Vertu heilbrigður í huga — endirinn er í nánd
Vertu heilbrigður í huga — endirinn er í nánd
„En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir [„heilbrigðir í huga,“ NW] og algáðir til bæna.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:7.
1 (a) Hvaða vonbrigðum urðu trúarleiðtogi og fylgjendur hans fyrir? (b) Hvaða spurninga má spyrja úr því að vissar vonir hafa ekki ræst?
„ÉG FÉKK köllun frá Guði meðan verið var að flytja lokabænina í kvöld. Hann sagði að 116.000 manns myndu stíga upp til himna og að grafir 3,7 milljóna látinna trúaðra manna myndu opnast í átt til himins.“ Svo mælti leiðtogi Trúboðs hinna komandi daga kvöldið 28. október 1992 en því hafði verið spáð hjá þeim að sá dagur yrði reikningsskiladagur. En 29. október rann upp og enginn hafði stigið upp til himna og engar grafir látinna höfðu opnast. Í stað þess að vera hrifnir upp til himna sáu áhangendur þessa dómsdagstrúarhóps í Kóreu ósköp venjulegan dag renna upp. Dagsetningar dómsdags hafa komið og farið en dómsdagsspámennirnir láta engan bilbug á sér finna. Hvað eiga kristnir menn að gera? Ættu þeir að hætta að trúa því að endirinn nálgist óðfluga?
2. Hver talaði við postulana um dómsdag framtíðarinnar og undir hvaða kringumstæðum fræddust þeir um hann?
2 Til að svara því skulum við rifja upp einkasamtal sem Jesús átti við lærisveina sína í nágrenni Sesareu Filippí, norðaustur af Galíleuvatni með hið tignarlega Hermonfjall í baksýn. Þar heyrðu þeir hann segja berum orðum að hann yrði líflátinn. (Matteus 16:21) Fleiri alvarleg orð komu í kjölfarið. Eftir að hafa útskýrt fyrir þeim að það að vera lærisveinn merkti að lifa stöðugt fórnfúsu lífi aðvaraði Jesús: „Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.“ (Matteus 16:27) Jesús var að tala um komu sína í framtíðinni. Þá myndi hann hins vegar vera dómari og allt yrði undir því komið hvort menn fylgdu honum í trúfesti eða ekki. Dómur Jesú yrði byggður á hegðun þeirra og yrði óháður því hve mikið eða lítið þeir ættu af efnislegum gæðum. Lærisveinar hans urðu að hafa þessa staðreynd skýra í huga. (Matteus 16:25, 26) Það er því Jesús Kristur sjálfur sem segir fylgjendum sínum að vera vakandi fyrir dýrlegri komu hans og dóminum sem fylgir henni.
3. Hvernig lýsti Jesús því hve örugg koma hans í framtíðinni yrði?
3 Orð Jesú þar á eftir lýsa því vel hve áreiðanleg koma hans í framtíðinni verður. Með myndugleik segir hann: „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:28) Þessi orð rættust sex dögum síðar. Furðu lostnir sjá nánustu lærisveinar hans hann ummyndast í ljómandi sýn. Þeir sjá andlit Jesú skína eins og sólina og klæði hans skínandi hvít. Ummyndunin var forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans. Þetta var staðfesting á spádómunum um Guðsríki sem styrkti lærisveinana! Svo sannarlega var þetta sterk hvatning fyrir þá um að vera heilbrigðir í huga! — 2. Pétursbréf 1:16-19.
Hvers vegna það er áríðandi að vera heilbrigður í huga
4. Hvers vegna verða kristnir menn að vera andlega vakandi fyrir komu hans?
4 Innan við einu ári síðar situr Jesús á Olíufjallinu, aftur á eintali við lærisveina sína. Meðan þeir skima yfir Jerúsalemborg útskýrir hann fyrir þeim hvert táknið um framtíðarnærveru hans verði og aðvarar síðan: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ Fylgjendur hans verða stöðugt að vera árvakrir vegna þess að þeir vita ekki hvenær hann kemur. Þeir verða alltaf að vera reiðubúnir. — Matteus 24:42.
5. Hvaða dæmi má nota til að lýsa nauðsyn þess að vera árvakur?
5 Drottinn mun koma eins og þjófur. Hann heldur áfram og segir: „Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.“ (Matteus 24:43) Innbrotsþjófur tilkynnir ekki húsráðanda hvenær hann muni brjótast inn; mikilvægasta vopn hans er það að koma á óvart. Húsráðandinn verður því að vera stöðugt á verði. En óbilandi árvekni trúfasts kristins manns er ekki sprottin af ótta heldur ákafri eftirvæntingu eftir því að Kristur komi í dýrð sinni og þúsund ára friðarríkið hefjist.
6. Hvers vegna verðum við að vera heilbrigð í huga?
6 Þrátt fyrir alla þessa árvekni getur enginn nokkurn tíma giskað nákvæmlega á hvenær Kristur komi. Jesús segir: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:44) Þess vegna er nauðsynlegt að vera heilbrigður í huga. Ef kristinn maður héldi að Kristur myndi ekki koma á ákveðnum degi, þá myndi hann kannski einmitt koma þann dag! Að sjálfsögðu hafa trúfastir kristnir menn í fortíðinni stundum reynt í góðri trú að spá hvenær endirinn myndi koma. En varnaðarorð Jesú hafa sannast æ ofan í æ: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ — Matteus 24:36.
7. Hvernig verðum við að lifa lífinu til að vera fylgjendur Krists?
7 Hvað ættum við þá að álykta? Að til að vera fylgjendur Krists verðum við að lifa stöðugt í þeirri trú að endir þessa illa kerfis sé yfirvofandi.
8. Hvað hefur einkennt kristna menn allt frá upphafi kristninnar?
8 Slík afstaða hefur alltaf einkennt kristna menn og jafnt veraldlegir sagnfræðingar sem biblíufræðingar viðurkenna það. Til dæmis segja ritstjórar The Translator’s New Testament í orðaskýringum sínum undir orðinu „dagur“: „Kristnir menn á tímum Nt [Nýjatestamentisins] væntu dagsins (það er að segja tímans) þegar núverandi heimur með allri sinni illsku og mannvonsku myndi líða undir lok og Jesús myndi koma aftur til jarðar til að dæma allt mannkynið, innleiða nýja friðartíma og hefja herradóm sinn yfir öllum heiminum.“ Encyclopædia Britannica segir: „Hinn einstæði vöxtur kristninnar um allan heim stendur í beinu sambandi við eftirvæntingu kristninnar eftir endalokatímanum, eftirvæntingu um yfirvofandi endurkomu Krists. Eftirvænting kristinna manna einskorðaðist aldrei við aðgerðarlausa þrá eftir hinu komandi ríki Guðs.“
Það sem það merkir að vera heilbrigður í huga
9. Hvers vegna gat Pétur varðveitt trúartraust sitt þótt sumar af væntingum hans um Messías væru rangar?
9 Um 30 árum eftir þessi trúnaðarsamtöl Jesú við nákomnustu lærisveina sína var Pétur postuli ekki farinn að þreytast á að bíða eftir að endirinn kæmi. Jafnvel þótt hann og aðrir lærisveinar hafi í upphafi gert sér falskar vonir í sambandi við Messías treysti hann því að kærleikur Jehóva og máttur tryggði að von þeirra rættist. (Lúkas 19:11; 24:21; Postulasagan 1:6; 2. Pétursbréf 3:9, 10) Hann minnist á atriði sem nefnt er aftur og aftur út í gegnum Grísku ritningarnar þegar hann segir: „Endir allra hluta er í nánd.“ Síðan hvetur hann kristna bræður sína: „Verið því heilbrigðir í huga og árvakrir til bæna.“ — 1. Pétursbréf 4:7, NW.
10. (a) Hvað merkir það að vera heilbrigður í huga? (b) Hvað er fólgið í því að sjá hlutina í réttu samhengi við vilja Guðs?
10 Það að vera ‚heilbrigður í huga‘ merkir ekki að vera vel gefinn eftir veraldlegum mælikvarða. Jehóva segir: „Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.“ (1. Korintubréf 1:19) Orð Péturs geta merkt „að vera raunsær í hugsun.“ Þetta andlega raunsæi er tengt tilbeiðslu okkar. Með því að við erum stöðuglynd í hugsun sjáum við hlutina í réttu samhengi við vilja Jehóva; við skiljum hvaða hlutir eru mikilvægir og hverjir ekki. (Matteus 6:33, 34) Jafnvel þótt endirinn sé yfirvofandi hendum við okkur ekki út í æsilegan lífsstíl og við erum ekki heldur sinnulaus gagnvart þeim tíma sem við lifum á. (Samanber Matteus 24:37-39.) Þess í stað látum við stjórnast af hófsemi og öfgaleysi í hugsun, lunderni og hegðun, fyrst gagnvart Guði („algáðir til bæna“) og síðan gagnvart náunga okkar („hafið brennandi kærleika hver til annars“). — 1. Pétursbréf 4:7, 8.
11. (a) Hvað merkir það að „endurnýjast í anda og hugsun“? (b) Hvernig hjálpar nýr kraftur hugans okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir?
11 Það að vera heilbrigður í huga felur í sér að „endurnýjast í anda og hugsun.“ (Efesusbréfið 4:23) Hvers vegna að endurnýjast? Úr því að við höfum erft ófullkomleika og lifum í syndugu umhverfi ræður tilhneiging, sem er andstæð andlegu hugarfari, yfir huga okkar. Þessi kraftur ýtir hugsunum okkar og tilhneigingum stöðugt í átt til efnishyggju og eigingirni. Þegar einhver gerist kristinn þarf hann því nýjan kraft eða ríkjandi hugarfar sem beinir hugsunum hans í rétta átt, andlega átt þannig að hann vilji vera fórnfús. Þegar hann stendur frammi fyrir vali, til dæmis í sambandi við menntun, starfsferil, atvinnu, skemmtun, afþreyingu, fatatísku eða hvað sem verkast vill, verður fyrsta tilhneiging hans því sú að íhuga málið frá andlegum en ekki holdlegum, eigingjörnum sjónarhóli. Þetta nýja hugarfar auðveldar honum að taka ákvarðanir í ýmsum málum með heilbrigðum huga og vitund um að endirinn er í nánd.
12. Hvernig getum við verið „heilbrigðir í trúnni“?
12 Það að vera heilbrigður í huga gefur í skyn að við séum við góða andlega heilsu. Hvernig getum við verið „heilbrigðir í trúnni“? (Títusarbréfið 2:2) Við verðum að næra huga okkar á réttri fæðu. (Jeremía 3:15) Reglubundin næring frá orði Guðs ásamt stuðningi heilags anda hans mun hjálpa okkur að halda andlegu jafnvægi okkar. Þess vegna er reglufesta lífsnauðsynleg í sambandi við einkanám, boðunarstarf, bæn og kristið samfélag.
Hvernig heilbrigður hugur verndar okkur
13. Hvernig forðar heilbrigður hugur okkur frá því að fremja heimskuleg mistök?
13 Heilbrigður hugur getur forðað okkur frá því að fremja heimskuleg mistök sem gætu kostað okkur eilífa lífið. Hvernig getum við gert það? Páll postuli talar um ‚lögmál hugans.‘ Hjá einstaklingi, sem er heilbrigður í trúnni, stjórnast þetta lögmál hugans af einhverju sem hann hefur yndi af, ‚lögmál Guðs.‘ „Lögmál syndarinnar“ berst að vísu gegn lögmáli hugans. Hins vegar getur kristinn maður sigrað með hjálp Jehóva. — Rómverjabréfið 7:21-25.
14, 15. (a) Hvaða tvenn áhrif berjast um yfirráð yfir huganum? (b) Hvernig getum við unnið baráttuna um hugann?
14 Páll heldur áfram með því að draga upp sterkar andstæður milli hugans, sem stjórnast af hinu synduga holdi og einbeitir sér að sjálfsdekri, og hugans sem stjórnast af anda Guðs og einbeitir sér að því að lifa fórnfúsu lífi í þjónustu Jehóva. Páll skrifar í Rómverjabréfinu 8:5-7: „Þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er. Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður. Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.“
15 Í 11. versinu útskýrir Páll síðan hvernig hugurinn, sem vinnur með anda Guðs, sigrar í baráttunni: „Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.“
16. Hvaða freistingum verndar heilbrigður hugur okkur fyrir?
16 Úr því að við erum heilbrigð í huga látum við ekki tælast af tálbeitum þessa heims sem eru alls staðar nálægar og einkennast af taumlausri undanlátssemi við eigin hvatir og langanir í alls konar skemmtun, efnislega hluti og kynferðislega lausung. Heilbrigður hugur okkar segir okkur að ‚flýja saurlifnaðinn‘ og komast undan hrikalegum afleiðingum hans. (1. Korintubréf 6:18) Heilbrigð viðhorf okkar munu knýja okkur til að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir og vernda hugsanir okkar þegar okkar er freistað með tilboði um veraldlegan starfsferil sem gæti veikt samband okkar við Jehóva.
17. Hvernig sýndi brautryðjandasystir heilbrigðan huga þegar hún stóð frammi fyrir fjárhagslegum skyldum?
17 Ung systir í einu af hitabeltislöndum Suðaustur-Asíu hafði hagsmunamál Guðsríkis efst í huga. Hún hafði ræktað með sér sterka löngun til að þjóna í fullu starfi. Þar í landi krefjast flest störf sex til sjö daga vinnuviku. Eftir að hún útskrifaðist úr háskóla ætlaðist faðir hennar, sem er ekki vottur Jehóva, til að hún þénaði vel handa fjölskyldunni. En hún hafði sterka löngun til að vera brautryðjandi, fékk vinnu hluta úr degi og hóf brautryðjandastarf. Faðir hennar reiddist þessu og hótaði að kasta eigum hennar út á götu. Vegna fjárhættuspila var hann stórskuldugur og hann ætlaðist til að dóttir hans greiddi skuldir hans. Yngri bróðir hennar var við háskólanám og vegna skuldanna voru ekki til peningar fyrir skólagjöldum hans. Yngri bróðirinn lofaði henni því að ef hún hjálpaði honum myndi hann sjá fyrir fjölskyldunni þegar hann fengi vinnu. Nú togaðist kærleikur hennar til bróður síns á við kærleika hennar til brautryðjandastarfsins. Eftir að hafa íhugað málið vandlega einsetti hún sér að halda áfram brautryðjandastarfi og leita sér að annarri vinnu. Sem svar við bænum sínum fékk hún góða vinnu sem gerði henni kleift bæði að hjálpa fjölskyldu sinni og bróður sínum fjárhagslega og einnig að halda áfram brautryðjandastarfinu sem var henni svo mikils virði.
Leitaðu hjálpar Jehóva til að varðveita heilbrigðan huga
18. (a) Hvers vegna kunna sumir að vera kjarklitlir? (b) Hvaða ritningarstaðir geta hughreyst þá sem eru kjarklitlir?
18 Sumum fylgjendum Krists getur fundist erfitt að varðveita heilbrigðan huga. Þolinmæði þeirra er kannski að þrjóta vegna þess að núverandi heimskerfi endist lengur en þeir höfðu búist við. Það dregur kannski úr þeim kjarkinn. Endirinn mun samt sem áður koma. Jehóva lofar því. (Títusarbréfið 1:2) Hin fyrirheitna, jarðneska paradís mun líka koma. Jehóva gefur tryggingu fyrir því. (Opinberunarbókin 21:1-5) Þegar nýi heimurinn kemur verður þar „lífstré“ handa öllum þeim sem varðveittu heilbrigðan huga. — Orðskviðirnir 13:12.
19. Hvernig er hægt að varðveita heilbrigðan huga?
19 Hvernig getum við varðveitt heilbrigðan huga? Leitaðu hjálpar Jehóva. (Sálmur 54:6) Haltu þig nærri honum. Það gleður okkur að Jehóva skuli sækjast eftir nánu sambandi við okkur! „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ skrifar lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 4:8) Páll segir: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:4-7) Og þegar byrðar þessa deyjandi heimskerfis virðast of þungar til að bera þær skaltu varpa þeim á Jehóva og hann mun halda þér uppi. — Sálmur 55:23.
20. Hvaða stefnu ættum við að halda áfram samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:10?
20 Já, endirinn er nálægur; vertu því heilbrigður í huga! Það voru góð ráð fyrir 1900 árum og eru lífsnauðsynleg ráð nú á dögum. Höldum áfram að nota heilbrigðan huga okkar til að lofa Jehóva um leið og hann heldur áfram að leiða okkur örugglega inn í nýjan heim sinn. — 1. Tímóteusarbréf 4:10.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er heilbrigður hugur?
◻ Hvers vegna er svona áríðandi að vera heilbrigður í huga?
◻ Hvernig getum við endurnýjast í anda og hugsun?
◻ Hvaða stöðuga baráttu verðum við að heyja í huga okkar?
◻ Hvernig varðveitum við heilbrigðan huga?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Að nálægja okkur Guði í bæn hjálpar okkur að varðveita heilbrigðan huga.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Heilbrigður hugur kemur í veg fyrir að við látum tálbeitur þessa heims tæla okkur.