Unglingar – hverju keppið þið eftir?
Unglingar – hverju keppið þið eftir?
„Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:22.
1. Hvað vonum við í sambandi við unga fólkið okkar á meðal?
„VOTTAR JEHÓVA er sá hópur sem aflar flestra nýrra meðlima á ári og hefur hlutfallslega flest ungmenni,“ sagði sænska dagblaðið Dagen sem gefið er út af hvítasunnumönnum. Kannski ert þú hluti af þessum hópi hreinna, guðhræddra unglinga. Vera má að þú sért alinn upp á vegi kristninnar frá barnsaldri eða kannski heyrðir þú boðskap Guðsríkis síðar og tókst við honum upp á eigin spýtur. Hvort heldur er finnst okkur gleðilegt að hafa þig okkar á meðal og við vonum að þú munir ganga braut réttlætisins eins og trygglynd, kristin ungmenni á fyrstu öld. Vel má vera að orð Jóhannesar postula eigi við þig: „Þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:14.
2. Hvað getur gert það erfitt að ganga braut réttlætisins á „blómaskeiði æskunnar“?
2 Margir — já, langflestir — kristnir unglingar gefa sig ekki fyrir álagi heimsins. Þó má vera að þér finnist slík stefna ekki auðveld. Á „blómaskeiði æskunnar“ geta þér fundist nýjar og sterkar kenndir yfirþyrmandi. (1. Korintubréf 7:36, NW) Samtímis finnur þú kannski aukna ábyrgð leggjast á þig í skólanum, heima og í söfnuðinum. Þar við bætist jafnvel þrýstingur frá Satan djöflinum sjálfum. Hann er staðráðinn í að afvegaleiða eins marga og hann getur og ræðst á þá sem eru veikastir fyrir — alveg eins og hann gerði á sínum tíma í garðinum Eden. Þá beitti hann sannfærandi vélabrögðum sínum gegn hinni ungu og tiltölulega óreyndu konu, Evu, ekki Adam sem var eldri og reyndari. (1. Mósebók 3:1-5) Öldum síðar beitti Satan svipuðum brögðum gegn hinum nýstofnaða söfnuði kristinna manna í Korintu. Páll postuli sagði: „En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ — 2. Korintubréf 11:3.
3, 4. Nefndu nokkur af þeim verkfærum sem Satan notar til að afvegaleiða ungt fólk og til hvers getur það leitt?
3 Kristnir foreldrar þínir hafa kannski líka áhyggjur af þér, ekki af því að þeir haldi að þú hafir slæmar tilhneigingar heldur af því að þeir vita af reynslunni að ungt fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir ‚vélabrögðum‘ Satans. (Efesusbréfið 6:11) Gildrur Satans eru alls ekkert ógnvekjandi heldur eru þær látnar vera mjög lokkandi og eftirsóknarverðar. Sjónvarpið pakkar efnishyggju, opinskáu kynlífi, grófu ofbeldi og spíritisma sniðuglega inn sem skemmtiefni. Hugir barna og unglinga geta fyllst því sem er allt annað en ‚göfugt, rétt, hreint, elskuvert og gott afspurnar.‘ (Filippíbréfið 4:8) Hópþrýstingur er annað öflugt verkfæri Satans. Jafnaldrarnir geta beitt þig afarmiklum þrýstingi að líkja eftir líferni þeirra, klæðaburði og hárgreiðslu. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Dálkahöfundurinn William Brown sagði: „Ef til er nokkur einstakur, veraldlegur guð fyrir táninginn er það guð hugsunarlausrar aðlögunar. . . . Að skera sig úr eru verri örlög fyrir táninginn en dauðinn.“ Vottastúlka á Ítalíu viðurkenndi: „Ég skammaðist mín fyrir að láta skólafélaga mína vita að ég væri vottur. Og af því að ég vissi að Jehóva væri ekki ánægður með mig var ég döpur og niðurdregin.“
4 Láttu ekki blekkjast — Satan vill tortíma þér. Margir unglingar í heiminum munu týna lífi í þrengingunni miklu vegna þess að þeir létu afvegaleiða sig. (Esekíel 9:6) Eina leiðin til að bjargast er sú að ástunda það sem er rétt.
Gættu þín á slæmum félagsskap
5, 6. (a) Hvaða áskorunum stóð hinn ungi Tímóteus frammi fyrir meðan hann bjó í Efesus? (b) Hvað ráðlagði Páll Tímóteusi?
5 Það var kjarninn í heilræðum Páls postula til hins unga Tímóteusar. Í meira en tíu ár hafði Tímóteus verið félagi Páls postula á trúboðsferðum hans. Er Tímóteus þjónaði í heiðnu borginni Efesus sat Páll í rómversku fangelsi og beið aftöku sinnar. Þegar dró nær dauðastundinni hafði Páll vafalaust áhyggjur af því hvernig Tímóteusi myndi farnast. Borgin Efesus var þekkt fyrir auð sinn, siðspillingu og úrkynjaða skemmtun og Tímóteus myndi ekki lengur njóta stuðnings síns ástfólgna lærimeistara.
6 Páll skrifaði þess vegna „elskuðum syni“ sínum eftirfarandi: „Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota. Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks. Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:2; 2:20-22.
7. (a) Hver voru ‚kerin til óþriflegri nota‘ sem Páll varaði við? (b) Hvernig geta kristin ungmenni nú á tímum farið eftir orðum Páls?
7 Páll varaði þannig Tímóteus við því að jafnvel meðal kristinna bræðra hans kynnu að vera ‚ker til óþriflegra nota‘ — einstaklingar sem hegðuðu sér ekki rétt. Ef félagsskapur við suma smurða kristna menn hefði getað verið skaðlegur fyrir Tímóteus, þá hlýtur félagsskapur við fólk í heiminum að vera enn skaðlegri fyrir kristin ungmenni nú á tímum! (1. Korintubréf 15:33) Það merkir ekki að þú eigir að sýna skólafélögum þínum fyrirlitningu, en þú ættir að gæta þess að blanda ekki um of geði við þá, jafnvel þótt þú lítir stundum út fyrir að vera einfari fyrir vikið. Það getur verið mjög erfitt. Brasilísk stúlka segir: „Það er erfitt. Skólafélagar mínir eru alltaf að bjóða mér í teiti og á staði þar sem kristnir menn eiga ekki að vera. Þeir segja: ‚Ha? Kemurðu ekki? Þú ert klikkuð!‘“
8, 9. (a) Hvernig getur það verið hættulegt fyrir kristna menn að eiga félagsskap jafnvel við unglinga í heiminum sem virðast ágætir? (b) Hvar getur þú fundið vini sem hafa heilnæm áhrif?
8 Sumir unglingar í heiminum geta virst ágætir einfaldlega vegna þess að þeir hvorki reykja, blóta né stunda siðlaust kynlíf. En ef þeir ástunda ekki réttlæti getur holdlegur hugsunarháttur þeirra og viðhorf hæglega haft áhrif á þig. Hve margt getur þú auk þess átt sameiginlegt með þeim sem eru ekki í trúnni? (2. Korintubréf 6:14-16) Jafnvel andleg verðmæti, sem eru þér dýrmæt, eru hrein „heimska“ í þeirra augum! (1. Korintubréf 2:14) Gætir þú átt þá fyrir vini án þess að slaka á lífsreglum þínum?
9 Forðastu því óheilnæman félagsskap. Takmarkaðu félagsskap þinn við andlega sinnaða kristna menn sem elska Jehóva í alvöru. Vertu jafnvel á varðbergi gagnvart unglingum í söfnuðinum sem eru neikvæðir eða aðfinnslusamir. Líklegt er að vinasmekkur þinn breytist jafnhliða andlegum vexti þínum. Vottastúlka á táningaaldri segir: „Ég hef verið að eignast nýja vini í mismunandi söfnuðum. Það hefur komið mér í skilning um hve óþarfir veraldlegir vinir eru.“
Flýðu rangar langanir
10, 11. (a) Hvað merkir það að ‚flýja æskunnar girndir‘? (b) Hvernig er hægt að ‚flýja saurlifnaðinn‘?
10 Páll hvatti Tímóteus til að ‚flýja æskunnar girndir.‘ Þegar við erum ung langar okkur til að vera vinsæl, skemmta okkur eða fullnægja kynhvötinni sem getur verið mjög sterk. Slíkar langanir geta leitt til syndar ef þær eru látnar hömlulausar. Páll sagði þess vegna að við ættum að flýja skaðlegar langanir — að hlaupa eins og við ættum lífið að leysa. *
11 Kynhvötin hefur til dæmis leitt til skipbrots margra kristinna unglinga. Biblían segir okkur því af ærnu tilefni að ‚flýja saurlifnaðinn.‘ (1. Korintubréf 6:18) Ef tveir einstaklingar eru að draga sig saman og eiga stefnumót, geta þeir farið eftir þessari meginreglu með því að forðast aðstæður þar sem þeir gætu orðið fyrir freistingu — svo sem að vera einir í íbúð eða bifreið lagt á afviknum stað. Það getur virst gamaldags að hafa velsæmisvörð með í förinni en það getur verið mikil vernd. Og þótt sum blíðuhót geti verið viðeigandi verður að setja þeim skynsamleg takmörk til að forðast óhreinar athafnir. (1. Þessaloníkubréf 4:7) Að flýja saurlifnaðinn felur líka í sér að forðast kvikmyndir eða sjónvarpsefni sem gæti vakið upp ranga löngun. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Ef siðlausar hugsanir koma óboðnar upp í hugann skaltu skipta um viðfangsefni í huganum. Farðu í gönguferð, lestu eða gerðu einhver heimilisstörf. Bæn er sérstaklega öflug hjálp í þessu sambandi. — Sálmur 62:9. *
12. Hvernig getur þú lært að hata hið illa? Lýstu með dæmi.
12 Framar öllu öðru þarft þú að læra að hata, fyrirlíta, hafa viðbjóð á því sem illt er. (Sálmur 97:10) Hvernig hatar þú það sem þér kann í fyrstu að þykja skemmtilegt eða ánægjulegt? Með því að hugsa um afleiðingarnar! „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ (Galatabréfið 6:7, 8) Þegar þín er freistað til að láta undan ástríðum holdsins skaltu hugsa um það sem hefur alvarlegri afleiðingar — hvernig það myndi særa Jehóva Guð. (Samanber Sálm 78:41.) Hugsaðu líka um möguleikann á þungun eða samræðissjúkdómi, svo sem alnæmi. Hugsaðu einnig um það að glata sjálfsvirðingunni og um hin tilfinningalegu vandamál sem myndu hljótast af. Afleiðingarnar geta líka fylgt þér um langan tíma. Kristin kona viðurkennir: „Við hjónin áttum kynmök við aðra áður en við kynntumst. Þótt við séum bæði kristin núna er kynlíf okkar fyrrum afbrýðis- og deiluefni í hjónabandi okkar.“ Ekki má heldur horfa fram hjá missi guðræðislegra sérréttinda eða möguleikanum á að verða vikið úr kristna söfnuðinum! (1. Korintubréf 5:9-13) Er einhver stundlegur unaður svo mikils virði?
Kepptu eftir nánu sambandi við Jehóva
13, 14. (a) Hvers vegna er ekki nóg að flýja hið illa? (b) Hvernig er hægt að ‚kosta kapps um að þekkja Jehóva‘?
13 Það er þó ekki nóg að flýja hið illa. Tímóteus var líka hvattur til að „stunda réttlæti, trú, kærleika og frið.“ Það gefur til kynna kröftuga viðleitni. Spámaðurinn Hósea sárbændi hina ótrúu Ísraelsþjóð með svipuðum hætti: „Komið, vér skulum hverfa aftur til [Jehóva] . . . kosta kapps um að þekkja [Jehóva].“ (Hósea 6:1-3) Hefur þú sjálfur lagt þig fram við það? Það er meira en aðeins að sækja samkomur og fara með foreldrum þínum út í þjónustuna á akrinum. Kristin kona viðurkenndi: „Foreldrar mínir ólu mig upp í sannleikanum og ég skírðist ung að árum. . . . Ég missti sjaldan af samkomu og það féll aldrei úr mánuður hjá mér í þjónustunni, en ég byggði aldrei upp náið einkasamband við Jehóva.“
14 Önnur ung stúlka viðurkennir að henni hafi líka mistekist að kynnast Jehóva sem vini og föður. Hún hafi frekar litið á hann sem óhlutlægan anda. Hún gerðist sek um siðleysi og varð ógift móðir 18 ára gömul. Gerðu ekki slík mistök! ‚Kostaðu kapps um að þekkja Jehóva,‘ eins og Hósea hvatti til. Með því að biðja og ganga daglega með Jehóva getur þú gert hann að trúnaðarvini þínum. (Samanber Míka 6:8; Jeremía 3:4.) „Eigi er hann langt frá neinum af oss“ ef við leitum hans. (Postulasagan 17:27) Regluföst áætlun um einkabiblíunám er því nauðsynleg. Slík venja þarf ekki að vera flókin eða margbrotin. „Ég les í Biblíunni í um 15 mínútur á dag,“ segir ung stúlka sem heitir Melody. Taktu þér tíma til að lesa hvert tölublað Varðturnsins og Vaknið! Vertu undirbúinn undir safnaðarsamkomurnar þannig að þú getir ‚hvatt aðra til kærleika og góðra verka.‘ — Hebreabréfið 10:24, 25.
Gefðu foreldrum þínum hjarta þitt
15. (a) Hvers vegna er stundum erfitt að hlýða foreldrum sínum? (b) Hvers vegna er það yfirleitt til góðs fyrir unglinga að hlýða?
15 Guðhræddir foreldrar geta verið þér mikil hjálp og stuðningur. En taktu eftir að þú verður að leggja þitt af mörkum: „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ‚til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘“ (Efesusbréfið 6:1-3) Að vísu ert þú að eldast og vilt líklega fá aukið frelsi. Eins má vera að þú gerir þér gleggri grein en áður fyrir því að foreldrar þínir hafa sín takmörk. „Mennskir feður okkar gátu aðeins gert það sem þeir álitu best,“ viðurkenndi Páll postuli. (Hebreabréfið 12:10, The Jerusalem Bible) Þrátt fyrir það er þér samt sem áður til góðs til langs tíma litið að hlýða þeim. Foreldrum þínum þykir vænt um þig og þeir þekkja þig betur en nokkur annar. Þótt þú sért þeim kannski ekki alltaf sammála bera þeir yfirleitt hag þinn fyrir brjósti. Því þá að sporna gegn viðleitni þeirra að ala þig upp „með aga og umvöndun [Jehóva]“? (Efesusbréfið 6:4) Það er aðeins heimskinginn sem „smáir aga föður síns.“ (Orðskviðirnir 15:5) Vitur unglingur virðir yfirvald foreldra sinna og sýnir þeim tilhlýðilega virðingu. — Orðskviðirnir 1:8.
16. (a) Hvers vegna er óviturlegt fyrir unglinga að fela vandamál fyrir foreldrum sínum? (b) Hvað geta unglingar gert til að bæta tjáskipti við foreldra sína?
16 Það felur í sér að tala sannleikann við foreldra þína, að láta þá vita ef þú átt í erfiðleikum svo sem þjakandi efasemdum um sannleikann eða þú hefur leiðst út í vafasama hegðun. (Efesusbréfið 4:25) Það að fela slíkt fyrir foreldrum sínum skapar aðeins fleiri vandamál. (Sálmur 26:4) Sumir foreldrar reyna að vísu lítið til að ræða við og skiptast á skoðunum við börnin sín. „Móðir mín sest aldrei niður til að tala við mig,“ kvartaði ung stúlka. „Ég þori aldrei að segja henni hvernig mér líður vegna þess að ég óttast að hún gagnrýni mig.“ Ef þú átt við svipað vandamál að glíma skaltu reyna að finna heppilegan tíma til að segja foreldrum þínum hvernig þér líður. „Son minn, gef mér hjarta þitt,“ hvetja Orðskviðirnir 23:26. Reyndu að ræða reglulega við þau um það sem liggur þér á hjarta, áður en alvarleg vandamál koma upp.
Haltu áfram að stunda réttlæti
17, 18. Hvað hjálpar unglingi að halda áfram að ástunda réttlæti?
17 Undir lok síðara bréfs síns hvatti Páll Tímóteus: „En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14) Þú verður að gera það líka. Láttu engan eða ekkert lokka þig frá því að ástunda réttlæti. Þrátt fyrir allar sínar freistingar er heimur Satans gagnsýrður vonsku. Bráðlega verður honum og öllum sem eru hluti af honum gereytt. (Sálmur 92:8) Vertu staðráðinn í að tortímast ekki með þeim sem fylgja Satan.
18 Til að svo megi verða þarft þú sífellt að rannsaka markmið þín, langanir og áhugamál. Spyrðu þig: ‚Fylgi ég góðum lífsreglum í tali og hegðun þegar foreldrar mínir og safnaðarmeðlimir sjá ekki til mín? Hvers konar vini vel ég mér? Stjórna veraldlegir jafnaldrar klæðaburði mínum og hárgreiðslu? Hvaða markmið hef ég sett mér? Stefni ég markvisst að þjónustu í fullu starfi — eða á starfsframa í deyjandi heimskerfi Satans?‘
19, 20. (a) Hvers vegna ættu unglingi ekki að þykja kröfur Jehóva yfirþyrmandi? (b) Hvaða ráðstöfun geta unglingar notfært sér?
19 Kannski gerir þú þér grein fyrir að þú þurfir að breyta hugsunarhætti þínum eitthvað. (2. Korintubréf 13:11) Láttu þér ekki finnast það óyfirstíganlegt. Mundu að Jehóva ætlast ekki til meira af þér en sanngjarnt er. Spámaðurinn Míka spurði: „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ (Míka 6:8) Það verður ekki of erfitt fyrir þig ef þú notfærir þér ráðstafanir Jehóva þér til hjálpar. Varðveittu náið samband við foreldra þína. Eigðu reglulegt samfélag við kristna söfnuðinn. Leggðu þig sérstaklega fram við að kynnast öldungum safnaðarins. Þeir láta sér annt um velferð þína og geta verið þér til stuðnings og hughreystingar. (Jesaja 32:2) Framar öllu öðru skaltu rækta náið og innilegt samband við Jehóva Guð. Hann mun gefa þér kraft og vilja til að ástunda það sem rétt er!
20 Sumir unglingar spilla þó viðleitni sinni til að vaxa andlega með því að hlusta á óheilnæma tónlist. Greinin á eftir fjallar sérstaklega um það málefni.
[Neðanmáls]
^ Gríska orðið, sem þýtt er ‚flýja,‘ er einnig notað í Matteusi 2:13 þar sem Maríu og Jósef var sagt að ‚flýja til Egyptalands‘ til að komast undan morðingjahendi Heródesar. — Samanber Matteus 10:23.
^ Margar gagnlegar tillögur um hvernig stjórna megi kynhvötinni er að finna í 26. kafla bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er ungt fólk sérstaklega berskjaldað fyrir ‚vélabrögðum‘ Satans?
◻ Hvers vegna er náinn félagsskapur við veraldlega unglinga hættulegur?
◻ Hvernig getur þú flúið kynferðislegt siðleysi?
◻ Hvernig getur þú keppt eftir nánu sambandi við Jehóva?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að þú skiptist á skoðunum við foreldra þína?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 21]
Þegar tvö ungmenni stofna til kynna með hjónaband í huga er skynsamlegt af þeim að einangra sig ekki.