Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Væri viðeigandi fyrir kristinn mann að fara út í rekstrarsamstarf með manni sem er ekki í trúnni, úr því að Biblían segir okkur: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum“?
Við finnum þessa ráðleggingu í 2. Korintubréfi 6:14-16: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð?“
Það er engin ástæða til að ætla að Páll postuli hafi gefið þessi ráð í þeim tilgangi að setja tiltekin bönn, svo sem gegn því að kristinn maður stundaði fyrirtækjarekstur með einhverjum sem er ekki í trúnni. Eigi að síður koma þessi ráð því máli við eins og öðrum sviðum lífsins.
Páll skrifaði þessi ráð kristnum bræðrum sínum í Korintu til forna. Þeir bjuggu í borg sem var sérstaklega spillt, og áttu daglega í höggi við siðferðilegar og andlegar hættur. Ef þeir voru ekki gætnir gátu óheilnæm áhrif umhverfisins smám saman veikt þann ásetning þeirra að vera sérstök þjóð, „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.“ — 1. Pétursbréf 2:9.
Áður en Páll skrifaði það sem stendur í 2. Korintubréfi 6:14-16 hafði hann fjallað um alvarlegt vandamál sem var meðal kristinna bræðra hans. Þeir höfðu leyft grófu siðleysi að eiga sér stað sín á meðal þannig að Páll skipaði þeim að reka hinn iðrunarlausa syndara, gera hann rækan úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:1) Syndir þessa manns sýndu að slæmur félagsskapur eða það að sökkva sér niður í siðferðilegt andrúmsloft heimsins gæti haft áhrif á kristna menn.
Kristnir menn í Korintu áttu að forðast félagsskap við brottræka manninn, en þýddi það að þeir þyrftu að halda sér algerlega aðgreindum frá þeim sem ekki voru í trúnni? Áttu þeir að forðast nálega öll tengsl eða samskipti við þá sem ekki voru kristnir og gerast eins konar klausturregla, líkt og Gyðingarnir sem einangruðu sig í Kúmran í grennd við Dauðahafið? Leyfum Páli að svara: „Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn. Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt . . . því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.“ — 1. Korintubréf 5:9, 10.
Augljóst er hvað þessi orð gefa í skyn. Páll gerði sér grein fyrir að kristnir menn væru enn á reikistjörnuni Jörð og byggju meðal og hefðu nánast dagleg tengsl við menn utan trúarinnar sem lifðu eftir öðrum lífsreglum en þeir og voru með siðferði á lágu stigi. Úr því að það var eiginlega óhjákvæmilegt áttu kristnir menn að vera vakandi fyrir þeim hættum sem slíkt samband hefði í för með sér.
Við skulum nú aftur snúa okkur að síðara bréfi Páls til Korintumanna. Hann benti á að smurðir kristnir menn væru hæfir sem þjónar Guðs, sem erindrekar í Krists stað. Hann sagði þeim að varast hvaðeina sem gæti hneykslað og komið óorði á þjónustu þeirra. (2. Korintubréf 4:1–6:3) Páll hvatti kristna bræður sína í Korintu, sem voru eins og andleg börn hans, eindregið til að auka umfang kærleika síns. Eftir það hvatti hann: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum.“ Hann brá upp nokkrum andstæðum til að undirstrika þetta atriði.
Samhengið sýnir að Páll einblíndi ekki á eitthvert afmarkað svið lífsins, svo sem fyrirtækjarekstur eða atvinnu og var ekki að setja formlega reglu sem skyldi framfylgt á því sviði. Hann var þess í stað að gefa bræðrum, sem hann unni heitt, víðtæk, heilbrigð og gagnleg ráð.
Myndu þessi ráð til dæmis eiga við um kristinn mann sem hefði áhuga á að ganga í hjónaband? Svo sannarlega. Í fyrra bréfinu sínu ráðlagði postulinn Korintumönnum, sem hugðu á hjónaband, að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) Hann lagði áherslu á viskuna í þessum orðum með því sem hann skrifaði síðar eins og fram kemur í 2. Korintubréfi 6:14-18. Ef kristinn maður íhugaði hjónaband við einhvern, sem var ekki þjónn Jehóva og ekki fylgjandi Krists, væri hann að íhuga að bindast vantrúuðum. (Samanber 3. Mósebók 19:19; .) Ljóst er að ýmis vandamál, þeirra á meðal andleg, myndu fylgja því að hjónin ættu ekki samleið í þessu grundvallaratriði. Til dæmis gæti sá sem ekki var í trúnni stundað falsguðadýrkun á þeim tíma eða í framtíðinni. Páll kom með þessi rök: „Hver er samhljóðan Krists við Belíar?“ 5. Mósebók 22:10
En hvað þá um annað svið lífsins — það að fara út í fyrirtækjarekstur með einhverjum utan trúarinnar? Í sumum tilvikum gæti kristnum manni fundist að hann yrði að fara út í rekstrarsamstarf við einhvern, sem er ekki kristinn bróðir, til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Nefnum nokkur hugsanleg dæmi:
Kristinn maður vill kannski hefja sölu ákveðinnar vöru en eina leiðin til þess er sú að ganga inn í sameignarfélag með manni sem hefur aðgang að viðkomandi vöru eða þá fjármagni. Annar kristinn maður vill stunda búskap (eða rækta búpening), en engin jörð er á lausu þannig að hann þarf að reka bú ásamt einhverjum sem er fús til að leigja honum jörð gegn hluta af ágóðanum. Annar kristinn maður hefur kannski ekki möguleika á að fara út í sjálfstæðan rekstur sem pípulagningamaður af því að keisarinn veitir aðeins fáein leyfi til slíks og þau hafa öll verið veitt; eina leiðin er sú að ganga til samstarfs við ættingja utan trúarinnar sem hefur slíkt leyfi. — Markús 12:17.
Þetta eru aðeins dæmi til skýringar. Við erum ekki að reyna að tíunda alla möguleika og erum hvorki að lýsa velþóknun né vanþóknun á einu né neinu. En kemur þú ekki auga á, þegar þú hefur þessi dæmi í huga, hvers vegna það ætti ekki að virða heilræðin í 2. Korintubréfi 6:14-18 að vettugi?
Kristinn maður, sem færi út í rekstur með manni utan trúarinnar, hvort heldur ættingja eða öðrum, gæti lent í óvæntum vandamálum og freistingum. Kannski telur meðeigandinn að eina leiðin til að láta reksturinn skila viðunandi hagnaði sé sú að telja ekki fram allar tekjur eða að ráða óskráða starfsmenn, jafnvel þótt það bryti í bága við reglur stjórnvalda. Hann er kannski reiðubúinn að greiða sendibílstjóra undir borðið fyrir vörur sem ekki eru tíundaðar á opinberum vörureikningi. Myndi kristinn maður eiga nokkurn þátt í því eða viðlíka óheiðarleika? Og hvað myndi kristinn maður gera þegar að því kæmi að þeir ættu báðir að undirrita skattframtalið eða aðrar skýrslur til yfirvalda varðandi starfsemi sína? — 2. Mósebók 23:1; Rómverjabréfið 13:1, 7.
Eða segjum sem svo að meðeigandinn, sem ekki er í trúnni, vildi versla með vörur tengdar heiðnum helgidögum, senda jólakort í nafni fyrirtækisins og skreyta húsnæði fyrirtækisins í tilefni af trúarlegum hátíðisdegi. Páll spurði: „Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs.“ Athugasemd hans, „Þess vegna segir [Jehóva]: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér,“ er því mjög viðeigandi! (2. Korintubréf 6:16, 17) Margir kristnir menn hafa, með hliðsjón af þessu viturlega heilræði, valið sér þannig veraldlega vinnu að sem fæst vandamál gætu komið upp. — Hebreabréfið 13:5, 6, 18.
Söfnuðinum er ekki ætlað að fylgjast með eða rannsaka allt sem kristnir menn gera í veraldlegri vinnu sinni, hvort heldur sem launþegar eða eigendur fyrirtækis. Að sjálfsögðu yrði söfnuðurinn að gera ráðstafanir til að halda staðla Jehóva í heiðri ef vitað væri að kristinn maður ætti aðild að röngum verkum, svo sem að ýta undir falska guðsdýrkun eða að einhvers konar lygum eða þjófnaði.
Kjarni málsins er samt sem áður sá að innblásin heilræði Páls, „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ geta hjálpað kristnum mönnum að forðast vandamál og dómsmeðferð af hálfu öldunganna. Vitrir kristnir menn taka þessi heilræði til sín og kjósa að koma sér ekki í þá aðstöðu að þrýst verði fastar á þá um að hvika frá meginreglum Biblíunnar. Ef einhverjum finnst hann þurfa að fara út í rekstur með manni utan trúarinnar ættu aðrir ekki að vera fljótir til að dæma hann eða gagnrýna, því að þeim er ljóst að hann verður að bera ábyrgðina á ákvörðun sinni. Í grundvallaratriðum var Páll ekki að setja fram formlega reglu, sem hægt er að framfylgja, gegn því að ganga til rekstrarsamstarfs við mann sem ekki er í trúnni. Eigi að síður má ekki horfa fram hjá heilræðum hans. Guð innblés þessi ráð og lét skrá þau í Biblíuna okkur til gagns. Það er viturlegt af okkur að fara eftir þeim.