Landafræði Biblíunnar — er hún nákvæm?
Landafræði Biblíunnar — er hún nákvæm?
SÓLIN er nýgengin til viðar í Palestínu. Þetta er árið 1799. Franski herinn er búinn að setja upp tjaldbúðir sínar eftir að hafa gengið allan daginn í steikjandi sólinni og Napóleon, æðsti yfirmaður hersins, hvílist í tjaldi sínu. Einn þjóna hans les upphátt úr franskri biblíu við flöktandi kertaljós.
Þetta virðist hafa gerst oft meðan herför Napóleons til Palestínu stóð yfir. „Þegar við settum búðir okkar á rústum þessara fornu borga,“ sagði hann síðar í endurminningum sínum, „lásu þeir upphátt úr Ritningunni á hverju kvöldi . . . Samsvörunin og nákvæmnin í lýsingunum var athyglisverð: Eftir svona margar aldir og breytingar koma þær enn heim og saman við þetta land.“
Já, þeir sem sækja Miðausturlönd heim eiga auðvelt með að sjá atburði biblíusögunnar í samhengi við staðhætti nú á tímum. Áður en franski herinn lagði Egyptaland undir sig vissu útlendingar lítið um þetta forna land. Vísindamenn og fræðimenn, sem Napóleon flutti til Egyptalands, tóku þá að gefa umheiminum innsýn í fyrri glæsileik Egyptalands. Það auðveldaði mönnum að sjá fyrir sér hina ‚vægðarlausu þrælkun‘ sem Ísraelsmenn máttu eitt sinn þola. — 2. Mósebók 1:13, 14.
Nóttina fyrir lausn sína frá Egyptalandi söfnuðust Ísraelsmenn saman við Ramses og gengu síðan þangað sem „eyðimörkina þrýtur.“ (2. Mósebók 12:37; 13:20) Þar sagði Guð þeim að ‚snúa aftur‘ og ‚setja búðir sínar við hafið.‘ Egyptar túlkuðu þessar undarlegu tilfæringar sem svo að Ísraelsmenn ‚færu villir vegar‘ og konungur Egyptalands hélt af stað með her sinn og 600 hervagna til að hertaka fyrrverandi þræla sína aftur. — 2. Mósebók 14:1-9.
Burtförin
Að sögn Jósefusar, sagnaritara á fyrstu öld okkar tímatals, hrakti egypski herinn Ísraelsmenn „á þrönglendan stað“ og króaði þá af „milli ókleifra kletta og hafsins.“ Ekki er vitað nákvæmlega með vissu nú á tímum hvar Ísraelsmenn fóru yfir Rauðahafið. Hins vegar er auðvelt að sjá atburðinn fyrir sér ofan af fjallgarði þaðan sem er útsýn yfir norðurenda Rauðahafsins. Athyglisvert
er að fjallið skuli vera kallað Jebel ʽAtaqah sem merkir „Frelsunarfjall.“ Milli þessa fjallgarðs og Rauðhafsins er lítil slétta sem mjókkar uns lágar hæðir við fjallsræturnar skaga næstum út í hafið. Handan við Rauðahafið gegnt þessum stað er vin með mörgum uppsprettum, kölluð ʽAyun Musaʼ sem merkir „Mósebrunnar.“ Sjávarbotninn milli þessara tveggja staða er mjög aflíðandi en annars staðar dýpkar skyndilega niður í 9 til 18 metra dýpi.Trúlausir guðfræðingar kristna heimsins hafa reynt að gera lítið úr kraftaverkinu sem Guð vann þegar hann klauf sjóinn í Rauðahafinu og gerði Ísraelsmönnum kleift að komast undan á þurru. Þeir flytja þennan atburð til grunns mýrlendis eða fenjasvæðis norður af Rauðahafi. En það kemur ekki heim við frásögn Biblíunnar sem endurtekur margsinnis að Ísraelsmenn hafi farið yfir Rauðhafið á stað þar sem var feikinógur sjór til að drekkja Faraó og öllum her hans, já, að gleypa þá. — 2. Mósebók 14:26-31; Sálmur 136:13-15; Hebreabréfið 11:29.
Sínaíeyðimörk
Hinum harðneskjulegu skilyrðum á Sínaískaga er vel lýst í frásögn Biblíunnar af eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna. (5. Mósebók 8:15) En gat heil þjóð komið saman við rætur Sínaífjalls til að taka á móti lögmáli Guðs og síðan hörfað frá fjallinu svo að hún stóð „langt í burtu“? (2. Mósebók 19:1, 2; 20:18) Er nógu víðlent þar til að á að giska þrjár milljónir manna geti fært sig þannig um set?
Ferðalangurinn og biblíufræðimaðurinn Arthur Stanley, sem var uppi á 19. öld, heimsótti svæðið við Sínaífjalli og lýsti þeirri sjón sem blasti við föruneyti hans eftir að það hafði klifið Ras Safsafa: „Eins og allir aðrir, sem hafa séð staðinn og lýst honum, urðum við fyrir snöggum áhrifum. . . . Þarna var víðáttumikil, gulleit slétta sem breiddi sig út allt að klettarótunum . . . Í ljósi þess að slíkt samspil sléttna og fjalla fyrirfinnst nánast hvergi á þessu svæði er það mjög þýðingarmikill vitnisburður um sannleiksgildi frásögunnar að slíkt samspil skuli finnast, meira að segja innan þess
svæðis sem Sínaí á að vera samkvæmt fornri hefð.“Fyrirheitna landið
Á fertugasta ári eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna lýsti Móse einkennum þess lands sem þeir voru í þann mund að ganga inn í: „[Jehóva] Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum.“ — 5. Mósebók 8:7.
Öll þjóðin — karlar, konur, börn og útlendingar — átti fljótlega eftir að sannreyna þetta fyrirheit þegar hún safnaðist saman í hinum vatnsríka Síkemdal milli Ebalfjalls og Garísímfjalls. Sex ættkvíslir stóðu við rætur Garísímfjalls. Hinar ættkvíslirnar sex söfnuðust saman hinum megin í dalnum við rætur Ebalfjalls til að heyra þá blessun sem þjóðin myndi njóta ef hún hlýddi lögmáli Jehóva, og þá bölvun sem myndi koma yfir hana ef hún héldi ekki lögmál Guðs. (Jósúabók 8:33-35) En var nægilegt rými fyrir alla þjóðina í þessum þrönga dal? Og hvernig gátu allir heyrt án nútímalegra hljóðmagnara?
Jehóva Guð hefði getað magnað raddir levítanna með kraftaverki. Ekki virðist þó hafa verið þörf á slíku kraftaverki. Hljómburðurinn í þessum dal er einstakur. „Allir ferðamenn,“ skrifaði biblíufræðingurinn Alfred Edersheim á 19. öld, „eru sammála um tvö atriði: 1. Að það hafi ekki verið nokkur vandi að heyra greinilega bæði frá Ebal og Garísím það sem talað var í dalnum. 2. Að það hafi verið nægilegt rými fyrir alla Ísraelsmenn til að standa við þessi tvö fjöll.“
Annar biblíufræðimaður á 19. öld, William Thomson, lýsti reynslu sinni frá þessum dal í bók sinni The Land and the Book: „Ég hef hrópað til að heyra bergmálið og síðan ímyndað mér hvernig það hljóti að hafa verið þegar levítarnir lýstu yfir hárri röddu . . . ‚Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Jehóva.‘ Og síðan hið gríðarlega AMEN! tífalt hærra frá hinum mikla söfnuði sem reis og magnaðist og bergmálaði frá Ebal til Garísím og til baka frá Garísím til Ebal.“ — 5. Mósebók 27:11-15.
Jesreeldalur
Norður af Síkem liggur annar frjósamur dalur sem liggur fyrir neðan sjávarmál þar sem hann er lægstur og rís svo uns hann opnast að víðáttumikilli sléttu. Þetta svæði í heild er kallað Jesreeldalur eftir borginni Jesreel. Norður af dalnum eru Galíleuhæðir þar sem heimabær Jesú, Nasaret, lá. „Nasaret,“ segir George Smith í bók sinni The Historical Geography of the Holy Land, „liggur í dæld inni á milli hæðanna, en um leið og klifið er upp úr dældinni . . . blasir við stórkostlegt útsýni! [Jesreeldalur] breiðir úr sér frammi fyrir manni með . . . orustuvöllum sínum . . . Þetta er landakort yfir sögu Gamlatestamentisins.“
Á þessari dalsléttu hafa fornleifafræðingar grafið upp rústir borgríkja sem Ísraelsmenn unnu á dögum Jósúa, það er að segja Taanak, Megiddó, Jokneam og hugsanlega Kedes. (Jósúabók 12:7, 21, 22) Á þessu sama svæði frelsaði Jehóva þjóðina með kraftaverki undan ofurefli óvinaþjóða á dögum dómaranna Baraks og Gídeons. — Dómarabókin 5:1, 19-21; 6:33; 7:22.
Öldum síðar reið Jehú konungur fram dalinn til Jesreelborgar til að fullnægja dómi Jehóva á Jesebel og trúníðingsætt Akabs. Frá varðturninum í Jesreel hefur verið auðvelt að sjá eina 19 kílómetra til austurs þaðan sem sveitir Jehús komu. Það hefur því verið nægur tími fyrir Jóram konung til að senda fyrri sendiboðann og þann síðari ríðandi til móts við Jehú, og loks fyrir Jóram Ísraelskonung og Ahasía Júdakonung til að beita fyrir vagna sína og halda til móts við Jehú áður en hann náði til Jesreelborgar. Jehú tók Jóram sem skjótast af lífi. Ahasía flýði en særðist síðar og dó við Megiddó. 2. Konungabók 9:16-27) George Smith skrifar um orustuvelli eins og þá sem hér eru nefndir: „Athygli vekur að í engri frásagnanna . . . er nokkuð landfræðilega útilokað.“
(Vafalaust horfði Jesús oft yfir Jesreeldal og hugleiddi hina hrífandi sigra sem höfðu átt sér stað þar, og hann vissi að hann, hinn fyrirheitni Messías, átti að gegna hlutverki hins meiri Jósúa, meiri Baraks, meiri Gídeons og meiri Jehús til að upphefja drottinvald Jehóva. Biblían notar reyndar Megiddó, hernaðarlega mikilvægustu borgina á þessari dalsléttu, sem tákn þess staðar þar sem stríð Guðs við Harmagedón (sem merkir „Megiddófjall“) verður háð. Í því stríði, sem mun ná um allan heim, mun Jesús Kristur sem konungur konunga eyða öllum óvinum Guðs og kristna safnaðarins, hinna sönnu þjóna Guðs. — Opinberunarbókin 16:16; 17:14.
Biblían segir frá því að reiðir Gyðingar í Nasaret hafi einu sinni ætlað að kasta Jesú fram af „brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á“ til að fyrirfara honum. (Lúkas 4:29) Athyglisvert er að suðvestur af Nasaret nútímans er 12 metra hár klettur þar sem þessi atburður kann að hafa átt sér stað. Jesús komst undan óvinum sínum og Biblían bætir því við að hann hafi farið „ofan til Kapernaum.“ (Lúkas 4:30, 31) Raunin er sú að Kapernaum, sem er við Galíleuvatn, stendur mun lægra.
Þessi smáatriði og mörg önnur hafa fengið fleiri en Napóleon til að láta í ljós undrun sína yfir því hve nákvæm landafræði Biblíunnar er. „Svæðislýsingar [Biblíunnar] eru mjög margar og algerlega fullnægjandi,“ skrifaði Thomson í bókinni The Land and the Book. „Það er ómögulegt að verða ekki snortinn af hinu stöðuga samræmi milli skráðrar sögu og landafræðinnar bæði í Gamla- og Nýjatestamentinu,“ segir Stanley í Sinai and Palestine.
Hin undraverða nákvæmni Biblíunnar í landfræðilegum efnum er aðeins enn ein sönnun þess að hún sé ekki bara mannaverk. Í tveim síðustu tölublöðum Varðturnsins voru greinar sem tengdust Biblíunni. Við hvetjum þig til að útvega þér þessa tvo aðra hluta þessarar greinaraðar.
[Kort á blaðsíðu 7]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
JESREELDALUR
Jesreel
Nasaret
Taanak
Megiddó
Jokneam
Kedes
N
GALÍLEUVATN
HAFIÐ MIKLA
kílómetrar
5
10
10
10
10
[Rétthafi]
Byggt á korti frá Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Landmælingum Ísraels
[Mynd á blaðsíðu 5]
Ísrael fékk lögmálið á Sínaífjalli.
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.