir 3:32; Matteus 20:20-28; 1. Pétursbréf 5:2, 3) Sem fylgjendur Jesú höfum við hafnað skammarlegri launung heimsins. — 2. Korintubréf 4:1, 2.
21 Í stað þess að sækjast eftir frægð fara þjónar Guðs eftir áminningu Páls: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Úr því að við erum þjónar Jehóva heimtum við ekki fá okkar vilja framgengt sem væri eins konar skurðgoðadýrkun heldur gerum fúslega vilja Guðs og þiggjum handleiðslu ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ og vinnum dyggilega með skipulagi Jehóva. — Matteus 24:45-47.
Vertu vel á verði!
22, 23. Hvernig getum við verið á verði gegn hvers kyns skurðgoðadýrkun?
22 Sem þjónar Jehóva föllum við ekki fram fyrir skurðgoðalíkneskjum. Við vörumst líka lævísari myndir skurðgoðadýrkunar. Við verðum að halda áfram að forðast skurðgoðadýrkun í öllum hennar myndum. Þess vegna förum við eftir heilræðum Jóhannesar: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
23 Ef þú ert einn þjóna Jehóva skaltu alltaf beita skilvitum þínum og samvisku sem Biblían hefur fengið að þjálfa. (Hebreabréfið 5:14) Þá munt þú ekki smitast af skurðgoðaanda heimsins heldur vera eins og hinir þrír trúföstu Hebrear og trúlyndir frumkristnir menn. Þú munt sýna Jehóva óskipta hollustu og hann mun hjálpa þér að forðast skurðgoðadýrkun í sérhverri mynd.
Upprifjun
◻ Hvernig forðast vottar Jehóva þær myndir skurðgoðadýrkunar sem Esekíel sá í sýn sinni?
◻ Hvað er ‚dýrið‘ í Opinberunarbókinni 13:1 og hvaða afstöðu taka vottar Jehóva til þess?
◻ Hvers vegna verðum við að varast að dýrka „stjörnur“ í heimi skemmtanalífs og íþrótta?
◻ Hvernig getum við varast að dýrka sjálfa okkur?
◻ Hvers vegna verðum við að varast skurðgoðadýrkun í öllum hennar myndum?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 20]
Veist þú hvernig viðurstyggðirnar í sýn Esekíels táknuðu skurðgoðadýrkun kristna heimsins?
[Rétthafi]
Mynd (efst til vinstri) byggð á ljósmynd Ralph Crane/Bardo Museum.