Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjir fylgja ljósi heimsins?

Hverjir fylgja ljósi heimsins?

Hverjir fylgja ljósi heimsins?

„Þér skínið . . . eins og ljós í heiminum.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:15.

1. Hvað segir Biblían um svikaljós á vettvangi trúmálanna?

 BIBLÍAN bendir greinilega á Jesú sem „mikið ljós,“ „ljós heimsins.“ (Jesaja 9:2; Jóhannes 8:12) Tiltölulega fáir fylgdu honum þó þegar hann var á jörðinni. Þorri fólks kaus að fylgja svikaljósum sem voru í reynd myrkurberar. Um þau segir orð Guðs: „Slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists. Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd. Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.“ — 2. Korintubréf 11:13-15.

2. Á hvaða grundvelli sagði Jesús að fólk yrði dæmt?

2 Það vilja því ekki allir ljósið, svo undursamlegt sem ljósið annars er. Jesús sagði: „Þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.“ — Jóhannes 3:19, 20.

Þeir elskuðu myrkrið

3, 4. Hvernig sýndu trúarleiðtogarnir á dögum Jesú að þeir vildu ekki fylgja ljósinu?

3 Íhugum hvernig svo var meðan Jesús var á jörðinni. Guð hafði gefið Jesú mátt til að vinna hrífandi kraftaverk í þeim tilgangi að staðfesta að hann væri Messías. Til dæmis gaf hann einhverju sinni blindum manni sjónina á hvíldardegi. Það var stórkostlegt miskunnarverk! Maðurinn var yfir sig þakklátur! Hann gat séð í fyrsta sinn á ævinni! En hver voru viðbrögð trúarleiðtoganna? Jóhannes 9:16 segir: „Þá sögðu nokkrir farísear [um Jesú]: ‚Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn.‘“ Hjörtu þeirra voru sannarlega rangsnúin! Þarna hafði átt sér stað undursamleg lækning, en í stað þess að gleðjast með manninum, sem hafði verið blindur, og meta að verðleikum þann sem læknaði fordæmdu þeir Jesú! Með því syndguðu þeir vafalaust gegn heilögum anda Guðs sem var ófyrirgefanleg synd. — Matteus 12:31, 32.

4 Síðar, þegar þessir hræsnarar spurðu manninn, sem verið hafði blindur, út úr um Jesú svaraði maðurinn: „Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann [Jesús] er, og þó opnaði hann augu mín. Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann. Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn. Ef þessi maður [Jesús] væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört.“ Hvernig brugðust trúarleiðtogarnir við? „Þeir svöruðu honum: ‚Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!‘ Og þeir ráku hann út.“ Hvílíkt tilfinningaleysi! Þeir voru með steinhjörtu. Jesús sagði þeim því að þeir væru í rauninni andlega blindir þótt þeir gætu séð með bókstaflegum augum sínum. — Jóhannes 9:30-41.

5, 6. Hvað gerðu trúarleiðtogar fyrstu aldar sem sýndi að þeir elskuðu myrkrið?

5 Auðséð er af öðru atviki að þessir trúhræsnarar voru að syndga gegn anda Guðs, en það var þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum. Vegna þessa kraftaverks tók margt almúgafólk trú á Jesú. En taktu eftir hvað trúarleiðtogarnir gerðu. „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluð þá saman ráðið og sögðu: ‚Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.‘“ (Jóhannes 11:47, 48) Þeir höfðu áhyggjur af stöðu sinni og virðingu. Þeir vildu þóknast Rómverjum hvað sem það kostaði, ekki Guði. Hvað gerðu þeir þá? „Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka [Jesú] af lífi.“ — Jóhannes 11:53.

6 En létu þeir þar við sitja? Nei. Það sem þeir gerðu síðan sýnir hve heitt þeir elskuðu myrkrið. „Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi, því að vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.“ (Jóhannes 12:10, 11) Hreint ótrúleg illmennska! En hvernig fór þótt þeir gerðu allt þetta til að vernda stöðu sína? Innan þessarar sömu kynslóðar gerðu þeir uppreisn gegn Rómverjum sem komu árið 70 og tóku bæði helgidóm þeirra, þjóð og einnig líf! — Jesaja 5:20; Lúkas 19:41-44.

Hluttekningarsemi Jesú

7. Hvers vegna hópuðust unnendur sannleikans til Jesú?

7 Eins er það á okkar tímum að það vilja ekki allir andlega upplýsingu. En þeir sem elska sannleikann vilja koma til ljóssins. Þeir vilja Guð sem drottinvald sinn og snúa sér ákafir í bragði til Jesú sem Guð hefur sent til að skýra hvað ljósið er, og fylgja honum. Það var það sem auðmjúkir menn gerðu þegar Jesús var á jörðinni. Þeir hópuðust til hans. Jafnvel farísearnir urðu að viðurkenna það. Þeir kvörtuðu: „Allur heimurinn eltir hann.“ (Jóhannes 12:19) Sauðumlíkir menn elskuðu Jesú vegna þess að hann var andstæða þessara eigingjörnu, hrokafullu, valdagráðugu trúarleiðtoga sem Jesús sagði um: „Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum.“ — Matteus 23:4, 5.

8. Hvert var viðhorf Jesú, ólíkt trúhræsnurunum?

8 Taktu eftir hve ólíkur Jesús var og hluttekningarsamur: „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Og hvað gerði hann í málinu? Hann sagði við þá sem kerfi Satans hafði misnotað: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Jesús gerði það sem sagt var fyrir um hann í Jesaja 61:1, 2 þar sem stendur: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að [Jehóva] hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, til að boða náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda.“

Ljósberunum safnað saman

9. Hvaða stórviðburðir áttu sér stað árið 1914?

9 Eftir uppstigningu sína til himna átti Jesús að bíða uns tími Guðs kæmi til að gefa honum konungsvald. Þá myndi hann skilja ‚sauðina‘ frá ‚höfrunum.‘ (Matteus 25:31-33; Sálmur 110:1, 2) Sá tími rann upp þegar ‚síðustu dagar‘ hófust árið 1914. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Jesús hóf þá sem konungur ríkis Guðs á himnum að safna sér til hægri handar til tákns um hylli hans þeim sem vildu fylgja ljósinu. Eftir fyrri heimsstyrjöldina jók þetta samansöfnunarstarf hraðann.

10. Hvaða spurningar má spyrja um þá sem Jesús notar við samansöfnunarstarfið?

10 Undir forystu Krists Jesú hefur samansöfnunarstarfið náð stórkostlegum árangri. Aldrei fyrr í sögunni hafa svo margir af svo mörgum ólíkum þjóðum átt samneyti í upplýstri, sannri guðsdýrkun. Og hverjir fylgja nú á dögum ljósinu sem kemur frá Guði og Kristi? Hverjir gera það sem Filippíbréfið 2:15 segir, að ‚skína eins og ljós í heiminum‘ og bjóða öðrum að ‚koma og fá ókeypis lífsins vatn‘? — Opinberunarbókin 22:17.

11. Hver er staða kristna heimsins í sambandi við andlegt ljós?

11 Gerir kristni heimurinn það? Nei, hann skín svo sannarlega ekki sem ljósberi með sínum sundruðu trúarbrögðum. Klerkar hans eru alveg eins og trúarleiðtogarnir á dögum Jesú. Þeir endurspegla ekki hið sanna ljós frá Guði og Kristi. Fyrir 33 árum sagði tímaritið Theology Today: „Því miður verður að viðurkenna að þetta ljós skín ekki í kirkjunni með skærum ljóma. . . . Kirkjan hefur haft tilhneigingu til að líkjast æ meir þeim samfélögum sem hún er umkringd. Hún er miklu fremur spegill þess ljóss sem skín í heiminum sjálfum en ljós heimsins.“ Og ástand kristna heimsins er orðið enn verra núna. Hið svokallaða ljós, sem hann endurspeglar frá heiminum, er í raun réttri myrkur vegna þess að það er það eina sem Satan og heimur hans hefur að bjóða. Nei, það kemur ekkert sannleiksljós frá stríðandi trúfélögum kristna heimsins sem eru fullkomlega veraldleg.

12. Hverjir mynda skipulag sannra ljósbera nú á dögum?

12 Við getum sagt með sannfæringu að það sé samfélag nýja heimsins, vottar Jehóva, sem eru hinir sönnu ljósberar nútímans. Samstilltir láta allir meðlimir þess — jafnt karlar, konur sem börn — ljós sitt frá Jehóva og Kristi skína frammi fyrir öllu mannkyni. Síðastliðið ár tóku yfir fjórar milljónir ljósbera í nálega 70.000 söfnuðum votta Jehóva um heim allan virkan þátt í að segja öðrum frá Guði og tilgangi hans. Og ár hvert sjáum við halda áfram umfangsmikla samansöfnun manna sem vilja líka vera andlega upplýstir. Menn eru skírðir hundruð þúsundum saman eftir að hafa numið Biblíuna og komist til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum. Svo sannarlega „vill [Guð] að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:4.

13. Við hvað getum við líkt ljósinu sem kemur frá Jehóva?

13 Við gætum líkt upplýsingunni, sem kemur frá Jehóva nú á dögum, við það sem gerðist þegar þjóð Guðs til forna yfirgaf Egyptaland. „[Jehóva] gekk fyrir þeim á daginn með skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.“ (2. Mósebók 13:21, 22) Skýstólpinn á daginn og eldstólpinn á nóttunni voru áreiðanlegir vegvísar frá Guði. Þeir voru jafnáreiðanlegir og sólin sem Guð skapaði til að gefa okkur dagsbirtuna. Eins getum við líka reitt okkur á að Jehóva haldi áfram að upplýsa andlega leið þeirra sem leita sannleikans núna á hinum illu síðustu dögum. Orðskviðirnir 4:18 fullvissa okkur: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“

Ljós Guðsríkis endurspeglað

14. Hvert verður að vera aðalmarkmið ljósberanna?

14 Þótt Jehóva sé sá sem upplýsingin kemur frá og Kristur sá fremsti sem endurspeglar það ljós verða fylgjendur Jesú einnig að endurspegla það. Hann sagði um þá: „Þér eruð ljós heimsins. . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matteus 5:14, 16) Og hvert var aðalstef þessa ljóss sem fylgjendur hans áttu að láta lýsa meðal mannanna? Hvað áttu þeir að kenna núna á þessum hápunkti mannkynssögunnar? Jesús sagði ekki að fylgjendur hans myndu prédika lýðræði, einræði, sameiningu ríkis og kirkju eða nokkra aðra veraldlega hugmyndafræði. Þess í stað sagði hann fyrir í Matteusi 24:14 að þrátt fyrir andstöðu heimsins yrði „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá [myndi] endirinn koma.“ Ljósberar nútímans segja því öðrum frá ríki Guðs sem mun binda enda á heim Satans og koma á réttlátum, nýjum heimi. — 1. Pétursbréf 2:9.

15. Hvert snúa þeir sér sem vilja vera ljósberar?

15 Þeir sem elska ljósið láta ekki fullyrðingar þessa heims og markmið glepja sig. Allar þessar fullyrðingar og markmið gufa bráðlega upp því að þessi heimur nálgast endalok sín. Þess í stað vilja þeir sem unna réttlætinu snúa sér að fagnaðarerindinu sem þeir boða er láta ljós Guðsríkis skína út til ystu endimarka jarðar. Það eru þeir sem Opinberunarbókin 7:9, 10 spáði um er hún segir: „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu [hásæti Guðs] og frammi fyrir lambinu [Kristi], . . . Og þeir hrópa hárri röddu: ‚Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.‘“ Fjórtánda versið segir: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ Já, þeir lifa af endalok þessa heims inn í hinn endalausa nýja heim undir ríki Guðs.

Hinn upplýsti nýi heimur

16. Hvað verður um heim Satans í þrengingunni miklu?

16 Nýi heimurinn verður baðaður skæru ljósi sannleikans. Hugsaðu þér hvernig ástatt verður daginn eftir að Guð hefur bundið enda á þetta heimskerfi. Satan, illir andar hans og stjórnmála-, viðskipta- og trúmálakerfið verður horfið — að fullu og öllu! Áróðursmaskína Satans verður algerlega horfin líka. Þannig verður aldrei framar prentað eitt einasta dagblað, tímarit, bók, bæklingur eða dreifirit sem styður þennan illa heim eftir þrenginguna miklu. Engum spillingaráhrifum verður útvarpað frá verldlegum sjónvarps- eða útvarpsstöðvum. Allt hið eitraða umhverfi heims Satans verður þurrkað út í einu, öflugu höggi! — Matteus 24:21; Opinberunarbókin 7:14; 16:14-16; 19:11-21.

17, 18. Hvernig lýsir þú hinu andlega umhverfi eftir að heimur Satans er á enda?

17 Hvílíkur léttir verður það! Upp frá þeim degi mun einungis hið heilnæma, uppbyggjandi andlega ljós, sem kemur frá Jehóva og ríki hans, hafa áhrif á mannkynið. Jesaja 45:13 segir fyrir: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ Þegar stjórn Guðs verður yfir allri jörðinni heitir hann því að ‚byggjendur jarðríkis læri réttlæti‘ eins og Jesaja 26:9 segir.

18 Mjög fljótlega mun allt hið hugarfarslega og andlega umhverfi breytast til hins betra. Uppbyggjandi atriði verða daglegt brauð í stað hinna þjakandi, siðlausu áhrifa sem eru svo útbreidd núna. Öllum sem lifa verða þá kennd uppbyggjandi sannindi um Guð og tilgang hans. Þá mun spádómurinn í Jesaja 11:9 rætast í fyllsta skilningi. Þar segir: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

Áríðandi að fylgja ljósinu

19, 20. Hvers vegna þurfa þeir sem fylgja ljósinu að vera á varðbergi?

19 Núna, á síðustu árum þessa illa heimskerfis, er áríðandi að fylgja ljósi heimsins. Og við þurfum að vera á varðbergi því að háð er heiftúðugt stríð til að koma í veg fyrir að við göngum í ljósinu. Þessi andstaða kemur frá myrkraöflunum — frá Satan, illum öndum hans og jarðnesku skipulagi hans. Þess vegna aðvarar Pétur postuli: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

20 Satan mun leggja hvaða hindrun sem hann getur í götu þeirra sem komast í snertingu við ljósið, vegna þess að hann vill fá þá til að halda áfram að ganga í myrkrinu. Það getur verið þrýstingur frá ættingjum eða fyrrverandi vinum sem setja sig á móti sannleikanum. Það geta verið efasemdir um Biblíuna vegna blindu af völdum kenninga falstrúarbragða eða áróðurs trúlausra guðsafneitara og efasemdamanna. Það geta verið syndugar tilhneigingar sem gera okkur erfitt að lifa í samræmi við kröfur Guðs.

21. Hvað ættu allir sem vilja lifa í nýjum heimi Guðs að gera?

21 Langar þig til að lifa í heimi án fátæktar, glæpa, óréttlætis og styrjalda, óháð því hvaða hindranir kunna að vera í veginum? Langar þig til að njóta fullkominnar heilsu og eilífs lífs á jörð sem verður paradís? Þá skaltu taka við og fylgja Jesú Kristi sem ljósi heimsins og hlýða á boðskap þeirra sem halda fast við „orð lífsins“ og ‚skína eins og ljós í heiminum.‘ — Filippíbréfið 2:15, 16.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig sýna trúarleiðtogar að þeir elska myrkrið?

◻ Hvert var viðhorf Jesú til fólks?

◻ Hvernig hefur samansöfnun ljósbera gengið fyrir sig?

◻ Hvaða miklar breytingar munu bráðum eiga sér stað?

◻ Hvers vegna er áríðandi að fylgja ljósi heimsins nú á dögum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hinir harðúðugu farísear ráku manninn út sem Jesús hafði gefið sjónina.